miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Nákvæmlega ekkert

Þá eru fyrstu þrír dagar starfsnámsins í Nyborg liðnir. Við lærum heilan helling. Börnin eru æðisleg, opin og dugleg. Ekki skemmir það heldur að við fáum að kynnast Fjóni á annan hátt en áður. Þökk sé www.krak.dk að ég rata á þá staði sem ég á að mæta á, því án þeirrar síðu væri mér það ómögulegt að finna blessuðu sveitabæina sem við heimsækjum. Því við erum meira og minna í smábæjum í kringum Nyborg og Ørbæk. Á þessum örfáu dögum hefur okkur líka tekist að læra fyrstu reglu talmeinafræðinga, sem er að borða helst ekkert. Það er mér lífsins ómögulegt, svo ég þakka fyrir þann tíma sem ég fæ í bílnum þegar ekið er á milli staða, þar treð ég í mig og þamba vatn.

Á morgun kemur svo Inga Birna. Það verður stuð að fara til Köben og hitta hana og Boggu! Jahú! Óléttudjamm!

Fór reyndar líka á smá "djamm" um helgina þegar mostrurnar Sigfríð og Berglind voru hér í borg. Reyndar skundaði ég heim eftir borðhaldið, en það var ljúft að hitta kerlurnar.

Góðar stundir!

föstudagur, febrúar 22, 2008

Jibbí, nýr bíll!

Nýi bíllinn er kominn heim. Við sóttum hann í gær, ókum á gamlanum og skiptum um bíl, þó ekki alveg á sléttu! Hvílíkur munur, maður situr hátt og sér langt. Hins vegar þarf ég að æfa mig að aka bílnum, hann er nokkuð breiðari en gamla druslan. En hann er kaggi! Svona, eins og famelíukaggar gerast bestir! Hehe... Myndir af honum birtast sennilega brátt inni á barnalandssíðunni hjá gemsunum, ásamt sveitamyndunum sem komnar eru í hús.

Dagskrá helgarinnar felst mikið í því að aka um og prófa bílinn, athuga hve lengi maður er að keyra til Ørbæk, þar sem ég verð í praktík næstu þrjár vikurnar, og skoða eitthvað meira af Fjóni, geri ég ráð fyrir.

Annars fór ég til ljósunnar í gær, sem góðlátlega gerði mér grein fyrir því að ég væri ekki að fara að skrifa BA-ritgerð í vor. Ef ritgerðin hefði verið praktíkurlaus, hefðu málin horfið öðruvísi við, en stressið verður að hennar mati of mikið og það er aldrei að vita hvað getur gerst þegar unnið er með fólk sem fengið hefur heilaskaða. Svo nú er ég að reyna að komast í starfsnám í byrjun haustannarinnar. Þá getur Helgi líka verið heima í þessar fjórar vikur sem starfsnámið telur og ég get svo skrifað ritgerðina eftir það. Spurning hvað LÍN segir við þessu öllu saman. Þetta reddast, eins og Íslendingar orða alltaf svo skemmtilega ;)

Nú styttist heldur betur í komu Ingu Birnu, sem ætlar að skjóta öllum ref fyrir rass og mæta í fimmtu heimsóknina hingað út! Það verður ljúft að fá kerluna hingað. Fara til Boggu í Köben og fá okkur eitthvað gott að borða og hafa það notó saman. Koma svo hingað til Óðinsvéa og halda áfram að hafa það kósý. Ég hlakka mikið til næstu viku!

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Skýrsluskrif og nammiát

Ég er að reyna að bögglast við starfsnámsskýrsluskrif, það gengur vægast sagt hægt! Hef úr miklu að moða, en kem því ekki niður á blað. Trúlega er enn of langt þangað til skilafresturinn rennur út, sem er í lok mars, að mér skilst. Þetta næst þó trúlega allt í góðum tíma. Hitt er annað mál að það er drulluerfitt að halda sig frá íslenska namminu sem býr uppi í skáp þessa dagana og dregur til sín ómælda athygli mína! Ég er búin að hakka í mig súkkulaðirúsínur í dag, svo maganum er um og ó. Ég er eiginlega við það að kasta upp, svona er að kunna sér ekki hófs! Isspiss... ojojoj...

