laugardagur, desember 30, 2006

Gleðilegt nýtt ár!

Nú fer árinu 2006 senn að ljúka. Þetta er búið að vera ansi viðburðarríkt og skemmtilegt ár, alveg eins og þau 27 sem á undan þessu liðu. Börnin og eiginmaðurinn standa sig í stykkinu sem góðir lífsförunautar og gott betur en það. Við höfum haft það alveg þrælgott hérna í Danaveldinu, skemmt okkur saman, fengið góða gesti, skoðað okkur um og keypt okkur nýjan bíl og sætt raðhús. Síðustu mánuðir hafa farið í dútl í húsinu, skúrgerð og baðherbergisuppbyggingu auk smá lesturs.
Þó við höfum það gott hérna úti er ekki þar með sagt að við söknum ykkar sem heima eruð ekki neitt. Við hugsum til ykkar á hverjum degi og það kemur fyrir að vildum glöð getað brölt okkur upp í bílinn og skotist í heimsókn, hvort sem er til ættingja eða vina. Okkur þykir óendanlega vænt um ykkur öll, þó svo við séum ekkert sérlega dugleg við að tjá ykkur það.
Það er títt að um áramót líti maður yfir farinn veg og geri árið sem kveður á vissan hátt upp með sjálfum sér. Fólk lofar oft betrun og bót á nýju ári, oft í formi líkamsræktarátaka, reykingarbindinda eða edrúmennsku. Að þessu sinni vil ég stinga upp á því að við snúum okkur heldur að öðrum merkari hlutum, þó svo að líkamleg heilsa sé svo sannarlega mikilvæg er ekki minna nauðsynlegt að hafa sálina í lagi. Ég sting því upp á að við verðum öll betri hvort við annað, lítum í eigin barm og reynum að kynnast sjálfum okkur og horfast í augu við galla okkar og kosti. Það er engin skömm að því að vita hvað maður gerir vel og hvað það er sem betur mætti fara. Ég veit til að mynda að ég get á stundum verið alger hvirvilbylur og oft segi ég hluti áður en ég hugsa, það boðar aldrei gott.
Næsta ár ætla ég að nota til að verða betri manneskja en ég hef hingað til verið. Ég tileinka mér því Gullnu regluna: "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Þetta þarf ekki að vera flóknara!
Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið áramótanna, kæru vinir og ættingjar, nær og fjær!
Gleðilegt nýtt ár!

Hvað finnst ykkur um þetta?

Hvað er til í þessu?

Það er spurning með mig... hihihi!

Helgi er laaaaaaaaaaaaaaang flottastur!

þriðjudagur, desember 26, 2006

Fortsat god jul!

