föstudagur, júní 29, 2007

Afmæli, brúðkaupsafmæli

Í dag eiga fimm ára brúðkaupsafmæli, Helgi Sigurðsson og Addý Guðjóns Kristinsdóttir. Við óskum þeim hér með til hamingju með daginn. Hingað til hefur allt gengið vel hjá hjúunum, mikil ástúð og hamingju hefur einkennt hjónabandið. Ekki spillir það heldur fyrir að miklir sættir hafa ríkt á heimilinu þar sem hvorki smjör né diskar hafa flogið um loft, ja, í það minnsta ekki að makanum. Sökum brussugangs frúarinnar telst þetta afar gott. Raddbönd eru að mestu ósködduð þó megi greina einstaka "over kompression" eftir fæðingu barnanna, en ekkert sem kemur að sök. Starfsskipting á heimilinu er nokkuð jöfn, hann vinnur og hún eyðir, hún þrífur og hann gerir við. Allt eins og á að vera. Eldhúsverkin deilast jafnt á báða aðila, sem og þvotturinn. Val á nöfnum barnanna, sem nú telja tvö, var í hvorugu tilfellinu vandamál, hún valdi og hann jánkaði.

Allavega. Við eigum afmæli í dag! Í tilefni þessa fékk ég blóm og morgunmat í rúmið. Svo ætlum við út að borða í kvöld og börnin gista hjá tengdaforeldrum hennar Bríetar Huldar, Palla og Rósu.
Eigið góða helgi!

fimmtudagur, júní 28, 2007

Komin í sumarfrí!

Jahú, jahú, jahú!
Búin að skila og komin í sumarfrí!
Næst á dagskrá: Ekki neitt!

miðvikudagur, júní 27, 2007

Arrrrrrrrrrrrrrrg!

Rigning, rigning, rigning. Alveg ausandi rigning! Skilið sólinni þarna á Fróni! Ég tek hana svo með til baka í ágúst þegar ég kem heim!
Nýja tjaldið okkar stendur enn út í garði. Búið að vera þar síðan á föstudaginn. Við höfum ekki náð því niður vegna rigningarinnar. Þetta er ömurlegt.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Ælupest og niðurgangur

Mikið afskaplega er leiðinlegt að reyna að skrifa ritgerð þegar maginn hangir ekki saman. Fékk upp og niður í gær, frekar fúlt. Er öllu hressari í dag en hausinn er samt að springa. Hef ekkert unnið í ritgerðinni þennan daginn, en ætla að reyna af öllum mætti að verða dugleg, á eftir! Á morgun segir sá lati, en enginn hefur minnst á það að það sýni leti að fresta hlutunum þar til síðar dags.

Ég er komin með fimm síður í þessu verkefni sem á að telja átta síður, svo þetta mjakast. Mottóið var að klára í dag, en það frestast trúlega þar til á morgun, því miður. En þetta verður búið fyrir föstudaginn í það minnsta, þegar skiladagurinn rennur upp.

Ég hef löngum verið talin skrýtin þegar að jólahaldi kemur. Já, jólahaldi! Ég tek alltaf upp á því að telja dagana til jóla einu sinni í ágúst og svo nokkrum sinnum á haustin og svo er niðurtalningin hafin mánuði fyrir jól. Jólatónarnir eiga það líka til að fylgja, sem og jólaföndur. Þetta árið er ég nokkuð snemma í hlutunum, þó ekki sé ég farin að telja niður eða spila jólalög. Ég er búin að kaupa 11 jólagjafir! Geri aðrir betur! Þetta er reyndar allt fyrirfram skipulagt, því ég ætla að taka gjafirnar með mér heim svo ég spari mér sendingarkostnaðinn, sem náði 1000 kr. dönskum í fyrra. Svo þetta er allt í þágu sparnaðar.

Jæja, hef svosem ekkert að blaðra um annað en að á morgun flytja Elísabet, systir hans Helga, Gulli, maðurinn hennar, og gemlingarnir til Esbjerg. Ætli við reynum ekki að kíkja á þau um helgina.

Adios amigos! Og kvittið endilega, það er frekar tómlegt að hafa síðustu færslur upp á 0! Kannski get ég sjálfri mér um kennt og mínum litlausu færslum. Ætti kannski að hafa þær eitthvað meira krassandi.

sunnudagur, júní 24, 2007

Elsta barnið gáfaðast!

Verð að deila þessu með ykkur. Rak augun í þetta á síðunni hjá Gillí!

Helgarsprell

Ég ætti kannski að taka mér þetta til athugunar og drífa mig í að skrifa þessa blessuðu ritgerð!

