miðvikudagur, mars 26, 2008

Barnaguðsþjónustur og kirkjulokanir

Ég las á www.berlingske.dk rétt áðan að loka eigi tíu kirkjum í kóngsins Köben innan skamms. Reyndar á ekki alveg að loka, heldur nýta kirkjurnar til annars en guðsþjónustu. Mér finnst þetta stórfurðulegt. Reyndar finnst mér það ekki beint furðulegt að það sé verið að loka kirkjum sökum dræmrar guðsþjónustusóknar, heldur að ekki sé neitt annað gert í málinu áður en kirkjunum er lokað. Mér til mikillar undrurnar, og satt að segja svolítillar skapraunar, komst ég að því er ég flutti hingað til landsins, að það væru ekki barnaguðsþjónustur, eða sunnudagaskóli, eins og heima á Fróni, í kirkjum landsins. Reyndar eru einhverjar slíkar í sérkirkjum, eins og t.d. hjá hvítasunnusöfnuðinum hérna og svona, en ekki í henni almennu dönsku folkekirke. Þetta þykir mér stórfurðulegt, þar sem, að mínu mati, eina leiðin til að laða unga fólkið að kirkjunum er að hafa eitthvað í gangi þar sem passar fjölskyldufólkinu, "því hver sá er ekki tekur við guðsríki eins og barn mun aldrei inn í það koma" segir nú bara í skírnarræðunni okkar Lútherstrúarmanna. Því þykir mér það skrítið að það sé ekki stefnt að því að ná fólki inn í kirkjuna fyrr en á fermingaraldri. Ég hef prófað að senda Hjallesekirke tölvupóst þessa efnis, svona til að athuga hvort ekki væri einhver starfssemi fyrir okkur fólkið, sem á börn er truflar heldur mikið hina venjulegu guðsþjónustu, með væli, pirringi og hlaupum, en engin svör hafa mér borist. Ekki er það nú kirkjunni til framdráttar. Reyndar datt okkur Heiðu í hug hérna fyrir sirka einu ári síðan, að stofna einskonar sunnudagsskóla fyrir Íslendingana hér í borg. Fá einhvern íslenskan prest til liðs við okkur, sem kannski gæti aflað okkur efnis tengt trúnni og kirkjunni. Spurning hvort maður eigi ekki bara að skella sér í djúpu laugina og hafa samband við séra Pálma eða hann séra Íslendingaprest, sem ég man ekki alveg hvað heitir þessa stundina :S
Svo er það spurning hvort við Íslendingar þurfum að taka yfir kirkjurnar til að koma þessu kannski áleiðis, þetta er náttúrlega ekkert annað en sölumennska! Og ég sem er enginn sölumaður! Spurning að sleppa því að tala við sérana og snúa sér bara beint að Björgólfsfeðgum!

Fer gengið ekki að lagast?

Ég setti inn þessa fínu fyrirspurn á www.spamadur.is að gamni, þar sem hugurinn festist ekki almennilega við ritgerðarsmíðar. Ég vissi ekki að ég gæti stjórnað svona málum. Þið hengið mig þó ekki ef krónan hrynur! Já eða nei, hefði trúlega komið að betri notum...

Þetta kemur kannski svolítið asnalega út, en vonandi skilst þetta.

Hér er útkoman:





XIX - Sólin

Hér ríkir mikil gleði og mýkt. Sköpun, gleði, allsnægtir og fullnægja birtist.

Þú nýtur blessunar og þess vegna er mikilvægt að þú hugir vel að jafnvægi þínu og sért meðvituð/meðvitaður um að kærleikurinn stjórnar snúningi jarðarinnar og öllu sem er.

Hér ertu sjálfinu góð/ur og útþenslan berst greinilega um hjarta þitt.

Þú átt þér stóra drauma og ert jákvæð manneskja með metnað á hæsta stigi sem er af hinu góða.

