mánudagur, apríl 07, 2008

Dagurinn í dag byrjaði snemma

Vaknaði við þá ónotalegu tilfinningu í morgun, að ég ætti eftir að ljúka heilu fjöllunum af verkefnum, svo ég dreif mig á fætur um leið og eiginmaðurinn og hóf störf. Svo nú er ég búin að sitja við tölvuna og pikka og vinna í tvo tíma tæpa. Dugleg, ekki satt? Kannski mér sé að hegnast fyrir leti gærdagsins. Hún var notaleg. Sem og laugardagksvöldið, sem heppnaðist heldur betur vel, að mínu mati (og að mér skilst nokkurra annarra). Skvísurnar hér í Véum Óðins mættu á svæðið mjög stundvíslega klukkan 19.00, fínar og kátar. Helgi var í þjónahlutverkinu og sá til þess að engin okkar hefði tóm glös eða diska. Það var ótrúlega notalegt að þurfa ekki að vera á spani að sjá til þess sjálf. Í staðinn naut ég þess í botn að láta karlinn dekra við okkur. Hann lét okkur þó einar eftir mat og eftirrétt og hélt áleiðis til Alla, þar sem krakkarnir voru í pössun á meðan. Takk kærlega Helgi minn og Alli fyrir hjálpina!
Frameftir kvöldi var svo spjallað, spilað á gítar og sungið og síðast en ekki síst farið í pakkaleik! Allir fengu eitthvað í sinn hlut, sem ekki er sjálfsagt. Á tímabili var þó útlit fyrir að þær yrðu tvær sem hömstruðu til sín öllum pökkunum, en það réttist úr kútnum og allar fóru þær sáttar heim, með hver sína gjöfina, hvort sem um var að ræða tannkrem, gleraugu, trommukjuða eða límband. Takk fyrir frábært kvöld, stelpur!

Ég vil að sjálfsögðu líka nota tækifærið og þakka öllum vinum og ættingjum kærlega fyrir allar kveðjurnar og gjafirnar sem mér hlotnuðust í síðustu viku og á laugardaginn! Ótrúlegt hvað maður hagnast á því að verða svona stór ;)


Knús,
Addý.

Engin ummæli: