þriðjudagur, apríl 11, 2006

Vorfílingur og spilafíkn

Ég fékk vorfílinginn yfir mig áðan. Við fjölskyldan hjóluðum út í Højbyskov, sem er skógurinn "okkar" skv. landfræðilegri staðsetningu. Ummm... hlýtt, stilla og fuglasöngur. Yndilsegt. Þetta fékk mig eiginlega til að endurskoða þá hugmynd okkar hjóna um að flytja okkur upp fyrir hraðbraut. Þó sveitin sem við búum í sé nokkuð langt frá miðbænum er svo rólegt hérna. Þetta er einskonar smábær í borginni. Alltaf frekar rólegt og notalegt. Auk þess sem það er ekkert sérlega langt að hjóla í skólann (sérstaklega þegar litið er á að Helgi beib hjólar kvölds og morgna í vinnuna sem er norðan við miðbæinn, sirka 15 kílómetrar eða þar um kring). Þar að auki erum við með bíl og komumst allra okkar ferða óhindrað, það er svo lengi sem bíllinn fær ekki þá flugu í hausinn að gera sér upp heilsuleysi og angra okkur á þann háttinn. Sveitasælan er notaleg. Ég væri hins vegar til í rúmbetra húsnæði, þó ekki sé hægt að kvarta undan plássleysi miðað við margt annað húsnæði, en mikill vill meira! Raðhús með garði væri náttúrlega toppurinn, hvað þá einbýlishús með garði! Garður er skilyrði hér í Danaveldi, vil ég segja. Hér er sumarið sumar og hægt að nýta garðinn. Við kynntumst því aðeins á Kochgsgade síðasta sumar. Þar var fínn afgirtur garður sem við höfðum aðgang að og þar sem við vorum á stuen, eða fyrstu hæð, var ekki langt fyrir okkur að fara með drykkjarföng og annað góðgæti út. Sem betur fer erum við þó með smá skika hérna, þó ekki sé hann stór, þá er hann afgirtur og hægt að skutla börnunum út og vaska upp á meðan. Maður hleypur bara út þegar maður heyrir öskur eða þegar börnin verða of hljóð.

Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni um daginn. Sá póstur fjallaði um ungan dreng og spilafíkn hans sem leiddi til sjálfsmorðs. Spilafíkn er hræðileg fíkn, jafnvel hræðilegri en áfengisfíknin þegar tekið er með í reikninginn að hana er auðveldara að fela, það finnst t.a.m. engin lykt af fíklinum. Fíkillinn notar hvert tækifæri sem gefst til að spila og telur heppnina alltaf vera á næsta leiti. 500 kallinn sem hann vann í gær heldur honum við efnið og í dag telur hann miklar líkur á því að stóri potturinn falli honum í skaut. Það gerist sjaldan. Oftar en ekki fer spilarinn heim slyppur og snauður, með bullandi móral og áhyggjur sem naga hann inn að beini. Hvað á að segja konunni, fjölskyldunni og vinunum? Hvernig á að borga næstu leigu eða hafa efni á mat? Spilafíkn er viðbjóður, eins og öll önnur fíkn. Í dag er ég búsett í Danmörku þar sem spilasalir, eða Casino, eru leyfðir. Hér birtast auglýsingar í hléum allra helstu sjónvarpsþáttanna þar sem auglýstar eru heimasíður þar sem hægt er að veðja á allt mögulegt sem ómögulegt. Frekar sorglegt. Alls staðar er bent á hvernig maður getur orðið skjótríkur, enginn talar um að tapa. Þeim parti halda menn fyrir sig. Í dag er t.a.m. grein í Ugeavisen þar sem pókerspilari fer fögrum orðum yfir "íþróttina". Hann talar um hve auðveldlega hann vann sér inn 30 þús. dkr. á rúmri klukkustund, í klaus fyrir neðan stendur í smáu letri hve skamman tíma það tók hann að tapa 27 þús. dkr. Það tók hann lengri tíma að tapa þeim, svo vinningurinn var hans! Hræðilegt að þetta skulu vera skilaboðin til ungs fólks. Sittu fyrir framan tölvuna og spilaðu, þannig verðurðu ríkur! Bullshit!

Takk fyrir mig.

Súkkulaðitilvitnun:

"Spis et varieret måltid om dagen - en æske fyldt med chokolade."

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já, ég hef þetta hugfast með fjölbreyttu fæðuna, hljómar sannarlega hollt og gott..
Hilsen hinu megin við hraðbrautina
Heiðagella