þriðjudagur, mars 28, 2006

Sérhljóðar og sund

Heilt og sælt veri fólkið (þ.e.a.s. Gillí og Lilja og hinn sem slæðist einstaka sinnum inn á síðuna)!
Það er talað um að við íslendingar séum ein ríkasta þjóð í heimi. Það getur vel passað þegar litið er á þjóðararfinn, tungumálið. Íslenskan er það alfegursta tungumál sem fyrirfinnst á jarðarkringlunni (á norðurhjara í það minnsta). Spænskan er reyndar mjög falleg líka, en ég hef aldrei verið hrifin af svona "ælu-, vælu-"málum eins og frönsku, en ítalskan finnst mér líka ansi hljómfögur. Auk þess hve íslenskan er hljómfögur og "hrein" er málfræðin ekkert svo slæm nema kannski fyrir útlendinga. Hins vegar er talað um það hve auðvelt það er að læra dönskuna. Ég er þessu ekki sammála. Um þessar mundir er ég nefnilega í hringiðu dönsku hljóðfræðinnar og setningafræðinnar. Ég hef BA-próf í báðum þessum fögum (reyndar á íslensku) og mér reynist það þrautinni þyngra að skilja hvað fram fer í tímunum. Við stelpurnar unnum t.a.m. alla helgina að verkefni sem átti einungis að taka u.þ.b. tvo tíma! Okkur var hvorki unnt að klára verkefnið né hafa það sem við þó leystum hárrétt! Taka ber fram að hópurinn samanstendur af þremur dönskum píum og tveimur íslenskum skutlum, þannig að ekki er hægt að skella skuldinni einungis á það að við höfum annað tungumál en dönsku að móðurmáli. Hér eru nefnilega reglur á reglur ofan og þó það fyrirfinnist margar undantekningar af setningarfræðireglum og hljóðfræðireglum í íslensku þá eru þær "pís of keik" miðað við þær dönsku. Ég er líka búin að komast að því að það á að innleiða sérhljóðkerfið íslenska inn í öll önnur tungumál (sérstkalega í dönskuna) það eru svona um það bil tíu útgáfur af o-i hérna, ég heyri aldrei muninn og það pirrar mig!

Að öðru skemmtilegra. Ég er að drepast úr harðsperrum! Eftir sund! Hver hefði getað trúað því að maður gæti haft svona hrikalegar harðsperrur eftir sundsprett! Gærdagurinn hófst sem sagt á því að ég tók sundsprett í lauginni sem tilheyrir háskólanum. Að sjálfsögðu synti ég eins og ég er vön, langsum yfir laugina. Eftir tvær ferðir fram og tvær til baka gekk sundlaugarvörðurinn að mér, hnippti í mig og bað mig vinsamlegast um að synda þvert yfir laugina eins og allir hinir! Já, ég hafði velt því fyrir mér hvers lags eiginlega þetta væri, ég var sú eina sem synti í rétta átt! Það kom mér ekki til hugar að ég væri sú eina sem synti í öfuga átt! Þrátt fyrir þessar ógöngur reyndist þetta svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn í dag (gerði líka misheppnaða tilraun til að losna við harðsperrurnar eftir gærdaginn með því að synda þær af mér, það tókst ekki betur en svo að þær mögnuðust um allan helming). Það kom því berlega í ljós að ég er í hræðilegu formi. Ég held því að málið sé bara að stinga sér til sunds þá daga sem ég sæki tíma í þeirri von um að þolið aukist og að ég komist í betra form.

Jæja, best að fara að sinna grislingunum.
Bið að heilsa í bili.

