laugardagur, desember 30, 2006

Gleðilegt nýtt ár!

Nú fer árinu 2006 senn að ljúka. Þetta er búið að vera ansi viðburðarríkt og skemmtilegt ár, alveg eins og þau 27 sem á undan þessu liðu. Börnin og eiginmaðurinn standa sig í stykkinu sem góðir lífsförunautar og gott betur en það. Við höfum haft það alveg þrælgott hérna í Danaveldinu, skemmt okkur saman, fengið góða gesti, skoðað okkur um og keypt okkur nýjan bíl og sætt raðhús. Síðustu mánuðir hafa farið í dútl í húsinu, skúrgerð og baðherbergisuppbyggingu auk smá lesturs.
Þó við höfum það gott hérna úti er ekki þar með sagt að við söknum ykkar sem heima eruð ekki neitt. Við hugsum til ykkar á hverjum degi og það kemur fyrir að vildum glöð getað brölt okkur upp í bílinn og skotist í heimsókn, hvort sem er til ættingja eða vina. Okkur þykir óendanlega vænt um ykkur öll, þó svo við séum ekkert sérlega dugleg við að tjá ykkur það.
Það er títt að um áramót líti maður yfir farinn veg og geri árið sem kveður á vissan hátt upp með sjálfum sér. Fólk lofar oft betrun og bót á nýju ári, oft í formi líkamsræktarátaka, reykingarbindinda eða edrúmennsku. Að þessu sinni vil ég stinga upp á því að við snúum okkur heldur að öðrum merkari hlutum, þó svo að líkamleg heilsa sé svo sannarlega mikilvæg er ekki minna nauðsynlegt að hafa sálina í lagi. Ég sting því upp á að við verðum öll betri hvort við annað, lítum í eigin barm og reynum að kynnast sjálfum okkur og horfast í augu við galla okkar og kosti. Það er engin skömm að því að vita hvað maður gerir vel og hvað það er sem betur mætti fara. Ég veit til að mynda að ég get á stundum verið alger hvirvilbylur og oft segi ég hluti áður en ég hugsa, það boðar aldrei gott.
Næsta ár ætla ég að nota til að verða betri manneskja en ég hef hingað til verið. Ég tileinka mér því Gullnu regluna: "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Þetta þarf ekki að vera flóknara!
Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið áramótanna, kæru vinir og ættingjar, nær og fjær!
Gleðilegt nýtt ár!

Hvað finnst ykkur um þetta?

Hvað er til í þessu?

Það er spurning með mig... hihihi!

Helgi er laaaaaaaaaaaaaaang flottastur!

þriðjudagur, desember 26, 2006

Fortsat god jul!

Gleðilega hátíð kæru vinir og ættingjar!
Héðan frá Danaveldinu er allt gott að frétta. Við fjölskyldan höfum átt alveg yndisleg jól. Rólegheitin og átið hefur verið hvað mest áberanda, enda börnin vel öguð í sofaframeftirsiðum. Sjónvarpsgláp og lestur jólabókanna hefur einnig einkennt jólahaldið á þessum bæ. Við brutum þó jóladag upp með því að halda í þetta líka fína jólaboð hjá Daða og Lene í kastala rétt fyrir utan Bogense. Takk kærlega fyrir að leyfa okkur að koma! Það var rosa gaman að fá að kynnast svona alvöru dönsku jólaboði. Fjölskyldan hennar Lene í móðurætt var þarna samankomin í glænýjum kastala (byggður á 13. öld og endurbyggður á þeirri 17.) ásamt okkur Íslendingafíflunum og sjálfum gestgjöfunum, Lene og Daða. Síldin, rúgbrauðið, kambasteikin, heit liverpåstej með beikoni, eplamús með beikoni, íslenskur graflax og sósa og margt fleira fylltu hlaðborðið, að ógleymdu frábæru ostasalati Lenu. Ummmm... allt bragðaðist þetta með eindæmum vel. Fólkið var líka hið besta, talaði meira að segja við okkur, jafnvel þó illskiljanleg værum, enda eru þau vön Daða og hans íslenska hreim, þó danskan hans sé í dag töluvert betri en okkar! Vonandi náum við einhvern tímann í rassgatið á honum. Þegar heim var komið smelltum við kerlurnar í fjölskyldunni okkur fyrir framan imbann og gláptum á Krónikuna og Olsengengið á meðan sá yngsti svaf og sá elsti talaði við systkinin sín.
Hin lifandi vekjaraklukka vakti okkur svo ekki fyrr en klukkan tíu í morgun, því fór fyrripartur þessa dags aðallega í hangs af ýmsu tagi. Þegar mál var komið að fara að hypja sig úr náttfötunum og smella sér í sparigallan var klukkan að nálgast tvö. Þá var stormað út í Hjallesekirkju og hafin upp raustin í takt við undirsöng séra Þóris Jökuls og annarra viðstaddra. Að messu lokinni var haldið áfram að troða í sig, að þessu sinni í boði allra Íslendinganna sem þarna voru samankomnir. Síðan hlupum við veitingarnar af okkur með dansi í kringum jólatréð og hamangangi með einum besta jólasveini sem völ er á, að ég tel (að sjálfsögðu sló hann þó pabba (a.k.a. Kertasníki) ekki út!). Nú erum við familían komin heim, börnin fyrir framan imbann, karlinn í ættfræðina, múttan í tölvuna og hangikjetið í pottinn.
Aðfangadagskvöld var að venju heldur rólegt hérna hjá okkur. Reyndar er greinilegt að unga daman á heimilinu er búin að uppgötva töfra pakkaupptökunnar. Foreldrarnir höfðu vart undan að fylgjast með frá hverjum hvaða gjafir voru og þar fram eftir götunum. Daman var varla búin að rífa utan af einum pakka þegar búið var að ná í annan. Slíkur var offorsinn. Pilturinn var þó öllu slakari, enda tel ég orku hans hafa verið rænt af prinsessunni, systur hans! Ég vil nú nota tækifærið og þakka allar fínu, flottu gjafirnar sem við fjölskyldan fengum þetta árið! Takk fyrir okkur og eins og Daninn myndi segja: fortsat god jul!

sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól, kæru vinir!

Nú er jólaandinn að færast yfir. Helgi er reyndar sveittur inni á baði að redda sturtunni fyrir frúna á heimilinu, svo hún angi hreinlega ekki yfir hátíðirnar. Annars erum við í jólafíling hérna á Bláberjaveginum. Við fengum góða gesti frá Íslandinu í dag, þegar Daði, Lene, Mathias og Sandra komu í heimsókn. Ohhh... hvað það var dásamlegt að fá þau. Alltaf gott að fá einhvern að heiman. Eftir innrás þeirra héldum við fjölskyldan í miðbæinn að skoða fólk og sýna okkur. Þar mæltum við okkur mót við Heiðu gellu og angana hennar. Þetta var nú heldur stutt ferð, en hún endaði með þessari líka góðu samloku á Café Kræz og því allra besta rauðvíni sem völ er á hér á Norðurhveli jarðar, Aberdeen Angus.
Það er búið að skella jólatrénu upp og smella á það þeim örfáu kúlum sem fundust í fórum fjölskyldunnar, prinsessan sá um þetta allt saman og vildi sem minnst af móðurinni vita. Skipaði henni að klippa þráð og þræða upp á hann kúlurnar, svo skammaði hún mömmuna ef of illa var gert og enn frekar ef of ákaft var gengið til verka. Það er naumast hvað daman er orðin dönsk! var það eina sem kom upp í minn gamla koll. Börnin eru nú háttuð, Kertasníkir er kominn og farinn, karlinn er á baðherberginu og ég er að dunda mér við bloggskrif þar sem kalkúnasprautan er stífluð og það er vatnslaust vegna framkvæmda.
Ég vil óska ykkur öllum, sem dettið hingað inn á síðuna, gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs.

Jólakveðjur,
Addý.

miðvikudagur, desember 20, 2006

Fallin?

Jæja, þá er medicinsk audiologi prófið búið. Það gekk ekkert sérlega vel. Í allt voru þetta þrjár stórar spurningar sem hver um sig höfðu undirspurningar. Það er óhætt að segja sem svo að ég hafi verið ansi óheppin með spurningar. Það er bara óskandi að kennararnir sjái aumur á mér og leyfi mér að standast þetta. Sexa er fín tala, ekki satt?!
Nú tekur jólaundirbúningur og jólin sjálf við. Loksins, loksins. Ég hef engan tíma til að standa í svona prófveseni, hvað þá ritgerðarsmíðum! Ég heimta almennilegt jólafrí! Þó stórefa ég að þessi jól fari í eintómt át og svefn. Trúlega les ég svolítið þessi jólin, þó ekki jólabækur, heldur skólabækur. Það er ómögulegt að segja að það sé mikil tilhlökkun í loftinu hvað það varðar.
Ég get varla beðið eftir því að fara bara að vinna, eins og venjuleg manneskja. Hlakka til þess að þurfa ekki að stressa mig upp á nokkurra mánað fresti og bæta á mig tíu kílóum í hvert skipti, sem næstu mánuðir á eftir fara í að reyna að ná af, eða ekki...
Jæja, ég bið ykkur vel að lifa að sinni. Næst á dagskrá er örlítið sjónvarpsgláp og svo klipping eftir u.þ.b. klukkutíma með grislingana og sjálfa mig.

mánudagur, desember 18, 2006

Salernisleysi 21. aldarinnar

Klósettleysi í tvo sólarhringa er ekki alveg að gera sig. Í stað hópferðar í bað til Heiðu var haldið í aftöppunartúr til hennar áðan. Aumingja kerlan ætlar aldrei að losna við okkur. Reyndar sést grilla í ljósa sólargeisla, þar sem búið er að flísaleggja og fúga, nú er bara verið að bíða eftir því að fúgan þorni svo hægt verði að nota húsmóðurina í þarfari verk en bloggskrif og annan óþarfa. Það má þó með sanni segja að garðurinn hafi fengið að njóta góðs af salernisleysinu þar sem bæði heimilisfólkið og gestir þeirra hafa létt á sér í moldina. Þau Bergur bró og Rebekka hans komu til okkar á föstudaginn og voru hjá okkur yfir helgina. Það var voða notó að fá svona himnasendingu frá Fróni. Þau eru náttúrlega algerir englar, bæði tvö. Við þurftum varla að hugsa um ungana þar sem þeir voru eins og sogskálar á kærustuparinu. Guttinn tók þó upp á því að kalla Berg Helga megnið af tímanum, enda tók hann alveg eftir því hve mikið það fór í taugarnar á frændanum ;) Já, maður kann sig þegar maður er tveggja ára! Annars var lítið gert annað en bara dólast, varla nokkuð búðarráp og ekkert farið í miðbæinn, enda varla veður til. Þessi rigningarsuddi er að gera alla brjálaða. Þó er von um að hann haldist þurr fram að jólum.
Jæja, ég ætla ekki að rausa meira í bili, enda á ég að vera að lesa undir próf. Fer í fyrsta prófið á miðvikudaginn og hlakka geðveikt til! Ja, eða þannig...
Með kærri jólakveðju,
Addý, sem ætlar að fara í sturtu heima hjá sér á morgun!

