þriðjudagur, janúar 30, 2007

Svekkjandi tap

Jæja, þá er ég búin með blessuðu ritgerðina sem á að skila á morgun. Reyndar vantar blek í prentarann svo frúin þarf að lalla sér út í búð í fyrramálið og sækja það svo hægt sé að ganga frá þessu í tæka tíð. Ohh... hvað það verður mikill léttir að koma þessu frá sér!

En að öðru. Mikið afskaplega var svekkjandi að tapa fyrir Dananum áðan! Geðveikur leikur sem landsliðið okkar átti. Það er kannski hægt að setja út á markvörslu og of opna vörn, en ég verð nú að segja eins og er að ég er nokkuð stolt af strákunum okkar! Þvílík barátta í gæjunum.
Það gerði það nú ekki minna spennandi að fylgjast með leiknum að sjá Tinnu alltaf á skjánum! Hihihi... orðin stórstjarna hjá handboltaupptökumönnum!

Best að fara að koma sér í háttinn.
Ég bið ykkur vel að lifa þar til ég rausa enn meira innan fárra daga.

föstudagur, janúar 26, 2007

Ritgerð óskast!

Ef þú liggur á ritgerð um það hvernig maður lærir sérhljóða í öðru tungumáli, á dönsku, þá vil ég endilega kaupa hana!!!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Ekki neitt

Mikið er ég orðin þreytt á prófastússi. Enn á ég eftir að skila einni ritgerð, ég er ekki byrjuð að skrifa nokkuð sem heitið getur, bara búin að pára nokkrar setningar og tengja saman í hluta inngangs. Sem nemi ætti maður að fá automatiskt sálfræðihjálp þessa tæpa fjóra mánuði sem próflesturinn varir. Það myndi spara mikið álag að geta tekið reiðina og kergjuna út á einhverjum hlutlausum, þó ekki væri nema bara til að hlífa börnunum, blessuðum börnunum. Mikið afskaplega hlakka ég til að kúra hjá þeim og lesa og spila jafnvel eitthvað smá, fara í göngutúra og hafa gaman! Þó ég sé hérna hjá þeim næstum alla daga, geri ég ekkert með þeim og því eins og draugur í þeirra augum. Sem betur fer eiga þau góðan pabba sem gætir þeirra á meðan mamman er á milli tveggja heima.
Annars er álagið búið að vera mikið á heimilinu að undanskildum prófunum. Við lögðumst öll í ælupest í annarri viku nýja ársinss og í vikunni þar á eftir lögðumst við öllu í flensu, auk þessa var skellinöðrunni hans Helga stolið og Bríet Huld fékk eyrnabólgu. Skvísan fór einmitt fyrst í leikskólann í gær eftir heimveru í tæpar tvær vikur. Þetta ýtir ekki beint undir gleðina sem fylgir próftörninni! Hehehe... En þær Berglind, Telma Ósk og Aníta Björk drógu okkur úr hýði okkar og spókuðu sig með okkur um bæinn, Rosengaard og dýragarðinn um helgina! Ég held hreinlega að það hafi reddað lífi okkar! Takk fyrir komuna kæru vinkonur og frænkur! Börnin skemmtu sér hið besta með þær skvísurnar, enda alltaf einhver sem nennti að bröltast um og gera eitthvað skemmtilegt. Þær frænkurnar Aníta Björk og Bríet Huld náðu bara nokkuð vel saman, dunduðu sér og léku allan tímann, á milli þess sem horft var á Latabæ. Hér áður fyrr máttu þær ekki líta hvor aðra augum án þess að gersamlega missa stjórn á sér, önnur æpti og hin grenjaði. Hihihi... gott er að þær komast heldur ekki undan klóm þroskans.
Að þessu slepptu er allt hið besta að frétta. Allir eru nokkurn veginn skriðnir saman og við höfum það þrusu fínt.

laugardagur, janúar 20, 2007

Rigning og rok...

Þá er neurologi og neurobiologiprófið búið. Það gekk bara svona lala, sé miðað við það að fólkið á þessum bæ er allt búið að liggja í flensu síðan síðasta sunnudag, svo það hefur verið mikill skortur á einbeitingu fyrir blessað prófið, ég var enn hálflasin þegar prófið var þreytt. Reyndar fékk ég lausnina úr medicinsk audiologiprófinu sem ég tók rétt fyrir jól um daginn, útkoman varð 7. Ég uni því nokkuð vel, enda var gert ráð fyrir að einkunnin yrði að minnsta kosti heilum tveimur lægri. Nú er bara að bíða og sjá hvort Morten og Malene í videnskabsteori og Bente og Lis í neuro verði mér jafn hliðholl. Svo er að kasta sér út í ritgerðarsmíðar og afla sér upplýsinga um eitthvað skemmtilegt sem fjallar um máltöku L2. Skemmtó skemmtó.
Á miðvikudaginn komu svo Berglind, Telma Ósk og Aníta Björk til okkar að drífa okkur upp úr volæðinu með heimsóknum í Rose og bæinn. Nú er bara að finna út úr því hvað best sé að gera í haugarigningu og roki, dýragarðsheimsókn kemur jafnvel enn til greina, eða bílferð um bæinn.
Eigið góða helgi!