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Boring

Þar sem almennar umræður duga greinilega lítið til að fá athugasemd frá þeim örfáu sem hér við staldra, reyni ég aðrar leiðir.
7:15, ég vaknaði, tók til nesti handa börnunum og vakti þau. Skúli fúli og prinsessan vildu í föt áður en þau borðuðu, sem er mjög sjaldgæft. Þau fengu sér Cheerios og kaldan hafragraut (sem er hræðilegur; köldum hafragrjónum er skellt í skál og mjólk sett yfir, ásamt smá slurki af sykri, ojojojoj), ég fékk Cheerios, leist ekkert á grautinn.
8:20, öllum skellt í útiföt og haldið af stað í leikskólann. Í dag hjóluðu börnin, en ég gekk. Átti fullt í fangi með að koma í veg fyrir það að hjálpardekkin á hjólinu hans Elís Bergs færu ofan í einhverja skoruna á gangstéttinni og hann dytti, þau standa svo svakalega langt út fyrir hjólið blessuð hjálpardekkin. Við komumst heil og höldnu í Bolden þar sem Marie og Allan á rød stue voru mætt til að taka á móti gemlingunum mínum. Elskulega amman í eldhúsinu var líka komin og hún spjallar alltaf svolítið við mann, er alveg með Íslandsferðina okkar á hreinu og hefur mikinn áhuga á öllu fólkinu í leikskólanum, frábært alveg.
Skil á börnunum taka yfirleitt í það minnsta hálftíma, þar sem tveggja mínútuna hjólaferð fyrir fullorðinn tekur oftast ívið lengri tíma fyrir óstálpuð börn, með litla leggi, sem stíga ekki eins hratt og örugglega á pedalana. Spjall við starfsfólkið er líka órjúfanlegur þáttur af prógramminu. Í dag átti að skjótast með ungana í dýragarðinn á tveimur Christiania hjólum. Þar sitja börnin spennt með öryggisbeltum í kassa framan á hjóli þar sem sæti eru fyrir fjóra, og einn fullorðinn hjólar. Gaman saman!
Þegar heim kom gekk ég frá eldhúsinu, setti í þvottavél og hlammaði mér fyrir framan tölvuna að því loknu. Þar hitti ég nokkra velvalda vini á msn og spjallaði í smá stund. Skoðaði helstu fréttir dagsins, sem ég get ómögulega munað hverjar voru, fyrir utan fréttina um að Fidel Castro sé búinn að segja af sér. Ég lokaði því næst tölvunni og náði mér í Harðaskafa eftir Arnald, sem ég byrjaði á í gær. Steinsofnaði svo í sófanum inni í stofu og er hér mætt með tebolla og kex, þar sem ekkert brauð er til á heimilinu og ég nenni ekki í búðina að gera stórinnkaup á hjóli. Því fá innkaupin að bíða þess að Helgi komi heim á drossíunni.
Þetta var mjög óvenjulegur fyrripartur dags í lífi mínu. Vanalega þarf ég að mæta eitthvert og gera eitthvað, í dag gerði ég ekkert!

Kvittið svo, annars hrynur á ykkur færslum sem þessari!

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Reiðin ólgar

Núna undanfarið hafa geisað miklar óeirðir hér í landi sökum endurprentunar á svokölluðum Múhameðsteikningum í dönskum fjölmiðlum. Í gær voru fyrirsagnir blaðanna á þann veg að ungt fólk hrópaði ókvæðisorðum að málfrelsinu. Stærsti hluti mótmælendanna í fyrrakvöld voru unglingar á bilinu 14-18 ára. Ungt fólk sem varla hefur hugmynd um hvað felst í málfrelsi, sem búið er að berjast fyrir í mörg hundruðir ára. Ungt fólk, sem sótt hefur menntun sína í þá sömu skóla og það nú leggur eld að. Ungt fólk sem litla sem enga virðingu ber fyrir náunganum og eignarétti hans. Hvað á það að þýða að brenna hluti, hús og bíla, kasta steinum að laganna vörðum og slökkviliðsmönnum sem reyna að sinna vinnu sinni, í nafni mótmæla? Trúlega bloggar stór hluti þessara sömu hópa og þeirra er að mótmælunum standa, flestir þeirra eru án efa online á hverjum einasta degi, spjalla saman á msn og senda hver öðrum sms og tölvupóst í tíma og ótíma. Trúlega gera fáir þessara krakka sér grein fyrir að málfrelsi er tjáningafrelsi. Frelsi til að segja það sem viðkomandi vill í þeim miðli sem hann vill, þar af leiðandi eru áðurnefndir miðlar hluti málfrelsis. Að sjálfsögðu skal ávallt höfð í heiðri sú regla að aðgát skal höfð í nærveru sálar og því má það liggja milli hluta hvort endurbirting teikninganna hafi átt rétt á sér eður ei. Hitt er annað mál að málfrelsið er okkur vestrænu þjóðunum mikilvægt, og það eru gildi, sem að mínu mati, við megum ekki glata, en þó verðum við að fara vel með tjáningarfrelsið. Oft má satt kjurrt liggja, eins og Fróði sagði í gamla daga. Við þurfum að uppfræða börn okkar um hve mikilvægt það er okkur að mega tjá okkur, án þess að þurfa að sitja af okkur fangelsisdóm fyrir vikið. Það er greinilegt að ungu mótmælendurnir gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þess.