fimmtudagur, desember 14, 2006

Óhollir lífshættir nútímans

Nú held ég að hin alþjóðlega hjartavernd ætti að taka sig saman og ráðast að niðurlögum prófa. Ég hef komist að því síðustu daga að próf eru óholl með öllu. Stressið sem byggist upp í kringum próf er blóðþrýstingnum óvinsamlegt, svefnleysi próftarnanna er einnig sérlega óhollt sinninu og að ég tali nú ekki um mataræðið sem prófin færa með sér. Sykur, sykur, sykur og koffein, ja, reyndar ekki koffein í mínu tilviki, en samt! Ég tel því svo að aukið stress og óhollur lifnaðarhættir eigi rætur að rekja til aukinnar menntunar almennings. Með það í huga að aukin menntun kallar á fleiri próf og fleiri próf kalla á meira stress og verra mataræði og trúlega minni hreyfingu sökum tímaskorts. Allt þetta kemur svo niður á börnunum sem engan fá tímann með foreldrunum á meðan þeir lesa undir blessuð prófin, vonandi fjárhag fjölskyldunnar til betrumbóta síðar meir.
Já, því tel ég það mjög brýnt að sett verði á símat út um allan heim, til að sporna við þessu ástandi. Ja, eða jafnvel bara ekkert mat, bara mætingarskyldu, eins og í vinnunni. Það er nú kannski í lagi að maður þurfi að leggja eitthvað að mörkum til að öðlast háskólagráðu, en verkefnaskil eru betri en próf.
Takk fyrir mig og njótið súkkulaðisins!
Tilvitnun í tilefni súkkulaðidagsins: "Súkkulaði er allra bóta mein" eða var það "súkkulaði er allra meina bót"? Æ, ég man það ekki ;)

fimmtudagur, desember 07, 2006

Heimilisfangavesen

Ohhhhhhhhhhh... var búin að skrifa rosa fínan pistil um rigningarsuddan hérna í DK og um komu jólanna og allt, en það týndist allt saman. Svo ég læt nægja að segja að ég ætla að setja heimilisfangið okkur inn hérna að ofan svo það komist til skila, ef svo vildi nú til að einhver vildi senda okkur smá jólakveðju.
Knús og kossar.

mánudagur, desember 04, 2006

Smá yfirlit

Nokkuð fín helgi að baki. Við fengum góða gesti á fimmtudagskvöldið þegar Siggi og Ágústa mættu á svæðið. Þau kvöddu svo á laugardagsmorgun. Takk kærlega fyrir komuna, kæru vinir!
Þar sem Helgi minn ruddi sturtunni niður á laugardaginn urðum við að ganga á hús og fá leyfi til að baða okkur. Heiða sá aumur á okkur og gerði sér grein fyrir að það var engan veginn hægt að hafa okkur svona haugrykug og skítug. Svo sturtan hennar kom að góðum notum á sunnudaginn. Nú, þar sem við vorum komin út úr húsi ákváðum við að fara á H.C. Andersen-markaðinn sem settur var upp hér í borg. Þar var bara frekar gaman. Við drógum Heiðu og gemlinga með og hittum svo Palla, Rósu og angana þeirra í bænum og líka þau Ragnhildi, Mána og einkasoninn. Svo það voru sannkallaðir fagnaðarfundir. Eftir túr í hringekjunni, pylsuát og misheppnaða tilraun til að finna jóladúka í Jysk, var haldið heim á leið. Þar beið okkar rjómaterta með Rice Cripsies-botni og íslensku súkkulaði á milli. Svo það var skverað í heitt súkkulaði (sem þó var gervi), kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum og sungið "Við kveikjum einu kerti á". Ummmm... hvað það var notó.
Í dag eða í gær (ég byrjaði að skrifa þennan póst í gær, svo ég veit ekki hvaða dagsetning kemur fram ;) ) kom Pomosavejgengið til okkar í lundaveislu. Nammi namm! Þegar hafist var handa við eldamennskuna kom í ljós að lundinn var reittur og sviðinn, ekki var það nú verra! Takk fyrir okkur elsku amma! Þetta var hreint lostæti.
Þó helgin hafi verið frekar góð hjá okkur fengum við heldur leiðinlegar fréttir. Gillí, við sendum okkar bestu og sterkustu strauma til þín. Mundu bara, þú ert hetja!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Addy

Prófið að gúgla "Addy". Þið fáið upp óteljandi síður. Þetta er ættarnafn, nafn á hóteli, nafn á auglýsingaverðlaunum og dúkku. Já, og ég sem hélt að þetta væri bara sytting af öðru lengra nafni. Reyndar er Addy upphaflega hebreskt (þetta með kommuna er náttúrlega bara séríslenskt) og þýðir gimsteinn, svo það er nú ansi fallegt! Hehehe...
Tékkið á þessu ef þið hafið nákvæmlega ekkert að gera.
Kveðja,
Addý.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Senn kemur jólasveinninn, senn koma jól!

Jingle bells, jingle bells... Vá hvað ég er farin að hlakka til jólanna! Það styttist óðum í þau. Það er greinlegt að stemningin í mömmunni er farin að breiða sig út til barnanna, mér til mikillar gleði. Sérílagi þar sem minn elskulegi eiginmaður er ekkert jólabarn og því hefði möguleikinn allt eins getað verið sá að börnin hefðu heldur kosið að moka snjóinn frá dyrunum eða að vaska upp í stað þess að taka þátt í jólaskreytingum í takt við jólatónlistina. Nei, takk. Börnin mín eru sko búin að föndra nokkra jólakarla úr pípuhreinsurum og kúlum og þeim er prinsessan á heimilinu að sjálfsögðu búin að koma fyrir í glugganum, ásamt fínu jólaseríunni sem múttan keypti á laugardaginn. Bríet Huld biður ekki um neitt annað núna en að lesnar séu jólabækur fyrir háttinn og að hún fái að horfa á Rúdólf með rauða nefið eða Grinch, sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Ungi maðurinn fylgir náttúrlega með, eins og hans er von og vísa, enda systirin ein sú flottasta sem hér í heimi finnst!

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Nýtt baðherbergi á leiðinni

Nú er allt að verða vitlaust hérna. Eins og flestir vita er Helgi minn sá alskilningsríkasti, rólyndasti og notalegasti maður sem í heimi finnst (svolítið væmið, en satt!). Til að sjá til þess að það viðhaldist ákvað ég að færa honum slaghamar í hönd, ásamt meitli. Þetta er gert sökum þess hve óstýrlát ég sjálf hef verið undanfarið, frekar leiðinleg eitthvað. Svo til að hann fari nú ekki að steita skapi mót mér sá ég þessa leið eina færa, svona til að halda heimilisfriðinn. Reyndar finnst líka önnur ástæða fyrir hávaðanum og rykinu sem nú dreifist jafnt um allt heimilið, hún er sú að baðherbergið þarfnast lagfæringar. Þar sem jólabarnið ég er nú frekar ákveðið að upplagi varð eiginmaðurinn að fara að óskum mínum og vera búinn að setja upp heila klabbið fyrir hátíð ljóss og friðar. Ef ég hefði fengið að ráða þessu alein, hefði að sjálfsögðu verið stefnt á að vera búin með verkið fyrir fyrsta í aðventu, en ég verð víst að láta mér jólin nægja. Það er búið að fjárfesta í öllu sem til þarf til þessara framkvæmda að undanskildum blöndunartækjunum. Svo útkoman ætti að vera hið fínasta baðherbergi, ljóst og fínt.
Næstu dagar fara því væntanlega í svolítið væl um ryk hér og ryk þar og jafnvel um klósett- og vaskleysi.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Útdráttur úr Nyhedsavisen

Ég fletti í gegnum Nyhedsavisen hans Gunnars Smára áðan (það var eitthvað svo mikið meira spennandi en taugafræðibókin). Af lestri mínum varð ég margs vísari. Prestur að nafni Flip Benham sem búsettur er í draumaveröldinni BNA hefur sett á laggirnar félagsskap sem heitir "Operation Save America" sem á að berjast gegn þeirri ákvörðun stórverslanakeðjunni Wal Mart sem staðsett er víða um Bandaríkin, að mér skilst, að styðja við bakið á samkynhneigðum. En eins og flestir kristnir menn vita er það hið mesta trúbrot (alveg eins og hljómsveitin) að vera samkynhneigður, og jafnvel verra að taka málstað samkynhneigðra. Já, það er margt sem á sér stað í henni Ríku minni. Ég vona svo sannarlega að íslenskir prestar séu að einhverju leiti skilningsríkari hvað þetta varðar. Svo ef Hagkaup styðja við bakið á Samtökum '78 þá taki séra Björn úti í bæ ekki upp á því að rakka fyrirtækið, sem hefur selt okkur svo margar sokkabuxur og banana í gegnum árin, niður! Áfram hommar, áfram lesbíur!
Annað fyndið dæmi úr henni Ameríku. Ja, reyndar er það nú frá Ítalíu, en fólkið er frá fyrirheitna landinu. Nú eru aðdáendur Tomma og Kötu Krús-Hólms, frekar fúlir. Þeir fengu nefnilega ekki að sjá þau á brúðkaupsdaginn þeirra! Jú, OK, þau eru náttúrlega búin að láta ansi mikið á sér bera allan þann tíma sem þau hafa átt í ástarsambandi og því lá beinast við að brúðkaupinu yrði sjónvarpað beint um heim allan, Oprah hefði þá líka átt að gefa þau saman og Beckham hjónin átt að vera svaramenn. En svo varð ekki. Fólk keypti sér í alvörunni ferðir niður til Ítalíu til að sjá hjónakornin (eins og það hafi ekki getað kíkt á eitthvað forvitnilegra þarna niðri frá!) án þess að sjá tangur né tetur af þeim. Kastalinn var þó flottur! Já, að leggja þetta á sig.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Próftörn framundan

Ohhh... ég fékk próftöfluna í dag. Hún lítur ekkert sérlega vel út. Fyrsta prófið er 20. des. kl. 08:00 sem þýðir að ég þarf að mæta í skólann klukkan 7:45 og þar af leiðandi vakna hálfsex eða þar um bil til að ná að skvera krökkunum fram úr bólunum, skella einhverju ætu í kroppinn þeirra og smella á þeim lörfum, eða þeim í larfana, allt eftir hvernig á það er litið. Síðasta prófið er svo þann 18. janúar, það er meira að segja nokkuð erfitt, taugafræðipróf. Svo jólin eru formlega rokin út í veður og vind. Þökk sé fjölskylduvæna vinnustaðnum hans Helga að börnin þurfa ekki að vera á vergangi milli jóla og nýjárs. Karlinn verður heima að gæta bús og barna á meðan ég verð lokuð inni á dimmu bókasafni háskólans. Ohhh... jeg glæder mig helvildt! Mikið verður samt rosalega notalegt að leggjast með tærnar upp í loft og horfa á imbann í að meðaltali 4-5 tíma á dag þegar próftörninni er lokið, þeas ef ég gerist svo góð að standast blessuð prófin!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Til lukku!

Fætt er stúlkubarn, 13.5 merkur og 50 cm.
Hjartanlega til hamingju elsku Hrönn og Haddi!

laugardagur, nóvember 18, 2006

Til lukku með daginn bráðum elsku Emil!

Í kvöld á sér stað eitt af partýjum ársins á Fróninu kalda. Hann "færeyski" Emil okkar hjóna fagnar árunum fjörtíu (hann á nú reyndar ekki afmæli fyrr en 22. nóv., svo hann verður á fertugsaldri nokkra daga í viðbót áður en fimmtugsaldurinn tekur við) í faðmi góðra vina. Það er á svona stundum sem það er ansi erfitt að vera langt í burtu. Elsku Emil okkar, skemmtu þér vel! Við verðum með í anda. Enda búin að opna rauðvínsflösku þér til heiðurs og það er aldrei að vita nema það verði teknar eins og tvær eða þrjár tíur!
Knús og kossar frá Danaveldi...

Barnavarnakjarnaskarnalarnafarnamarna

Hvernig stendur á því að maður þarf að beita öllum tiltækum ráðum við að vekja ungana sína á virkum dögum en svo vakna þau upp fyrir allar aldir um helgar?
Börn eru ótrúleg, en jafnfram yndisleg.
Megið þið eiga góða helgi.

