laugardagur, mars 25, 2006

Nöfn

Mikið geta nöfn skipt mann miklu máli. Þegar ég var yngir vildi ég heita allt annað en Addý, ég var meira að segja kölluð Gauja af vinkonunum í tilraunarskyni, í svona u.þ.b. tvær vikur eða svo. Það dugði nú ekki lengur en svo, þar sem ég svaraði víst aldrei nafninu. Þegar kom svo að nafngift frumburðarins rak okkur hjónin í rogastans, þar sem við höfðum valið nöfn eftir miklar vangaveltur og umhugsun. Þegar barnið svo loksins fæddist og reyndist vera dama með dökkt hár og strípur í því, urðu þau nöfn sem við höfðum ætlað að nota ónothæf. Í gang fóru tvær langar nafnaleitarvikur og fyrir valinu varð þetta annars fína nafn Bríet Huld, enda daman fram úr hófi ákveðin frá degi eitt. Þetta reyndist þó einfaldara með seinni nafngiftina þar sem kauðinn okkar litli hefur alltaf verið svolítill Elí Berg, reyndar fannst mér nafnið Helgi líka passa við hann, kannsi vegna þess hve líkur hann var pabba sínum fyrst eftir fæðingu. Ef ég hins vegar hefði fæðst í enskumælandi landi hefði kvenmannsnafnið Grace án efa orðið fyrir valinu, nema ef eiginmaðurinn hefði verið þeim mun ákveðnari og staðfastari í þessum málum.
Í dag er ég sátt við öll nöfnin í kringum mig, ansi sátt við Addýjar nafnið, enda svolítið stjörnulegt. Ég meina: Addý Guðjóns, frekar flott ekki satt? ;) Bríet Huld (nafnið þýðir í raun hin háa huldukona) og Elí Berg (Elí þýðir víst guð og Berg er náttúrlega berg eða bjarg) eiga bæði nöfn mikilla kvenmanna og standa vel undir því að mínu mati. Nafnið Helgi er náttúrlega guðdómlega fallegt líka!

Þar til síðar...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að heita alvöru nöfnum og þið eruð svo sannarlega stjörnufjölskylda. Addý er náttúrulega glamour nafn-söng og leikkona, Bríet Huld er kvenskörungur, Elí Berg er milljónamæringur og Helgi er alþingismaður.... Þetta er tilfinning mín fyrir nöfnunum ykkar. Gaman væri að vita hvaða tilfinningu annað fólk fær fyrir nöfnunum. Skemmtileg pæling.

Nafnlaus sagði...

Já ég er nú bara sammála Gillí þetta eru bara allt saman mjög falleg nöfn. Og endast vel til fullorðinsárana ekki eins og sum nýjustu nöfnin, maður sér þau ekki endast út tískubylgjuna!!
kv. Lilja

Nafnlaus sagði...

...á meðan það eru ekki Mist Eik og Línus Gauti þá er þetta frábært :) Nei í alvöru þetta er ekki fyndið lengur - hvað er fólk að hugsa?

Aha! Ekki neitt...!
p.s. ef þú eignast nú þitt þriðja í Danaveldi - hvaða nafn verður fyrir valinu? Eitthvað danskt kannski...Jesper eða Jenny...spennandi :)