föstudagur, janúar 12, 2007

Að fremja eða fremja ekki rán

Er þetta bara ég eða er eitthvað bogið við þessa setningu af visir.is: "Lögreglumennirnir voru óeinkennisklæddir og löbbuðu fram hjá húsi þar sem rán var að eiga sér stað." Á rán sér stað? Fremur maður ekki rán? Ég bara spyr.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Ælupestarbæli

Halló kalló bimbó!
Það ætlar að ganga heldur illa að komast til að lesa undir blessaða taugafræðiprófið sem er í næstu viku. Elí Berg lagðist í gubbuna á laugardaginn, hélst svo hreinn á sunnudaginn en svo varð bakslag í batanum og hann lagðist aftur á sunnudagskvöldið. Það gerði það að verkum að ég var heima í allan gærdag með bæði börnin og lítið sem ekkert varð úr lestri. Ástandið batnaði nú heldur betur ekki í gærkvöldi þegar við hin þrjú í fjölskyldunni fórum að kasta upp og fengum niðurgang. Þetta var viðvarandi megnið af nóttinni svo við erum öll heima í dag, frekar slöpp, með þunnan maga, eins og Danin segir. Ætli maður reyni ekki að lesa nokkrar línur á milli klósettferðanna í dag og vonar svo að ástandið fari batnandi svo hægt sé að demba sér í lesturinn. Svo koma þær Berglind og dætur til okkar í næstu viku til að rífa okkur upp úr volæðinu. Mikið verður það gaman!

Að lokum: Elsku Gillí okkar. Okkar bestu óskir um gott gengi í dag. Við hugsum til þín.

Ég kveð að sinni...

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Veðurútlit næstu mánuðina

Árið 2007 gekk í garð með heljarinnar látum hér í Danmörkinni. Djúp lægð færði okkur þetta annars indæla ár (það ætla ég sannarlega að vona að það verði) með tilheyrandi drunum og hávaða. Að þessu tilefni ákváðu veðurfréttamenn að spá hvernig veður landsins verði þetta árið með hliðsjón af tölfræðinni. Það verður mikil rigning í ágúst, svo það er ágætt að við skulum ætla að heimsækja Frónið einmitt í þeim mánuði. Júní og júlí verða hins vegar mjög sólríkir og heitir mánuðir, svo ef einhver ætlar að kíkja, er best að panta núna! Reyndar ætlum við hjónin að skvera skaranum okkar (ef tveir eru skari) upp í bílinn og halda áleiðis til Eystrasaltsríkjanna, (ja, það er allavega á dagskrá) en ekki er búið að tímasetja þá ferð, trúlega verður hún í júlí eða ágúst, þar sem frúin er í prófum í júní. Þess á milli; gjörið svo vel og gangið í bæinn! Haustið verður blautt og veturinn líka. Ef einhver von er á snjókomu verður hún allra helst í febrúar. Rauð verða jólin aftur í ár.

Eins og lög gera ráð fyrir vorum við fjölskyldan búin að snúa sólarhringnum við yfir hátíðirnar. Því gekk heldur erfiðlega að koma grislingunum í svefninn í gærkvöldi og það leiddi til óvenju erfiðrar "vöknunar" í morgun. Þetta fer þó vonandi allt batnandi því móðirin þarf að einbeita sér með því litla sem eftir situr af heila í kollinum að próflestri. Á fimmtudaginn er hið bráðskemmtilega videnskabsteoripróf, sem kemur til með að standa yfir í sólarhring. Þar næst er svo blessaða neurobiologi- og neurologiprófið, sem blessunarlega stendur bara yfir í eina fjóra tíma. Að þessum prófum yfirstöðnum tekur áhugavert verkefni í psykolingvistik við. Þar hef ég hugsað mér að fjalla um máltöku L2, en það stendur fyrir second language, eða annars tungumáls. Ég ætla að nálgast efnið frá sjónarhorni framburðar, trúlega með tilliti til Íslendinga sem læra dönsku, jafnvel reyni ég að finna eitthvað um skrollandi, kokhljóðamælta r-ið þeirra baunanna. Hljómar spennó, ekki satt?! Ég hef nú reyndar enn ekki fundið neinar heimildir um þetta, svo ef þið vitið um eitthvað efni, þá endilega látið mig vita!

Jæja, nóg komið af blaðri í bili. Vonandi áttuð þið alveg dásamleg jól og áramót, eins og við hérna á Bláberjaveginum. Ég er einmitt búin að setja inn myndir frá jólunum á síðuna hjá krökkunum fyrir þá forvitnu.

Adios amigos!