Til hamingju með afmælið, Halla Rós og Allan! Palli minn til hamingju með afmælið á morgun!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Það er margt í mörgu í maganum á henni Ingibjörgu!

Það er nú varla hægt annað en að vera pínku uppi með sér hvað það eru margir sem nenna að leggja leið sína hingað á síðuna til mín! Heilir 55 á tveimur sólarhringum, það er nokkuð betra en ég bjóst við miðað við kvitteríið... uhummmm! Hihihi
Annars er allt fínt að frétta héðan, allir við hestaheislu, enda blíðviðrið hér! Enginn snjór, ekkert rok, enginn kuldi! Ummm... ég var einmitt að koma heim úr þessum fína göngutúr með henni Ragnhildi, við þrömmuðum um götur Hjallese og spjölluðum um brýn málefni, takk fyrir það mín kæra! Eftir svona hressandi göngu er fátt betra en að koma heim, hlamma sér fyrir framan tölvuna og pikka inn nokkrar línur til ykkar, kæru vinir :)
Næstu vikur verða þó öllu hressilegri en þær sem á undan eru gengnar. Við hjónin erum búin að sanka að okkur hinum ýmsu efnum sem nothæf eru í baðherbergisuppbyggingu, baðinnréttingu, klósetti, sturtuhurðum, flísum og einhverju fleiru. Næst á dagskrá eru framkvæmdir! Mikið hlakka ég til þegar þetta verður allt komið í stand. Enn meira tilhlökkunarefni er þó að hann Bergur bró og kærastan hans, hún Rebekka, ætla að kíkja á okkur hingað fyrir jólin. Það verður heldur betur stuð. Ég get varla beðið eftir því að fá að berja þessa margumtöluðu skvísu augum. Það er óþolandi að hafa ekkert andlit að tengja nafnið við!
Nóg í bili,
farin að borða...

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Njósnabúnaður 21. aldarinnar

Jæja félagar!
Nú er ég búin að setja upp njósnavél á síðuna. Sem telur þau skipti sem ég heimsæki síðuna, já og Gillí líka og vonandi einhverjir fleiri!
Farvel í bili.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Laudrup, til hamingju!

Bara svona til að leyfa ykkur fylgjast með þá hlaut hinn danski Michael Laudrup hinn umdeilda titil "Danmarks bedste fodboldspiller" og skaut þar með erlendum framapoturum, eins og Peter Schmeichel og Jon Dahl Tomasson ref fyrir rass. Það verður því án efa stuð í jólaboðunum í ár í Laudrupfjölskyldunni, þar sem bræðurnir Michael og Brian voru báðir tilnefndir. Sá síðarnefndi er án efa nokkuð svekktur yfir því að hafa ekki sjálfur unnið sigur í þessari keppni. Spurning hvort Mikki gefi brósa sínum eftirlíkingu af verðlaunagripnum í jólagjöf, bara svona til að smella á arinhilluna sína!

Fótbolti, fótbolti!

Jahá... Ég efast ekki um það stundarkorn núna að við hjónin höfum flutt til draumlandsins, í það minnst hvað fótbolta varðar. Í þessum pikkuðu orðum er stillt á TV2 þar sem fram fer val á besta fótboltamanni Danmerkur fyrr og síðar. Reyndar hafa þeir úr miklu að moða hér í DK, Gravesen, Tómasson (sem NB er íslenskur), Schmeichel (sem reyndar er pólskur), Laudrupbræður og fleiri og fleiri. Við þyrftum að láta okkur nægja Ásgeir Sigurvinsson, Eið Smára Guðjónsen og Albert Guðmundsson. Svo fyrir ekta fótboltaáhugamann, eins og minn elskulega eiginmann, er Danmörk paradís á jörðu! Reyndar líka fyrir íslenska námsmenn, en það er svo allt önnur saga ;)

laugardagur, nóvember 11, 2006

Fjöldasöngur

Hafið þið einhvern tímann lent í því að vera í troðfullum strætó þar sem enginn segir orð og langað til að standa upp, klappa saman lófunum og fá liðið til að syngja saman einhvern góðan slagara eins og "Allir krakkar"?

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ég elska samt Danmörku líka!

Kristrún skutla bauð mér á kvennamessu seinnipartinn í dag. Við höfðum það rosa huggó og skoðuðum allt milli himins og jarðar sem konur gætu mögulega haft áhuga á! Þegar við komum inn keyptum við poka með alls kyns skemmtilegheitum fyrir konurnar, meðal annars úrvals Lamba-salernisrúllum! Já, viti menn, konur kúka! Ekki nóg með að við höfum fengið þennan fína klósettpappír, heldur fylgdu nokkrir auglýsingabæklingar með í kaupbætir, ásamt tískublöðum og fleiru. Innan um auglýsingabæklingana og sneplana rak ég augun í einblöðung þar sem auglýst var heimasíða. Heimasíðan heitir www.babyverden.dk, barnets verden på nettet! Sama merki og sama nafn og á íslensku barnalandssíðunni! Já, við Íslendingar látum okkur ekki nægja stórfyrirtæki eins og Magasin, eða húsnæði hér í véum Óðins, neibb... Netið skal líka undir okkar hatt!
Ég veit að einn félagi okkar var skammaður af rúmlega fertugri danskri konu fyrir að kaupa Danmörku upp! Aumgingjas peyinn sat í rólegheitum inni á írsku vertshúsi og teygaði mjöð að sið innfæddra þegar konugarmurinn réðist að honum, hann vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið!
Ég enda því þessa færslu á fleygum orðum auglýsingabransans: Ísland bezt í heimi!

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Til hamingju Helgi!

Í tilefni þess að Helgi minn á afmæli í dag ætla ég að skrifa 100. færsluna á þessari bloggsíðu! Til lukku Helgi minn, svona ef ég gleymi að óska þér til hamingju með daginn!
Annars er þessi afmælisdagurinn búinn að vera hreint ágætur, þó ég segi frá. Veisluglaði eiginmaður minn vildi að sjálfsögðu ekki gera neitt í tilefni dagsins, svo hún Heiða vinkona okkar skveraði sér í heimsókn til okkar og dróg þau Ragnhildi og Mána með ásamt grislingunum. Við skutumst því í Netto til að kaupa svolítið inn svo hægt væri nú að bjóða upp á eitthvað (þau voru svo elskuleg að láta okkur vita um komu sína með góðum fyrirvara). Svo skelltum við í einn heitan brauðrétt og smelltum á lagkagebunder. Þetta kom barasta ágætlega út. Ég setti rjóma, flödeboller, súkkulaðirúsínurnar sem Helgi fékk í afæmlisgjöf frá Tinnu og vínber á milli botnanna og gerði svo piparmyntusúkkulaðikrem og hellti því yfir, útkoman: hin fínasta afæmliskaka!
Fortsæt god dag, eins og þeir segja hérna í baunaveldinu!

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Afmæli á morgun

Hann Helgi minn á afmæli á morgun. Því hefur árlegur hausverkur látið á sér kræla undanfarna daga. Hvað á að gefa manninum? Dóttirin var alveg með þetta á hreinu, "nú fullorðins spólu, svona sem ég má ekki horfa á!" Það stendur ekki á svörum hjá blessuðum börnunum. Hvað lesa má á milli línanna læt ég liggja milli hluta.
Meira var það ekki í bili...

mánudagur, nóvember 06, 2006

Græðgi eða sniðugheit?

Ég er að spá í að fara í aðgerðir. Gera hugmynd Gillíjar að minni og kynna Albani jólaölinn fyrir íslensku þjóðinni, gott ef hinar afurðir þessa líka ágæta bjórframleiðanda fylgi ekki í kjölfarið. Síðan ætla ég að opna KFC-stað hérna í Óðinsvéum og grípa hugmyndina frá Ingu Birnu og hafa leik"hornið" í miðjunni, svo foreldrarnir geti nú borðað matinn sinn í friði án þess að hafa áhyggjur af grislingunum á meðan þeir hlaupa um og hoppa. Hljómar eins og frábær staður fyrir fjölskyldufólk, ekki satt? Kannski ég fái Ingu Birnu með mér í þetta, þá getur Helgi Þór látið draum sinn rætast og flutt hingað út!
Fleiri tillögur varðandi gróðrastarfssemi eru vel þegnar!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Hvar er tvífarinn minn?

Ég sá afa Hrein úti að hlaupa með hundinn í gær. Við sáum Andreu systur í bænum í sumar að skála með vinkonunum. Ætli það séu til nokkur sett af öllum kroppum sem deilt er milli landa? Hvar ætli hin "ég" sé þá? Kannski matráður í ráðuneyti Þjóðverja í Kasakstan eða sundlaugarvörður í Tælandi? Hver veit? Ef einhver sér hina "mig" þá vinsamlegast látið mig vita!

föstudagur, nóvember 03, 2006

J-dagur!

Föstudagur, enn og aftur! Það segir manni bara það að það styttist óðum í prófin svo það væri kannski ágætis hugmynd að taka plastið utan af bókunum. Uhummm...
Þetta er þó enginn venjulegur föstudagur því þetta er hinn frægi J-dagur! Jamm, í kvöld klukkan 20:59 hefst sala á jólabjórnum hér í DK. Þá streymir fólk út á skemmtistaðina til að renna hinum ljúfa drykk niður. Við hjónin sögðum reyndar skilið við Tuborg jólaölinn í fyrra og tókum upp betri siði með drykkju Albani jólaölsins. Ummm... sá er góður, enda framleiddur hér í borg. Hann fæst meira að segja í tveimur útgáfum, ljósri sem kallast Blålys og dökkri sem kallast Rødhætte. Hún Rauðhetta smakkast sérdeilis vel, skal ég segja ykkur, og það er synd að hún skuli ekki fást heima á Fróni. Ég legg því til að allir mínir vinir og vandamenn taki sig saman og skjótist hingað út í smá ölsmökkun!
Megið þið eiga góða helgi!
Það ætla ég að gera!

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Síson

Úff púff... ég eyddi peningum í gær. Alltof miklum. Keypti mér kápu, tvö pils og einhverskonar blússu. Allt rosa flott. Þetta var ekkert ætlunin en þær stöllur Rex pex og Heidi Klum drógu mig með sér á Vilakvöld, þær vissu alveg hvað þær voru að gera! Reyndar er ég að spá í að geyma annað pilsið, ullarpils, og fínu blússuna til jóla. Spurningin er bara hvursu lengi ég held út! Hehehe...
Ég smitaðist aðeins af framkvæmdagleði Helga hérna í fyrradag. Tók mig til og keypti gardínur og gardínustöng inn til barnanna og smellti þeim upp (með aðstoð míns ástækra, að sjálfsögðu, enda hefði veggurinn orðið eins og gatasigti hefði ég mundað borvélina), svo smellti ég nýju áklæði á gamlan stól sem við eigum, eitthvað sem átti að vera búið að gera fyrir langa löngu! Kvöldið endaði ég svo á því að ljúka við lopapeysuna mína, sem er búin að vera í vinnslu síðan síðasta vetur. Kuldinn sparkaði í rassinn á mér og fékk mig til að klára stykkið. Það er nefnilega orðið vibba kalt hérna hjá okkur. Kuldinn smýgur inn um merg og bein, en það venst. Grislingarnir voru bara settir í ullarnærtreyjur, sem einhverra hluta vegna koma sér betur hér í DK en heima á Fróni, og kuldagalla. Nýju kuldaskórnir koma sér einmitt vel núna. Við keyptum fyrir Elí Berg í síðustu viku og Bríeti Huld núna í vikunni. Þorðum ekki öðru þar sem allt er að seljast upp og viti menn, næst á dagskrá eru sandalar! Við erum að tala um að það koma ekki fleiri kuldaskór í búðirnar, þó svo að nú séum við bara stödd í byrjun nóvember! Já, kvinnan í búðinni tilkynnti mér það að í næstu sendingu fengju þau bara sandala og annað slíkt! Ótrúlegt. Sísonið fyrir kuldaskó nær frá lok júlí/byrjun ágúst fram til byrjun nóvember. Á þessum tíma er varla orðið kalt! Talandi um síson, ein vinkona okkar hérna sagði okkur frá því að vinafólk hennar hefði farið í Bilka um daginn að athuga með barnavagn fyrir ófætt kríli sitt, svarið var: "Nei, því miður það er ekki síson fyrir barnavagna núna"! Aumingjas konan stóð með bumbuna út í loftið að því komin að eiga og skildi hvorki upp né niður í starfsmanninum. Nei í Danmörku fæðast börnin bara á vorin og á sumrin!
Já, það er margt sem maður lærir í útlandinu.

