fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Stúdíugrúppur og vespur

Ég sá flottan gæja í gær. Hann var um sextugt (alltaf verið svolítið heit fyrir mér eldri mönnum ;)) og þeyttist um á rauðri vespu, með hjálm í stíl. Ég sá fyrir mér að svona yrði Helgi minn eftir nokkra áratugi, en með mig í hliðarvagni með prjónana mína. Flott afa- og ömmupar, ekki satt?

Reyndar er búin að vera svolítil krísa hjá mér undanfarið. Þannig er að okkur var skipt í stúdíugrúppur í upphafi skólaársins. Ég lenti í grúppu með þremur öðrum skvísum, öllum dönskum, að sjálfsögðu. Í fyrstu virkaði hópurinn vel og við unnum ágætlega saman, en svo fór að bera svolítið á því að ég væri útlendingur. Ein þeirra átti það svolítið til að tala niður til mín, að ég tel vegna þess að ég er útlendingur, og því kom það út eins og ég væri vitlaus. Þessi sama dama er svolítið stjórnsöm og þegar ég lendi í aðstöðu þar sem slík manneskja þykist hafa rétt fyrir sér, en ég veit að það sem hún segir er einfaldlega rangt, get ég ekki setið á honum stóra mínum og það skapar kannski oft óþarfa leiðindi. Kannski vegna þess að ég er sjálf svolítið stjórnsöm, ég veit ekki. Þar sem stúdíugrúppur vinna verkefni saman, varð það mér ekki að skapi þegar ég mætti á einn fundinn og þær voru búnar með verkefnið sem fyrir lá, takk fyrir! Ég gat ekki annað en dregið mitt verkefni upp, sem ég var búin að fara yfir heima og "grófgera" og bera saman við lausnirnar þeirra. Í ljós kom að ekki var fullt samræmi á milli lausnanna og ég fór að spyrja þær út í nokkur atriði í verkefninu (það sauð á mér!). Það var því frekar notalegt þegar þær komust að þeirri niðurstöðu, með aðstoð kennarans, að ég hafði rétt fyrir mér, ekki þær! Ohhh... hvað ég varð glöð! Ekki nóg með þetta heldur ljósrituðu þær kafla úr bók sem við þurfum að nota, um daginn, án þess að athuga hvort ég vildi ekki líka fá ljósrit, að sjálfsögðu ber grúppan sig saman og lætur hinar vita ef svona nokkuð á að gera. Þetta var dropinn sem fyllti mælinn og í dag skipti ég um hóp og fór yfir í grúppuna hennar Tinnu, sem var búin að bjóða mér þetta í lengri tíma. Aumingjast stelpan, losnar aldrei við mig! Þar finn ég að ég er velkomin og geri ráð fyrir því að hlustað verði á mig þegar ég tala, í stað þess að það verði látið sem enginn heyri neitt, eins og tvær hinar stúlkanna áttu til að gera. Ég er að tala um rétt rúmlega tvítugar stelpur, frekar pirrandi! Reyndar er ein þeirra mjög fín, enda þroskuð nærri þrítug kona, móðir tveggja barna og tilbúin að skilja mig á minnim lélegu dönsku. Henni þakka ég samstarfið!

Bless í bili...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aha...sé ykkur Helga fyrir mér á hjólinu með prónana, frábær hugmynd. Gott hjá þér að standa fast á þínu í þessum hópi. Þær eru greinilega ekki að fatta hvað þær gátu grætt mikið á því að hafa þig með og koma vel fram við þig en þetta verður þeirra missir ekki þinn...gott á þær.

Nafnlaus sagði...

Við í grúppunni minni lítum a´ þig sem góðan feng addý mín....þannig að við erum bara glaðar að hafa þig :o)
Vertu bara velkomin :o)
kv.Tinna

Nafnlaus sagði...

You go girl,,,, veit ekki hvað maður segir á dönsku ;þ