laugardagur, mars 04, 2006

Mömmudekur

Jæja, þá eru notalegheitin búin í bili. Mamma og Andrea fóru heim í dag. Það er búið að vera ansi gott að hafa þær hérna hjá okkur. Krakkarnir eru náttúrlega sérlega hrifin af þeim og að sjálfsögðu var mikið dekrað og knúsað. Notó, notó... Ég fór nú reyndar í skólann á meðan þær voru hérna, en sleppti þó tveimur tímum, einum á mánudaginn til að geta sótt þær (reyndar kom Helgi með þessa líka hræðilegu tillögu að hann gæti sótt þær svo ég gæti klárað skólann, einmitt!) og svo einum tíma á fimmtudaginn svo hægt væri að klára nauðsynlegustu verslunina. Krakkarnir nutu heldur betur góðs af því að hafa kerlurnar því þau fengu að vera meira og minna heima alla vikuna að undanskildum stóra verslunardeginum á miðvikudaginn. Okkur þótti skynsamlegra að senda þau í daggæslu en að hafa þau með í leiðangurinn. Á fimmtudaginn fórum við svo öll sömul á Jensens Bøfhus að borða, ummm... staðurinn fær hina bestu einkunn fyrir frábæran mat. Reyndar var þjónustan ekkert sérstök hvað varðar tímasetningu borðhalds, en það er sjálfsagt okkur að kenna þar sem hluti hópsins (við komumst ekki öll í fjölskyldubílinn svo hópnum var skipt í tvennt, í fjölskyldubílinn og leigubíl) kom rúmum fjörtíu mínútum of seint á staðinn vegna óviðráðanlegra umferðartafa, sem aðallega stöfuðu af lokuðum húsasundum og einstefnugötum sem ekki eru merktar inn á hið annars góða kort af Óðinsvéum. Ökumaðurinn (ég) varð síður en svo glaður og höfðu ungir jafnt sem aldnir farþegar í bílnum áhyggjur af versnandi geðheilsu hans. Það rættist þó úr öllu og við fundum þetta fína bílastæði beint fyrir utan matsölustaðinn og fórum södd og sæl heim.
Það er svo fínt að fá svona gesti (sem reyndar eru eiginlega ekki gestir) til sín og fara með þeim í leiðangra um bæinn sem maður býr sjálfur í en gefur sér kannski ekkert alltof mikinn tíma til að skoða. Til dæmis komst ég að því að Bilka er bara ansi áhugaverð búð og það finnst þessi líka fíni Bistró-staður innst inni í sjálfri versluninni. Þetta kom í ljós eftir lengstu dvöl sögunnar í búðinni, heila fjóra tíma eða þar um bil. Það er ekki þar með sagt að þetta hafi verið langdregin ferð, alls ekki, bara róleg og fín, ekkert stress, engin læti. Eftir ferðina í Bilka fór amman fram á það að við hjónin gerðum okkur eitthvað til gamans þar sem við hefðum nú pössun, svo við drifum okkur út að borða aftur, í þetta sinn á mexíkóskan stað, og síðan í bíó þar sem við sáum þessa líka fínu mynd um Johnny Cash, Walk the Line.
Þær mæðgurnar yfirgáfu okkur svo í morgun í fylgd Tinnu, Dadda og Emelíu Agnar.
Það er óhætt að segja að það verði tómlegt í kotinu næstu daga.

Megi þið eiga góða helgi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sumir segja að þegar maður býr í útlöndum þá sé gestkvæmnara heldur en ef maður býr á Íslandi, gestirnir koma kannski sjaldnar en þeir dvelja lengur. Takk fyrir leikinn, hann kom frá Bingó....ég skal ekki segja ykkur hversu ótrúlega gott skor ég var með...bara svona til að pirra ekki hina...en landafræði var nú alltaf uppáhaldsfagið mitt...svo ekki alveg að marka. En annars bara góða danska helgi, hér er dönsk helgi í Hagkaupum svo danskt er það.

Nafnlaus sagði...

Vil bæta því við að þessi leikur er frábær og getur hjálpað til við landafræðikennslu, ég ætla að setja strákana í þetta og sjá hvernig gengur.

Nafnlaus sagði...

Æ hvað var gott að heyra frá ykkur ;) og sé ég að það hefur verið nóg að gera í búðunum ;)

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að þið hafi það gott í gestaganginum. Sjáumst vonadi bráðum kv. frá jyllandi. :)