mánudagur, apríl 30, 2007

Samvinnuhæfni dúfna og fleira

Í dag verður þriggja ára félagi minn og "frændi" Sveinn Elí Helgason, ég óska honum hér með til hamingju með daginn!

Ég stóð áðan við eldhúsgluggann og fylgdist með dúfupari sem er að gera sér hreiður í trénu sem er þar fyrir utan. Ég gat ekki annað en dáðst að samvinnuhæfðni parsins. Þau eru reyndar enn að og búin að vera í allan dag og verða trúlega fram á kvöld. Karlinn stekkur niður úr trénu til að leita að góðri grein í hreiðurgerðina, hann leggur mikið upp úr því að fá góða grein því hann tekur eina og eina upp og kíkir á þær og velur svo þá best tilföllnu svo svífur hann aftur upp í tréð til sinnar heittelskuðu og kemur greininni fyrir, spússan lagar greinina svo til svo betra sé að liggja á henni. Kvenfuglinn liggur á hreiðrinu, svo ég geri ráð fyrir því að hún sitji á eggjunum eða sé við það komin að verpa. Það er ótrúlegt að fylgjast með samvinnunni hjá parinu.
En að öðru.
Ég fór á Eivarar tónleika í Præstø á Sjálandi á föstudagskvöldið ásamt Kristrúnu. Það var alveg geggjað. Hún er mikið meiri músíkant en ég hafði gert mér grein fyrir. Hún hélt tónleikunum svotil ein uppi, reyndar hafði hún einn félaga sinn með sem spilaði á eitt og eitt hljóðfæri sem einskonar röddun frekar en undirleik, auk þess sem hann söng rödd í einstaka lagi. Þetta voru alveg meiriháttar tónleikar. Þetta var í litlu bíóhúsi í bænum og minnti mest á Stuðmenn í myndinni "Með allt á hreinu" þegar þeir fóru í hvert krummaskuðið á fætur öðru og héldu tónleika. Við sátum við langborð á einskonar dansgólfi sem liggur milli senunnar og bíóstólanna og fengum snakk og kertaljós, sem gerði tónleikana ennþá persónlegri. Ég mæli eindregið með Eivøru!
Á laugardaginn komu Hildur, Bjarki, Hrafnkell Ari og Ásrún í smá heimsókn. við höfðum það voða kósý og dúlluðum okkur í bæinn eftir lokun og lölluðum okkur bara á leikvöll í gærdag þegar liðið var vaknað. Borðuðum góðan grillmat og fengum okkur eftirrétt. Allt voða notó. Þegar við höfðum séð til þess að þau næðu lestinni ókum við á fund fermingarbarnsins Hrundar Jóhannsdóttur þar sem vel var hægt að troða í sig af ýmsum kræsingum. Ummm... vildi að ég væri í afgöngum þar núna ;) Í fermingarveislunni birtist Þórdís Steinarsdóttir okkur að óvörum. Við ætlum okkur að ræna henni eina kvöldstund frá ættingjunum í norðurbænum áður en hún fer heim.

Jæja, best að fara að drífa sig út í góða veðrið að lesa.

Adios amigos!

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Sumarið er komið!

Eitthvað hefur sólin lagst á blogghendur mínar undanfarið. Hér er sól og hiti, algert sumar! Ummm... ekki amalegt að flatmaga á veröndinni, móka í huggulegheitum á mjúkum pullunum undir sólhlífinni með einn ískaldann! Þetta truflar reyndar svolítið tilvonandi próflestur, en eins og alþjóð veit reddast þetta! ;)
Til að ýta undir gleði okkar fjölskyldunnar kíktu Gummi, Solla og Karítas Björg á okkur í vikunni, þau komu á föstudaginn og fóru í gær. Það var notalegt að hafa þau, takk fyrir komuna kærust! Það fór reyndar lítið fyrir litlu Maríubakkafjölskyldunni, einn túr í bæinn og Zoo var það helsta sem gert var. Svo skruppu þau til Árósa og fóru sjálf í mekka sjoppugleðinnar Bilka og Rosengaardcentret. Nú njóta þau sumarsins í höfn kaupmannanna.
Megi sumarið heilsa landanum!

Adios.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Sól sól skín á mig!

