laugardagur, febrúar 25, 2006

Landafræðileikur

Það er nú meira hvað það er margt sem skyndilega orðið mikilvægara en lestur námsbóka. Tengdafaðir minn sendi okkur hjónum ansi skemmtilegan leik um daginn, landafræðileik. Það kom berlega í ljós, það sem fyrir var svosem vitað, að ég "sökka" í landafræði, eins og maður segir á góðri íslensku.
Ég ætla að reyna að setja þetta einn, en lofa engu þar sem tölvusnilldin er mér ekki meðfædd.

Eitthvað gengur þetta illa þar sem þetta er power-point skjal, en ef einhver getur aðstoðað mig þá endilega láta vita!

Adios.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Vörugallar

Þá er það ljóst, ég er stórgölluð vara! Það er bara tímaspursmál hvenær Helgi skilar mér til föðurhúsanna. Þegar hann "tók við mér" drakk ég kaffi í miklu magni, þambaði bjórinn af krafti og fylgdist meira að segja svolítið með fótbolta. Í dag hefur hausverkur komið í veg fyrir kaffidrykkju, gómfyllubólga aftrað bjórþambi og allir fótboltaguttarnir sem ég þekki nöfnin á eru komnir á ellilaun, nema að sjálfsögðu David Beckham, sem ég hef aldrei haldið neitt sérstaklega upp á, hann er alltof metrosexual, eða hvað það nú heitir aftur. Ég get ekki heillast af manni sem ber bæði meira og töluvert dýrara glingur en ég! Reyndar hefur Helgi minn aðeins verið að minna mig á þessa áðurnefndu "kosti" mína, enda fylgist hann með boltasparki, sötrar ölinn og kaffið rennur í stríðum straumum ofan í hann. Ég er sem sagt ekki sú sama og hann kynntist og giftist. Ástæðuna fyrir breytingunum á mér og minni líkamsstarfssemi má samt í raun rekja beint til sjálfs eiginmanns míns! Því breytinganna varð fyrst vart eftir að ég hafði gengið með börnin tvö. Ég vil segja þetta ansi góð skipti, börn í staðinn fyrir kaffi og bjór! Enn hef ég þó te og léttvín. Ætli þetta sé ekki bara þroskamerki, te er eitthvað svo dannaðra en kaffi, allar fínu frúrnar drekka te, og er bjór ekki bara fyrir láglaunastéttir? ;) Hehe...
Góða helgi félagar!

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Áskorun

Þá fæ ég loksins að taka þátt í einhverjum af þessum leikjum sem eru í gangi hérna á netinu. Katla pjatla skoraði á mig.

4 störf sem ég hef unnið um ævina:
Afgreiðsla í kjötborði Nóatúns, ásamt öðru, í heil 8 ár og það fyrir tvítugt!
Skrifstofumaður á Fangelsismálastofnun Íslands.
Skrifstofumaður í Ferskum kjúklingum.
Aðstoðarmaður talmeinafræðinga á Grensásdeildinni í alltof stuttan tíma (varla hægt að telja með en geri það samt!).

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
Sense and sensebility.
Sound of Music.
Durty dansing.
Grease.

4 staðir sem ég hef búið á:
Vestmannaeyjar.
Breiðholt.
Mosfellsbær.
Garðabær.

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Friends.
Despireit hásvæfs.
The 70's show.
CSI.

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Hraunholt, nokkrum sinnum ;)
Svíþjóð.
Spánn.
Vestmannaeyjar.

4 síður sem ég skoða daglega (að undanskildum bloggsíðum):
SDU-síðan mín.
Heimasíða barnanna, að sjálfsögðu.
Mbl.is
Bt.dk

4 matarkyns sem ég held uppá:
Humar.
Kjúklingapasta.
Bláberjamarineruð kalkúnabringa a'la Helgi minn.
Grillað hvítlaukskryddað lambalæri.

4 bækur sem ég gríp oft í:
Dönsk-íslensk orðabók (nú um mundir í það minnsta) ásamt fleiri góðum orðabókum.
Skólabækur og mikið af þeim!
Barnabækur, á hverju kvöldi.
Biblíuna er gott að grípa í og lesa smá bút.

4 staðir sem ég myndi heldur vilja vera á núna:
Á sólarströnd með fjölskyldunni og með ískaldan Malibu í ananas.
Í Nýju Jórvík með karlinum.
Á Íslandi að dekra við öll litlu frændsystkinin "mín" og strjúka bumburnar á þeim verðandi.
Á ferðalagi um Suður-Ameríku.

4 drykkir sem ég elska:
Vatn.
Gott rauðvín og hvítvín.
Te.
Cafe Latte.