Gleðilega hátíð kæru vinir og ættingjar!
Héðan frá Danaveldinu er allt gott að frétta. Við fjölskyldan höfum átt alveg yndisleg jól. Rólegheitin og átið hefur verið hvað mest áberanda, enda börnin vel öguð í sofaframeftirsiðum. Sjónvarpsgláp og lestur jólabókanna hefur einnig einkennt jólahaldið á þessum bæ. Við brutum þó jóladag upp með því að halda í þetta líka fína jólaboð hjá Daða og Lene í kastala rétt fyrir utan Bogense. Takk kærlega fyrir að leyfa okkur að koma! Það var rosa gaman að fá að kynnast svona alvöru dönsku jólaboði. Fjölskyldan hennar Lene í móðurætt var þarna samankomin í glænýjum kastala (byggður á 13. öld og endurbyggður á þeirri 17.) ásamt okkur Íslendingafíflunum og sjálfum gestgjöfunum, Lene og Daða. Síldin, rúgbrauðið, kambasteikin, heit liverpåstej með beikoni, eplamús með beikoni, íslenskur graflax og sósa og margt fleira fylltu hlaðborðið, að ógleymdu frábæru ostasalati Lenu. Ummmm... allt bragðaðist þetta með eindæmum vel. Fólkið var líka hið besta, talaði meira að segja við okkur, jafnvel þó illskiljanleg værum, enda eru þau vön Daða og hans íslenska hreim, þó danskan hans sé í dag töluvert betri en okkar! Vonandi náum við einhvern tímann í rassgatið á honum. Þegar heim var komið smelltum við kerlurnar í fjölskyldunni okkur fyrir framan imbann og gláptum á Krónikuna og Olsengengið á meðan sá yngsti svaf og sá elsti talaði við systkinin sín.
Hin lifandi vekjaraklukka vakti okkur svo ekki fyrr en klukkan tíu í morgun, því fór fyrripartur þessa dags aðallega í hangs af ýmsu tagi. Þegar mál var komið að fara að hypja sig úr náttfötunum og smella sér í sparigallan var klukkan að nálgast tvö. Þá var stormað út í Hjallesekirkju og hafin upp raustin í takt við undirsöng séra Þóris Jökuls og annarra viðstaddra. Að messu lokinni var haldið áfram að troða í sig, að þessu sinni í boði allra Íslendinganna sem þarna voru samankomnir. Síðan hlupum við veitingarnar af okkur með dansi í kringum jólatréð og hamangangi með einum besta jólasveini sem völ er á, að ég tel (að sjálfsögðu sló hann þó pabba (a.k.a. Kertasníki) ekki út!). Nú erum við familían komin heim, börnin fyrir framan imbann, karlinn í ættfræðina, múttan í tölvuna og hangikjetið í pottinn.
Aðfangadagskvöld var að venju heldur rólegt hérna hjá okkur. Reyndar er greinilegt að unga daman á heimilinu er búin að uppgötva töfra pakkaupptökunnar. Foreldrarnir höfðu vart undan að fylgjast með frá hverjum hvaða gjafir voru og þar fram eftir götunum. Daman var varla búin að rífa utan af einum pakka þegar búið var að ná í annan. Slíkur var offorsinn. Pilturinn var þó öllu slakari, enda tel ég orku hans hafa verið rænt af prinsessunni, systur hans! Ég vil nú nota tækifærið og þakka allar fínu, flottu gjafirnar sem við fjölskyldan fengum þetta árið! Takk fyrir okkur og eins og Daninn myndi segja: fortsat god jul!

sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól, kæru vinir!

Nú er jólaandinn að færast yfir. Helgi er reyndar sveittur inni á baði að redda sturtunni fyrir frúna á heimilinu, svo hún angi hreinlega ekki yfir hátíðirnar. Annars erum við í jólafíling hérna á Bláberjaveginum. Við fengum góða gesti frá Íslandinu í dag, þegar Daði, Lene, Mathias og Sandra komu í heimsókn. Ohhh... hvað það var dásamlegt að fá þau. Alltaf gott að fá einhvern að heiman. Eftir innrás þeirra héldum við fjölskyldan í miðbæinn að skoða fólk og sýna okkur. Þar mæltum við okkur mót við Heiðu gellu og angana hennar. Þetta var nú heldur stutt ferð, en hún endaði með þessari líka góðu samloku á Café Kræz og því allra besta rauðvíni sem völ er á hér á Norðurhveli jarðar, Aberdeen Angus.
Það er búið að skella jólatrénu upp og smella á það þeim örfáu kúlum sem fundust í fórum fjölskyldunnar, prinsessan sá um þetta allt saman og vildi sem minnst af móðurinni vita. Skipaði henni að klippa þráð og þræða upp á hann kúlurnar, svo skammaði hún mömmuna ef of illa var gert og enn frekar ef of ákaft var gengið til verka. Það er naumast hvað daman er orðin dönsk! var það eina sem kom upp í minn gamla koll. Börnin eru nú háttuð, Kertasníkir er kominn og farinn, karlinn er á baðherberginu og ég er að dunda mér við bloggskrif þar sem kalkúnasprautan er stífluð og það er vatnslaust vegna framkvæmda.
Ég vil óska ykkur öllum, sem dettið hingað inn á síðuna, gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs.

Jólakveðjur,
Addý.

miðvikudagur, desember 20, 2006

Fallin?

Jæja, þá er medicinsk audiologi prófið búið. Það gekk ekkert sérlega vel. Í allt voru þetta þrjár stórar spurningar sem hver um sig höfðu undirspurningar. Það er óhætt að segja sem svo að ég hafi verið ansi óheppin með spurningar. Það er bara óskandi að kennararnir sjái aumur á mér og leyfi mér að standast þetta. Sexa er fín tala, ekki satt?!
Nú tekur jólaundirbúningur og jólin sjálf við. Loksins, loksins. Ég hef engan tíma til að standa í svona prófveseni, hvað þá ritgerðarsmíðum! Ég heimta almennilegt jólafrí! Þó stórefa ég að þessi jól fari í eintómt át og svefn. Trúlega les ég svolítið þessi jólin, þó ekki jólabækur, heldur skólabækur. Það er ómögulegt að segja að það sé mikil tilhlökkun í loftinu hvað það varðar.
Ég get varla beðið eftir því að fara bara að vinna, eins og venjuleg manneskja. Hlakka til þess að þurfa ekki að stressa mig upp á nokkurra mánað fresti og bæta á mig tíu kílóum í hvert skipti, sem næstu mánuðir á eftir fara í að reyna að ná af, eða ekki...
Jæja, ég bið ykkur vel að lifa að sinni. Næst á dagskrá er örlítið sjónvarpsgláp og svo klipping eftir u.þ.b. klukkutíma með grislingana og sjálfa mig.

mánudagur, desember 18, 2006

Salernisleysi 21. aldarinnar

Klósettleysi í tvo sólarhringa er ekki alveg að gera sig. Í stað hópferðar í bað til Heiðu var haldið í aftöppunartúr til hennar áðan. Aumingja kerlan ætlar aldrei að losna við okkur. Reyndar sést grilla í ljósa sólargeisla, þar sem búið er að flísaleggja og fúga, nú er bara verið að bíða eftir því að fúgan þorni svo hægt verði að nota húsmóðurina í þarfari verk en bloggskrif og annan óþarfa. Það má þó með sanni segja að garðurinn hafi fengið að njóta góðs af salernisleysinu þar sem bæði heimilisfólkið og gestir þeirra hafa létt á sér í moldina. Þau Bergur bró og Rebekka hans komu til okkar á föstudaginn og voru hjá okkur yfir helgina. Það var voða notó að fá svona himnasendingu frá Fróni. Þau eru náttúrlega algerir englar, bæði tvö. Við þurftum varla að hugsa um ungana þar sem þeir voru eins og sogskálar á kærustuparinu. Guttinn tók þó upp á því að kalla Berg Helga megnið af tímanum, enda tók hann alveg eftir því hve mikið það fór í taugarnar á frændanum ;) Já, maður kann sig þegar maður er tveggja ára! Annars var lítið gert annað en bara dólast, varla nokkuð búðarráp og ekkert farið í miðbæinn, enda varla veður til. Þessi rigningarsuddi er að gera alla brjálaða. Þó er von um að hann haldist þurr fram að jólum.
Jæja, ég ætla ekki að rausa meira í bili, enda á ég að vera að lesa undir próf. Fer í fyrsta prófið á miðvikudaginn og hlakka geðveikt til! Ja, eða þannig...
Með kærri jólakveðju,
Addý, sem ætlar að fara í sturtu heima hjá sér á morgun!

