þriðjudagur, janúar 02, 2007

Veðurútlit næstu mánuðina

Árið 2007 gekk í garð með heljarinnar látum hér í Danmörkinni. Djúp lægð færði okkur þetta annars indæla ár (það ætla ég sannarlega að vona að það verði) með tilheyrandi drunum og hávaða. Að þessu tilefni ákváðu veðurfréttamenn að spá hvernig veður landsins verði þetta árið með hliðsjón af tölfræðinni. Það verður mikil rigning í ágúst, svo það er ágætt að við skulum ætla að heimsækja Frónið einmitt í þeim mánuði. Júní og júlí verða hins vegar mjög sólríkir og heitir mánuðir, svo ef einhver ætlar að kíkja, er best að panta núna! Reyndar ætlum við hjónin að skvera skaranum okkar (ef tveir eru skari) upp í bílinn og halda áleiðis til Eystrasaltsríkjanna, (ja, það er allavega á dagskrá) en ekki er búið að tímasetja þá ferð, trúlega verður hún í júlí eða ágúst, þar sem frúin er í prófum í júní. Þess á milli; gjörið svo vel og gangið í bæinn! Haustið verður blautt og veturinn líka. Ef einhver von er á snjókomu verður hún allra helst í febrúar. Rauð verða jólin aftur í ár.

Eins og lög gera ráð fyrir vorum við fjölskyldan búin að snúa sólarhringnum við yfir hátíðirnar. Því gekk heldur erfiðlega að koma grislingunum í svefninn í gærkvöldi og það leiddi til óvenju erfiðrar "vöknunar" í morgun. Þetta fer þó vonandi allt batnandi því móðirin þarf að einbeita sér með því litla sem eftir situr af heila í kollinum að próflestri. Á fimmtudaginn er hið bráðskemmtilega videnskabsteoripróf, sem kemur til með að standa yfir í sólarhring. Þar næst er svo blessaða neurobiologi- og neurologiprófið, sem blessunarlega stendur bara yfir í eina fjóra tíma. Að þessum prófum yfirstöðnum tekur áhugavert verkefni í psykolingvistik við. Þar hef ég hugsað mér að fjalla um máltöku L2, en það stendur fyrir second language, eða annars tungumáls. Ég ætla að nálgast efnið frá sjónarhorni framburðar, trúlega með tilliti til Íslendinga sem læra dönsku, jafnvel reyni ég að finna eitthvað um skrollandi, kokhljóðamælta r-ið þeirra baunanna. Hljómar spennó, ekki satt?! Ég hef nú reyndar enn ekki fundið neinar heimildir um þetta, svo ef þið vitið um eitthvað efni, þá endilega látið mig vita!

Jæja, nóg komið af blaðri í bili. Vonandi áttuð þið alveg dásamleg jól og áramót, eins og við hérna á Bláberjaveginum. Ég er einmitt búin að setja inn myndir frá jólunum á síðuna hjá krökkunum fyrir þá forvitnu.

Adios amigos!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár og gangi þér vel í þessum fræðilegu prófum..úff maður svitnar bara.