Orkustöðvar þínar eru öflugar og óskir þínar eru sannarlega raunhæfar. Sólin segir ekki aðeins til um velgengni þína heldur lætur drauma þína verða að veruleika fyrr en þig grunar.

Hamingja, spenna og velferð einkenna þig og verkefni þín sem virðast gefa þér mikið. Þú munt öðlast það vald sem þú sækist eftir.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Vika 35

Það styttist hratt í annan enda meðgöngunnar. Gemlingarnir eru að verða svolítið spenntir yfir þessu öllu saman og leika lítil börn í tíma og ótíma. Væla, grenja og emja. Skilja svo ekkert sem við þau er sagt og hlýða engu. Er það ekki svona sem ungabörn láta?
Annars áttum við ljúfa páskahelgi, þar sem mikið var étið og legið í leti. Fórum í bústað á vesturströnd Jótlands með ættingjunum í Esbjerg. Börnin nutu í sín í botn þar sem spilað var á spil, bílum ekið um bílabrautir, prílað upp og niður af loftinu sem yfir bústaðnum var og síðast en ekki síst var farið í spa-baðið! Þvílík seremonía sem það þó var, vatn látið renna í, svo tók við upphitun í einhverja klukkutíma, tilætluðum klórtöflum skellt í, einni fyrir hvern rass sem í baðið fór, auk þess sem aftur þurfti að skella töflum á eftir hverjum rassi sem í baðið fór. Það er greinilegt að hreinlætið í baðinu er meira í ætt við hreinlætið á klósettum Þjóðverjanna en Danans!
Eftir eins mikla átveislu og við nutum um helgina var kominn tími til að drífa skýrsluskrif af. Ja, drífa af og drífa af... Í það minnsta reyna að koma sér eitthvað áleiðis með herlegheitin. Ég er að verða búin með þá fyrri, en á þá seinni alveg eftir. En ég er superhelt, eins og sonur minn segir, svo ég rúlla þessu upp! Þetta er bara spurning um að setjast niður og láta eins og internetið finnist ekki, og hvað þá msn. Símakjaftæði verður líka að bíða betri tíma. Talandi um það... best að drífa sig að verki... og njóta síðustu vikunnar á þrítugsaldri... ;)

miðvikudagur, mars 19, 2008

Hvað er eiginlega í gangi?

Tveir dómar sama dag á sama landinu.

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í eins árs fangelsi,
þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir hrottafengna árás og nauðgun
gagnvart unnustu sinni. Þá var hann dæmdur til að greiða henni rúmar
*sex hundruð þúsund *krónur í miskabætur. —

———Hæstiréttur hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að
greiða Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, *eina milljón og fimm*
*hundruð þúsund
* í fébætur fyrir brot á höfundarrétti í fyrsta bindi af
ævisögu Halldórs. Þá er Hannes Hólmsteinn dæmdur til að greiða 1,6
milljónir í málskostnað
.

Hvor konan ætli hafi þjáðst meira, andlega og líkamlega?

Ekki nóg með að skaðabæturnar sem fyrri konan á að fá séu í miklu ósamræmi við glæpinn sem gegn henni var framinn, heldur eru miklar líkur á því að hún komi aldrei til með að fá þessar sexhundruðþúsund krónur greiddar, því miður. Mér skilst nefnilega að það sé ekki ríkissjóður sem leggi út fyrir skaðabótunum og rukki svo þann brotlega, heldur þarf brotþoli sjálfur að sjá til þess að fá greiddar þessar bætur, með því að banka upp á hjá þeim er glæpinn framdi og biðja um peninginn. Vonandi er þó búið að breyta þessu. Nægum skaða hefur brotþoli þó orðið fyrir að hann í ofanálag þurfi ekki að ganga á eftir greiðslum af brotlega hálfu.

Það er skrýtið land sem ekki metur hið andlega að meiru en hið veraldlega. Heimurinn er því skrýtinn.

mánudagur, mars 17, 2008

Vor, vor, VOR!

