föstudagur, janúar 25, 2008

Smá útdráttur

Þá er fyrsta vikan á klakanum að líða undir lok. Við erum búin að vera í góðu yfirlæti hérna í Katrínarlindinni síðustu daga, enda förum við varla út úr húsi eftir að ég er komin heim á daginn ;) Stefnan er þó sett á Kringluna síðar í dag að margumbeðinni ósk dótturinnar. Ekki veit ég hvaðan hún hefur þennan búðaráhuga!

Við kíktum þó í barnaafmæli hjá Rakel Sif, dóttur Höllu og Steingríms. Skvísan varð fimm ára og hélt þessa fínu afmælisveislu á sunnudaginn, maður slær aldrei hendinni á móti kökum! Lítið hefur annars verið um heimsóknir. Við erum búin að kíkja á Gumma, Sollu og Karítas Björgu, Ingu Birnu og Svein Elí, Berglindi og Anítu Björk og Addý ömmu. Daman varð alveg himinlifandi yfir því að komast til ömmu löngu, sem alltaf hefur góðgæti á boðstólnum og á fullt af bleikum og gylltum húsgögnum! Það gerist varla betra þegar maður er alveg að verða sex!

Krakkarnir eru búnir að vera alveg kolvitlausir eftir að við komum hingað, en eru að róast til muna. Snjórinn er geggjað spennandi og Bergur og Andrea líka. Hérna er sko nóg af fólki til að atast í litlum ungum. Ekki skemmir það heldur fyrir að það er sjónvarp í hverju herbergi ;)

Starfsnámið gengur vel og fólkið á Grensás er yndislegt.

Þar hafið þið það.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Nýtt símanúmer á klakanum

Komin heim, hef það fínt. Nýtt símanúmer: 8980573.

föstudagur, janúar 18, 2008

Þá líður að heimför

Nú er farið að telja niður klukkustundirnar þar til við þremenningarnir stígum á íslenska grundu. Tilhlökkunin er mikil og töskurnar orðnar rúmlega fullar. Ég skil ekki hvernig ég kom öllum jólagjöfunum með í sumar! Að sjálfsögðu fer töluvert meira fyrir kuldagöllum og kuldaskóm en stuttbuxum og sandölum.

Fyrir þá sem vilja hitta okkur, þá komum við til að dvelja hjá múttu og pabba að Katrínarlind 1 í Grafarholtinu, ekki í Kópavoginum ;) Símanúmerið hjá þeim er 557-1768, svo veit maður aldrei hvort það verði kannski hægt að hafa gsm síma þarna heima.

Með þrusukveðju!

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Munnleg próf sökka!

Ég er með dúndrandi hausverk og búin að grenja úr mér augun. Ég fór í síðasta prófið í dag, í sprog- og talevanskeligheder II. Mér fannst heppnin vera með mér er ég komst að því að ég kæmi upp í afasi, eða málstoli eins og það heitir á okkar ástkæra ylhýra. Það gekk þó ekki betur en svo að ég fékk þá hræðilega ljótu einkunn 4 (7 á gamla skalanum). Að mínu mati er það hreint óskiljanlegt þar sem ég fékk, að mínu mati, engin haldbær rök fyrir einkunnagjöfinni. Þannig var að ég fékk svokallað case sem ég þurfti að koma mér inn í, sem var upp á 3 þéttritaðar A4 síður, auk þess sem hlusta átti á upptöku af viðkomandi afasíusjúklingi, sem var hræðileg, það hvorki heyrðist almennilega né sást myndin almennilega. Út frá þessu átti ég svo að fylla út WAB-test skema og reikna út hvaða afasíutýpu viðkomandi hafði, auk þess sem ég átti að bera WAB-niðurstöðuna saman við þá niðurstöðu sem ég fékk út úr hlustuninni og horfinu á upptökurnar. Þegar ég hafði loksins náð að hlusta og lesa case-ið, eða að hálftíma liðnum, reyndi ég eftir mesta megni að pára niður eitthvað á blað til að hafa með mér inn til kennarans og prófdómara. Það var lítið sem ég náði að rita niður, auk þess sem ég náði bara að lesa journal-inn einu sinni yfir og það nokkuð hratt. Inni í prófinu skellti ég svo út úr mér því sem mér fannst vera við hæfi og fannst mér standa mig nokkuð vel. Kom, að mínu mati, með ágætis rök fyrir því sem ég sagði og hélt mig við Broca´s afasi. Reyndi svo að koma inn á það að talmeinafræðingarnir verði að taka tilliti til viðkomandi einstaklings þegar tekin er ákvörðun um kennslu fyrir viðkomandi, auk þess sem nánustu aðstandendur skipta miklu máli, osfrv. osfrv. Ástæðurnar fyrir lágri einkunn virðast vera annars vegar að ég var ekki nógu ákveðin (skil ekki alveg þann rökstuðning) auk þess sem mér fannst afasíusjúklingurinn hafa gott af því að komast í samveru með öðrum, góð hugmynd sögðu þær, en hentar trúlega ekki þessum einstaklingi, sem mér fannst skrýtið þar sem mér fannst hann hafa sýnt smá framför hvað varðar félagslyndi, en áður hafði hann verið þunglyndur og er það trúlega enn, þó ekki eins mikið.
Já, munnleg próf í dönskum háskóla sökka!
Ástæðan: Maður hefur ekki hugmynd um út frá hverju einkunnin er gefin!

Þegar ég kom heim beið mín hinsvegar súkkulaðikaka sem börnin og maðurinn bökuðu, umm... hún var góð og ekki voru knúsin og kossarnir verri ;)

Núna ætla ég að fara að huga að heimför og vona að prófið falli í gleymskunnar dá.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Próflestur

Þá er aftur komið að lærdómnum. Stam, málstol og skarð í vör og góm er meðal viðfangsefna fyrir næsta próf. Það virðist með öllu óyfirstíganlegt að komast í gegnum allt þetta efni. Ég tek bara Íslendinginn á þetta og segi: þetta reddast!
Tilhlökkun fyrir heimferðinni truflar að sjálfsögðu líka (alltaf ágætt að hafa afsökun ;) ), auk þess sem foreldrafundir og leikfimiferðir unganna setja strik í reikninginn. Daman byrjar í skóla í haust og nú keppast skólinn og leikskólinn að komast að því hvort hún sé hæf til þess eður ei. Hún er fyrir löngu tilbúin að fara í skóla. Er orðin hundleið í leikskólanum og horfir dreymin á Hjalleseskolen (sem er skólinn sem hún fer í) í hvert sinn er við göngum þar framhjá, sem er tvisvar á dag. Þar sem aldurinn færist yfir hana þá er hún farin að gera ýmsar kröfur varðandi heimilishaldið. Síðast í gær barst katta- og hundaumræðan aftur upp á borð. "Það er ekkert mál að fá kött, mamma, þú þarft þá bara að flytja eitthvað annað!" var svarið sem ég fékk þegar ég sagði henni að ég hefði ofnæmi fyrir köttum. Skvísan hefur svör við öllu!

Í gærkvöldi horfðum við hjónin svo á Stelpurnar í boði annað hvort Arnars eða Heiðu, hef ekki hugmynd um hvort þeirra á herlegheitin. Þar flóðu margir góðir brandarar og ég læt þennan fylgja, án allra fordóma, það vita þeir sem mig þekkja ;)

"Kona sem er órökuð að neðan er ekki kona, heldur api."

Þar hafið þið það!

föstudagur, janúar 04, 2008

Gleðilegt árið öll sömul!

Yndisleg jól, kósý áramót og notalegar stundir með fjölskyldunni einkenndu hátíðahöld þetta árið, ja eða á síðasta ári... Við fengum fullt af fallegum gjöfum og þökkum mikið og vel fyrir okkur!
Ég saknaði Íslands þó óvenju mikið yfir hátíðirnar, en við komum brátt, ég og börnin, einungis fimmtán dagar þangað til við birtumst á klakanum.
Of mikil leti á hátíðardögunum hafði mikil áhrif á lestur fyrir Pædagogik og handikap II í dag og skilaði ekki nema 4 í prófinu. Þetta er reyndar 7 á gamla 13-skalanum svo ég er nokkuð sátt. Náði, þó ekki hafi það verið með pompi og prakt. Hver kíkir svosem á þessar einkunnir, annar en maður sjálfur, þegar upp er staðið?!