þriðjudagur, október 24, 2006

Ummmm...

Brambolt á þakinu sem reyndist eiga rætur að rekja til kattarófétis, grátur tveggja barna, rifrildi annars þeirra við heimilisföðurinn og drukknun í eigin líkamsvessum einkenndu nóttina. Life is beautiful!

föstudagur, október 20, 2006

Skál fyrir öllum, konum og köllum!

Hvað er mikilvægara en að hanga á Netinu eða í símanum öllum stundum?
Þó svo að þvotturinn bíði, ásamt ólesnum skólabókum, óunnum verkefnum og óþrifnu húsi fara samskipti umheimsins við mig ekkert minnkandi (þið ætlið varla að fara að skella skuldinni á mig?!). Börnin eru höfð í náttfötum til klukkan tvö og gott ef móðirin hafi nokkuð ratað úr sínum fyrr en um svipað leyti. Ég held stundum að ég þyrfti pískara hingað, eina frekar reiða kerlu með svipu sem sér til þess að verkin séu unnin og það vel! Ekki af henni, heldur mér! Jább, skább... Haustfríið fór því ekki nema að litlu leyti í það sem því var ætlað. Lestur og verkefnavinna fékk að víkja fyrir almennu hangsi og sjálfsdekri, sem að mestu fólst í of miklu áti og of lítilli hreyfingu. Rex pex ætlar, að mér skilst, að reyna að koma mér upp úr sófanum um helgina og fá mig til að hlaupa á eftir sér. Ég hef svikist undan síðustu tvö skipti og borið við barnavesen, það fer að verða álíka gömul lumma og að hundurinn hafi étið heimavinnuna. Svo það er ljóst að ég verð að fara að finna upp á einhverju nýju. Nota kannski sófasetu helgarinnar í fílósóferingu um það.
Ég vil að lokum lyfta glasi (reyndar er þetta bara tebolli) fyrir henni Andreu Líf, frænku minni, sem í dag fyllir eitt ár. Auk þess skála ég að sjálfsögðu líka fyrir honum Halla frænda sem er 16 ára í dag (trúlega meira tilefni til að skála!)!

Eigið góða helgi!

fimmtudagur, október 12, 2006

Ekki neitt

Ég ætla að byrja á því að óska henni Þórdísi, "frænku" minni, til lukku með tvítugs afmælið! Auk þess vil ég óska öllum hinum sem hafa átt afmæli undanfarnar vikur til lukku með daginn, þau eru ófá afmælisbörnin sem ég hef gleymt að senda kveðju hér á síðunni, þar á meðal er hann Íbbi bró. Til lukku karlinn!

Annars er nú lítið af okkur Dönunum að frétta. Reyndar fengum við AuPairina okkar í gær. Hann Janus, pabbi hennar Láru, vinkonu okkar, ætlar að dvelja hér hjá okkur um stundarsakir. Hann á víst að vera óbreyttur gestur (mér finnst orðið leigjandi ekki alveg passa) en hann smellti sér bara í málningargalann í gær og hjálpaði Helga að hespa málningarvinnuna af og afmáði þar með gestatitilinn. Nú er því búið að mála öll herbergin og stofurnar báðar. Þvílíkur munur! Næst á dagskrá eru myndaupphengingar og gardínusaumur. Vei, vei, jibbí jei! Borðstofustólarnir koma á morgun, svo ferðina á haugana með gamla dótið má ekki draga um of. Skvísan þarf að gera fínt hér!

Þar til verður brýnni verkefni að leysa, svosem eins og nefípikkingar og pósthúsferð (það eru ansi margir á klakanum farnir að bíða eftir bögglum héðan).

Eigið góða helgi.

miðvikudagur, október 04, 2006

Hver sagði og hvað þýðir?

"Colourless green ideas sleep furiously."

Nú vonast ég eftir viðbrögðum frá íslenskufræðingunum...

mánudagur, október 02, 2006

Listin að baka vandræði

Hvað á maður að gera þegar maður er kominn á síðasta snúning með verkefni og er gjörsamlega sneyddur allri sköpunargáfu sem til skriftar þarf? Sparka í rassinn á sér og koma sér að verki, óháð því hvað út úr því kemur? Lalla sér inn í ból og vona að nætursvefninn laumi einni og einni hugmynd inn í kollinn um innihald verkefnisins? Eða bara loka bókunum og glápa á imbann? Eins og oft áður er ég gjörsamlega týnd í heimi netheimilda og dönskunnar! Reyndar er verkefnið sem slíkt hvorki flókið né leiðinlegt, en rassseta undanfarinna vikna gerir það að verkum að næstum ómögulegt reynist að dúndra í flatbotnann (sem þó er ívið of kringlulaga þessa mánuðina). Málið er bara að koma hugsununum niður á blað, eða í tölvutækt form. Ótrúlegt hvað einföldustu mál verða flókin þegar maður fer að hugsa um þau. Málið er kannski bara það að ég ætti að setja mig í spor karlmanns (án allrar móðgunar við hitt kynið) og leysa vandann (sem þeir halda alltaf að sé í þeirra verkahring) með því að hripa eitthvað niður og láta þar við sitja. Ég hef heyrt að þeir séu töluvert afslappaðri gagnvart próftöku og verkefnavinnu en við kerlurnar, ég læt það liggja milli hluta hvursu mikið sé til í því, enda er ég hvorki karlmaður né mannfræðingur. Hitt er annað að við kerlurnar eigum það til að mikla fyrir okkur hina einföldustu hluti, að minnsta kosti ég (og ég tel mig vera meðalkvenmann hvað þessi mál snertir). Ég held að hórmónum sé um að kenna, þessum sömu og fá okkur til að vola yfir regnfataauglýsingum frá Hagkaupum einu sinni í mánuði. Því miður.
Sökum þessa ætla ég að skella verkefninu á hold og dúndra mér í lestur, svona rétt til að friða samviskuna.

sunnudagur, október 01, 2006

Hamborgari eða skokk?

Hvað jafnast á við feitan hamborgara eftir sveitt þrif? Ekkert! Til að bæta um betur kippti ég hálfum lítra af kóki og einu stykki Snickers með! Ummmm... Reyndar flaug brennslan með þrifunum og skokkinu með henni Ragnhildi út um gluggann um leið og ég renndi þessu niður, en koma tímar koma ráð. Hún Ragnhildur er staðráðin að gera úr mér hlaupagarp, svo það er um að gera að hlýða yfirvaldinu. Ég held að Helgi hafi talað við hana og fengið hana í lið með sér gegn aukinni leti og síþreytu minni. Best væri ef skólabækurnar nytu góðs af þessu líka. Félagsskapurinn er allavega góður og þó ótrúlegt megi virðast líður mér bara asssskoti vel eftir þessar fjörutíu mínútur sem við skvísurnar skokkum saman, sveittar og sælar.

föstudagur, september 29, 2006

Mætt úr fríi...

Þá er hinu tveggja vikna langa bloggfríi mínu formlega lokið. Hvort einhver hafi tekið eftir þessari fjarveru minni er svo allt annað mál. En hingað er ég komin aftur...
Ég sit í nýju stofunni minni með tölvuna í fanginu og er tengd þráðlaus við umheiminn, engar snúrur að flækja sig í og maður getur verið hvar sem er, þvílíkur munur! Þessu mæli ég eindregið með. Ég skil hreinlega ekkert í mér að hafa ekki orðið mér úti um þessa græju áður. Nú er hún mætt í hús, því er um að gera að njóta.
Við erum að reyna að koma okkur fyrir litla fjölskyldan hér á Bláberjavegi, það gengur ágætlega þó frágangur íbúðarinnar á Ugluhæðinni trufli athafnagleðina hér á bæ. Áætluð lyklaskyl þar eru á mánudaginn svo helgin fer í þrif og annað ditt og datt. Eftir það verður það litla ryk sem hefur náð að setjast á penslana dustað af og tekist verður á við málningarvinnu hér, enda hafa fyrri eigendur hreinlega verið fastir við borvélina. Alltof mörg og út um allt. Við máluðum herbergi barnanna og reyndum að koma því í svolítið gott stand áður en flutt var inn, restina af húsinu, að undanskyldu eldhúsinu þarf að betrumbæta. Það verður gert núna næstu vikurnar.
Annars fer rosalega vel um okkur hérna í húsinu okkar, garðurinn er yndislegur og eldhúskrókurinn hreint æði, svona ekta kaffibollaeldhúskrókur. Nýju húsgögnin eru farin að týnast inn, borðstofuborðið og skenkurinn eru mætt á svæðið og stólanna og sófans er beðið með eftirvæntingu. Þá verður nú aldeilis flott hérna hjá okkur!
Ég læt þetta duga í bili og hripa kannski niður nokkrar línur þegar að því kemur að ég hef eitthvað að segja...

föstudagur, september 15, 2006

Smá pása gerð á fríi

Ég veit ekki hvað er í gangi en ég get ekki skoðað síðuna mína. Þetta hlýtur að eiga við fleiri... Þar sem ég kann nákvæmlega EKKERT í svona tölvumálum verð ég bara að krossleggja fingur og vona að einhver klár karl í hinum víða heimi internetsins sjái aumur á mér og fixi þetta fyrir mig.

Þangað til...

fimmtudagur, september 14, 2006

Blogg fer í frí

Heilt og sælt veri fólkið.
Sökum flutninga og óframhleypni danskra síma- og internetyfirvalda verð ég að leggja þessa annars ágætu bloggsíðu tímabundið niður. Ég mun þó pikka á lyklaborðið eins fljótt og auðið er (sem væntanlega verður ekki fyrr en eftir tæpan mánuð ef marka má heimasíðu TDC). Ekki svo að skilja að ég geri ráð fyrir því að fólk komist ekki af án mín og minnar vitleysu, en hitt er annað mál að ég vil bara gera grein fyrir bloggleti minni.

Að lokum vil ég óska Magna til hamingju með frábæran árangur í Rock Star Supernova! Þó svo ég geri mér fulla grein fyrir því að hann lesi ekki þetta þvaður mitt, en hún Eyrún hans á það til að reka nefið hér inn, svo hún skilar kannski kveðjunni til hans og smellir einum á sig, hann og Marínó Bjarna litla. Til lukku Eyrún mín! Lukkan felst, held ég, ekki síður í því að þú misstir hann ekki á tónleikaferðalag með gaurunum atarna ;) Frábær árangur engu að síður!