Þá er búið að fella stóra tréð í garðinum okkar. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað við hjónin löðumst að görðum með stórum trjám, en eigum svo í tilfinningaþrungnu ástar-hatursambandi við blessuð trén. Í þetta skiptið voru það nágrannar okkar sem bönkuðu á dyrnar og báðu um leyfi til að fella blessað tréð, því sólin væri sjaldséð í þeirra garði vegna stærðar kvikindisins. Um helgina var garðurinn því fullur af fólki sem við ekki þekkjum. Notalegt nok... Helgi hjálpaði til, en ég var lítið til gagns, reyndi að bjóða kaffi sem var afþakkað því unga fólkið (ég er þó enn ung!) drekkur ekki svarta drykki í dag, sérílagi ekki séu þeir heitir! Ég snérist því á hæli og hélt inn að klára prjónakjólinn, -skóna, og -hárbandið á dótturdótturina. Nú eru sömu gæjarnir að tæma garðinn rusli eftir sig á meðan ég sit og pikka. Stundum er óléttuafsökunin alveg svakalega þægileg ;)
Nú tekur við eftirvinna í garðinum, enda af nægu að taka. Laufið liggur enn eins og dúnsæng yfir beðunum, sem eru vel varin frosti, en það er kannski kominn tími til að raka það saman og skutla á haugana, svo vorlaukarnir nái að laða að sér fyrstu sólargeisla vorsins.

laugardagur, mars 15, 2008

Í samræmi við fyrra blogg dagsins

Hvað ætli óbreyttur borgari, eða jafnvel breyttur, myndi vilja greiða fyrir stefnumót með mér? Ætli 20 mín. færu yfir 5000 kr. eða yrðu það einhverjar millur? Spurning hvort það yrði verði stefnumótsins til hækkunar ef börnin og karlinn fylgdu með? Ég veit ekki... Einhver boð? Mig vantar pening!

Að vera eða vera ekki ríkur!

Silvio Berlusconi er búinn að finna svarið, hið eina rétta svar, við fátæktinni. Að sjálfsögðu nær maður sér bara í ríkan karl! Þá þarf maður ekkert að vinna. Þá hverfa áhyggjurnar af því að hafa ekki stabíla vinnu og öllum líður betur! Nema hvað, hann gleymir því kannski að það hafa ekki allir "aðgang" að ríkum mönnum og þar af leiðandi verða margar kvennanna að "nojast" við fátækari menn sem gerir það að verkum að þær þurfa, og ótrúlegt nok, þeir líka, að vinna til að afla sér viðurværis. Stundum væri gaman að svipta þessa gæja, sem allt eiga, öllu og skella þeim í láglaunastörfin, ekki einn dag, ekki eitt ár, heldur í að minnsta kosti fimm ár, svo þeir fái nasaþefinn af því hvernig það er að vera til í þeirri veröld sem lang flestir þekkja. Ég veit að Berlusconi var víst bara að grínast með svari sínu, en kommon!

Eigið góða helgi!

föstudagur, mars 14, 2008

Fjölskylda upp á fimm


Dóttir mín teiknaði þessa fínu fjölskyldumynd um daginn. Eins og glöggir netverjar taka kannski eftir eru fimm á myndinni, ekki fjórir, eins og fjölskyldan telur í dag. Það styttist jú óðum í komu nýja erfingjans, sem lætur vel fyrir sér finna í belgnum á móðurinni. Ef vel er í rýnt, sést ennfremur að heimasætan er nokkuð viss um að um stúlku sé að ræða, enda barnið klætt í kjól! Þegar foreldrarnir svo spurðu hvaða nafni prinsessunni fyndist við hæfi að skíra barnið stóð ekki á svari: Josefine! Já, það er ýmislegt sem gerist í kollinum á þeim yngstu!

miðvikudagur, mars 12, 2008

Jammseríkjamms

Nú er aðeins einn dagur eftir í starfsnáminu og mér finnst ég varla byrjuð. Nú fer að koma að því að ég neyðist til að sparka í rassgatið á sjálfri mér og drífa starfsnámsskýrsluskrifin af. Kannski ágætt að fá smá pressu. Það er hreint ótrúlegt hve erfiðlega það gengur að vinna þegar engin er pressan. En skipulag er dyggð, hef ég heyrt. Spurning að reyna að tileinka sér slíkt. Reyndar held ég að máltakið um að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja eigi vel við í mínu tilviki, því það er sama hvað ég reyni, alltaf skal ég detta í óskipulagið. Skipulagt kaos heitir það víst.

