þriðjudagur, janúar 10, 2006

Drukknar konur um miðjan dag eru miður smekklegar

Ég vil byrja á því að óska Ingu Birnu vinkonu og Valgeiri hennar Berglindar til hamingju með daginn í dag! ...svona rétt áður en ég verð of sein ;)
Enn sit ég við tölvuna að reyna að púsla þessum herlegheitum saman. Línurnar fjórar eru orðnar að rúmlega fjórum síðum, svo allt gengur þetta einhvern veginn. Ég verð vonandi búin fyrir helgina svo hægt sé að gera eitthvað notalegt með börnunum, fara í Løvens hule, sem er innileikvangur, eða í dýragarðinn eða eitthvað sniðugt. Það er orðið alltof langt síðan síðast. Ef peyinn verður hættur að hósta svona hryllilega aukast líkurnar um 80% á því að eitthvað verði gert.
Ég lenti í svolítið sérkennilegri uppákomu í gær. Ég sat hérna inni og var að vesenast í þessum rigerðarmálum (trúlega eru allir komnir með ógeð á þessu bréfsnifsi) þegar dyrabjöllunni var hringt. Þar sem það er oftast pósturinn sem hringir á þessum tíma dags taldi ég svo einnig vera í gær og var þegar farin að ímynda mér Uglubækur, lifrapylsukeppi eða Mysing í böggli. Nei takk, í þetta skiptið var gesturinn ekki jafn gleðilegur. Fyrir utan dyrnar "stóð" drafandi kerling, blind-auga full og bað mig um að hjálpa sér, á dönsku, að sjálfsögðu. Ég átti í mesta basli með að skilja hana, en þó tel ég mig vera farna að skilja almenningsdönskuna að mestu leyti. Eftir nokkurt prjál og endurtekningar kom hún mér í skilning um að hún vildi að ég hjálpaði sér að hringja á leigubíl fyrir sig, úr gemsanum sínum. Þar sem "daman" var ekki með númer hjá neinni leigubílaþjónustu fór ég inn og sótti símaskrá, en þá gerðist hún dyntótt og vildi ekki hvaða leigubílastöð sem var, nei takk! Eftir nokkrar vangaveltur um leigubílastöðvar fundum við eina sem hún taldi ekki vera miðstöð rasista og hringdum í hana. Að því loknu lokaði ég dyrunum og hélt inn. Reyndar datt mér eitt augnablik í hug að bjóða henni inn í kaffibolla, henni virtist ekki veita af því, auk þess sem myndin af Dýrinu, í Fríðu og dýrinu, og kerlingunni með rósina skaust upp í huga mér og ekki langaði mig til að verða að dýri! Ég ákvað samt að misbjóða ekki honum Helga mínum og litla syninum sem svaf vært inni í herbergi og ákvað að eiga á hættu að ummyndast. Stuttu seinna knúði kerlingin aftur dyra, í þetta skipti til að spyrja um eld. Þá gerðist ég svo óforskömmuð að brosa framan í hana og ljúga með því að segjast hvorki reykja né eiga eld (með kveikt á 18 kertum inni í íbúðinni). Ég sá fyrir mér að ég sæti uppi með kvengreyið í hvert skipti sem hún kæmi í Højby. Trúlega verður raunin ekki sú þar sem ég trúi því ekki að hún rati til baka miðað við ástand hennar. Sorglegt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært hvað lífið í Danmörku virðist vera svo miklu afslappaðra en hér. Íslenskar fyllibyttur myndu frekar drepast en að banka upp á ...einhvers staðar... Þú gætir sett skilti á hurðina þar sem segði ...engan ruslpóst og róna..

Nafnlaus sagði...

Hahaha nákvæmlega lol kræst hehe þetta hefur þá kriddað daginn aðeins lol