Langar þig í 20 stiga hita og sól?
Drífðu þig þá hingað!!

mánudagur, apríl 09, 2007

Berlín, Berlín, Berlín

Ferðin til höfuðborgar Þýskalands var hreint út sagt frábær í alla staði. Þetta er alveg yndisleg borg. Meira að segja klósettin eru æðisleg, sótthreinsuð og flott.
Við komum seinnipartinn á fimmtudaginn og ákváðum að vera ekkert að rembast við neitt þá, heldur komum okkur fyrir og kíktum í kringum okkur í miðbænum, fórum svo á ítlalskan pítsastað og fengum okkur í gogginn. Á föstudaginn langa fórum við í dýragarðinn og kíktum á hann Knút, ísbjarnarhúninn knáa sem búinn er að sigra heiminn. Hann var að sjálfsögðu rosalega sætur, sem og afturendinn á pöndunni, flóðhestarnir og öll hin dýrin. Ég mæli eindregið með ferð í dýragðinn í Berlín, hann er flottur, fínn og temmilega stór. Eftir dýragarðsferðina héldum við á McDonald´s til að seðja sárasta hungrið, enda dugðu Duncin Donuts snúðarnir skammt. Eftir að við vorum búin að troða okkur út af amerískum skyndibitum héldum við á Alexander Platz þar sem við kíktum á markað og röltum þaðan eftir Unter den Linden, áleiðis að Brandenburger Tor. Það var margt að skoða á leiðinni og við kíktum inn í nokkrar túristabúðir um leið og við skoðuðum allar fallegu byggingarnar sem á vegi okkar urðu. Þegar komið var að hliðinu sjálfu skelltum við okkur á Starbucks Coffee og fengum okkur að drekka. Eftir að hliðið hafði verið skoðað í krók og kima og myndir teknar af björnum, úlfhundum og fleiri kynjaverum fórum við í klukkutíma siglingu um borgina, það var rosa gaman. Við fórum af stað frá Dómkirkjunni og komum þar upp aftur. Við sigldum framhjá mörgum merkilegum stöðum og byggingum, en sökum háværra barna og athyglissjúkra fór mest af því sem "gædinn" sagði framhjá okkur, en það skiptir litlu, við nutum útsýnisins og ölsins. Að ferðinni lokinni komum við við á Kentucky Fried þar sem við skófluðum í okkur kjúklingabitum og meðþví. Þegar þessi amerískanskættaðimatardagur var að kvöldi kominn héldum við heim á leið og hvíldum lúin bein. Laugardagurinn var stóri sjoppingdagurinn. Þegar búðarrápinu var lokið um tvöleytið og búið að kíkja á aðra hverja flík í H&M, Zara og fleiri skemmtilegum búðum fórum við á markað rétt fyrir utan miðbæinn, hann var ekkert merkilegur, olli heldur vonbrigðum en hitt, en við duttum í leiðinni inn á þennan fína leikvöll sem gemlingarnir fengu útrás á. Þegar börnin höfðu fengið sína útrás á leikvellinum héldum við í múrleiðangur. Við kíktum á tvo staði þar sem leifar eru af múrnum, báðir eru þeir við Potsdamer Platz, fyrir þá sem eru kunnugir staðarháttum í Berlín. Við sáum meðal annars rústir af neðanjarðarbyrgi Gestapo og gamlan varðturn. Á leiðinni til baka missti ég Helga inn í Clarks-skóbúð þar sem kauði keypti sér frekar flotta sandala fyrir sumarið. Þegar hingað var komið var klukkan farin að nálgast kvöldmatartíma all ískyggilega og því var haldið upp á hótel og þar höfð fataskipti, svo brunuðum við með S-Bahn að Zoologischer Garten og fengum okkur rosa góðan kínverskan mat á frábærum veitingastað. Þar settust Íslendingar á næsta borð við okkur, frekar skondið þar sem þetta var eina skiptið sem ég heyrði íslensku í umhverfinu í ferðinni. Andrea hafði heyrt í einhverjum klakabúum inni í H&M fyrr um daginn. Á veitingahúsinu smakkaði ég heldur undarlegan öl, bjór með piparmyntudropum í, grænan á lit og smakkaðist, ja... ekki eins vel og venjulegur bjór. En allt verður maður að prófa!
Það voru heldur þreyttir ferðalangar sem héldu upp á hótelherbergi í Charlottenburg eftir góðan dag í túristaleik. Á páskadagsmorgun héldum við snemma af stað í Fernsehturm þar sem hægt er að njóta útsýnisins yfir borgina úr 203-207 m hæð yfir sjávarmáli. Þetta er nokkuð góð upplifun og gaman að hafa borgina í Panoramaútsýni. Við skutumst á kaffihúsið sem liggur í rúmlega 207 m hæð og fengum okkur smá í gogginn. Kaffihúsið róterast og því er hægt að fara heilan og jafnvel fleiri hringi á meðan maður nýtur góðs yfirlætis starfsfólksins. Við vorum svo sniðug að fara að ráðum Erlu, sem býr hérna í Óðinsvéum, og fara snemma morguns að turninum, því þegar við komum var svotil engin röð, en þegar við fórum aftur, var röðin orðin nokkuð hundur metrar að lengd.
Að útsýnisferðinni lokinni héldum við svo áleiðis að hótelinu þar sem bíllinn beið fullur af dóti og ókum af stað heimleiðis.
Notaleg ferð með góðu fólki.