Fátt er annars að frétta af Bláberjavegsfjölskyldunni þessa dagana, annað en að enn virðast eyrun plaga unga herramanninn á bænum. Rörin stífluðust aftur í nótt sem leið, með þeim afleiðingum að gemsinn grét og átti mjög bágt. Foreldrarnir áttu ekki síður bágt þegar klukkan hringdi klukkan rúmlega fimm, eftir svefnlausa nótt. Pabbinn var þó sendur af stað í vinnu, en kvaddur til baka aftur þegar hann var nýbúinn að klæða sig í vinnugallann, svo frúin á heimilinu kæmist í starfsnámið sitt. Prinsessur eru og verða jú prinsessur! Svo karlinn fékk smá hreyfingu svona í morgunsárið. Segið svo að kerla sé ekki góð við eiginmanninn! Nú er hins vegar allt fallið í ljúfa löð. Drengurinn kominn með viðeigandi dropa í eyrun og heimasætan búin að fara í leikfimitímann sinn. Þó eru augu foreldranna ennþá heldur gegnsæ, enda hafa allar tilraunir til "lagningar" misheppnast í dag. En íslenskir víkingar kveinka sér ekki yfir svona smáræði og halda ótrauðir áfram vinnu sinni og áhugamálum.

Megi dagurinn í dag, sem og næstu dagar, vera ykkur heillavænlegir.

Hasta luego!

þriðjudagur, mars 11, 2008

Öskubakki á klósetti

Ég hef aldrei skilið hvers vegna það finnast öskubakkar á salernum. Ég veit svosem ekki hvort þeir finnist einungis á kvennmannssalernum, eða hvort þeir séu líka til staðar hjá körlunum. Mér datt svona sem snöggvast í hug að kannski væri þetta eitthvað sérætlað skvísunum þegar þær hópast saman á klósettið eftir einn eða tvo kalda, til að spartla á sér andlitið. Spurning, spurning. Það skrýtna er þó að ég sá einn öskubakka á klósettinu á staðnum þar sem ég er í starfsnámi þessa stundina. Þessi tiltekna bygging tilheyrir kommúnunni og trúlega illa séð að fólk sé undir áhrifum áfengis í vinnunni og í dag er varla farið fram á annað en að fólk andi að sér "ferska loftinu" utandyra. Svo kenning mín er greinilega fallin um sjálfa sig. Reyndar eru danskar skvísur algjörir snillingar í því að eyða ómældum tíma á salerninu og gætu þar af leiðandi fengið sér eina rettu í leiðinni. Þær dömur sem ég þekki eru alltaf jafn hissa þegar maður drífur sig að ljúka sér af og kemur sér fram í snarhasti, allt á mettíma, að þeirra mati. Þó svo að þetta sé okkur íslensku stöllunum eðlislægt. Kannski við Íslendingar flýtum okkur með allt? Spurning, spurning.

föstudagur, mars 07, 2008

Á að flytja "heim"?

Eitthvað könnumst við hjónin við þessa lýsingu. Sorglegt nok.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Þjóðhátíð á bænum!