4 sem ég skora á að gera þetta:
Hrönn, Halla Rós, Gillí og Lísa skvísa.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Trivjal og Júró

Sælir félagar.
Við fjölskyldan áttum góða helgi. Við skutumst í smá túr til Sønderborgar þar sem við létum Kristrúnu, Alla og peyjana þeirra tvo dekra við okkur frá laugardegi til sunnudags. Við þökkum þeim kærlega fyrir okkur! Þau sýndu okkur bæinn sinn og keyrðu meira að segja með okkur út fyrir bæjarmörkin. Mikið afskaplega er fallegt þarna á suður Jótlandi. Allt eitthvað svo krúttlegt.
Við fullorðna fólkið höfðum það svo notalegt á laugardagskvöldið á meðan grislingarnir léku sér saman og fengu vídeópartý. Hvað er betra en rauðvín yfir Húsinu á sléttunni? Já, þið lásuð rétt! Þeir hérna í Danaveldi eru farnir að sýna Grenjað á gresjunni, eins og það var víst líka kallað, við mikinn fögnuð minn en minni fögnuð Helga míns. Þannig er nefnilega mál með vexti að þættirnir eru sýndir seinnipartinn á laugardögum og hann sér ekki fram á að ná kerlu út fyrir hússins dyr næstu helgar. Nei, við vonum að ég verði nú ekki svo forfallin.
Eins og sönnum Íslendingum sæmir horfðum við að sjálfsögðu á forkeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (ekki furða að þetta sé bara kallað Júróvísjón!), reyndar ekki fyrr en á sunnudaginn þar sem álagið á síðuna var svo mikið að svo virtist sem Friðrik Ómar syngdi með rödd Regínu Óskar. Hljóðið og myndin voru ekki alveg í takt og allt hikstaði þetta. Því var Trivjal persjút tekið fram í staðinn. Ekki var nú skemmtunin síðri við spilið. Synd að maður skuli ekki spila meira, eins og þetta er skemmtilegt. Maður kemst að því hvað maður er alveg afskaplega ófróður eitthvað. Að sjálfsögðu vann Helgi minn, enda vel gefinn maður og fylgist grannt með öllu sem fram fer, hvort sem það er í almennum fréttum, íþróttum, bókmenntum eða hverju sem er öðru. Mér hefur aldrei tekist að sigra hann í spurningarspilum (reyndar alltaf spilað eldgamlar útgáfur af Trivjal, þar sem spurningarnar eru frá þeim tíma er ég lá í vöggu en hann var farinn að gefa á garðann og nefna rollur!), en það kemur að því, sjáið bara til!
Lokaslagorð kvöldsins eru því: Takið fram spilin og slökkvið á imbanum!

Eigið góðar stundir.

föstudagur, febrúar 17, 2006

H&M-flipp og glaðningur að heiman

Jibbíííííí... Ég vann 500 dkr. í happaþrennu í fyrradag! Kaupi aldrei svona lottódæmi, en eitthvað fékk mig til að kippa einni með í þetta skiptið, hef ekki einu sinni tekið eftir happaþrennustandinum (reyndar heitir þetta eitthvað annað en happaþrenna, en þið vitið hvað ég á við) áður sem er við afgreiðslukassann hérna í Super Brugsen. Eins og sannri konu sæmir hélt ég, ásamt dótturinni, í verslunarleiðangur í dag til að eyða herlegheitunum. Leiðin lá í H&M (einnig þekkt sem Hendes og Mauritz) þar sem keypt var peysa, skyrta, belti og trefill á frúna, þar sem trefillinn sem gleymdist á Íslandi er þar enn og ekki er von á honum fyrr en eftir rúma viku. Bríet Huld sá þennan líka fína langerma bol með mynd af Bamba, mamman blæddi að sjálfsögðu í einn slíkan fyrir prinsessuna. Svo til að halda karlinum góðum keypti ég einn langerma bol á hann. Prinsinn fékk ekkert nema bleiur og blautþurrkur, greyið litla. Fær meira næst. Ég var ekkert smá ánægð með vörurnar í H&M í þetta skiptið, alls ekki alltaf sem flest er að mínu skapi, enda frekar erfið þegar kemur að fatavali. Þarna var bæði pils og jakki sem mig langaði í og margt annað, auk þess sem ég sá flottar skyrtur á Helga sem þó voru meira svona sumarskyrtur, svolítið svona safarílegt með upprúlluðum ermum og svona, rosa flott. Barnadeildin er nú alltaf flott svo ég fer nú varla að telja allt sem ég sá þar upp! Vá, það verður gaman þegar maður fer í verslunarleiðangur með Katrínarlindarmæðgunum eftir rúma viku! Kent harlí veijt... Það er alltaf auðveldara að kaupa eitthvað þegar það eru gestir hjá manni, þá ber ekki eins mikið á því sem maður keypti og það dettur bara "óvart" ofan í innkaupakörfuna ;)

Í dag fengum við þennan líka fína pakka frá Íslandi. Tengdó sendi okkur ýmislegt góðgæti, reyktan Hraunholtalax, Mysing og Cocoa Puffs ásamt fleiru góðgæti og glaðningi handa börnunum. Takk kærlega fyrir okkur! Daman var reyndar langspenntust yfir Mysingnum og Cocoa Puffsinu, enda hvorugt fáanlegt hér í DK og hún hakkaði í sig heila flatköku (eða réttara sagt hálfa, þar sem flatkakan er náttúrlega skorin í tvennt til hún passi í umbúðirnar, sem yrðu frekar óhentugar með heilum flatkökum!) með Mysingi og það þurfti ekki einu sinni að reka á eftir henni! Yndislegt að sjá barnið borða svona vel, án tuðs og kvabbs. Greinilegt að við þurfum að gerast áskrifendur að Mysingi! Barnið borðar bara kødpølse á brauðið eins og er, að Mysingnum undanskildum. Það er því frekar fátæklegt nestið sem hún fer með í leikskólann, en nú verður breyting á, tvær tegundir af brauðáleggi, takk fyrir!

Við hjónin sátum fyrir framan imbann áðan eins og oft gerist á föstudagskvöldi, við erum hrein samkvæmisljón! Í kassanum var frumsýndur þessi líka fíni þáttur, nýr raunveruleikaþáttur, sem heitir Sexskolen. Hann var frekar fyndin, en samt nokkuð til í því sem fram kom. Hvað fær karla til að halda að spurningin "viltu koma að ríða?" kveiki í manni? Ekki svo að skilja að hún sé notuð á þessu heimili, sem betur fer ekki. Það verður gaman að fylgjast með því hvort hægt sé að fá karlana til að lengja forleikinn úr 2 mín. í 45 mín.!

Megið þið eiga góða helgi, öll sem eitt!

2012

Fór út að kaupa pítsu í gærkvöld fyrir okkur fjölskylduna og gesti frá Sønderborg. Í geislaspilaranum í bílnum er geisladiskur með Villa Vill (ég er svo obboð gamaldags, sbr. umræðuna um Silvíu Nótt!). Eitt laganna sem hljómuðu á leiðinni frá pítsastaðnum, sem er frekar langt fyrir ofan hraðbraut, var framtíðarlagið hans (man aldrei nöfn á lögum né heldur nöfn á flytjendum og þar sem diskurinn er skrifaður er ég að sjálfsögðu ekki með neitt yfirlit yfir lögin) sem fjallar um árið 2012. Það sem mér þótti frekar fyndið var þessi framtíðarsýn sem er svolítið mikið út úr kortinu og þó ekki. Í því er sungið um hvernig fólk fær sér orðið sprautu í stað þess að fá sér í glas, býr til börn með pilluáti, að búið sé að malbika tunglið og så videre. Þessi texti er náttúrlega til gamans gerður, en þrátt fyrir það er töluvert til í honum. Tækninni hefur fleytt fram og við tölum saman í gegnum tölvur heimshorna á milli og getum meira að segja horft hvert á annað í gegnum þessi tæki. Þetta hefði Villa heitnum Vill trúlega aldrei dottið í hug að gæti gerst! Þó svo að það sé kannski ekki gert með pillum er sú tækni fyrir hendi að hægt sé að búa til börn á annan hátt en á "gamla mátann", sem betur fer. Það sem mér finnst hinsvegar skrýtið er að jafnhliða því sem tækninni fleygir fram ætti maðurinn að þroskast og udvikles, eins og maður segir á góðri íslensku. Það virðist þó ekki að fullu gerast. Reyndar mennta sig sífellt fleiri og fleiri og aukinni menntun fylgir oft víðsýni. Mér virðist þó sem fólk verði sífellt uppteknara að sjálfu sér og gleymir oft þeim sem minna mega sín. Þetta á einnig við um ættingjana. "Ég hef ekki tíma til að fara í afmælið til mömmu, ég þarf að fara í golf." Hvers lags eiginlega afsökun er þetta?! Þetta er nú bara óhaldbært dæmi, ég þekki vonandi engan sem hefur borið þetta fyrir sig þegar kemur að afmæli móðurinnar, en trúlega margir þegar kemur að barnaafmæli ;) Mér finnst rosalega gaman að fara í barnaafmæli, þar hittir maður fullt af fólki, ættingjum og vinum og jafnvel fólk sem maður hefur aldrei hitt áður. Svo gaman, svo gaman! Ekki skemmir það heldur að fá góðar kökur, brauðrétti og þar fram eftir götum!
Þó tæknin sé orðin svo þróuð sem hún er megum við nú ekki gleyma því að fara á mannamót, þó svo það sé hægt að halda fjarfundi á msn-inu! Það kemur alltaf að því að við þurfum á öðrum að halda, góðum vinum sem hægt er að treysta á.
Ég þakka þó fyrir tölvutæknina þar sem ég get talað við allt fólkið sem mér þykir vænt um á klakanum ókeypis í gegnum tölvuna þegar ekki er hægt að skreppa yfir í einn kaffibolla.

