fimmtudagur, september 25, 2008

Ég var klikkuð... nei, ég meina klukkuð

Hér koma svörin, njótið vel!

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina: Verslunarstörf, skrifstofustörf, sem ræstitæknir og á elló.

Fjórar Kvikmyndir sem ég held upp á: The Sound of Music, The Way We were, Nýtt líf og Schindlers List.

Fjórir Staðir sem ég hef búið á: Vestmannaeyjar, Reykjavík, Mosfellsbær, Óðinsvé.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar: Vinir, Despó, Ugli Betty og ýmsir fræðandi heimildarþættir.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum: Berlín, Benidorm, Hraunholt og Stokkhólmur.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg: mbl.is, visir.is, fyens.dk, berlingske.dk.

Fernt sem ég held uppá matarkyns: Humar, fyllt svínalund með góðu gumsi, innbökuð nautalund líka með góðu gumsi og Hraunholtabjúgu með uppstúf.

Fjórar bækur sem ég les oft: Ævintýri barnanna, Disney-bækurnar, Medicinske Fagudtryk (meira til uppsláttar reyndar) og Dimmalimm.

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna: Á sólarströnd með tærnar uppíloft, á Íslandi að knúsa mömmu, Ívar bróður og alla hina, að ekki sé talað um að kíkja á öll litlu börnin, í NY að skoða og á ferðalagi um Afríku.

Fjórar manneskjur sem ég vil klukka: Margrét H&M dama með meiru, Kristrún, Eyrún Huld og Halla Rós.

Þannig var nú það.

miðvikudagur, september 24, 2008

Jahú og jibbíjei!

Ótrúlegt þetta með tímann. Hann flýgur frá manni, án þess að maður taki hreinlega eftir því. Ég settist aðeins við tölvuna áðan, svona rétt til að vafra um og athuga með fréttir og annað slíkt, þegar skyndilega var liðinn einn og hálfur tími og ég ekki enn byrjuð að lesa, eins og ég átti að gera! Það er líka svolítið skrýtið hvað maður þarf að vera sérstaklega stemdur til að gera suma hluti. Ég ætla mér að skrifa bréf til hans bróður míns og er búin að ætla mér það í fjórar vikur núna, en enn er ekki kominn stafur á blokkina. Ég veit nefnilega ekki hvar ég á að byrja, eða hvað ég vil nákvæmlega skrifa. Sjálfsagt væri sniðugt að setjast bara niður og láta flæða út um puttana, alveg eins og gerist núna, en það er stundum þannig að maður vill vanda til verka, segja eitthvað gáfulegt og reyna að vera uppörvandi og klókur. Hvað sem bréfið kemur til að innihalda kemst það áræðinlega til skila einhvern tímann, þ.e.a.s. ef Post Danmark hagar sér almennilega. Þeir eru svolítið duglegir að týna pósti. Sjálfsagt er einn gaurinn með litla hornskrifstofu og rænir öllum jólakortum Peters Hvidt og fjölskyldu sér til dundurs og gamans. Þessa iðju stundar gaurinn eingöngu vegna þess að hann á ekki fjölskyldu, lifir einmanalegu lífi og hefur ekkert að gera á sjálfum jólunum. Hann lætur sér ekki einu sinni detta í hug að láta gott af sér leiða á hátíðunum með hjálparstarfi. Þess í stað situr hann í fermingarskyrtunni, sem fyrir löngu er sprungin utan af honum, með klístraða fingur í dimmu skotinu að skoða jólakort Hvidt-fjölskyldunnar, sem hann öfundar óendanlega mikið. Sannleikurinn er sá að Peter þessi Hvidt, er pabbi gamalls vinar póstmannsins, vinar sem löngu er komin með konu, krakka og prófskírteini. Eitthvað sem gæinn sem les kortin hefur aldrei eignast. Hann öfundar félagann og hefnir sín á þennan hátt, með því að stela jólakortum fjölskyldu fornvinar síns. Ömurlegt. Sorglegt og ömurlegt. Hann lætur sig dreyma, dreyma um fjölskyldu og frama. Dreyma um Önnu í flokkunardeildinni. Með henni myndi hann eignast fjögur börn, aka um á sjömannabíl og panta pítsur á föstudögum og fara í sumarbústað á sumrin. Yndislegt. En þetta er bara draumur.

Jæja, þetta er fyrir löngu orðið að bulli. Vonandi fær fjölskyldan Hvidt allan sinn jólapóst í ár. En þeir sem vilja senda okkur jólapóst þurfa að vera snemma í því þetta árið, eða hreinlega senda póstinn á foreldra okkar á klakanum, því við komum til Íslands þessi jólin! Áætluð koma er 18. desember og brottför þann 1. janúar á nýju ári.