Jahú og jibbíjei!
Þvottavélin er komin í lag! Svo nú er að hefjast handa við Mount Þvott sem án efa er orðið hærra en blessað Himmelbjerget. Tæp vika án þvottavélar er ekki draumur hverrar húsmóður, en þökk sé H&M að börnin hafa ekki verið leppalaus undanfarna daga. Alli kom, sá og sigraði í dag er hann smellti eins og tveimur nýjum kolum í mótorinn í vélinni, sem söng eins og engill eftir meðhöndlunina. Það hefði verið ansi súrt að þurfa að spandera í nýja þvottavél, nýbúin að kaupa nýjan ísskáp og bíl. Ég er nokkuð viss um að Carsten bankavinur okkar hjóna hefði þá hrist höfuðið.

Verkefni morgundagsins: þvottur, þvottur og meiri þvottur!

Adios amigos eða kannski bara adios mi amiga Ágústa! Miðað við kvitterí síðustu missera ;)

þriðjudagur, mars 04, 2008

Í nafnaleit

Þar sem langt er liðið á 32. viku meðgöngunnar héldum við hjónin á veraldarvefinn í leit að nafni á væntanlegt kríli. Þar sem ekki er vitað um kynið enn var kíkt á bæði stúlkna- og drengjanöfn. Tillögur dagsins eru: Hraunir Holti á dreng og Vísa Von á stúlku.
Ekki er um endanlega niðurstöðu að ræða ;)

Allar frekari tillögur eru vel þegnar.

sunnudagur, mars 02, 2008

Letsano

Jæts, hvað við erum löt hérna á heimilinu núna. Liggjum hvert í sínu horni með hvert sitt afþreyingarefni, sjónvarp, bók, tölvu og dvd-spilara. Huggó er það! Reyndar er stefnan tekin á leikfimisýningu seinna í dag, er prinsessan á heimilinu tekur í fyrsta sinn þátt í slíkri sýningu. Spennó, spennó!

Annars erum við búin að njóta nærveru Ingu Birnu vinkonu síðan á fimmtudaginn, svo það er búið að vera ansi notó hérna hjá okkur. Ég hitti hana í Köben og við skelltum okkur til Boggu til að fá borgina í æð. Við fengum hana vægast sagt í æð! Eftir hringsólun eftir krak-korti og -leiðbeiningum í alltof langan tíma, í leit að heimili Boggu á Østerbro, gáfumst við Inga Birna upp og hringdum í skvísu sem leiðbeindi okkur símleiðis. Vá, hvað mig langar í GPS! Svo hugguðum við okkur saman, óléttu kerlingarnar, og nutum góðs matar á matsölustað sem mig minnir að heiti Luna eða eitthvað svoleiðis. Heimkoma var seint um kvöldið eftir þriggja kortéra bíltúr út úr Köben. Það kynnti enn meir undir áhuga mínum á þessu litla tæki sem maður setur á mælaborðið og skipar manni að beygja hingað og þangað!
Föstudagurinn var líka rosa kósý, frameftirsof, dund, búðarráp og kaffihúsaseta. Um kvöldið kíktu svo Bogga og Martin í heimsókn, þar sem við skvísurnar tókum piltana í xxxxgatið í íslensku Trivjal Persjút. Martin stóð sig eins og hetja í því að svara spurningum um íslensk öræfi og látna forseta þjóðar vorrar. Spilið fór fram á ísl-ensku. Bogga kláraði þýðingu spurninganna þrusuvel! Þýddi þær jafnóðum og þær voru lesnar. Snilld alveg!
Á laugardaginn var svo haldið í stelpuferð í Rose, þar sem prinsessan á heimilinu fékk að fljóta með. Karlpeningurinn var heima að reyna að finna út úr þvottavélinni sem eitthvað virðist vera að gefa sig :S Vonandi að það vandamál leysist sem fyrst.
Ég verð nú að segja að ég hef oft séð vinkonu mína meir hlaðna H&M pokum en raunin varð í þessari heimsókn. Einn poki á dag getur varla talist til afreka. Það versta er kannski að það var líka einn poki á dag hjá mér! Hihihi... Hey! Maður verður að fá að vera með! Ekki satt?

Drykkur helgarinnar: Schweppes Lemon.