Góða helgi félagar!

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Dagmömmur

Ég dáist að dagmömmum. Sérstaklega dagmömmunni hans Elís Bergs. Það er alltaf hreint og fínt hjá henni, hver hlutur á réttum stað og ekkert ryk á gólfinu. Hún er með fjögur börn allan daginn í gæslu og á sjálf þrjú og einn karl! Ég skil þetta ekki. Ég á bara tvö börn og einn karl (sem hreyfir sig nú reyndar hérna heima og hjálpar til við ýmis heimilisstörf) og mér er það gersamlega ómögulegt að halda öllu í röð og reglu. Reyni eins og ég get, en það er erfitt þegar maður er ekki heima nema brot úr degi og þá eru börnin að sjálfsögðu líka heima. Þess vegna eru miðviku- og föstudagarnir góðir, því þá er engin kennsla. Þá þeytist kerla um íbúðina til að setja dúkkur, bíla og bolta inn í herbergið og raða bókunum í hillurnar, býr um (það gerist ekki hina morgnana sökum anna við umhirðu barna) og sest niður við tölvuna í svona eins og hálftíma (matartíminn) og sest svo við lestur. Yndislegt alveg.
Það er annað sem ég skil ekki. Mér er það ómögulegt að finna út úr því hvernig dagmömmur fara að því að klæða þessa fjóra til fimm grislinga sem þær hafa í sinni umsjá í einu! Þær fá varla neitt barnanna til að sjá um þessa hluti sjálf þar sem þau eru nú yngri en þriggja ára. Þetta reynist mér hin mesta þraut hérna á morgnana, að púsla því saman hvernig ég klæði þau án þess að þau hlaupi frá mér. Reyndar er Bríet Huld farin að klæða sig sjálf, þegar hún nennir og það er ekki æði oft. Elí Bergi finnst ekkert leiðinlegra en að láta klæða sig og bursta í sér tennurnar, svo það eru alltaf smá slagsmál á milli okkar mæðginanna þegar kemur að hreinsun og klæðnaði.
Dagmömmur eru snillingar. Því ekki nóg með að þær geti haft allt hreint og fínt og klætt allt liðið í einu, heldur geta þær látið börnin sofa í einu!
Best að koma sér að því að lesa.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Í sól og sumaryl...

Gleðilegan Valentínusardag!
Eða er það ekki það sem maður segiar? Spyr sá sem ekki veit. Er því miður ansi fáfróð um Ameríska siði, þessi er þó, eins og flestir þeirra siða sem viðhafðir eru í "landi tækifæranna", ekki upprunalega þaðan, ekki frekar en nokkuð annað. En hvaðan eru siðir upprunalega? Við tölum um okkar íslensku siði, en eru þeir í rauninni íslenskir? Er þeim ekki bara taldir íslenskir þar sem við Íslendingar erum þeir einu sem enn viðhalda þeim? Nú væri gott að vera búinn að læra eitthvað um þjóð- eða mannfræði. Áhugavert allt saman.

Annars verð ég nú að segja fyrir mitt leyti að ég hlakka rosalega til vorsins og sumarsins. Að geta spókað sig um á léttum klæðum, svitakirtlunum mínum til ómældrar ánægju en samborgurum til ónota. Ummm... sól, sumar og pils. Eftir hjólaferðir undanfarna daga er ég farin að þrá það að geta verið sómasamlega til fara. Ég kann ekki enn þá kúnst að klæða mig upp og hjóla svo. Svo ég er alltaf eins og illa undin tuska í skólanum. Enn sé ég þó sóma minn í því að taka með mér auka bol, svitalyktareyði og þvottapoka. Get ekki hugsað mér að setjast inn í kennslustofu fulla af saklausu fólki illa lyktandi og rennsveitt. Ojojojoj...
Reyndar fórum við hjónin áðan og keyptum hjólastand aftan á bílinn, svona fyrir neyðartilfelli þegar frúin getur ekki meir ;)

Jæja, þetta er nóg í bili.

Ég auglýsi hér með eftir sól og sumri!