Með kveðju og góðum fyrirheitum,
Addsin paddsin.

fimmtudagur, september 11, 2008

Long time no see

Já, það er orðið ansi langt síðan síðast, svo það er best að bögga fólk með smá nöldri.

Það er allt fínt að frétta og allir við hestaheilsu. Starfsnám mitt við Ringe Sygehus byrjaði fyrir tæpum tveimur vikum síðan, svo nú eru bara rúmar tvær vikur eftir af því dæminu. Helgi er á kvöldvakt meðan á herlegheitum stendur, svo ég stend í stórræðum þegar heim er komið og karlinn farinn í vinnuna, drösla gemlingum í sund og leikfimi, elda, gef að eta, baða og skelli skrílnum í bælið. Allt gengur þetta þó nokkuð þolanlega, þó börnin sakni pabba síns umtalsvert, enda er karlinn mun skemmtilegri en kerlingin.
Annað markvert á heimilinu er það að frumburðurinn er með lausa tönn, svo skvísan er næstum því fullorðin. Á meðan hún hefur ákveðið að losa sig við tennurnar, hefur sá yngsti tekið þá ákvörðun að safna í tannaforðann, því gemlingurinn er vægast sagt bólginn í neðri gómi, svo von er á tönnum þá og þegar, enda hnúinn nagaður ótt og títt og höfð eru gallaskipti í það minnsta fjórum sinnum á dag, að frátöldum öllum slefusmekkjaskiptunum. Pirringur í kauða er einnig í takt við slefið.

Síðasta föstudag fórum við hjónin í hugguferð í Rosengaardcentret, eins huggó og það hljómar. Sannleikurinn er þó sá að eitthvað þurfti að vesenast þar, þó mér sé ómögulegt að muna hvað dró okkur í verslunarkjarnann, enda flest í mjólkurþoku þessa dagana. Á leiðinni á Jensens að fá okkur að borða (við erum búin að komast að því að það er ekkert dýrara en að fara á kaffihús, tók svolítið langan tíma, enda erum við óvenju tregt fólk), stöðvaði mig útlend skvísa, sem tilkynnti mér á ensku að hún vildi gjarnan sýna mér svolítið. Að sjálfsögðu varð forvitnin yfirsterkari (og kannski svolítil kurteisi líka) skynseminni og ég lét til leiðast. Daman tók fram á mér löngutöng hægri handar og byrjaði að þjarma að nöglinni með einhverri voða fínni naglaþjöl með möööörgum hliðum og fítusum. Eftir dágóða stund sýndi hún mér nöglina stolt og tilkynnti mér að þetta væri hinn náttúrulegi gljái naglarinnar minnar. Fínt var það, því er ekki að neita, en dýrt líka, hefði ég viljað halda herlegheitunum við. Hún slúttaði kynningunni með því að sprauta smá handáburði í lófa minn. Svipurinn á dömunni þegar hún sá siggið sem í lófanum er var vægast sagt skondinn, sorgin og meðaumkunin sem skein úr augum hennar var þvílík. Mér var skemmt, því ég er pinku stollt af því að hafa sigg í lófunum, það segir að mínu mati svolítið um hvort maður hafi nennu til vinnu eður ei. Siggið er trúlega bara þarna sökum moppubeitinga síðustu margra ára og þar á undan kjötskrokkabaráttu Nóatúnsáranna. Sjálfsagt er sigg í augum annarra ekkert annað en merki um illa hirðu handanna, en svona er það. Ég man (þó langt sé um liðið) að ég átti það til að dæma "vænlega" pilta á handataki og lófum þeirra. Ekkert fannst mér, minna sjarmerandi en sléttar og felldar tölvuhendur karlmanna. Fátt er, að mínu mati, minna karlmannlegt. Trúlega er þetta vegna þess að ég ég er meira fyrir þessa "retrósexjúal" týpu, sem er víst heitasta karlmannstýpan í dag, skítug iðnaðarmannatýpa í slitnum gallabuxum og ósamstæðum sokkum. Þessar "metrósexjúal" týpur eru ekki alveg my cop of tea. Snyrtivörurnar hans Helga taka töluvert minna pláss í baðherbergisskápnum en mínar, sem betur fer.

Ég bið að heilsa þeim sem enn eru að lesa og óska ykkur góðrar helgar! Og heimta um leið kvitt í bókina!