laugardagur, mars 25, 2006

Nöfn

Mikið geta nöfn skipt mann miklu máli. Þegar ég var yngir vildi ég heita allt annað en Addý, ég var meira að segja kölluð Gauja af vinkonunum í tilraunarskyni, í svona u.þ.b. tvær vikur eða svo. Það dugði nú ekki lengur en svo, þar sem ég svaraði víst aldrei nafninu. Þegar kom svo að nafngift frumburðarins rak okkur hjónin í rogastans, þar sem við höfðum valið nöfn eftir miklar vangaveltur og umhugsun. Þegar barnið svo loksins fæddist og reyndist vera dama með dökkt hár og strípur í því, urðu þau nöfn sem við höfðum ætlað að nota ónothæf. Í gang fóru tvær langar nafnaleitarvikur og fyrir valinu varð þetta annars fína nafn Bríet Huld, enda daman fram úr hófi ákveðin frá degi eitt. Þetta reyndist þó einfaldara með seinni nafngiftina þar sem kauðinn okkar litli hefur alltaf verið svolítill Elí Berg, reyndar fannst mér nafnið Helgi líka passa við hann, kannsi vegna þess hve líkur hann var pabba sínum fyrst eftir fæðingu. Ef ég hins vegar hefði fæðst í enskumælandi landi hefði kvenmannsnafnið Grace án efa orðið fyrir valinu, nema ef eiginmaðurinn hefði verið þeim mun ákveðnari og staðfastari í þessum málum.
Í dag er ég sátt við öll nöfnin í kringum mig, ansi sátt við Addýjar nafnið, enda svolítið stjörnulegt. Ég meina: Addý Guðjóns, frekar flott ekki satt? ;) Bríet Huld (nafnið þýðir í raun hin háa huldukona) og Elí Berg (Elí þýðir víst guð og Berg er náttúrlega berg eða bjarg) eiga bæði nöfn mikilla kvenmanna og standa vel undir því að mínu mati. Nafnið Helgi er náttúrlega guðdómlega fallegt líka!

Þar til síðar...

fimmtudagur, mars 23, 2006

Skattamál

Við vorum að gera skattaskýrsluna áðan, eða réttara sagt byrjuðum á henni (enn vantar gögn). Þvílík endemis vitleysa og guð minn góður hvað þetta er leiðinlegt! Ég skil ekki fólk sem starfar sem endurskoðendur (þá er ég ekki að tala um fuglafræðinga). Endurskoðendur skilja mig ábyggilega ekkert frekar en ég þá, en það er allt önnur ella.

Þessi skattamál eru nú ekkert búin að ganga neitt sérstaklega smurt. Það hófst nú á því að þegar við loksins höfðum fengið veflykilinn sendan til tengdó uppgötvuðum við okkur (aðallega mér þó) til mikillar skelfingar að ég var ekki skráð sem maki Helga. Það var bara tvennt í stöðunni, annað hvort hafði minn elskulegur eiginmaður lokkað mig til að skrifa undir skilnaðarpappírana sofandi, eða ég var hreinlega dauð. Mér fannst síðari kosturinn líklegri þar sem ég trúi í fyrsta lagi ekki slíkri óiðjan eins og að skilja við mig upp á Helga, honum dettur það vonandi aldrei í hug, auk þess sem heimilisfólkið hefur títt látið eins og það heyri ekki í mér, sem væri að sjálfsögðu eðlilegt ef ég væri farin yfir móðuna miklu. Makaleysi Helga var þó ekki það eina sem rangt var í skattaskýrslunni heldur virðist svo vera sem öll þessi plögg og pappírar sem síðustu vikur okkar sem ekta Íslendingar fóru í að fylla út og koma á rétta staði hafi glatast, því hann var þann 1. des. 2005 skráður með lögheimili í Goðatúni 7 þrátt fyrir að vera í þjóðskrá skráður í Danmörku. Frekar undarlegt allt saman. Minn elskulegur tengdafaðir ákvað þó að kippa í spotta fyrir okkur og spjallaði aðeins við þá hjá skattinum og fékk þetta leiðrétt. Þannig að í dag erum við fjölskyldan öllsömul skráð í Goðatún 7. En saman þó.

Í þessu veseni öllu saman ákvað Helgi að athuga með Póstinn og fá úr því skorið hvers vegna lítill sem enginn póstur hefði borist til umboðsmanns okkar heima. Þá kom í ljós að við vorum enn skráð í Goðatúninu hjá þeim, okkur til ómældrar gleði, enda ekki eytt neinum tíma í að koma öllum pappírum, eins og áður sagði, á rétta staði rétt áður en við komum hingað út. Ég man meira að segja eftir þessum litla snepli sem ég fyllti út uppi á einhverjum Hálsi þarna í Reykjavíkinni. Ég var léttklædd sökum hita og sólin skein, ég var á jeppanum þeirra mömmu og pabba og fyllti út einhvern gulan (að mig minnir) pinkulítinn snepil. Það er ekki að undra að gögnin týnist ef þau eru ekki stærra en sem nemur nafnspjaldi!