Hrútur: Drattastu úr sporunum! Þú þarft að vinna þér inn einhverja peninga. Ef það er svona agalega leiðilegt, reyndu þá að verðlauna þig eftir árangri.

Ég er allavega búin að byrgja mig vel upp af íslensku sælgæti núna eftir 17. júní-hátíðarhöldin sem fram fóru í dag. Það gæti þá verið verðlaunin sem ég veiti mér. Ein kúla eftir hverja skrifaða setningu, ja eða hvert skrifað orð. Hljómar það ekki vel?

Fór annars út á lífið í gær. Ótrúlegt nokk. Skaust í Fruens Bøge ásamt fjölskyldunni. Þar var verið að brenna norn á báli í tilefni Skt. Hans aften, sem er í dag. Þarna var mikið um að vera, fullt af fólki, tónlist og risa bál. Þarna hittum við Palla, Rósu, Kristrúnu, Alla, vinafólk þeirra og gemlingana alla. Krakkarnir nutu sín í botn og minntu mann helst á þegar maður var sjálfur að göslast í brekkunni á kvöldvökunum á Þjóðhátíðinni í gamla daga.
Eftir gamanið í Fruens Bøge var ég göbbuð á smá bæjarrölt ásamt Kristrúnu og Dóru, vinkonu hennar frá Íslandi. Við mæltum okkur mót við Heiðu, Arnar, Ragnhildi og Mána í bænum og röltum með þeim um skemmtistaðina hér í bæ. Þetta var bara frekar ljúft, að undanskildum tónunum á Frank A. Þar réð teknótónlistin ríkjum og þeir sem mig þekkja vita að ég er ekkert sérlega hrifin af sama endalausa trommusólóinu. Trúlega hefði ég verið sú fyrsta á dansgólfið ef um hefði verið að ræða snillinga á borð við Frank Sinatra, Michael Jackson eða Tinu Turner! Kallið mig gamaldags, en ég segi að ég sé mjög þroskuð! Hehehe... Ég sagði því skilið við liðið og hélt heimleiðis með smá pítsuátstoppi, alveg eins og í gamla daga. Svaf svo til hádegis ásamt ungunum mínum í dag! Segið svo að uppeldið sé ekki gott!

Njótið dagsins.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Af verkefnavinnu, brúðkaupi og kaupæði

Þá er fyrri vika verkefnisgerðar að líða undir lok. Enn er ekki stafur kominn á blað og ég sem ætlaði helst að klára þetta í fyrri vikunni! Já, það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Mér er það ómögulegt að fara út í einhverjar aðgerðir ef pressan er ekki nógu mikil. Enn er vika til skiladags, en ég ætla eftir fremsta megni að vera búin á miðvikudaginn í næstu viku. Það verður gaman að sjá hvort það gangi, en það er hér með komið á framfæri og pressan ætti því að fara að gera vart við sig!

Við fengum þetta fallega boðskort í brúðkaup í sumar. Það er svo fallegt að ég ætla að ramma það inn og setja upp á vegg hjá mér. Ég vona að listamanninum sé sama. Boðskortið er í brúðkaup Ingu Birnu og Helga, sem við mætum að sjálfsögðu í! Listamaðurinn er Mæja, frænka Ingu Birnu. Hún er að verða heldur stórt nafn í listaheiminum heima, enda verkin hennar geggjað flott. Litirinir eru æðislegir og álfarnir hennar og fólkið meiriháttar. Ég á einmitt þrjár myndir eftir hana og vildi glöð geta keypt mér eina langa, mjóa yfir sófann minn í stofunni, ég er bara hrædd um að LÍNarbuddan leyfi það ekki.

Hérna í Danaveldi hrynja auglýsingabæklingarnir inn á gólf hjá okkur nokkrum sinnum í viku. Í einum slíkum frá Harald Nyborg rákum við augun í þetta forláta tjald á eitt stykki þúsund krónur danskar. Þar sem við erum tjaldlaus og þar með bjargarlaus í útilegur stukkum við á tilboðið. Fyrst við vorum nú búin að kaupa okkur tjald sáum við að okkur vantaði dýnur í herlegheitin, svona til að þreytt bök verði ekki þreyttari og aumir rassar ekki aumari. Svo við skelltum okkur á tvær tvöfaldar uppblásnar dýnur. Í körfuna fór líka lukt, pumpa og þessi fína, flotta picknicktaska með matarstelli fyrir fjóra, rauðvínsglösum, dúk, servíettum, kælitösku fyrir hvítvínið og stóru kælihólfi fyrir allan matinn. Nú getum við heldur betur farið að skunda okkur út á tún, í garða og í skóginn í lautarferð, eins og ekta Danir gera!

Jæja, Helgi var að pompa inn með súkkulaðið mitt, svo ég verð að fara að vinna fyrir því með pikkingum og textagerð.