Adios.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Evróvísjónathlægi

Þökk sé internetinu get ég fylgst með hinni alíslensku íþrótt, Evróvisjón, héðan frá DK. Ég hlustaði á lögin um daginn og verð að viðurkenna að skoðanir mínar eru á öndverðu meiði við skoðanir flestra á aldrinum 15 til 30! Mér finnst Silvía Nótt HRÆÐILEG! Við yrðum fyrst að athlægi ef við sendum hana til keppni. Þrátt fyrir að aðrar þjóðir hafa komist upp með að senda fáránleg atriði í keppnina, er ekki þar með sagt að við verðum að apa það upp eftir þeim. Keppnin hefur verið á niðurleið í nokkur ár núna, sökum fáránleika og klæðaskorts. Hvað með að taka BESTA lagið í staðinn fyrir FÁRÁNLEGASTA lagið? Það hefði verið í lagi að senda Botnleðju á sínum tíma, enda eru þeir tónlistarmenn og vita nokkurn veginn hvað þeir eru að gera. Silvía Nótt er hlutverk leikkonu og á ekki við í þessari keppni, að mínu mati. Lagið sem Regína söng var yfirburðalag, enda frekar íslenskt eitthvað, ekki þessi samansetta Evróvísjónklisja eins og lagið sem Birgitta syngur. Það er ekkert skárra en lagið sem Silvía Nótt flytur. Hvenær höfum við svosem komist langt á því að flytja lag sem við HÖLDUM að sé einmitt Evróvísjónlagið? Jú, jú, kannski komumst við langt á lagi í flutningi Silvíu Nætur, mér þykir það bara ekki keppninni sjálfri til framdráttar ef þetta er orðin furðufatakeppni.
Jæja, þá er það komið á framfæri.
Áfram Regína!

föstudagur, febrúar 10, 2006

Ofnæmi fyrir áfengi?

Ég uppgötvaði mér til skelfingar um daginn að svo gæti verið að ég hafi ofnæmi fyrir áfengi. Undanfarið hef ég tekið eftir því að ef ég fæ mér einn öl eða eitt rauðvínsglas bólgnar gómfyllan stundum upp og ég fæ vægan höfuðverk. Þetta á sem betur fer ekki alltaf við, en þetta hefur aukist ef eitthvað er. Ekki svo að skilja að ég liggi í bleyti hérna í Danaveldinu, þó svo það væri nú kannski svolítið auðvelt, enda áfengi á fínu verði, en þau örfáu skipti sem ég fæ mér léttan sopa á ég það til að fá þessi einkenni. Kannski ástæðan sé hreinlega sú að ég drekki nógu mikið. Gera bara eins og Suður-Evrópubúinn, eitt glas á dag kemur skapinu í lag. Ég þarf líka að athuga þetta betur, hvort þetta séu einhverjar sérstakar tegundir sem gera þetta að verkum, eða hvort þetta sé samsetning vínsins og einhvers ákveðins fæðis.
Verkefni helgarinnar... ;)

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Stúdíugrúppur og vespur

Ég sá flottan gæja í gær. Hann var um sextugt (alltaf verið svolítið heit fyrir mér eldri mönnum ;)) og þeyttist um á rauðri vespu, með hjálm í stíl. Ég sá fyrir mér að svona yrði Helgi minn eftir nokkra áratugi, en með mig í hliðarvagni með prjónana mína. Flott afa- og ömmupar, ekki satt?

