þriðjudagur, desember 16, 2008

Nýjasti megrunarkúrinn: hrotur

Þá vitum við það. Það er háls- nef- og eyrnarlæknum að kenna að ég sé ekki grennri en raun ber vitni! Þeir fjarlægðu nefkirtlana sem gerðu það að verkum að ég hryti. Þetta gerðu þeir ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum! Svo það er eiginlega spurning hvort ég geti farið í skaðabótamál við þá þar sem einlægur ásetningur virðist hafa einkennt "brot" þeirra?

Annars eru bara tveir dagar (og sirka hálfur) til Íslandsafarar. Tilhlökkunin er mikil á heimilinu. Karlinn ræður sér ekki fyrir gleði, börnin missa sig yfir því minnsta og ég græt stöðugt. Búið er að skvera allt, gólf, veggi og skápa, baka sex sortir af smákökum og þvo gluggana. Jólatréð verður skreytt í kvöld og pallurinn spúlaður. Gjöfum sleppum við, sökum hugmyndaleysis. Ritgerðin er komin í umslag og er á leiðinni til kennarans í pósti.

Hlakka til að sjá fólkið okkar og vini á Íslandinu!

Fjarknús þangað til...

þriðjudagur, desember 09, 2008

Þreyta...

Einhver laug því að mér að barnið svæfi sem steinn eftir röraígræðslu. Sá hinn sami ætti að skammast sín! Það var í gær sem Tóbías Mar fékk rörin sett í og nóttin í nótt var trúlega ein sú erfiðasta hingað til, kannski stríddu rörin honum svona fyrstu nóttina, en það lak ekkert úr þeim, svo það er fínt. Ég fór inn um klukkan eitt í gærkvöldi eftir að hafa reynt að vinna aðeins við ritgerðarsmíði, sem gengur vægast sagt hægt þessa dagana. Svo var vaknað rétt rúmlega sex eftir heldur slitróttan svefn. Svo það er eins gott að það mæti mér engin börn í myrkri núna, þau yrðu þess handviss að Grýla væri til!
Litli drengurinn sefur svo vært úti í vagni núna, án þess að hafa gert pláss fyrir mömmu sína, sem sest er við tölvuna í þeirri von um að geta klístrað einhverju á blað í ritgerðinni.
Vonandi verður biðin eftir virkni röranna ekki alltof löng, ég efast um að geðheilsa foreldranna bjóði upp á það.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Aaarrrg!

Halda ráðamenn þjóðarinnar að landsmenn séu eins og börn sem helst eiga sem minnst að vita um fjárhagsstöðu heimilisins?
Er ekki kominn tími til að fólk fari að verða heiðarlegt í þessum málum öllum?

miðvikudagur, desember 03, 2008

Gjafhugmyndir fyrir talmeinafræðinema

Ég fann þessa fínu síðu fyrir talmeinafræðinema eins og mig. Það er greinilega ekkert að gerast í þessum ritgerðarskrifum! ;)
Skoðið og njótið!