Ps. Þar sem rúmum hefur heldur betur fjölgað hérna á heimilinu með kaupum dagsins ætti að vera hægt að taka á móti stærri hópum! Hehehe...

miðvikudagur, júní 20, 2007

Geturðu hjálpað mér?

Nú er ég á tímamótum, hljómar kannski drastískt, en svona er heimurinn orðinn; yfirborðskenndur með plastívafi.
Þannig er mál með vexti að ég hef ekki litað hárið á mér á stofu síðan í mars í fyrra. Reyndar litaði ég það með búðarlit einhvern tímann síðasta sumar, en síðan þá hefur ekki farið dropi af hárlit á minn koll! Nú stend ég hins vegar frammi fyrir því að finnast ég þurfa að lita mig, samt er ég ekki viss um að ég vilji það. Því spyr ég þig, lesandi góður, á ég að lita eður ei? Mér er það gersamlega ómögulegt að taka þessa ákvörðun sjálf. Talandi um valkvíða!

Það skal tekið fram að þetta hefur ekkert með það að gera að Versace sé að koma aftur í tísku, ásamt öllu því glingri og glamúr sem því tískuhúsi fylgir.

Með von um MIKLA hjálp,
Addsin paddsin.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Dagur í lífi Addýjar

Sól og rúmlega 20 stiga hiti. Kerla með rassinn upp í vindinn í arfatínslu. Nokkrum blómum skellt í potta eftir Bilkatúrinn. Bara svona rétt til að punta upp á veröndina okkar. Gemlingarnir hlaupandi um hálfnaktir. Pabbinn á eftir mömmunni með símann í hönd, tengdamamman er á línunni. Restar af 17. júní-rjómatertunni étnar í góðum félagsskap Íslendinga og Dana. Misgáfuleg verkefnavinna, en whatta f... okkur miðar eitthvað áfram. ZNU, LEA, Howard Gardner, Stern og fleiri skemmtilegir guttar og módel uppeldisfræðinnar hitta án efa í mark næstu daga. Skiladagur: 29. júní, fimm ára brúðkaupsafmæli Addýjar og Helga. Já, vinir. Hjónabandið heldur enn! Ekki svo að skilja að ég efi það að það haldi ekki eins lengi og við lofuðum almættinu. Reyni allt til að standa við það, það ku vera svo assskoti heitt í neðra.
Well, það er komið að háttatíma hjá ungviðinu og múttan þarf að drífa sig í plokkun, litun og Despógláp hjá Kristrúnu NIÐRI í Højby.
Adios amigos!

mánudagur, júní 18, 2007

Hvaðan, hvert og hvenær?

Ég hef oft velt fyrir mér hvaðan ég sé. Ég er fædd í Vestmannaeyjum og alin þar upp þar til ég varð sjö ára. Í uppeldinu var mikið hamrað á því að við fjölskyldan værum Eyjamenn og ekkert annað. Eftir að við fluttum upp á land bjuggum við í Vesturberginu í Breiðholti þar til ég varð 10 ára, þá lá leiðin í Mosfellsbæinn. Að þremur árum liðnum hélt fjölskyldan aftur áleiðis í Breiðholtið, nú í Seljahverfið, þar sem ég bjó þar til ég ruddist inn á hann Helga minn fyrir örfáum árum síðan. Á grunnskólaaldri stundaði ég sem sagt nám við fjóra skóla, Barnaskólann í Vestmannaeyjum, Hólabrekkuskóla, Varmárskóla í Mosfellsbæ og Seljaskóla. Framhaldsskólarnir voru tveir; Menntaskólinn við Sund og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og háskólarnir eru nú þegar orðnir tveir! Já, kannski ekki furða þar sem langafi minn, sem ég er skírð eftir, var kallaður Gaui flakkari.

Allavega, ef ég yrði spurð að því í dag hvaðan ég væri, efast ég um að ég myndi standa stolt upp og segja "frá Vestmannaeyjum", þó mig langi til þess. Mér finnst ég ekki geta það lengur, enda er ég varla þaðan þó ég sé bæði fædd þar, ásamt fólkinu mínu langt aftur í ættir, og uppalin til skólaaldurs. Ég ber þó ákveðnar, sterkar taugar til Eyjanna, sem vonandi aldrei slitna.
Í Mosó kynntist ég mörgu góðu fólki og það kom í ljós að smábæjarfílingurinn átti stórvel við mig. Þar komumst við í nánd við náttúruna, fórum niður í fjöru og móa að leika, í hesthúsin að skoða fákana og fram eftir götum, eitthvað sem ekki stóð til boða í Efra-Breiðholti.
Breiðholtið telst þó trúlega til minna æskustöðva (eins klént og það er) því þar eignaðist ég mínar bestu vinkonur og vini. Í Breiðholtinu var ég unglingur og síðan fullorðin.