Knús og kossar til ykkar þriggja sem þetta lesið! Þar til næst...

laugardagur, september 02, 2006

Tvær vikur í flutning

Nú styttist heldur betur í að við fáum húsið afhent. Í dag eru þrettán dagar í herlegheitin. Stefnt er að því að flytja tveimur dögum eftir afhendingu, þann 17. sept. og til aðstoðar er búið að smala að minnsta kosti fimm fílhraustum karlmönnum. Til að vera sem best undirbúin skutumst við hjónin niður að grensa (landamærum Danmerkur og Þýskalands) og roguðumst þaðan með nokkra kassa af öli fyrir karlana og einn og einn af léttu fyrir þá sem heldur kjósa það. Við erum einmitt líka svo heppin að mútta gamla ætlar að kíkja hingað til okkar næstu helgi og vera einhverja daga og aðstoða við flutninga, enda er ágætt að hafa eina svona skvísu sem getur tekið ákvarðanir um það hvar diskar og glös eiga að vera á núlleinni, krafturinn er þvílíkur. Já, kvenpeningurinn hinn eldri í móðurfjölskyldunni er ansi hraustur og ráðagóður svo á hann er rúmlega stólandi. Ég held að mamma væri nú ekki alveg róleg yfir ástandinu hér á bæ eins og það er núna, hér er ekkert komið í kassa en það stendur til bóta í næstu viku. Við fengum hreinlega nóg af kassalifnaði á síðasta ári, svo tíminn í kössum verður hafður í lágmarki í þetta skiptið. Enda nægur tími til pökkunar.
Helgi var svo í æfingarbúðum hjá Alla og Kristrúnu í gær, svo hann ætti að vera í formi fyrir þetta þegar að kemur hjá okkur. Drengirnir þeirra hugguðu sér hérna með okkur hinum á meðan.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Peysan klár


Hér eru myndir af peysunni sem ég prjónaði fyrir hana Cherie, dagmömmuna hans Elís Bergs, sett inn fyrir múttu og ömmu að skoða. Maður þarf víst alltaf að fá viðurkenningu frá mömmum og ömmum fyrir handavinnuna, ekki satt?! Svo ég vona að mínir fáu dyggu lesendur láti þessa myndbirtingu ekki ergja sig.





Ég fann einmitt búð í dag sem selur rándýran Álafoss lopa! Hér í miðbæ Óðinsvéa er sem sagt hægt að nálgast slíkan varning, en dýr er hann!

Hilsen...

laugardagur, ágúst 26, 2006

Góð heimsókn en slæmar fregnir

Klukkan er 9 þennan danska morgun og það er greinilegt að flestir klakaverjar sofa á sínu græna þar sem enginn er mættur á öldur msn-sins. Því ákvað ég að setjast niður við tölvuípikkingar og segja eitthvað fréttnæmt af okkur fjölskyldunni hér í landi hennar hátignar Margrétar Þórhildar.

Í vikunni komu þau amma Addý og Jón við hérna hjá okkur eftir góðan siglingartúr í Svíþjóðinni. Þau dvöldu hér frá mánudegi til fimmtudags og það var alveg yndislegt að hafa þau. Það fór gustur, sem sárlega var farið að vanta, um heimilið. Krafturinn í skvísunni, henni ömmu minni, var svo mikill að uppþvottavélin fékk meira að segja frí! Ekki svo að skilja að gestirnir eigi að taka að sér heimilisstörfin hér á bæ, en þið vitið hvernig þessar ömmur og mömmur eru... Eina ráðið til að halda henni frá húsverkunum hefði trúlega verið að færa henni prjóna og lopa í hönd og segja: "hana'!". Nei það fer ekki mikið fyrir letinni hjá fólki mér eldra. Ég mætti taka það mér til fyrirmyndar hve atorkusamt þetta fólk er. Mömmur, ömmur, pabbar og afar, alltaf eru allir á fullu. Svo mæðist ég við tilhugsunina um þvottinn og amma hafði ekki einu sinni þvottavél á upphafsárum búskapar síns! Að ég skuli ekki skammast mín, sem allt hefur til alls. Það eina sem ég þarf að gera er að sortéra þvottinn, spreyja blettahreinsi hér og hvar, skella honum í vél og setja í gang. Svo einfalt er það. En mikill vill meira, þannig er það bara, það jaðrar hreinlega við að vera náttúrulögmál.

Annars eru þær fréttir heimanað að hann Bergur litli bróðir minn varð fyrir því óláni að vera hrint fyrir lögreglubíl á menninganótt. Af þessu hlaut hann opið beinbrot á sköflungi þar sem báðar pípurnar brotnuðu. Settur var í hann nagli sem nær frá hné niður að hæl og er boltaður fastur á að minnsta kosti fimm stöðum. Hann er því búinn að vera inni á spítala í tæpa viku og sleppur þaðan í fyrsta lagi á morgun. Vonandi nær hann sér sem allra fyrst. Það eina sem hægt er að segja er að sem betur fer fór ekki verr. Þrátt fyrir að lítil huggun sé í þeim orðum fyrir þann sem liggur kvalinn inni á spítala. En ég veit hve duglegur og atorkusamur hann er svo ég geri hreinlega ráð fyrir því að hann finni hjá sér krafta til að sigrast á þessu.
Já, það er ótrúlegt hvað ölæði og stundarbrjálæði getur haft í för með sér.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Hér er nákvæmlega ekkert í gangi

Það er ekkert að viti í gangi í hausnum á mér núna en ég finn mig tilneydda til að pikka nokkrar línur hérna inn, bara svona til að halda mínum dyggu lesendum við efnið.
Svo við byrjum þetta á hefðbundnu nótunu þá er veðrið búið að vera í fínasta lagi þó svo að hitinn sé ekki lengur jafn mikill og hann hefur verið. Hér er kalt á morgnana en hitnar yfir daginn svo börnin eru oft meir dúðuð en þau í raun þurfa þegar haldið er af stað til daggæslu. Það er erfitt að læra hvernig maður á að klæða blessuðu grislingana.

Enn er ég heima á daginn og dunda mér við nefpikkingar, Friends-áhorf og þvotta þess á milli. Mér tókst þó loksins að að snurfusa heimilið þegar 365ta tilraun var gerð í gær með ásættanlegum árangri. Sumir kalla það þrif en aðrir kalla það tiltekt, svo við látum það liggja milli hluta hvursu vel starfið var unnið, en það er svona tiltölulega hreint hérna núna. Það er óskandi að þetta haldist að mestu í horfinu þar til ættarhöfðinginn, hún amma mín, lítur við í næstu viku.

Bíllinn sem við hjónin keyptum okkur í síðustu viku er bara asssskoti fínn. Þvílíkur munur að hafa vökvastýri, ég skil bara eiginlega ekki hvers vegna maður er ekki kominn með almennilega upphandleggsvöðva! Eitthvað ætti maður að hafa út úr þessum áreynsluakstri!

Jæja, ég hef, eins og áður sagði, nákvæmlega ekkert að segja! En kvittið endilega!

laugardagur, ágúst 12, 2006

Stuði stuð!

Það hefur greinilega verið stuð á þjóðhátíðinni eins og þessi góða mynd af henni litlu systur minni gefur til kynna!


Vonandi fyrirgefur hún mér stríðnina...

laugardagur, ágúst 05, 2006

Þjóðhátið og prinsessa

Þjóðhátið, þjóðhátið.
Um helgina er hin margumtalaða verslunarmannahelgi. Hér sitjum við hjónin ásamt börnum í rólegheitum í blíðunni í Danaveldi á meðan obbinn af móðurfjölskyldu minni drekkur mjöð á hinni fögru eyju, Heimaey. Í dalnum er vanalega mikið fjör og mikið gaman og álsi þeim engum sem þangað sækir stuð og stemningu. Hin síðustu ár hef ég ekki gengið á vits glaums og gleði í dalnum fagra, en þess í stað leitað hælis í örmum míns ástkæra eiginmanns og barna. Ekki slæm skipti, að minnsta kosti að ég tel. Hins vegar kemur upp löngun, ekki mikil en kannski smá, í að skjótast inn í svo sem eins og eitt gott gítarsöngpartý í einu heimatjaldinu. Ummmm... those were the days... En lífinu er víst deilt upp í kafla og þjóðhátíðarkaflanum virðist að mestu lokið, þó ég gæli við hugmyndina um svona eins og eina góða með honum Helga mínum síðar. Vonandi verður mér að ósk minni innan ekki alltof margra ára... Reyndar efast ég um að úthald mitt til djamms yrði meira en sem nemur nokkrum klukkustundum hvert kvöld, en það yrði án efa gaman, svo lengi sem börnin yrðu í góðum höndum.

Jæja, ég vil óska þjóðhátíðargestum góðarar skemmtunar!

Auk þess vil ég óska henni Sollu, frænku minni, og honum Gumma mági mínum til hamingju með litlu prinsessuna, sem fæddist þann 1. ágúst. Hún verður án efa sannkölluð þjóðhátíðardrottning einhvern daginn, enda ættuð úr Eyjum!

Hilsen,
Adds padds

mánudagur, júlí 31, 2006

Leti

Ég hef verið numin á brott af Leti í formi lítilla grænna karla, sem sveipuðu mig böndum, drógu mig út og tróðu mér í bleikan Austin Mini, fluttu mig svo til fjarlægar eyju sem heitir Letingjaland og getið er um í bókunum um Gosa. Lætin og hamagangurinn í gæjunum litlu voru svo mikil að úr varð fellibylur sem henti dóti fram og til baka, svo ekkert er á sínum stað lengur, sandstormur skapaðist og dreifðist fínt sandrykið yfir allt hemilið, fingraför barnanna þeyttust út um alla veggi, glugga og spegla og lengi mætti telja.

Í stuttu máli: það er allt á hvolfi og ég nenni ekki neinu!

sunnudagur, júlí 30, 2006

Hjólatúr í þrumuveðri

Hafið þið prófað að hjóla í þrumuveðri með tilheyrandi úrhelli og tvö lítil börn aftan á hjólunum?
Við hjónin reyndum þetta seinnipartinn í dag. Sem betur fer rignir lóðrétt hér í landi bjórs og bauna, en ekki lárétt eins og heima, auk þess sem rigningin verður ekki eins nístingsköld eins og á klakanum (sem hefur jú nafnið einhversstaðar frá, ekki satt?!). Hjólatúrinn var þetta líka hressandi. Þó það hafi verið ansi vot fjölskylda sem mætti í hina frábæru fiskisúpu a ´la Ragnhildur á Demantsvej (takk kærlega fyrir okkur, elskurnar!) þá var hún hress. Við rifum okkur bara úr fötunum og skelltum þeim í þurrkarann hjá henni Heiðu. Á meðan þau veltust um í hitanum stripluðumst við bara á nærunum og spjölluðum við heimilisfólkið. Frekar heimilislegt allt saman.
Ég mæli eindregið með votum hjólatúr, hann hressir, bætir og kætir, það er óhætt að segja!

föstudagur, júlí 28, 2006

Er tískan helsti óvinur mannkynsins?

Já, ég held það bara, svei mér þá. Ég kíkti í nýjasta tölublað Kig Ind sem er svona low class slúðurblað hérna í DK. Kostar ekki nema 14 krónur svo maður leyfir sér eitt og eitt, bara svona til að fylgjast með gangi mála hjá mr. og mrs. Smith og félögum. Í nýjasta blaðinu eru gamlar og nýjar myndir af hinum ýmsu stjörnum dagsins í dag. Flestar þeirra eru nú bara töluvert huggulegri í dag, þónokkuð árum eldri, en þá. Munið þið til dæmis eftir Robbie Williams þegar hann var með Take that? Maður þarf ekki að segja meira. Tískan er í það minnsta ekki besti vinur okkar mannanna, þó svo að margir haldi öðru fram. En þar sem hún fer í hringi má maður búast við því að gallabuxur sem eru þröngar að neðan, með svona kúkabuxnasniði og ná upp undir handakrika, verða það heitast innan fárra ára, ásamt netahlýrabolum.
Ummmm... ég get varla beðið!

