föstudagur, mars 06, 2009

Að elska eða ekki elska

Þar sem fáir lesa, þá get ég trúlega notað þessa síðu sem einskonar dagbók, óritskoðaða með fullt af einkahúmor og skoðunum. Það er svosem ágætt, sé litið til þess að maður er oftast með tölvuna opna en á oftast í mesta basli með að finna penna sem virkar og pappír ef þess þarf. Þetta er því handhægasti miðillinn þegar upp er staðið ;)
Hér er allt í rólegheitum, EB er heima hjá okkur TM þar sem hann var hjólaður niður á leiðinni í skólann í morgun. Hann slasaðist reyndar hvergi annars staðar en í hjartanu sínu. Andamamma leyfði þó unganum að koma með heim, svo sárið myndi gróa fyrir fermingu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna margir Íslendingar noti erlenda frasa þegar þeir tjá hverjir öðrum tilfinningar sínar. "I love you" og "I miss you" eru brot af þeim frösum sem ganga manna á milli, bæði í töluðu máli og rituðu. Þetta pirrar mig svolítið. Sérstaklega þar sem mér finnst svo yfirborðskennt að nota þessa frasa, við eigum falleg íslensk orð sem segja það sama, ja, eða berja jafnvel meiri merkingu. Að mínu mati, í það minnsta. "Ég elska þig" hefur ansi sterka þýðingu og það notar maður til að segja einhverjum að maður ELSKI hann, ekki satt? "I love you" hefur hins vegar breiðari þýðingu á ensku en "ég elska þig" á íslensku og því notar fólk það óspart. Þess vegna hef ég oft velt því fyrir mér hvers vegna fólk getur ekki heldur sagt: "Mér þykir vænt um þig". Það er gott og gilt og ber ennþá meiri tilfinningalega merkingu en þetta fyrrnefnda "I love you" þegar íslendingar eiga í hlut. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt einhvern segja "mér þykir vænt um þig" í háa herrans tíð, en ég heyri oft "I love you". Karlinn og börnin tjá mér oft ást sína með orðunum "ég elska þig". Nú vona ég að ég særi engan þegar ég tala um þetta, og það veit ég vel að fólk meinar mér þykir vænt um þig þegar það notar þessa ensku frasa. Það pirrar mig bara að fólk skuli ekki nota þau fallegu orðasambönd sem finnast á íslensku, eins og þau ofannefndu.

Jæja, þá er ég búin að fá útrás fyrir daginn í dag!
Eigið góða helgi ;)

Ps. Mér þykir vænt um ykkur öll!

þriðjudagur, mars 03, 2009

Lógópeðið Addý

Hmmmm... árið 2009 ætlar greinilega ekki að vera ár bloggsins, heldur ár fésbókarinnar. Því er nú verr og miður. Hugsanir fólks og meiningar eru töluvert ígrundaðari á bloggsíðum veraldarvefsins en á síðum fésbókarinnar, sem er yfirfull af fyrirsögnum. Þetta er kannski einkennandi fyrir aukinn hraða þjóðlífsins, sem krefst meiri og meiri upplýsinga í styttri textum. Ætli HKL yrði ekki æfur ef hann væri enn meðal vor og yrði vitni af þessari þróun.
Allavega... ég er orðin lógópeð eins og það er borið fram á máli drottningar. Ætli Arnar Thor myndi ekki útleggja þetta sem klikkaður nóbodí. Ég leyfi mér þó að vona að eitthvað hafi ég lært þessi þrjú ár sem ég hef stundað nám í faginu og að ég geti stolt borið titilinn talkennari (sem er starfsheitið sem hlýst eftir fengna BA-gráðu og er reyndar lögverndað á Íslandi og því get ég ekki kallað mig talkennara, fyrr en leyfi fæst frá menntamálaráðuneytinu). Svo er bara að bretta upp ermar og bæta við tveimur árum til kandídatsprófs og verða sér úti um titilinn talmeinafræðingur eða réttara sagt heyrnar- og talmeinafræðingur, sé bein þýðings danska heitisins (audiologopæd) notuð.
Nú tekur hins vegar við atvinnuleit, en lítið er að fá í faginu um þessar mundir. Á meðan hugga ég heima með TM og bíð þess að hann fái pláss á vuggestuen á leikskólanum sem EB er á. Ég býst svosem ekki við því fyrr en í sumar en ég vona svo sannarlega að hann fái þar inni.
Welli, well... hef svosem ekki fleira að sinni.
Megið þið eiga góða daga.