Reyndar er búin að vera svolítil krísa hjá mér undanfarið. Þannig er að okkur var skipt í stúdíugrúppur í upphafi skólaársins. Ég lenti í grúppu með þremur öðrum skvísum, öllum dönskum, að sjálfsögðu. Í fyrstu virkaði hópurinn vel og við unnum ágætlega saman, en svo fór að bera svolítið á því að ég væri útlendingur. Ein þeirra átti það svolítið til að tala niður til mín, að ég tel vegna þess að ég er útlendingur, og því kom það út eins og ég væri vitlaus. Þessi sama dama er svolítið stjórnsöm og þegar ég lendi í aðstöðu þar sem slík manneskja þykist hafa rétt fyrir sér, en ég veit að það sem hún segir er einfaldlega rangt, get ég ekki setið á honum stóra mínum og það skapar kannski oft óþarfa leiðindi. Kannski vegna þess að ég er sjálf svolítið stjórnsöm, ég veit ekki. Þar sem stúdíugrúppur vinna verkefni saman, varð það mér ekki að skapi þegar ég mætti á einn fundinn og þær voru búnar með verkefnið sem fyrir lá, takk fyrir! Ég gat ekki annað en dregið mitt verkefni upp, sem ég var búin að fara yfir heima og "grófgera" og bera saman við lausnirnar þeirra. Í ljós kom að ekki var fullt samræmi á milli lausnanna og ég fór að spyrja þær út í nokkur atriði í verkefninu (það sauð á mér!). Það var því frekar notalegt þegar þær komust að þeirri niðurstöðu, með aðstoð kennarans, að ég hafði rétt fyrir mér, ekki þær! Ohhh... hvað ég varð glöð! Ekki nóg með þetta heldur ljósrituðu þær kafla úr bók sem við þurfum að nota, um daginn, án þess að athuga hvort ég vildi ekki líka fá ljósrit, að sjálfsögðu ber grúppan sig saman og lætur hinar vita ef svona nokkuð á að gera. Þetta var dropinn sem fyllti mælinn og í dag skipti ég um hóp og fór yfir í grúppuna hennar Tinnu, sem var búin að bjóða mér þetta í lengri tíma. Aumingjast stelpan, losnar aldrei við mig! Þar finn ég að ég er velkomin og geri ráð fyrir því að hlustað verði á mig þegar ég tala, í stað þess að það verði látið sem enginn heyri neitt, eins og tvær hinar stúlkanna áttu til að gera. Ég er að tala um rétt rúmlega tvítugar stelpur, frekar pirrandi! Reyndar er ein þeirra mjög fín, enda þroskuð nærri þrítug kona, móðir tveggja barna og tilbúin að skilja mig á minnim lélegu dönsku. Henni þakka ég samstarfið!

Bless í bili...

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Skin og skúrir

Skrítið skrítið. Síðasta færsla hefur dottið út, ég hef séð að það hefur reyndar gerst hjá fleirum sem eru með síðu á blogspot.com, svo þetta er svolítið furðulegt.

Héðan er annars fínt að frétta. Allir við hestaheilsu og svona. Helgi er búin að vera að vinna síðan á mánudaginn og verður með vinnu út vikuna, hann byrjar klukkan sex og er til tvö (og það er fá sex til tvö! Ekki frá hálfsex til fjögur ;)). Vegna þessa þurfum við letingjarnir sem vöknum ekki svo snemma að fara á tveimur hjólum þar sem Helgi þarf bílinn. Það er nú búið að ganga ágætlega, en það er svolítið erfitt að átta sig á því að það fer rúmlega klukkutími í að skila börnunum af sér og það skapar kannski óþarfa stress hjá móðurinni, sem er nú kannski frekar stresssækin þegar tíminn reynir að hlaupa frá henni ;) Reyndar vöknuðu tvær okkar svefnpurknanna klukkan fimm í gærmorgun (Elí Berg fékk að sofa lengur), en eins og góðri svefpurku sæmir kúrðum við mæðgurnar til klukkan að verða sex og vöktum þá draumaprinsinn með léttum kossi á kinn, einhverra hluta vegna vakti það ekki kátínu, óskiljanlegt! Málið var nefnilega það að móðirin þurfti að mæta í skólann klukkan átta. Eins og vanalega gefur hún sér tvo tíma til að taka grislingana og sjálfa sig til, því ferðalagið er langt auk þess sem börnin verða svolítið óstýrlát þegar kemur að morgunverkunum. Það er náttúrlega bara leiðinlegt að klæða sig, bursta tennurnar og þvo andlitið og hendur! Svo þarf maður náttúrlega að tala við hvert einasta korn í hafragrautnum og segja því sögur, því dregst morgunmaturinn stundum á langinn. Allt tekst þetta þó á endanum og mamma getur hlammað sér niður í kennslustund á réttum tíma.

Þar sem ég er nú búin að ferðast á hjóli undanfarna daga hef ég kynnst dönsku vetrarveðurfari svolítið betur. Á mánudaginn var einfaldlega HRÆÐILEGT veður til að hjóla. Það snjóaði á okkur mæðgurnar á leiðinni í leikskólann og skólann, en þegar móðirin hélt heimleiðis um hádegið var komin bullandi ísköld stingurigning (svona á milli þess að vera rigning og haglél), ojojojoj! Það var því frekar ógirnilegur og illa leikinn kvenmaður sem steig inn í íbúðina hérna á Ugluhæðinni. Ég var svo holdvot að eini staðurinn sem hægt var að hafa fataskipti á var inni á baði. Veðrið í gær var þónokkuð betra, ekkert veður á leiðinni í leikskólann og skólann, bara myrkur, en á leiðinni heim seinnipartinn var sólskin og logn, ummm... æðislegt vorveður! Það virðist þó sem veðurguðirnir hafi gleymt sumrinu, því í dag er haustveður, rigningarsuddi og smá vindur, enginn svakalegur þó, en lítt spennandi að hjóla í. Því skellti ég mér bara í náttfötin þegar ég kom heim áðan frá því að hjóla með dömuna í leikskólann og ætla að fara að koma mér í það að lesa. Það er óhætt að segja að í Danmörku skiptast líka á skin og skúrir!