fimmtudagur, desember 14, 2006

Óhollir lífshættir nútímans

Nú held ég að hin alþjóðlega hjartavernd ætti að taka sig saman og ráðast að niðurlögum prófa. Ég hef komist að því síðustu daga að próf eru óholl með öllu. Stressið sem byggist upp í kringum próf er blóðþrýstingnum óvinsamlegt, svefnleysi próftarnanna er einnig sérlega óhollt sinninu og að ég tali nú ekki um mataræðið sem prófin færa með sér. Sykur, sykur, sykur og koffein, ja, reyndar ekki koffein í mínu tilviki, en samt! Ég tel því svo að aukið stress og óhollur lifnaðarhættir eigi rætur að rekja til aukinnar menntunar almennings. Með það í huga að aukin menntun kallar á fleiri próf og fleiri próf kalla á meira stress og verra mataræði og trúlega minni hreyfingu sökum tímaskorts. Allt þetta kemur svo niður á börnunum sem engan fá tímann með foreldrunum á meðan þeir lesa undir blessuð prófin, vonandi fjárhag fjölskyldunnar til betrumbóta síðar meir.
Já, því tel ég það mjög brýnt að sett verði á símat út um allan heim, til að sporna við þessu ástandi. Ja, eða jafnvel bara ekkert mat, bara mætingarskyldu, eins og í vinnunni. Það er nú kannski í lagi að maður þurfi að leggja eitthvað að mörkum til að öðlast háskólagráðu, en verkefnaskil eru betri en próf.
Takk fyrir mig og njótið súkkulaðisins!
Tilvitnun í tilefni súkkulaðidagsins: "Súkkulaði er allra bóta mein" eða var það "súkkulaði er allra meina bót"? Æ, ég man það ekki ;)

fimmtudagur, desember 07, 2006

Heimilisfangavesen

Ohhhhhhhhhhh... var búin að skrifa rosa fínan pistil um rigningarsuddan hérna í DK og um komu jólanna og allt, en það týndist allt saman. Svo ég læt nægja að segja að ég ætla að setja heimilisfangið okkur inn hérna að ofan svo það komist til skila, ef svo vildi nú til að einhver vildi senda okkur smá jólakveðju.
Knús og kossar.

mánudagur, desember 04, 2006

Smá yfirlit

Nokkuð fín helgi að baki. Við fengum góða gesti á fimmtudagskvöldið þegar Siggi og Ágústa mættu á svæðið. Þau kvöddu svo á laugardagsmorgun. Takk kærlega fyrir komuna, kæru vinir!
Þar sem Helgi minn ruddi sturtunni niður á laugardaginn urðum við að ganga á hús og fá leyfi til að baða okkur. Heiða sá aumur á okkur og gerði sér grein fyrir að það var engan veginn hægt að hafa okkur svona haugrykug og skítug. Svo sturtan hennar kom að góðum notum á sunnudaginn. Nú, þar sem við vorum komin út úr húsi ákváðum við að fara á H.C. Andersen-markaðinn sem settur var upp hér í borg. Þar var bara frekar gaman. Við drógum Heiðu og gemlinga með og hittum svo Palla, Rósu og angana þeirra í bænum og líka þau Ragnhildi, Mána og einkasoninn. Svo það voru sannkallaðir fagnaðarfundir. Eftir túr í hringekjunni, pylsuát og misheppnaða tilraun til að finna jóladúka í Jysk, var haldið heim á leið. Þar beið okkar rjómaterta með Rice Cripsies-botni og íslensku súkkulaði á milli. Svo það var skverað í heitt súkkulaði (sem þó var gervi), kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum og sungið "Við kveikjum einu kerti á". Ummmm... hvað það var notó.
Í dag eða í gær (ég byrjaði að skrifa þennan póst í gær, svo ég veit ekki hvaða dagsetning kemur fram ;) ) kom Pomosavejgengið til okkar í lundaveislu. Nammi namm! Þegar hafist var handa við eldamennskuna kom í ljós að lundinn var reittur og sviðinn, ekki var það nú verra! Takk fyrir okkur elsku amma! Þetta var hreint lostæti.
Þó helgin hafi verið frekar góð hjá okkur fengum við heldur leiðinlegar fréttir. Gillí, við sendum okkar bestu og sterkustu strauma til þín. Mundu bara, þú ert hetja!