Jæja nóg af rausi í bili.

mánudagur, mars 20, 2006

Glaðningur að heiman

Þá er enn einni sældarvikunni lokið. Við fengum góða gesti í síðustu viku, eins og vikuna þar á undan. Siggi Finnur og Magga Ásta komu til okkar á mánudaginn og dvöldu fram á fimmtudag. Hann Bingó okkar kom svo til okkar á laugardaginn en þorði nú ekki að staldra lengur við en í rúman sólarhring í fyrstu atrennu, hann bar reyndar fyrir sig námskeiðissókn í Kaupmannahöfn, einmitt!
Það er alveg svakalega ljúft að fá til sín vini að heiman. Alveg afskaplega notalegt. Það er heldur ekkert verra (en þó nokkur óþarfi) að gestirnir koma alveg drekkhlaðnir góðgæti eins og Íslendingar einir skapa það! Séríslenskt Cheerios og Cocoa Puffs í bland við hangikjöt og flatkökur eru oftar en ekki í farteskinu, ásamt harðfiski (munaði sem maður leyfir sér annars aldrei þegar maður sjálfur er búsettur á klakanum!), fullt af sælgæti (sem verður nú ekki til þess að maður grennist, enda ekki tilgangurinn með förinni hingað út), skyri og Mysingi fyrir dótturina. Bingó braut þetta þó upp og færði okkur nýja diskinn með Baggalút og íslenskt brennivín! Þetta er að sjálfsögðu mikil björg í bú, þar sem við erum jú fátækir námsmenn í útlöndum, ja, ég í það minnsta. Það fyndna við þetta er (ekki misskilja mig, ég er mjöööööög þakklát fyrir allar þessar góðu gjafir!) að það dettur engum í hug að banka upp á hjá manni á meðan maður býr heima og færa manni svona eins og einn Bónuspoka fullan af mat! Nei, þá þarf maður að sjá um sig sjálfur og hana nú! Reyndar uppsker maður nú einstaka sinnum matarboð og afmælisveislur, með kökum og öðru góðgæti hjá þessu sama fólki og sendir manni glaðninginn út. Svo trúlega eru sendingarnar svona einskonar sárabætur fyrir það að maður kemst ekki í boðin heima og er þar af leiðandi útundan ef fólk sendir manni ekki eitthvað ætt sem nemur því sem maður annars hefði innbyrgt í matarboðinu eða veislunni. Sniðugt!
Ég segi því bara: TAKK FYRIR MIG! Ég ætla að demba mér í Nóa-kroppið og Appólólakkrísinn. Ummm...

sunnudagur, mars 12, 2006

26

Mikið getur maður verið klikkaður. Á árunum í kringum fermingu hlakkaði ég alveg svakalega til þess að verða 26 ára. Ég veit ekki hvers vegna, en þessi tala var eitthvað svo heillandi. Ég trúði því að þá yrði ég búin að mennta mig og komin á vinnumarkaðinn, búin að stofna fjölskyldu og gæti leyft mér hvað sem er! Utanlandsferðir tvisvar, ef ekki þrisvar, á ári og sumarbústaður í kyrlátu rjóðri í fallegum dal á Íslandi. Veit ekki hvers vegna, en þetta stóðst ekki og kemur trúlega ekki til með að standast hvursu gömul sem ég verð. Ég vona þó að ég fái einhvern tímann fasta vinnu þegar ég er búin með námið, fjölskyldan er jú komin (allavega hluti hennar) en sumarbústaðurinn lætur bíða eftir sér og mér finnst ekki taka því að blæða í utanlandsferðir nema til þess að setjast að í nýju landi. Þessum framtíðardraumi mínum skorti alla almenna skynsemi og hann var alveg laus við hugsunina um þær áhyggjur og pælingar sem fullorðinsárunum fylgir. Í dag þegar ég færist óðum nær þrítugsaldrinum vildi ég hins vegar óska þess að hafa áhyggjuleysi unglingsáranna, ég vildi óska þess að maður þyrfti ekki að greiða neina reikninga og að maður hefði ekki hugmynd um fjárhagsstöðu heimilisins (þið þurfið þó ekki að fara að hafa áhyggjur af okkur, hér er allt í fína) og gæti bara eytt þeim peningum sem manni áskotnast í föt og fleira skemmtilegt. Börnunum harðneita ég þó að skila, sem og eiginmanninum.

