sunnudagur, febrúar 04, 2007

Notaleg helgi að baki

Föstudagurinn fór í búðarráp með ungunum á meðan karlinn vann fyrir eyðslunni. Okkur tókst að skófla einum tígrisdýrsbúningi handa drengnum, einum prinsessukjól og skóm og hönskum í stíl fyrir dömuna í körfuna. Reyndar stóð til að börnin yrðu bæði ljón, en þegar í búðina kom og daman rak augun í alla þá býsn sem til var af prinsessukjólum, snérist henni hugur. Prinsessaskyldi hún verða! Enda er hún nú ein slík, fram í fingurgóma! Ljónabúningurinn var ekki til í stærð peyjans svo fyrir valinu varð tígrisdýrsbúningurinn fíni, enda hann sannur karlmaður og nokk sama um í hvaða fötum hann er. Eftir verslunina í Toys'R'us örkuðum við yfir í Rose til að kaupa glaðning handa þeim Mána og Heiðu. Fyrir valinu urðu bolur fyrir Mána og Britneyhattur fyrir Heiðu, ásamt augnskugga, reyndar fannst enginn ljósblár augnskuggi í Matas, svo Máni fékk engan slíkan í þetta skiptið. Um kvöldið var svo haldið í þetta fína boð hjá afmælisbörnunum að Demantsvej. Þar var spjallað smá, etið og spilað, auk þess sem við gæddum okkur á þessari líka fínu bollu að hætti Rex og Heiðu. Takk fyrir okkur. Við hjónin héldum heim á leið ásamt yngri unganum þegar kvöld var að nóttu komið, en prinsessan fékk leyfi til gistingar hjá vinkonunni KK. Það reyndist þó þrautinni þyngra að gista annars staðar en hjá gamla settinu þar sem hringja varð eftir aðstoð foreldranna þegar tárin höfðu runnið í stríðum straumum í einhvern tíma eftir að múttan og pabbinn höfðu hafið sig á brott. Helgi skutlaðist því á eftir dömunni, sem eftir atvikið sofnaði værum svefni í bóli foreldranna, ásamt litla bróður, sem klæddur var enn í tígrisdýrsbúninginn flotta.

Laugardagurinn var álíka fínn, enda tók húsmóðirin sig til og gerði hreint, það var löngu tími til kominn! Að því tilefni voru bakaðar pönnukökur og keypt almennilegt brauð. Til samlætis okkur komu Alli og Kristrún ásamt peyjunum í smá kíkk. Við höfðum við ekki séð þau síðan fyrir jól, að undanskildu smá kíkki okka þriggja yngstu fjölskyldumeðlima til þeirra í síðustu viku. Kvöldinu var svo slúttað með gurmet matgerð húsfrúarinnar sem svo varla var smökkuð sökum saddleika eftir pönnukökuát.

Í dag héldum við fjölskyldan til Fredericia í badeland sem þar finnst, börnunum til mikillar gleði! Eftir einn og hálfan tíma í lauginni töldum við foreldrarnir að þetta væri nú orðið gott, enda fjölskyldumeðlimir við það að breytast í rúsínur og sveskjur, en dömunni þótti nú síður en svo nóg um og taldi svo best að vera þarna í það minnsta hálfan daginn! Hún var þó tæld upp úr með lofi um hamborgara og sundferð aftur síðar í vikunni. Prinsessan lét nú ekki þar við sitja, enda snjöll samningamanneskja, og spurði hvort hún ætti þá ekki að fá að fara í bíó líka! Það fær að bíða þar til námslán móðurinnar láta á sér kræla.

Eigið góða viku!

Engin ummæli: