laugardagur, júlí 05, 2008

Buslumsull

Hjúkkan kom, sá og sigraði í gær. Hún reif sig upp úr sólbaðinu og lét sig hafa það að þurfa að drollast hingað í hitanum til að sinna útlendingnum Addý. Drengurinn litli var veginn, mældur og skoðaður. Útkoman var nokkðu ásættanleg: 5,5 kg., 60,5 cm., og 39,5 cm. stubburinn virðist heilbrigður, bætir á sig, drullar á sig og dafnar vel. Svo allt er eins og á að vera. Þó þótti hjúkkunni móðirin dúða peyjann heldur mikið. Hún varð nefnilega vitni að því er móðirin skellti unganum út í vagn, í nokkuð þunnum fötum, en með húfu að íslenskum sið, reyndar mjög þunna húfu en húfu samt. Hjúkkunni þótti nóg um og taldi slíkan höfuðfatnað ekki vera nauðsynlegan í hitabylgju í Danmörku. Því tók ég hana á orðinu í dag og sleppti húfunni, en setti heldur sólhatt á kauða. Út í vagn fór hann þó ekki í dag, enda hitinn alltof mikill fyrir svo lítinn kropp, 29 stig í forsælu. Hann tekur þessu þó öllu með jafnaðargeði og er heldur rólegur og vær, sefur og drekkur, enda varla að börn nenni öðru í slíkum hita.

Annars var ég að setja myndir inn á síðuna hjá gemlingunum. Njótið vel.

Góða goslokahátíðar- og landsmótshelgi!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ skvís
Gott að heyra að þið dafnið vel þarna í Danmörku. Ég öfunda ykkur nú ekki af hitanum, sólina höfum við sjálf og það er svolítið svalara en hjá ykkur. Notalegt sumar enda komið sumarfrí hjá okkur.

Knús og koss af landi ísbjarnanna.
-Milla