Já, þær eru furðulegar þessar hugmyndir um fullorðinsárin sem maður hefur sem unglingur.

föstudagur, mars 10, 2006

Tréklossar

Hvað er málið með klossa? Tréklossa. Ég hélt þeir fyndust varla orðið í dag nema þá á þeirri deild Þjóðminjasafnsins sem tileinkuð er áratugunum upp úr miðri síðustu öld og í Hollandi. Þeir eru ljótir, harðir og skýla manni ekki! Þrátt fyrir þessa ókosti klossanna og mikils úrvals góðs skófatnaðar kjósa margir "samlandar" mínir að ganga í tréklossum og það í snjó og slyddu! Í verkamannavinnu úti við og hvað eina. Þetta er mér gersamlega óskiljanlegt, enda kýs ég heldur skjólbetri skófatnað. Reyndar á ég það nú til að smegja mér í kínaskóna þegar ég er í pilsi, en það er ekki oft og þegar svo ber undir ferðast ég í bíl, ekki á hjóli. Reyndar virðast Danir ekki trúa á veturinn eins og við Íslendingar. Þeir nota hvorki húfur né vettlinga, á meðan við Frónverjar notum hvert tækifærið til að dúða okkur frá toppi til táar, við erum ekkert sérlega "cool" þegar upp er staðið.

Góða helgi gott fólk!

mánudagur, mars 06, 2006

DANSKT foreldraráð

Það er ýmislegt sem maður lætur plata sig í! Ég var að koma heim af foreldraráðsfundi í leikskólanum hjá Bríeti Huld. Ég tek það fram að þetta er DANSKT foreldraráð með DÖNSKUMÆLANDI fólki og mér! Þegar á staðinn kom fékk ég mér að sjálfsögðu sæti meðal fundargesta, sem voru átta talsins og ég. Eins og skylda er hafði ég með mér pappír og skriffæri (enda langskólagengið letidýr sem kann bara að útbúa mig fyrir næstu kennslustund). Það voru reginmistök! Ég var gripin glóðvolg við það að draga herlegheitin upp úr töskunni og með það sama kosin ritari fundsins. Það verður gaman að sjá á þeim hinum upplitið þegar þau lesa fundargerðirnar á íslenskuskotinni dönsku. Kannski ágætt að leggja fyrir þau verkefni og athuga hvað þau skilja í okkar ástkæra ylhýra.
Já, það má því segja að ég hafi afkastað miklu eftir að Bríet Huld byrjaði í leikskólanum fyrir hálfu ári síðan, komin í foreldraráð (sem betur fer sem varamaður) og dregin í ritarastarfið á fyrsta fundi, varla skrifandi á tungumálinu! Þetta er töluvert "betra" en heima þar sem það næsta sem ég komst foreldraráðinu á Kirkjubóli var vöfflubakstur á opna húsinu þegar hún var nýbyrjuð!

Morgunstund gefur gull í mund

Ég dáist að Dönum. Þeir eru vaknaðir fyrir allar aldir og komnir á hjólin eða út að skokka. Helgi mætir í vinnuna klukkan sex á morgnana þar sem hann er núna og þangað hjólar hann þessa dagana, sem ekki væri athugavert nema fyrir þær sakir einar að vinnustaðurinn er nokkuð langt frá heimilinu, en hann er náttúrlega bara hetja, maðurinn minn. Nema hvað, að þegar hann leggur af stað tuttugu mínútur yfir fimm þá er brjáluð traffík, bæði hjól og bílar. Heima var hann á ferðinni á sama tíma og einu bílarnir sem hann mætti þá voru löggubílar og einhverjir tveir í viðbót! Og hjól? Nei, ekki á klakanum klukkan hálf sex! Hins vegar er mikil umferð seint á kvöldin heima, ólíkt því sem hér gerist, hér er allt komið í ró um tíu-ellefuleytið.
Ekki nóg með að Daninn hjóli svo snemma dags, heldur getur hann gert nærri því hvað sem er á þessum farartækjum. Ég hef mætt þó nokkrum sem reykja "undir stýri" og í gær mætti ég tveimur guttum sem komu beint af Makkaranum borðandi sinn hvorn hamborgarann! Ég á í mesta basli að halda jafnvæginu með eitt barn aftan á hjólinu og skólabækur framan á því, hvað þá að ég gæti einbeitt mér að því að innbyrgða nokkuð á ferðalaginu, annað en súrefni.
Mér reynist það þrautinni þyngra að tileinka mér þessa annars góðu siði Danans, mér er það gersamlega ómögulegt að fara á fætur fyrir klukkan sjö.