Ég mæli eindregið með Berlín! Fólkið þar er afskaplega viðkunnanlegt og hjálplegt, býður fram aðstoð um leið og það sér að maður þarf á henni að halda. Borgin er einstaklega hrein og falleg, að mínu mati í það minnsta og ég hreinlega heillaðist af klósettmenningu Þjóðverjans! Þó það kosti eitthvað að hafa hægðir og létta á sér, þá skipti það engu, því klósettin voru hrein og í flestum tilfellum mjög nýtískuleg!

Það eru myndir inni á heimasíðunni hjá krökkunum fyrir áhugasama!

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Þá er komið að því!

Berlin here we come!

Til lukku með daginn Sigfríð! Til lukku með morgundaginn amma, Binni og Arnar!
Góða ferð til Mílanó elsku amma mín! Ég bið að heilsa Hafþóri, Gerðu og gemlingunum öllum.

Knússsssssssssssssssar...

mánudagur, apríl 02, 2007

Komin á 30. aldursár!

Þá er 29. afmælisdagurinn liðinn og mér líður bara nokkuð vel, enda enn á þrítugsaldri! Hehehe... Dagurinn í gær var mjög góður, við brunuðum til höfuðstaðarins til að sækja hana Andreu litlu systur (sem reyndar er ekkert svo lítil lengur, þó hún sé enn minni en ég! nananananana!), við tókum ferðina reyndar með trukki og byrjuðum í IKEA, áður en systirin lenti. Þar hömstruðum við sitt lítið af hverju, þá aðallega römmum, svona til að setja kindurnar barnanna upp á vegg og gera eldhúsið og svefnherbergið svolítið hlýlegra. Þegar Andrea hafði bæst í hópinn skelltum við okkur í dulargervi túrista og kíktum á litlu hafmeyjuna, sem olli verulegum vonbrigðum hjá prinsessunni á bænum (þeirri yngri þ.e.a.s., þær eru jú tvær núna ;) ), þetta var stytta! Skvísan átti jú von á því að þarna svamlaði rauðhærð snót í grænum fötum og með flottan sporð! Faðirinn útskýrði fyrir henni að ef Ariel (sem er Disneyfígúran fyrir litlu hafmeyjuna, fyrir þá sem ekki vita) færi upp úr sjónum yrði hún að styttu. Styttan var þess vegna einu sinni lifandi lítil hafmeyja og deginum var bjargað hjá ungu dömunni. Eftir sjokkið hjá hafmeyjunni, smá twixát og hlaup um græna bala, ansi litla reyndar, héldum við í Kristjaníu. Þar var heldur betur áhugavert um að litast og við virtumst skerast úr, við sem vanalega teljum okkur obboð venjuleg, erum það greinilega ekki á Kristjanískan mælikvarða. Ég verð að viðurkenna að mér þótti staðurinn heldur subbulegur og leið ekkert alltof vel með gemlingana mína þarna. En áhugavert var þetta og hrein skylda að kíkja þangað ef maður á leið um Kaupmannahöfn. Frá fríríkinu lá leiðin í Slot Christiansborg, sem er ansi flott. Við kíktum á safn sem er þar í kjallaranum. Þar er hægt að skoða rústir gamalla borga sem áður hafa staðið á sama stað, allt frá tímum Absolons borgar, sem reist var þarna á 12. öld. Þetta var mjög skemmtilegt að skoða. Bríeti Huld þótti þetta líka mjög spennandi, móðurinni til mikillar gleði.
Þar sem við vorum stödd í Kaupmannahöfn ákváðum við að kíkja á Jagtvej 69 þar sem Ungdomshuset stóð þar til fyrir stuttu. Eftir ökutúrinn héldum við á Strikið í spátsitúr og lukum ferðinni á því að fá okkur þessar dýrindis pítsur á veitingastaðnum Mama Rosa. Ummm... svo bauð Andrea upp á ís á eftir. Það var því glöð og kát fjölskylda sem ók heim á leið eftir góðan dag í gamla höfuðstað Frónsins.
Þegar heim var komið reif Andrea upp úr töskunni sinni með góðri hjálp litlu systkinanna á Bláberjavegi! Það var ýmislegt forvitnilegt sem gægðist upp úr töskunni! Við þökkum öll fyrir allar gjafirnar! Takk fyrir okkur.
Ég þakka líka sjálf fyrir allar fallegu gjafirnar og hamingjuóskirnar sem ég fékk í tilefni gærdagsins! Það er eiginlega ótrúlegt að ég skuli enn vera að fá svona margar gjafir! Takk fyrir mig!
Eigið góða dymbilviku!