Allir þessir staðir og fólkið sem ég kynntist þar hafa sett mark sitt á mig. Því held ég að það eina sem ég geti sagt næst þegar ég er spurð að því hvaðan ég sé, er að ég sé Íslendingur, í húð og hár!

föstudagur, júní 15, 2007

Hvers virði er lífið?

Þessi pistill fær þig kannski til að hugsa þig um. Gillí er einstök og frábær kona, sem orðar hlutina á óborganlegan hátt. Kíktu yfir og fáðu innblástur!

fimmtudagur, júní 14, 2007

Líf á ný

Þá er oto-rhino-laryngologi og sprog- og talevanskelighederprófið búið. Ég fékk spurningu um dysartri, sem eru talörðuleikar sem orsakast af skaða í taugakerfinu. Mér fannst mér ganga vel... kennararnir voru sammála en ekki alveg hundraðprósent sammála því ég fékk bara átta. Ég varð alveg hundfúl! Vildi fá 9 eða 10! Þá kom í ljós hvers vegna ég hefði ekki fengið svo háa einkunn; ég er ekki sölumaður! Ég seldi mig ekki fullkomlega í prófinu, eins og þær orðuðu þetta. Þarf að vera öruggari með sjálfa mig og keyra út í svörin. Ég sem hélt ég hefði þetta allt. Prófið varð svolítið líkt samtali og það hentaði mér vel og ég fékk mjög margt og mikið sagt og að ég tel allt satt og rétt. Þær sögðu ennfremur, sem þó er bót í máli, að ég kunni fagið alveg og að ég verði án efa frábær talmeinafræðingur þegar að því kemur. Þetta rökstuddu þær með því að ég átti gott með að lesa þennan ákveðna einstakling sem ég fékk í keisinu mínu, eins og það heitir á góðri íslensku, og gat sýnt fram á að ég gæti fundið hvaða æfingar hentuðu honum. Til að hækka einkunnirnar mínar þarf ég hins vegar að æfa mig, æfa mig, æfa mig! Svo nú er stefnan tekin á sölunámskeið í sumar!

Ha' det godt!

laugardagur, júní 02, 2007

Bogguheimsókn

Við fengum góða heimsókn í gær. Bogga kíkti á okkur frá Kaupmannahöfn. Það var alveg obboð notó að fá hana í smá kíkk. Hún kom í gærkvöld og við kíktum aðeins á Open by night, eins og það heitir hérna í Óðinsvéum þegar búðirnar eru opnar fram eftir öllu. Við blæddum á okkur mat á matsölustað og hygguðum okkur saman. Notó, spotó. Gemlingarnir sofnuðu í bænum og á leiðinni heim svo það voru rólegheit þegar heim var komið, kjaftað, blaðrað og kjaftað meira, eftir það var farið að sofa. Við erum reyndar að spá í að fá Boggu til að búa í gestaherberginu, því það sváfu allir eins og steinar, hvorugt barnanna vaknaði og foreldrarnir fengu þrusuhvíld þó ekki væri kannski sofið sérlega lengi. Tengdaforeldrarnir tilvonandi sóttu skvísuna svo hingað til okkar og kíktu aðeins inn fyrir. Þetta er alveg þrælmyndarlegt fólk, eins og sagt var í gamla daga. Lofar góðu! Bríet Huld var rosa hrifin af Boggu og sá að þarna var komin nýja besta vinkona hennar! Hún fékk hana meira að segja með sér á salernið á matsölustaðnum, þar sem Bríet Huld tyllti sér á gólfið með snyrtibudduna hennar Boggu og naut sín í botn, fékk meira að segja varalit og alles! Að sjálfsögðu fékk Bogga greyið ekkert að hvíla sig og var drifin í feluleik með systkinunum í dag ;) Bríet Huld tilkynnti svo móður sinni hátíðlega að Bogga væri nú engin kona eins og mamma hafði sagt heldur bara stelpa! Ég veit nú ekki hvort það sé vegna hrukkuleysis og hressleika. Trúlega hefur hún þó líka minnt þá litlu svolítið á hana Andreu frænku sína, þó hún sé dökkhærð (þeas Bogga).
Takk fyrir komuna elsku Bogga, það var notó að hafa þig. Hlökkum til að fá ykkur Martin í almennilega heimsókn! Vonandi verður það í sumar!

Jæja, ætla að halda áfram að horfa á leikinn, Svíarnir eru að taka þetta 2:3 en vonandi rífa Danirnir sig upp úr því.