laugardagur, mars 04, 2006

Mömmudekur

Jæja, þá eru notalegheitin búin í bili. Mamma og Andrea fóru heim í dag. Það er búið að vera ansi gott að hafa þær hérna hjá okkur. Krakkarnir eru náttúrlega sérlega hrifin af þeim og að sjálfsögðu var mikið dekrað og knúsað. Notó, notó... Ég fór nú reyndar í skólann á meðan þær voru hérna, en sleppti þó tveimur tímum, einum á mánudaginn til að geta sótt þær (reyndar kom Helgi með þessa líka hræðilegu tillögu að hann gæti sótt þær svo ég gæti klárað skólann, einmitt!) og svo einum tíma á fimmtudaginn svo hægt væri að klára nauðsynlegustu verslunina. Krakkarnir nutu heldur betur góðs af því að hafa kerlurnar því þau fengu að vera meira og minna heima alla vikuna að undanskildum stóra verslunardeginum á miðvikudaginn. Okkur þótti skynsamlegra að senda þau í daggæslu en að hafa þau með í leiðangurinn. Á fimmtudaginn fórum við svo öll sömul á Jensens Bøfhus að borða, ummm... staðurinn fær hina bestu einkunn fyrir frábæran mat. Reyndar var þjónustan ekkert sérstök hvað varðar tímasetningu borðhalds, en það er sjálfsagt okkur að kenna þar sem hluti hópsins (við komumst ekki öll í fjölskyldubílinn svo hópnum var skipt í tvennt, í fjölskyldubílinn og leigubíl) kom rúmum fjörtíu mínútum of seint á staðinn vegna óviðráðanlegra umferðartafa, sem aðallega stöfuðu af lokuðum húsasundum og einstefnugötum sem ekki eru merktar inn á hið annars góða kort af Óðinsvéum. Ökumaðurinn (ég) varð síður en svo glaður og höfðu ungir jafnt sem aldnir farþegar í bílnum áhyggjur af versnandi geðheilsu hans. Það rættist þó úr öllu og við fundum þetta fína bílastæði beint fyrir utan matsölustaðinn og fórum södd og sæl heim.
Það er svo fínt að fá svona gesti (sem reyndar eru eiginlega ekki gestir) til sín og fara með þeim í leiðangra um bæinn sem maður býr sjálfur í en gefur sér kannski ekkert alltof mikinn tíma til að skoða. Til dæmis komst ég að því að Bilka er bara ansi áhugaverð búð og það finnst þessi líka fíni Bistró-staður innst inni í sjálfri versluninni. Þetta kom í ljós eftir lengstu dvöl sögunnar í búðinni, heila fjóra tíma eða þar um bil. Það er ekki þar með sagt að þetta hafi verið langdregin ferð, alls ekki, bara róleg og fín, ekkert stress, engin læti. Eftir ferðina í Bilka fór amman fram á það að við hjónin gerðum okkur eitthvað til gamans þar sem við hefðum nú pössun, svo við drifum okkur út að borða aftur, í þetta sinn á mexíkóskan stað, og síðan í bíó þar sem við sáum þessa líka fínu mynd um Johnny Cash, Walk the Line.
Þær mæðgurnar yfirgáfu okkur svo í morgun í fylgd Tinnu, Dadda og Emelíu Agnar.
Það er óhætt að segja að það verði tómlegt í kotinu næstu daga.

Megi þið eiga góða helgi.