Þar til næst...

föstudagur, febrúar 03, 2006

Auglýsingabransinn

Við karlinn höfðum það gott eftir hádegi í dag. Við fórum í miðbæinn aðeins að stússast, settumst svo niður á kaffihúsi og fengum okkur smá snæðing, ég fékk mér rauðvínsglas með og hann lítinn öl. Ummm... ekki oft sem maður gerir þetta, barnlaus og fínn. Á kaffihúsinu varð ég að verða við kalli náttúrunnar og skrapp því á salernið, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir einar að á salerninu var að finna auglýsingu sem vakti athygli mína, enda þakti hún alla hurðina fyrir framan skálina sjálfa. Þarna var verið að auglýsa p-pilluheimsendingu, sem kemur sér vel þegar maður stendur frammi fyrir því að hafa ekki munað eftir að leysa út lyfseðilinn þegar maður á að taka fyrstu pilluna á nýju spjaldi, sem er afskaplega hvimleitt. Nema hvað, nú er verið að bjóða upp á heimsendingarþjónustu með samráði við lækni svo það ætti að verða mun erfiðara að gleyma að leysa pilluna út. Það sem mér fannst skondið við auglýsinguna var að í textanum var eitthvað sagt á þá leið að nú þyrfti frökenin ekki að hafa áhyggjur af ótímabærri þungun og gæti með góðri samvisku haldið áfram að reyna við sæta barþjóninn. Mér fannst þetta frekar fyndið þar sem þetta var jú á kaffihúsi sem er bar um helgar. Reyndar eru Danir hreinir snillingar í auglýsingagerð. Þeir nota ýmislegt sem kannski er akkúrat á þessari örþunnu línu milli þess sem við á og grófleika, en þeir kunna það líka og fara vel. Í haust var t.a.m. verið að auglýsa hringitóna í síma. Auglýsingin sjálf var á þá leið að það var peyi að leika sér að buddu vinkonu sinnar þegar hann fær upp í sig hár og reynir að spýta því út úr sér sem leiðir til rapps á laglínunni í "Like a Virgin" með Madonnu. Frekar fyndið, pínku gróft en ekki sóðalegt. Þeir eru flottastir í auglýsingabransanum, held ég.

Annars er dagurinn í dag búinn að vera hreinn og klár átdagur. Ég byrjaði morguninn á því að fara í afmæliskaffi til hennar Heidi sem er með mér í skólanum. Reyndar var kaffið hjá Tinnu, en í boði Heidi. Þaðan fór ég á eftirhádegisfundinn með honum Helga mínum og þegar við vorum búin að sækja guttann okkar og ég búin að keyra þá feðga heim fórum við Bríet Huld og fengum okkur ís, ég keypti efni í pils og við versluðum í Bilka, mat og gos, að sjálfsögðu!

Megi þið eiga góða helgi.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Hjólatúr fyrsta skóladaginn

Ég bjóst nú aldrei við því að fara hjólandi í skólann í snjó, en það gerði ég nú samt í dag. Ummm... það var ekkert smá hressandi! Við mæðgurnar fórum fyrst með Elí Berg til Cherie dagmömmu og héldum svo hjólandi glaðar (eftir smá stillingarvesen með hjólið) af stað. Leiðin liggur vanalega í gegnum skóginn sem er milli Højby og leikskólans hennar Bríetar Huldar og Háskólans, en þar sem skógurinn var lokaður vegna ófærðar fórum við hjólastíg sem var vel ruddur og fínn. Það tók heldur ekkert lengri tíma að hjóla þessa leið, sem var töluvert betri en krókóttu malarstígarnir í skóginum, hins vegar er skógarleiðin mun fallegri. Daman sætti sig við þetta, enda langþreytt orðin á bílferðum og tók hjólreiðatúrnum fagnandi. Veðrið var líka fínt, ekki eins kalt og búið er að vera, heldur milt og gott. Hanskar og húfur samt nauðsynlegar.

Í dag var sem sagt fyrsti tími vorannarinnar, og við ekki enn búin að fá að vita hvort við höfum staðist haustönnina eður ei. Þetta var nú reyndar bara einn tími í anatomi, frá tvö til fjögur, en þar sem ég þurfti að koma dömunni í leikskólann ákvað ég að byrja með trompi og var mætt upp í skóla klukkan tíu til að lesa! Geri aðrir betur. Hjólað og lesið sama dag! Frekar flott.

