miðvikudagur, mars 12, 2008

Jammseríkjamms

Nú er aðeins einn dagur eftir í starfsnáminu og mér finnst ég varla byrjuð. Nú fer að koma að því að ég neyðist til að sparka í rassgatið á sjálfri mér og drífa starfsnámsskýrsluskrifin af. Kannski ágætt að fá smá pressu. Það er hreint ótrúlegt hve erfiðlega það gengur að vinna þegar engin er pressan. En skipulag er dyggð, hef ég heyrt. Spurning að reyna að tileinka sér slíkt. Reyndar held ég að máltakið um að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja eigi vel við í mínu tilviki, því það er sama hvað ég reyni, alltaf skal ég detta í óskipulagið. Skipulagt kaos heitir það víst.

Fátt er annars að frétta af Bláberjavegsfjölskyldunni þessa dagana, annað en að enn virðast eyrun plaga unga herramanninn á bænum. Rörin stífluðust aftur í nótt sem leið, með þeim afleiðingum að gemsinn grét og átti mjög bágt. Foreldrarnir áttu ekki síður bágt þegar klukkan hringdi klukkan rúmlega fimm, eftir svefnlausa nótt. Pabbinn var þó sendur af stað í vinnu, en kvaddur til baka aftur þegar hann var nýbúinn að klæða sig í vinnugallann, svo frúin á heimilinu kæmist í starfsnámið sitt. Prinsessur eru og verða jú prinsessur! Svo karlinn fékk smá hreyfingu svona í morgunsárið. Segið svo að kerla sé ekki góð við eiginmanninn! Nú er hins vegar allt fallið í ljúfa löð. Drengurinn kominn með viðeigandi dropa í eyrun og heimasætan búin að fara í leikfimitímann sinn. Þó eru augu foreldranna ennþá heldur gegnsæ, enda hafa allar tilraunir til "lagningar" misheppnast í dag. En íslenskir víkingar kveinka sér ekki yfir svona smáræði og halda ótrauðir áfram vinnu sinni og áhugamálum.

Megi dagurinn í dag, sem og næstu dagar, vera ykkur heillavænlegir.

Hasta luego!

1 ummæli:

Heiðagella sagði...

Mér finnst það fallega gert hjá þér og eiginlega alveg nauðsynlegt að sjá til þess að spúsinn fái sína hreyfingu, ekki má hann jú verða offitusjúklingur blessaður...
knus Heiðagella