föstudagur, febrúar 15, 2008

Hér er indælt vorveður

Valentínusardagurinn, segið þið? Hann var víst í gær. Við hjónin erum ekkert sérlega dugleg við að elta svona daga, hvorki konu-, bónda-, né Valentínusardaga. Reyndar finnst mér persónlulega að maður eigi heldur að halda í heiðri konu- og bóndadaginn en Valentínusardaginn, svona til að vera þjóðlegur. Þá veit maður líka upp á hár hvern á að dekra, konuna á konudaginn og bóndann á bóndadaginn, ekki satt? Ég gaf Helga til að mynda frí frá mér og börnunum á bóndadaginn í ár. Svo hann gat gert það sem hann lysti. Góð, ekki satt? ;)
Við brutum þó út af vananum á Valentínusardaginn þetta árið og komum í kring kaupum á bíl. Við fáum hann afhentan á fimmtudaginn í næstu viku. Þeir taka svolítinn tíma í þetta Danirnir, en það er í góðu lagi, okkur liggur ekkert á. Enda á barnið ekki að fæðast fyrr en í maímánuði og fjölgunin er jú ástæðan fyrir þessum bílakaupum okkar, það verður að vera pláss fyrir alla fjölskyldumeðlimi í bílnum, svo hægt sé að transportéra landshorna og jafnvel landa á milli.

Í dag var fyrsti dagur Elís Bergs í leikskólanum eftir laaaaaaaaaaaaaaaaaangt frí, en annar dagur Bríetar Huldar. Það eru allir að hressast, þó prinsessan fari mjög úr slími þessa dagana og það leki svotil endalaust úr nebbanum hennar. Henni þykir þetta merkilegt og heldur yfirlit yfir lit horsins í hvert sinn er hún snýtir sér. Bókhaldið er þó ekki opinbert, en mér skilst að ríkjandi litur sé grænn í stíl við Týsgallana hérna um árið.
En þar sem börnin eru í leikskólanum og karlinn enn í vinnunni, sé ég mér ekki fært annað en að rífa upp á mér ermarnar og drífa í þrifum hér heima, áður en farið verður í að forfæra málverkum, rífa niður skápa, setja aðra upp og kaupa ísskáp. Já, kerlan er komin heim!

God weekend allesammen!

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Hvunndagur er ekkert verri

Hversdagsleikinn er tekinn við, en þó ekki kominn í fastar skorður þar sem drengurinn á heimilinu er búinn að vera lasinn síðan í fyrrakvöld. Daman skaust þó í leikskólann í gær til að hitta vinina, en ákvað að vera heima í dag. Kósýheitin eru óneitanlega mikil og letin sem þeim fylgir eykst með hverjum tímanum sem líður. Mount Þvottur virðist óyfirstíganlegt fyrir óvana göngugarpa eins og mig og fær að bíða betri þáttaraðar í sjónvarpinu, svo hugurinn verði einhvers staðar annars staðar en á sjálfu fjallinu á meðan það hverfur milli handa minna og verður að vel samanbrotnum bunkum hér og hvar.
Nú hangi ég fyrir framan tölvuna á meðan börnin hugga sig við horf á Latabæ. Annars sá heimasætan til þess að móðirin hefði eitthvað fyrir stafni á meðan engin er praktíkin og sendi mig út í búð að kaupa garn í kjól á Babyborn dúkkuna. Rauður skyldi hann verða, eins og kjólinn sem Erika Árný á að fá frá ömmu sinni. Fínt mál, en það sést greinilega á handbragði móðurinnar að hún er vanari að prjóna með grófari prjónum en þeim númer 3. Sem betur fer er þetta einkum ætlað til dúkkuleikja.

Ætli ég noti ekki tækifærið, fyrst ég er að pikka þetta, og þakki fyrir alla gestrisnina sem við nutum góðs af á Íslandi! Takk kærlega fyrir okkur!

mánudagur, febrúar 11, 2008

Komin heim

Komin heim í plúsgráður!
Ferðin gekk vel, börnin voru ljúf og töskurnar skiluðu sér.
Reyndar var ég greinilega komin á sumartíma þar sem ég tilkynnti karli mínum að áætlaður komutími væri 20:40 en ekki 19:40 eins og raunin varð. Þökk sé íslenskri drykkjarjógúrt og leikföngum að börnin dóu ekki úr leiða á meðan beðið var með spenningi eftir pabba.

Þar til næst...