Ég sagði nú reyndar í gær að við þyrftum ekki lengur að hafa áhyggjur af hryðuverkaárásum hérna í DK, en ég held ég hafi haft á röngu að standa. Ef eitthvað er eykst spennan bara. Hér áttu að vera einhver mótmæli gegn mótmælum múslimanna í dag. Allt í volli. Það væri nú svolítið klúðurslegt ef þriðja heimsstyrjöldin stafaði af skopteikningum! Vonandi stefnir þetta nú ekki í slíkan harmleik, enda þykjumst við vera orðin þróuð skepna og vel menntuð. Það hlýtur að hafa sitt að segja.

Hana nú!

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Tjáningarfrelsi

Þá er komið að skýrsluskrifum. Ég hef verið spurð að því hvað sé nú að frétta af Helga. Það er svo sem allt gott að frétta af honum, nema eitthvað gengur það seint fyrir sig að fá vinnu (finnst okkur, en þetta er víst ekkert óeðlilegt, alltaf sama óþolinmæðin;)), reyndar hefur hann verið að fá vinnu sem svokallaður vikar, sem er í raun afleysingar- eða íhlaupamaður, hér og þar. Hann er t.a.m. að vinna við Odense Congress Center í dag og var þar líka um helgina og í gær, svo það verða komnir fjórir dagar þegar hann kemur heim seinnipartinn. Hann er duglegur að sækja um vinnur sem hann sér auglýstar og hann er að reyna allt hvað hann getur til að vera óþolandi atvinnuumsækjandi á atvinnumiðlununum þar sem hann er skráður og mætir þangað með sömu spurninguna hvenær sem honum dettur í hug, "Har du fundet noget arbejde for mig?" Jamm, svo árangurinn hlýtur að fara að sýna sig í fastri vinnu. Þess á milli leysir hann Sudoku, þar sem hann er löngu búinn með allar jólabækurnar (ég á ekki roð í hann þegar kemur að lestri! Hans einkunnarorð eru ein bók á dag kemur skapinu í lag! Ég er enn á bók númer þrjú, gengur frekar hægt).

Annars er fréttin um afsökunarbeiðni Jyllands-posten ánægjuleg á þann háttinn að maður þarf síður að lifa í ótta við hryðjuverkaárásir. Ég hef alltaf verið á móti því að gert sé grín af trúmálum yfirleitt. Ég tel mig vera trúaða kristna manneskju þó svo ég sæki ekki kirkju eins reglulega og ég gerði á meðan ég söng í Bústaðakirkjunni. Trúin er hins vegar, að mínu mati, einkamál hvers og eins. Það þýðir ekkert að þröngva trúnni upp á neinn og heldur ekki að taka hana frá viðkomandi. Ég tel einnig að trúarhópar eigi að bera virðingu hver fyrir öðrum og fólk almennt, stríð leysir engan vanda! Hins vegar finnst mér líka að fólk sem flytur úr heimalandi sínu í annað land þar sem ríkir allt önnur menning og frjálsari, verði að laga sig að aðstæðum, ekki bara tileinka sér það sem hentar hverju sinni. Þeir innflytjendur hérna á norðurhveli jarðar sem koma frá ríkjum þar sem ekki finnst sama frjálsræðið og hér, verða að gera sér grein fyrir því í hvernig þjóðfélag þeir eru komnir. Hér eru ekki sömu gildi og heima hjá þeim. Þegar þessir hópar innflytjenda eru, í þriðju og fjórðu kynslóð, ekki farnir að aðlagast, þá myndi maður nú ætla að eitthvað væri að. Hér ríkir tjáningarfrelsi og það ber að virða. Hvað vitum við um það hvað gert er gegn kristnum mönnum og örðum trúarhópum í ríkjum múslima? Mér skilst að þar sé það refsivert að hafa kross um hálsinn og að kvenmenn hafi hár sitt ekki hulið. Þeir leyfa sér að banna okkar menningu hjá sér, en ætlast til þess að við sýnum þeim og þeirra trúarbrögðum virðingu, sem ég tel flesta Norðurlandabúa gera. Til að allir geti lifað í sátt og samlyndi verða allir að vera tilbúnir til þess. Myndirar sá ég einhvern tímann í haust, þær voru nú ekki svo grófar, að mig minnir, frekar fyndnar, en kannski ekki viðeigandi til birtingar í dagblaði. Hins vegar má maður aldrei taka sig of alvarlega og það að setja menn á dauðalista fyrir það að gera grín að sér gæti nú talist frekar gróft. Það að fara fram á afsökunarbeiðni er nú kannski nærri lagi.

Ég styð tjáningarfrelsi, en hafa ber ávallt í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar.