miðvikudagur, júlí 23, 2008

Paris Hilton is on the way

Þá er komið að því, Paris "vinkona mín" Hilton ætlar að kíkja hingað til mín í ágúst. Mikið hlakka ég til! Ég verð sú fyrsta til að mæta í Magasin til að berja fljóðið augum. Ég stilli að sjálfsögðu Bríeti Huld fremst og bendi galvösk á lokkaprúðu dömuna og segi að svona vilji ég endilega að hún verði þegar verður stór, athyglissjúk dekurdós sem fær borgað fyrir að sýna sig, eins og api í búri. Nema apinn velur það ekki sjálfur að vera til sýnis, hann fæddist bara undir rangri stjörnu eins og svo margir aðrir. Þar sem ég er svo forvitin en samt svo fáfróð vil ég endilega fá að vita hvað þessi dama, sem trúlega er getin í borg rómantíkurinnar sé eitthvað að marka nafn hennar, hafi gert merkilegt á lífsleið sinni. Er það eitthvað annað og mikilvægara en að djamma nærbuxnalaus, framleiða heimatilbúið myndband fyrir fullorðna, taka þátt í niðurlægingu á almúganum með Nicole Richie í "heimildarþáttaröðinni" Simple life (mig minnir að þættirnir hafi heitið þetta) og fleira í þessum dúr? Ég væri glöð, fyrir hennar hönd, ef eitthvað hefði stúlkan gert sér til framdráttar til að verðskulda alla þessa athygli sem hún fær um víða veröld.

Að öðru, ég gerði geðveikislegar góðar kjötbollur með sætri chili sósu í gær. Prófaði í fyrradag að gera svona ostamakkarónur, þær voru ekki alveg að gera sig, ég hef smakkað margt betra. Því er staðan í tilraunaeldhúsinu eitt-eitt.

mánudagur, júlí 21, 2008

Tilraunaeldhúsmella með skalla

Það er ótrúlegt hvað börnunum dettur í hug að segja. Í morgun sátum við eftirlegukindurnar hérna í sófanum, börnin horfðu á teiknimyndir á meðan ég gaf þeim yngsta brjóst. Upp úr þurru gellur í Elí Bergi: "Mamma mig langar að fá svona eins og pabbi." "Nú, hvað er það?" spyr múttan, "svona holu á hárið", svaraði drengurinn um hæl. Ég leyfi mér þó að stórefast um það að æðsti draumur tæplega fjögurra ára gamals peyja sé að fá skalla. Sérílagi sé litið til þess að hann á eftir að upplifa metrósexúalisma nútímans, sem ég leyfi mér að efast enn frekar um að fari minnkandi.

Ég átti annars stórfínan dag. Skellti börnunum í leikskólann og brunaði með Tóbías Mar í morgunkaffi í Seden Syd. Huggaði mig svo heima með erfingjanum þar til pabbinn mætti á svæðið og sótti leikskólakrakkana, ákvað svo að bregða á leik og prófa "nýjan" rétt á heimilinu, makkarónur með osti. Ég verð nú að segja að þetta var ekki besti maður sem ég hef boðið upp á, en þetta var skemmtileg tilraun. Talandi um það, þá erum við hjónin skyndilega komin með nóg af eldamennskunni á bænum, sem er orðin all flöt að okkar mati. Þessu til bóta fletti frúin í gegnum gamla Gestgjafa og fann nokkrar uppskriftir sem nú á að prufa. Nammi, namm...

Ég kveð úr tilraunaeldhúsinu að Bláberjavegi 88,

Addý

laugardagur, júlí 19, 2008

Stjörnuspá

Hvaða rugl er þetta: Hrútur: Ekki örvænta þótt þú hafir enn ekki fundið hinn fullkomna áheyranda sem er upprifinn af hverju orði sem þú mælir. Það verður auðveldar að finna hann í næstu viku.? Ég hef Helga! Hann er nokkuð þolinmóður hlustandi, sérstaklega þegar kveikt er á fótbolta! Hehehe...
Annars fínt að frétta. Ungi prinsinn sefur enn á næturnar og á það til að taka langa lúra á daginn, þó það sé ekki algilt, enda skiptir það litlu, það er bara þvotturinn og hreingerningarnar sem fá að bíða í staðinn. Því ungi maðurinn vill mikið vera á höndum móðurinnar þegar hann vakir, en hann er þó að verða betri á leikteppinu.
Helgi er sendur í vinnu hvern einasta laugardag núna, þar sem frúin er á íslenskum fæðingarstyrk, sem ekki er sérlega vænlegt á genginu 17! Við huggum okkur á meðan hérna heima, restin af fjölskyldunni, á meðan pabbinn streðar.

Eigið annars bara góða helgi!

mánudagur, júlí 14, 2008

Nammiminningar

Ótrúlegt hvað pikkar í minningarnar hjá manni. Helgi kom galvaskur heim með nammi handa frúnni um daginn. Meðal sætindanna var pakki með blönduðu súkkulaðisælgæti, allskonar á litinn, grænt, hvítt, brúnt og svo framvegis. Súkklaðibitar með hnetum, súkkulaðihúðaðar rúsínur og fleira skemmtilegt. Mig minnir að góssið heiti Bridge blandning eða eitthvað svoleiðis. Þannig er að amma Ellý átti oft svona nammi og mér fannst það alveg hræðilega vont. Því er hins vegar ekki að skipta í dag, þetta er nýjasta trendið á þessu heimili, sem og hnetusúkkulaði, sem einnig var alltaf hægt að fá hjá ömmu með kaffinu. Ummm... nammi, namm... Kannski eru það góðu minningarnar um ömmu sem gerir nammið betra. Það kæmi mér ekki á óvart.

Annars var helgin góð. Ágústa og gemlingar í mat á föstudaginn, leti, vinna og hjólakaup í gær (já, ég er búin að festa kaup á hjóli í afmælisgjöf frá bónda og börnum og fæ það á morgun! Jibbíííííí!) og flugdrekahlaup í Fruens Böge í dag, sem og heimsóknir góðra vina til okkar. Harpa og Hákon kíktu yfir og svo kom Heiða með hersinguna sína, þau Hillu, Skúla og börn og svo dreif hún ungana sína líka með hingað yfir.

Nú er hins vegar komið að háttatíma. Eigið góða nótt, kæru vinir.

laugardagur, júlí 12, 2008

What to do?

Hvað á maður af sér að gera þegar manni leiðist? Hlaupa maraþon? Eða fara á skíði? Baða sig í sólinni á hvítri sólarströnd með frozen strawberry margarita í hönd? Eða kannski bara ryksuga? Spurning, spurning. Það er greinilegt að ég er komin úr æfingu í því að láta mér leiðast. Best að æfa sig svolítið...

Eigið góða helgi!

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Nóttin

Klukkan er orðin hálftvö aðfaranótt fimmtudagsins 10. júlí og ég er ennþá vakandi og það ein! Sá mig hreinlega tilknúna að deila þessari upplifun með ykkur.

Njótið dagsins! Ja, eða næturinnar...

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Passaðu blóðþrýsinginn feita belja!

Jább... þá er það komið á daginn, frú Addý er let overvægtig, eins og hjúkkan orðaði svo smekklega í dag. Til að bæta gráu ofan á svart skellti hún á mig of háum blóþrýstingi. Viðbrögð mín voru nú ekkert sérlega slæm, mér fannst þetta heldur broslegt, enda veit ég upp á mig sökina. Ég verð þó að viðurkenna að að mínu mati er óþarfi að tala um þyngd og aukakíló við konu sem ól barn fyrir sjö vikum, hugurinn ætti heldur að vera við brjóstagjöfina og mjólkurframleiðsluna, en við það hvernig best sé að ná af sér aukaforðanum sem settist á kroppinn á meðgöngunni.

Svo nú er óhætt að segja að ég sé feit belja! Hehehe...

Ég lenti nú reyndar líka í klónum á spyrli frá Fyens Stiftstidende á læknastofunni. Hann spurði mig út í frumvarp sem hér á að taka fyrir á Alþingi þeirra Dana innan skamms. Frumvarpið hljóðar upp á að setja eigi gjald á læknisskoðanir. Ég geri fastlega ráð fyrir því að svar mitt verði skilið sem svo að ég sé bara nokkuð sátt við það, sem ég er ekki. Þannig er nefnilega að ég frú Addý gat ómögulega ælt út úr sér annað hvort að henni litist vel á tillöguna, eða illa, heldur varð ég að svara í einhverri langloku um að ég væri frá Íslandi þar sem við greiddum fyrir allar heimsóknir til lækna en að mér þætti það gott að þurfa ekki að greiða fyrir slíkar heimsóknir. Auli ég! Ég hefði að sjálfsögðu átt að minnast á sjálfsögð mannréttindi þjóðfélagsþegnanna hér í landi, sem m.a. felast í því að geta sótt læknisþjónustu óháð fjárhagslegri stöðu.

Welli well... börnin þurfa í rúmið. Adios í bili.

Kveðja,
blóðþrýstingshái offitusjúklingurinn.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Síðbúnar afmæliskveðjur

Haldið að sé nú?! Ég steingleymdi að óska honum Helga mínum til hamingju með brúðkaupsafmælið fyrir viku síðan! Reyndar smellti ég nú einum á hann í tilefni dagsins þá, en opinberlega hefur hann ekki fengið neinar hamingjuóskir (ekki svo að vænta að ég fái neinar, uhumm...). Málinu er hér með reddað: Til lukku elsku karlinn með mig! Lítið var þó um hátíðarhöld í tilefni dagsins, enda enn lifað á hátíðarhöldum síðasta árs, þá urðu árin fimm og því tilefni til aðgerða. Í ár telja árin hins vegar sex, eins og glöggir lesendur eru nú þegar búnir að reikna út, og því minna gert úr málinu. Þó var eldaður skítsæmilegur matur að gefnu tilefni.

Að öllu alvarlegri málum. Nú styttist í að ég þurfi að gera upp hug minn hvað BA-ritgerðarskrif varðar og ég er að komast á snoðir um efnistök ritgerðarinnar. Trúlega verður alexia og agraphia fyrir valinu, þ.e.a.s. erfiðleikar með skrift og lestur (einskonar les- og skrifblinda) eftir heilaskaða. Obboð spennó að sjálfsögðu. Lét verða að því áðan að senda leiðbeinandanum tölvupóst og vonast eftir svari fljótlega, þó trúlegt verði að það láti á sér standa þar sem nú fer í hönd þriggja vikna industriferie hér í DK, þar sem flest öll opinber starfssemi er í lágmarki. Reyndar teygir þetta frí angana sína öllu lengra og maður sér eitt og eitt bakarí lokað vegna frísins sem og blómabúðir. Vonandi verð ég þó búin að landa praktíkurplássi áður en langt um líður.

Ég vil ljúka færslunni á hamingjuóskum til Guðnýjar Margrétar: Til hamingju með sjöunda sætið í barnaflokknum á landsmóti hestamanna! Að sjálfsögðu eru líka góðar kveðjur til Axels Arnar, sem stóð sig líka með prýði! Efnilegir knapar þarna á ferð.

Best að sofna á meðan hinir sofa. Buenos noches mi amigos!

laugardagur, júlí 05, 2008

Buslumsull

Hjúkkan kom, sá og sigraði í gær. Hún reif sig upp úr sólbaðinu og lét sig hafa það að þurfa að drollast hingað í hitanum til að sinna útlendingnum Addý. Drengurinn litli var veginn, mældur og skoðaður. Útkoman var nokkðu ásættanleg: 5,5 kg., 60,5 cm., og 39,5 cm. stubburinn virðist heilbrigður, bætir á sig, drullar á sig og dafnar vel. Svo allt er eins og á að vera. Þó þótti hjúkkunni móðirin dúða peyjann heldur mikið. Hún varð nefnilega vitni að því er móðirin skellti unganum út í vagn, í nokkuð þunnum fötum, en með húfu að íslenskum sið, reyndar mjög þunna húfu en húfu samt. Hjúkkunni þótti nóg um og taldi slíkan höfuðfatnað ekki vera nauðsynlegan í hitabylgju í Danmörku. Því tók ég hana á orðinu í dag og sleppti húfunni, en setti heldur sólhatt á kauða. Út í vagn fór hann þó ekki í dag, enda hitinn alltof mikill fyrir svo lítinn kropp, 29 stig í forsælu. Hann tekur þessu þó öllu með jafnaðargeði og er heldur rólegur og vær, sefur og drekkur, enda varla að börn nenni öðru í slíkum hita.

Annars var ég að setja myndir inn á síðuna hjá gemlingunum. Njótið vel.

Góða goslokahátíðar- og landsmótshelgi!

fimmtudagur, júlí 03, 2008

I'm alive!

Ja, blogga segirðu? Það er svo erfitt að finna eitthvað að blogga um þessa stundina. Heimilishaldið er að komast aftur í fastar skorður eftir agaleysi síðustu vikna. Drengurinn yngsti farinn að vera værari úti í vagni, en þó ekki fullkomlega sáttur. Hann er þrjóskur en ég er þó þrjóskari, svo það verður að vana hjá peyjanum innan fárra daga að sofa úti. Veðrið er yndislegt og lífið, svei mér þá, líka.

Ég skráði Tóbías Mar á biðlista eftir leikskólaplássi, ja eða vuggestue-plássi, í upphafi viku en fannst þó ekkert liggja á því, enda kauði ekki orðinn sjö vikna. Fékk svo bréf þess efnis í dag að búið væri að vinna úr umsókninni. Bréfinu fylgdi aðgangs- og lykilorð á heimasíðu Óðinsvéa, þar sem ég get fylgst með stöðu mála á biðlistanum. Eins og sönnum forvitnisseggi sæmir skundaði ég beint á Netið til að athuga í hvaða sæti drengurinn lenti á þessum lista. Að sjálfsögðu 16 sæti! Hann er jú Íslendingur! ;) Samkvæmt þessu verður það greinilega að vera manns fyrsta verk að skrá börnin á biðlista eftir leikskólaplássi þegar maður kemur heim af fæðingardeildinni. Ótrúlegt hreint. Ég tek það þó fram að ég sótti að sjálfsögðu um vistun á sama leikskóla og systkini hans sækja. Ef ég læt af þeim kröfum að fá hann þar inn, þá gengur það mun fyrr fyrir sig að fá dagvistun fyrir hann, þá trúlega hjá dagmömmu.

Síðasta helgi fór í veisluhöld, þó ekki okkar, heldur hjá Heiðu "frú tæknifræðingi", á föstudaginn, þar sem við skófluðum í okku mexíkóskri súpu og skoluðum henni niður með viðeigandi drykkjum. Á sunnudaginn var ferðinni svo heitið í Højby, þar sem við átum á okkur gat í sameiginlegu afmæli þeirra feðga, Alla og Gabríels. Vel var mætt á báða staði þó Erlingur hafi hvergi látið á sér kræla ;)

Welli well... best að njóta sólarinnar á meðan kauði sefur.