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Álagningarseðill og umræðan á barnalandi

Jæja, þá get ég kvatt hugmyndina um nýtt sófasett og borðstofuhúsgögn í nýja húsið mitt. Álagningarseðillinn var opnaður í dag og við fengum, tja... ekki það sama og við bjuggumst við að fá. Í stað mínustölu fengum við feita plústölu, sem þýðir að við þurfum að reiða fram budduna og borga fyrir syndir síðasta árs, sem aðallega felast í því að við sendum ekki næg gögn inn til skattmanns. Sökum fastheldni okkar í þessi ákveðnu gögn var okkur synjað um svokallaða skattlega heimilisfesti. Reyndar skilst mér að það sé svona nánast óskrifuð regla að nýir baunar frá Íslandi lendi í þessum vandræðum við gerð skattaskýrslunnar. Við lærum vonandi á þessu. Málið verður kært og við fáum óskandi endurgreitt því sem nemur nýjum húsgögnum. Þangað til verðum við bara að notast við nýju, flottu garðhúsgögnin okkar, enda gott veður hér í DK og verður vonandi svolítið frameftir vetri. Veðurspámaðurinn fór nú eitthvað að tuða um rigningu og þrumuveður áðan sem væri fínt að fá í nokkra daga, þó ekki væri nema bara til að einbeita sér að húsverkum og handavinnu.

Ég kíkti inn á hinn annars ágæta vef barnaland.is í dag. Ég ákvað að skoða aðeins þennan umræðuvef sem þar er haldið uppi, ég hafði aldrei tékkað á honum áður. Heimsóknin staðfesti allar þær sögur sem hljómað hafa í mínum eyrum um umræðurnar sem þarna spinnast upp. Ég spyr nú bara eins og fávís kona: er fólk virkilega að rífast inni á svona vef, sem opinn er almenningi, án þess að þekkjast eða jafnvel vita nokkuð hvert um annað? Það er fyrir neðan allar hellur þegar fólk er farið að kalla hvert annað ónefnum og rengja hvert annað án þess kannski að vita nokkuð til málanna. Ég segi það ekki að það finnast líka fullkomlega eðlilegar umræður þarna, þar sem mæður eða feður spyrja aðra ráða varðandi uppeldi og umönnun barna, en þegar ég lenti ítrekað inn á umræðusíðum sem aðallega fólust í því að gera lítið úr öðrum var mér nóg boðið. Öllum er frjálst að hafa skoðanir, en ég tel svo vera að það sé vel hægt að viðhalda almennri kurteisi þegar skiptst er á skoðunum. Fólk er ekki fífl og hálfvitar fyrir það eitt að hugsa sjálfstætt.

Þetta verða lokaorðin í kvöld. Góða nótt.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Eru það forréttindi að kynnast báðum foreldrum sínum?

Þar sem ég er komin í gírinn og nenni ómögulega að fara að þrífa ákvað ég bara að halda aðeins áfram.

Á bloggsíðu vinkonu vinkonu minnar (svolítið langsótt sko...) hefur síðustu daga verið í gangi umræða um ansi viðkvæmt og brýnt málefni, umgengnisrétt foreldra við börn sín. Mér persónulega finnst það æði mikilvægt fyrir barn að fá að umgangast og kynnast báðum sínum foreldrum og fjölskyldum þeirra. Svo virðist þó sem ekki séu allir á sama máli í þessum efnum. Að sjálfsögðu finnst fólk sem ekkert hefur með umgengni við börn sín að gera, en þá erum við með dómstóla og stofnanir sem eiga að skera úr um það (með misjöfnum árangri þó, en látum það liggja milli hluta). Því finnst mér það mjög sorglegt þegar foreldrar, í flestum tilvikum mæður, taka upp á sitt einsdæmi að skera á allt samband við hitt foreldrið, sem þá í flestum tilvikum eru feður, og þeirra fjölskyldur sökum ágreinings sín á milli, þ.e.a.s. foreldranna. Þetta er í flestum tilvikum gert til að "hefna sín á" því foreldri sem enga umgengni nýtur við barnið en hefur þveröfug áhrif því það sem gerist er að barnið fer á mis við sinn rétt, þ.e.a.s. að umgangast það foreldri sem það ekki býr hjá. Ég hef aldrei verið sérstaklega hlynnt svokölluðum pabbahelgum (þá mömmuhelgum þegar það á við) á þann háttinn að ég tel þetta fyrirkomulag ekki henta öllum þeim börnum sem ekki búa hjá báðum foreldrum (sem að sjálfsögðu eru alltof mörg). Að mínu mati ætti heldur að fara eftir hentugleika hvers og eins barns í stað þess fara eftir stöðluðu formi. Þó svo að barninu henti ekki að koma og gista aðra hverja helgi er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera eitthvað með því, heill dagur eða seinnipartur ætti að duga. Svo lengi sem barnið fær að hitta báða foreldra sína.
Þó svo að það foreldri sem barnið elst upp hjá reyni að leyna barnið uppruna sínum kemst það fyrr en varir að sannleikanum. Fólk talar og við erum jú ekki nema 300.000 (þrátt fyrir að Kristján Jóhannsson hafi sagt upp ríkisborgararétti sínum ;) ) og hér er Gróa á Leiti víða og fólk spjallar saman svo sannleikurinn er sagna bestur í það minnsta í þessum málum.
Við sjáum í fréttum þegar feður flytja af landi brott með börn sín (reyndar er oft um erlenda ríkisborgara að ræða, en...) en mæður flytja líka af landi brott með börn sín og gefa feðrunum ekki tækifæri til að hafa samband á einn eða annan hátt. Ég þekki dæmi um að faðir hafi reynt að hafa uppi á símanúmeri barnsmóður sinnar á erlendri grundu, þar sem hún nú býr ásamt barni sínu, í gegnum móðurömmu barnsins. Upplýsingarnar sem hann fékk voru þær að hvorki símanúmerið né heimilisfangið væri falt, því ef hún léti þessar upplýsingar uppi ætti amman sjálf á hættu að missa allt samband við barnabarn sitt! Er þetta ekki orðið frekar gróft þegar fólk er farið að hóta hvert öðru og láta reiði sína bitna á börnunum, því sem í lífinu okkur þykir vænst um? Ég skil stundum ekki þennan blessaða heim sem ég er fædd í...
Svarið við spurningunni er að mínu mati það að það séu ekki forréttindi að kynnast báðum foreldrum sínum, heldur sjálfsögð mannréttindi.

Staying alive!

Ef svo ólíklega vill til að fólk hafi verið farið að hafa áhyggjur af mér og farið að hallast að því að ég væri liðin frekar en lífs, þá kemur smá pistill lífi mínu til sönnunnar.
Síðstu vikur eru búnar að vera ansi þétt skrifaðar, svo enginn hefur tíminn gefist til verkefna svo neðarlega á forgangslistanum eins og bloggs. Eins og þið tókuð eftir í síðasta bloggi var margt um börn hér eina helgina. Mánudeginum eftir þá helgi komu Inga Birna, Helgi Þór og Sveinn Elí til okkar og dvöldu fram á laugardag. Þriðjudaginn þar á eftir komu Katla, Haukur, Aron Örn og Árni Már í heimsókn og þau kvöddu í morgun eftir viku dvöl á Ugluhæðinni. Veðrið lék við gestina svo hægt var að gera hvað sem hugur girntist, annað en að busla í pollum. Ströndin fór ekki varhluta af dvöl gestanna, Legoland og dýragðurinn voru heimsótt, efnahagur Danmerkur réttur við og ýmislegt annað sér til gamans gert. Takk fyrir komuna elsku vinir!

Smá súkkulaðitilvitnun í tilefni dagsins:
"Venskaber lever længere, hvis de smøres regelmæssigt med chokolade."

laugardagur, júlí 08, 2006

Sex börn

Ég tek ofan fyrir tengdamóður minni, hún er sannkölluð hetja. Ég reyndi að feta í fótspor hennar á fimmtudaginn og föstudaginn þegar ég tók að mér fjögur auka börn (Helgi hjálpaði reyndar smá ;) ). Foreldrarnir voru allir í kóngsins Köben að hlusta á Robbie karlinn Williams. Yngsta barnið er eins árs síðan í janúar og það elsta sjö síðan í apríl, hin fjögur fylltu bilið. Þó ótrúlegt megi virðast tókst okkur hjónum bara ágætlega upp. Börnin komust ósködduð frá okkur, ja, allvega þau tvö sem flogin eru úr hreiðrinu okkar, hin tvö verða hér til morguns. Við vonum þó að þau verði jafn heilbrigð þegar þau kveðja og þegar þau heilsuðu. Engir meiriháttar árekstrar urðu, þó slegist væri um einn og einn bíl eða dúkku, ekkert sem ekki mátti leysa með smá spjalli. Þökk sé sól og sumri að gemlingarnir fengu að dvelja langa stund úti við. Vatni var skellt í semisundlaugina og liðið fékk að busla smá, enda annað varla hægt í þeim ólífa hita sem hefur veirð að undanförnu. Vatn og busl er það eina sem blívur, allt annað er ómanneskjulegt. Þó tekist hafi vel, verð ég að játa að vinnan var mikil. Síðasti magi varla orðinn mettur þegar garnagaulir þess næsta farnar að gaula, verið að skeina einum rassi þegar bleia þess næsta var full og þar fram eftir götum. Verkefnið var því bæði skemmtilegt og krefjandi, eins og verkefni eiga að vera. Ég verð því að viðurkenna að sex börn á sex árum, eins og var hjá henni Settu, og eitt eldra er frekar mikið og ég dáist að þeirri kjarnakonu að hafa staðið í þessu öllu saman. Hún er sannkölluð hetja.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Í sól og sumaryl...

Vá, hvað það er búið að vera gott veður hérna hjá okkur í baunalandinu! Hitinn er búinn að vera þvílíkur að maður hefst varla við úti, en maður lætur sig að sjálfsögðu hafa það að steikja sig fremur en að láta það spyrjast út að maður flýji sólina! Nei, að sjálfsögðu á maður að njóta hennar í botn. Þó svo það sé nú hægt að deila um það hvort enn sé hægt að tala um að njóta hennar þegar allir svitakirtlar líkamans hafa vart undan og maður dæsir og blæs úr nös þrátt fyrir að sitja límdur við plastRúmfatalagersstólana. En þráinn er svo gífurlegur að inn verður ei farið, nema brýna nauðsyn beri við.

Við fjölskyldan nutum góða veðursins í gær og skruppum aðeins á ströndina. Þvílíkur unaður að flatmaga á teppi í sandinum og skola af sér svitann í ylvolgum sjónum. Börnin nutu þessa líka út í ystu æsar, enda finnst nú varla stærri sandkassi en sjálf ströndin! Liðinu var svo skipað að hátta sig úti í garði þar sem húsmóðirin skrúbbaði gólf kvöldið áður og hefur það ekki í hyggja að gera það aftur í bráð! Sjáum svo til hvernig það gengur ;)

Á morgun koma svo grislingarnir frá Sønderborg og ætla að dvelja hér hjá okkur þar til á sunnudaginn. Foreldarnir ætla að fara og berja Robbie Williams augum. Þau eru meira að segja svo heppin að þau gista á sama hóteli og kauði, sem að sjálfsögðu skipti um hótel þegar hann frétti af því að þau ætluðu ekki að gista á sama hóteli og hann. Hann vildi að sjálfsögðu vera eins nálægt Íslendingum og hægt var, álsi honum enginn. Enda afburðarfólk upp til hópa og stuðboltar miklir. Spurning hvort hann verði líka í brúðkaupinu sem Guðrún og Bogga eru að fara í.

Síðasta föstudag hittumst við Logopædi-nemar og fengum okkur í gogginn og í aðra tána eða svo.

Eigið gott fótboltakvöld!


Hópurinn saman kominn, fámennt en góðmennt!

föstudagur, júní 30, 2006

Öryggisbrjálæði

Er Bjössa félaga að takast það að koma á öryggisdeildinni sinni? Hver á svosem að gera hryðjuverkaárás á litlu eyjuna okkar norður í Atlantshafi? 95% jarðarbúa vita ekki einu sinni að hún fyrirfinnst, 3% jarðarbúa halda að við búum í snjóhúsum, 1% eru þeir sem eru nógu klikkaðir til að lesa Íslendingasögurnar á íslensku! Þeir sem það gera hafa ekkert í sér sem bendla mætti við hryðjuverkastarfssemi, að ég tel. Þeir einu sem fengjust til að sprengja landið okkar upp eru kannski þetta eina prósent sem eftir er og inniheldur reiða Dani sem komnir eru með nóg af gróðrastarfssemi Íslendinga í forna konungsveldi okkar Frónverja.

Mafía Íslands, er hún kannski til eftir allt saman?
Konungur alheimsins, hann Bush litli, virðist þá hafa ágætis ítök í henni! Það fer trúlega að líða að því að við getum ekki gengið um án þess að nákvæmlega sé vitað um ferðir okkar. Nú þegar er hægt að rekja ferðir okkar gróflega eftir því hvar og hvenær við notum greiðslukortin okkar og þetta kemur ekki til með að minnka!
Hvert er frelsið að fara?

FRÍ!

Jibbí jeeeeeeeeeeeei!
Prófin búin og ég er komin í sumarfrí! Reyndar kláraði ég á miðvikudaginn, en hef verið í svo miklu "geraekkineitt"-stuði að ég hef ekki einu sinni orkað það að setjast við tölvuna að pikka. Prófin gengu ágætlega, allavega þessi tvö munnlegu, en ég hef enn ekki fengið úr fyrsta prófinu, anataomi og fysiologi. Maður vonar bara það besta. Að vera réttu megin við línuna skiptir mestu máli. Prófið á miðvikudaginn var sálfræðipróf sem var að minnstu úr efni annarinnar. Verkefnið fólst í því að setja sig inn í aðstæður þar sem maður er með sjúkling með ákveðinn sálrænan kvilla fyrir framan sig og vinna út frá því. Svo það skipti ekki mestu að vera með námsefnið á hreinu sem slíkt heldur að geta yfirfært það í praktíkina. Það gekk ágætlega, spurningin var reyndar ekki úr auðveldasta efninu, en það hjálpaði að vera ekki sú fyrsta inn þar sem ég fékk ágætar leiðbeiningar frá þeim sem á undan fóru um hvernig ég ætti að bera mig að þarna inni. Einkunnin varð 9, reyndar áttu þær (kennarinn og prófdómarinn) í basli með að ákveða hvort þær ættu að gefa mér 10 eða 9, en þar sem svolítið vantaði upp á fagligt sprog, gátu þær ekki annað en gefið mér lægri einkunnina. Ég er samt rosa sátt, það er heldur ekkert leiðinlegt að heyra góða krítík.

Síðan prófunum lauk hef ég, eins og áður sagði, ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Við hjónin áttum einmitt brúðkaupsafmælisdag í gær og nutum hans eins vel og hægt var, að ég tel undir þessum kringumstæðum. Helgi skutlaði börnunum á sína staði og ég lagði mig á meðan og Helgi skreið svo líka uppí þegar hann kom heim. Við steinsváfum þar til nálgaðist hádegi. Fórum svo í bæinn og fengum okkur að snæða og röltum aðeins þar um. Frekar notó.

Næstu dagar fara trúlega í jafn mikla leti þar sem börnin fara í sumarfrí í dag og við taka klukkulausar vikur hjá okkur þremur, en pabbinn þarf víst að vinna fyrir okkur og fær lítið sem ekkert frí. Hann fær því bara að njóta þess þeim mun betur á næsta ári!

mánudagur, júní 19, 2006

Púff húff, annað prófið búið

Eins og dýr á leið til slátrunar. Það var tilfinningin sem ég hafði í morgun (að ég held, ég hef jú aldrei upplifað það að vera dýr á leið til slátrunar, en ímyndunin var á þessa leið). Annað próf mitt í Syddansk Universitet á leiðinni að lokaáfanganum; talmeinafræðingur! Prófið var í Sprogvidenskab. Frammistaðan var hræðileg, satt að segja. Ég klikkaði á minnstu smáatriðum en hann Fransvua (stafað á einhverri fínni frönsku) Heenen, gamall félagi úr íslenskunni í HÍ, hjálpaði mér mikið, ásamt honum Jóhannesi Gísla Jónssyni, enn öðrum félaga úr íslenskunni. Ég gat babblað eitthvað um hljóðfræði og ég held að það hafi reddað mér. Tíminn hefur að minnstu farið í lærdóm undanfarna viku. Orkan var hreinlega uppgufuð eftir átökin fyrir anatomi-prófið auk þess sem tíminn hefur farið í veik börn og íbúðarkaup.
Ímynduð aftaka varð að engu þegar ég mætti á svæðið. Gengið var reyndar hræðilegt í prófinu sjálfu, eins og um er getið ofar, en þau virtust ánægð, kennararnir og prófdómarinn, einkunninn varð 8, reyndar á danskan mælikvarða, en ekki svo slæmt miðað við fyrsta munnlega prófið á ævinni og það á öðru tungumáli en íslensku. Ég er jú ekki búin að vera hér nema tæpt ár, svo árangurinn er alveg ásættanlegur.

Jæja, best að fara að njóta þess að hafa gesti.

Hilsen,
Addý paddý

fimmtudagur, júní 15, 2006

Smá afmæliskveðja

Til hamingju með daginn elsku mamma mín!

mánudagur, júní 12, 2006

Spánn hvað?!

Þá er nú heldur betur hægt að segja að sumarið sé komið hingað til Danaveldis með öllum sínum röndóttleika, svita og hita. Yndislegt! Tuskunum hefur verið kastað fyrir eitthvað töluvert léttara og sólarvörnin tekin fram, börnin smurð en foreldrarnir orðnir heldur litríkari eftir sólbaðssetur fjölskyldunnar undanfarna daga, óþægindi eftir því. Ótrúlegt hvað maður getur verið vitur eftir á. En eins og gáfuð ljóska orðaði svo vel endur fyrir löngu: Beauty is pain! Ég held hún hafi haft rétt fyrir sér án þess þó að finnast rauður nebbi, köflóttir sköflungar og röndóttir upphandleggir sérlega smekklegir, en sumum finnst það þó trúlega!
Svo ef hörmulega gengur í næsta prófi má skella skuldinni á sólina og anatomiu- og fysiologiprófið sem ég lauk á föstudaginn. Mér finnst eins og ég sé hreinlega komin í sumarfrí og á í mesta basli með að koma mér í gang aftur. Hvernig á Íslendingur að geta lært undir próf í 30 stiga hita?! Það er hreint ómögulegt að halda sig inni í blíðviðrinu. Vonandi fer bara að rigna svo hægt sé að halda áfram við lesturinn, nei ég segi bara svona!

Að öðrum málum,
hún Hlín vinkona á afmæli í dag! Til hamingju Hlín, sem ert á Tenerife (eða hvernig sem þetta er skrifað) velkomin í ellimannahópinn!

Og að enn öðrum málum,
svo virðist sem við hjónin séum um það bil að verða raðhúsaeigendur hérna í veldi bjórs og bauna! Já, takk! Flott og ígegntekið hús við Blåbervej í Marmeladekvarteret í Hjallese hér í borg er um það bil að verða að okkar. Eigendurnir hafa undirritað tilboðsgerðina eða købsaftale, eins og það heitir á dönsku, sem er bindandi! Svo við þurfum bar að drífa okkur í að tala við bankastofnanir, redda útborgun og gera þetta klappað og klárt. Reyndar er leyfi mitt fyrir svona yfirtökurétti ekki komið á borðið, en Helgi er víst viðurkenndur almennur danskur launþegi, svo hann á að geta eignast eitthvað stærra og meira en bíl og myndavél hér í landi.

Ég bið ykkur vel að lifa! Þar til næst...

föstudagur, júní 09, 2006

Travlt!

Mikið er ég fegin að þessi vika er liðin!
Aftanákeyrsla, röraísetning, veikindi, lögfræðingar, lestur, lestur, lestur, kvíði og stress hafa einkennt vikuna. Reyndar lýstu húsnæðismál hana aðeins upp, með tilheyrandi heimsóknum til lögfræðinga og símtölum við fasteignasala, þessu tilheyrir líka stress. Nú bíðum við bara eftir svari. Við vonum að sjálfsögðu að það verði JÁ en það er ekkert hægt að fullvissa neitt fyrr en undirskrift seljenda er komin á pappír, auk þess sem utanríkisráðuneytið, eða eitthvað svoleiðis, þarf að gefa mér skriflegt leyfi fyrir því að eignast fasteign. Spurning hvort ég hringi í þá Baugsfeðga til að athuga hvað þeir gera í þessum málum þegar þeir vesenast þetta, þar ætti ég ekki að koma að tómum kofanum.

Vikulokin voru svo fullkomnuð í dag þegar ég komst að því, mér til mikillar mæðu, að ég gleymdi blessaða stúdentakortinu mínu heima, korti sem ALLTAF er í veskinu, nema í dag! Ég þurfti því að hlaupa um skólann þveran og endilangan til að sækja mér bevis um að ég væri ég og að ég og væri stúdent við háskólann. Gaman, gaman. Ég þakkaði fyrir að þetta var anatomi- og fysiologipróf og því nóg um lækna í nágrenninu, ef svo vildi nú til að blóðþrýstingurinn næðist ekki niður. Þetta var þó ágætis skokk svona rétt fyrir próftökuna, þó stressið sem fylgdi þessu hefði betur verið geymt heima. Hvað prófið varðar koma niðurstöður síðar, vonandi verð ég þó réttu megin.

Helgin fer í afmælisfagnað ungu dömunnar. Baksturinn bíður, bið að heilsa!

þriðjudagur, maí 30, 2006

Hafið þetta til marks:

There once was a woman who woke up one morning, looked in the mirror,
and noticed she had only three hairs on her head.
"Well," she said, "I think I'll braid my hair today."
So she did and she had a wonderful day.
The next day she woke up, looked in the mirror and saw
that she had only two hairs on her head.
"H-M-M, " she said, "I think I'll part my hair down the middle today."
So she did and she had a grand day.
The next day she woke up, looked in the mirror
and noticed that she had only one hair on her head.
"Well," she said, "today I'm going to wear my hair in a pony tail."
So She did and she had a fun, fun day.
The next day she woke up, looked in the mirror
and noticed that there wasn't a single hair on her head.
"YEA!" she exclaimed, "I don't have to fix my hair today!"
Attitude is everything!

Ekki nokkur skapaður hlutur

Ég hef svosem ekkert að segja, ég er bara orðin leið á því að horfa alltaf á þessa fyllibyttumynd þegar ég kem inn á síðuna og þetta er eina leiðin til að losna við hana án þess að eyða henni út ;)

Síðustu daga hefur próflesturinn farið út um þúfur sökum ælupestar og niðurgangs með hita hjá yngsta fjölskyldumeðliminum. Hann er búinn að vera ansi slappur síðan aðfaranótt sunnudagsins og það hefur lítið farið fyrir svefni og hvíld hjá fullorðna fólkinu, svona eins og gengur og gerist þegar ungarnir veikjast. Þar sem það þarf einhver að vera heima hjá prinsinum höfum við hjónin ákveðið að skipta með okkur verkum á þann háttinn að Helgi fer í vinnuna á morgnana og ég fer í skólann og les þegar hann kemur heim. Ágætis fyrirkomulag.

Það styttist óðum í fyrsta og, að ég tel, erfiðasta prófið (9. júní) og fyrstu gestina (14. júní) þau Sigga Jón, Ingibjörgu og Siggu Jónu jr. Sem segir það að það styttist líka í síðasta prófið sem verður á bilinu 23. eða 25. til 30. júní, jibbííííí! En fögnum ekki strax.
Dagurinn fyrir fyrsta prófið (þeas 8. júní) er afmælisdagur dótturinnar, en varla verður mikið um skemmtun né veisluhöld þann daginn því guttinn á að fara í röraísetningu sama dag. Ætli við förum samt ekki út að borða með hana, trúlega á flottasta matsölustað veraldara, McDonalds! Eða kannski Bone's það er fínn og barnvænn staður.

Jæja, best að sinna litla manninum.

laugardagur, maí 27, 2006

Kreisííííí...



Já, hún finnst ennþá hún þessi, þó hún láti nú kannski sjá sig mun sjaldnar en áður!

föstudagur, maí 26, 2006

Lús í krús sem borðar mús en er ekki fús til góðra verka!

Fátt finnst mér ógeðslegra en sníkjudýr. Lítil skríðandi viðbjóðsleg sníkjudýr! Í dag lentum við í því í annað skiptið á tveimur vikum að börnin fengu lús. Sem betur fer var bara ein í hvoru barninu í þetta skiptið, en nóg samt til að þvo kolla, skipta um rúmföt, frysta busta og greiður og setja bangsana í einangrun. Æðislega skemmtilegt. Lúsavandamálinu hjá drengum var reddað með snöggri heimaklippingu, allt hárið fékk að fjúka! Hann tekur sig bara fjári vel út drengurinn, svolítið rokkaralegur. Það er ekki eins auðvelt með skvísuna. Ég veit ekki alveg hvernig viðbrögðin yrðu hjá fjarstöddum ömmum og öfum og öðrum ættingjum og vinum. Trúlega myndu foreldrar okkar hjóna sannfæra dönsk yfirvöld um að við værum með öllu óhæfir foreldrar og fara þess á leit að börnin yrðu send heim til nánustu ættingja, þeirra sjálfra. Sönnunargagnið: snoðuð lítil stúlka.

Ég er æði!

Jæja, ég ætla að vona að síðustu skrif mín hafi ekki valdið öllum jafn miklum óþægindum og henni Höllu Rós frænku.

Héðan er það að frétta að við erum komin með nýja tölvu og nýjan prentara, svo nú þarf ég ekki að dröslast alla leið upp í skóla til að prenta einn og einn snepil út. Tölvan er æði! Það heyrist ekkert í henni og hún opnar dagblöðin á núlleinni og drepur ekki á sér, jafnvel þó ég tali við Berg bróður á msn-inu! Yndislegt! Gærdagurinn, sem átti að fara í lestur, fór í að setja tölvuna upp og setja hitt og þetta inn í hana svo hægt sé að hafa samband við umheiminn. Svo skiptumst við hjónin á að prófa gripinn og ég efast um að sú síða sé til sem ekki fékk heimsókn af okkur í gær. Ég hlakka mikið til að eyða næstu árum í samfloti með þessari nýju elsku... bara óskandi að hún bili nú ekki!

Í gærkvöldi stalst ég til að eyða síðasta hálftímanum vakandi í sjónvarpsgláp og datt inn í þáttinn Extreme makeover. Þegar honum lauk fór ég í háttinn með tilheyrandi snyrtingu og speglaglápi. Þá rann upp fyrir mér að þrátt fyrir mín þrautsetnu tryggu aukakíló er ég bara þrusu sátt við sjálfa mig! Ég gat ómögulega fundið eitthvað sem þarfnast lagfæringar að undanskildu fitusoginu. Það er ekki þar með sagt að lýtalæknar myndu líta mig sömu augum og ég. Enda skiptir það engu máli.

Megið þið eiga góða helgi!

Hér kemur ein súkkulaðitilvitnun sem vel á við!
"Jo mere chokolade man spiser, jo sødere bliver man!"

sunnudagur, maí 21, 2006

Mikki mús og votsalirnir

Notó spotó. Við sitjum heima mæðginin öll, sötrum heitt kakó og horfum á Mikka mús á meðan fjölskyldufaðirinn þrælar sér út fyrir komandi H&M viðskiptum.

Ég ætti þó að sitja sveitt yfir Zemlin, Netter og öðrum skemmtilegum líffærafræðibókum þar sem við erum formlega komin í upplestrarfrí. Óformlega verður þó kennt fram að 31. maí í anatomi og fysiologi, sem er líffærafræði, þrátt fyrir að prófið sé þann 9. júní! Frekar mikið óskipulag fyrir eins vel skipulagða þjóð eins og Daninn er.

Þannig er nefnilega mál með vexti að við fáum nú um mundir kennslu í svokölluðum votsölum, þar sem líkamspartarnir eru geymdir. Þar fáum við að skoða og grufla aðeins í höfðum, loftvegum og svo framvegis og svo framvegis. Allt í þágu vísindanna. Það er mjög gaman að sjá hvernig þetta er í raun og veru. Þó svo myndirnar hans Netters séu góðar þá jafnast ekkert á við það að sjá hvernig þetta raunverulega er. Auk þess er varla hægt að segja að líkamspartarnir séu beint ferskir eftir 10-15 ára legu í formalíni svo það er varla nokkuð sem minnir mann á að þetta hafi eitt sinn verið lifandi mannverur, ja, nema kannski hálfopin augu og líkamshár. Lyktin er reyndar ekkert sérstök og loftið oft ansi þungt þarna uppi í sölunum sjálfum, en þetta er ekkert erfitt, alls ekkert óyfirstíganlegt. Enda erum við svoddan hetjur þarna í logopædi/audiologi, að við hristum allan aumingjaskap af okkur og öndum bara með munninum.

Súkkulaðitilvitnun, sem gleymst hefur undanfarið:
"Hænderne væk fra chokoladen, så vil ingen komme til skade!"

föstudagur, maí 19, 2006

Evróvísjónathlægi II

Jæja, þá getum við Íslendingar kyngt þjóðarstoltinu okkar kæra. Frammistaða dívunnar svokölluðu, sem ég vil segja að sé rangnefni, í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var hreint út sagt hörmuleg. Falskur flutningur og ég veit ekki hvað. Ég man ekki eftir svona púi í keppninni, nema kannski þegar Páll Óskar lauk sínum flutningi í denn, man það þó ekki. Hvað viljum við ganga langt fyrir fimm mínútna athygli? Það er ekki svo að öll athygli (þar með talin slæm, MJÖG SLÆM) sé betri en engin. Við eigum að vera skriðin upp úr sandkössunum (þó ekki sé þess að merkja á Alþingi oft á tíðum) og skilja lögmál sandkassanna eftir þar! Það var æðislegt að sjá og heyra metnaðinn hjá sumum flytjendum í forkeppninni, eins og til dæmis hjá þeim frá Bosníu-Hersegóviníu, Írlandi og fleiri góðum, en hreint hræðilegt að sjá svo óprófessjónal atriði annarra þjóða. Botninn var þó flutningur Silvíu Nætur.
Hún varð sér að athlægi og okkur í leiðinni, grey stelpan.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Til hamingju með afmælið Beggi bró

Beggi bró á afmæli í dag og hér með sendi ég honum kveðju í tilefni dagsins, svona rétt áður en það verður of seint!

Vonandi áttirðu yndislegan dag (og það er óskandi að pabbi hafi eldað eitthvað annað en pylsur, niðursoðnar baunir, spælt egg og bacon! ;)).

Það má að sjálfsögðu ekki gleyma því að hann Gústi Lísukarl á einmitt líka afmæli í dag. Það er bara gott fólk sem á afmæli 16. maí! Til hamingju með það karlinn!

Kossar og knúsar að utan...

sunnudagur, maí 14, 2006

Heimskur telur sig heimskan

Nú held ég að hægt sé að telja mig heimska. Þrátt fyrir að vita hvernig heilsan verður daginn eftir djamm á ég í mesta basli með að stoppa þegar ég er komin á ákveðið stig. Við hjónin fórum í þrítugsafmælisveislu til hans Dadda hennar Tinnu sem er með mér í náminu á föstudaginn. Palli var svo indæll að koma bara yfir til okkar og sat yfir grislingunum þar til Helgi kom heim, að sjálfsögðu dugði mér það ekki að vera slútta partýinu klukkan eitt! Afmælið var voða fínt, góður matur og nóg af Mojito, bjór og rauðu. Alltaf vel veitt á Pomosavej. Farið var í skemmtilega leiki og tónlistin spiluð hátt og jafnvel dansað svolítið. Þegar ég gerði mér grein fyrir að stiginu væri náð (því það geri ég alltaf, þekki alveg hvenær ég á að stoppa, en geri það bara ekki) fór ég yfir í Kóka kóla en það næsta sem ég veit er komið rauðvín í stað kóks í glasið. Þá var ekki aftur snúið og heilsan eftir því daginn eftir, sem NB átti að fara í lestur og lærdóm. Ég lá í bælinu á milli þess sem ég faðmaði póstulínið og keyrði vörubíl. Þið ættuð bara að vita hvað það er skemmtileg lífsreynsla að hafa eitt barn hangandi á bakinu og annað togandi í hárið á manni til að athuga hvað sé að gerast þarna í klósettskálinni og fá lokið á klósettinu ítrekað í hausinn á meðan maður hefur ekki orku í neitt annað en að kasta upp. Frekar sorglegt allt saman. Það er bara óskandi að börnin hljóti ekki skaða af. Þetta gerði mér grein fyrir því að svona djamm verður ekki á dagskrá í bráð. Eða allavega ekki þar til næst...

þriðjudagur, maí 02, 2006

Halle Berry heilsar

Ég upplifði stóra draum minn í nótt, í draumi. Ég var Halle Berry á ónefndu skemmtiferðaskipi (ekki þó Herjólfi, þó gaman sé að sigla með dallinum). Um borð í skipinu var herra Brad Pitt líka staddur. Með okkur tókust kynni og í ljós kom að Braddi karlinn var í einhverjum "önderkoverleik". Þrátt fyrir að reyna eins og hann mögulega gat að fara hulduhöfði í skipinu tókst honum því miður ekki betur en svo að upp um hann komst. Eins og sannri kvikmyndahetju sæmir tók ég (Halle Berry) það að mér að bjarga karlgreyinu. Þetta endaði með því að óvinir Pittsins köstuðu syni hans út fyrir borð og ég var neydd til að gera það sama til að bjarga lífi Brads. Svo vel vildi þó til að mitt barn reyndist vera Babyborn-dúkkan hennar Bríetar Huldar, í prjónaða dressinu frá Ólöfu og Jónu. Þegar ég hafði fórnað þessari annars ágætu dúkku var lífi Bradda bjargað og hvernig endaði svo draumurinn? Að sjálfsögðu með KOSSI! Já, vinir mínir, ég hef kysst Brad Pitt og ekki nóg með það, ég hef líka verið Halle Berry! Geri aðrir betur!

Súkkulaðitilvitnun:
"I livets kager, er vennerne chokoladestykkerne."

mánudagur, maí 01, 2006

Valdarán og aðrar hugmyndir

Það er greinilegt að sumarið er á leið hingað til Danmerkur. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það kemur, en það kemur. Trúlega strax á miðvikudaginn þegar spáð er 20 stiga hita. Reyndar eru margir samnemendur mínir við SDU farnir að koma heldur léttklæddir í skólann. Stuttbuxur, pils, stuttermaskyrtur og bolir. Hljómar vel, ekki satt? Mér finnst samt ekkert spennandi til þess að hugsa að á sama tíma og sólin skín og hitinn bræðir þarf ég að sitja inni í skugganum við lestur. Já, takk! Prófin byrja 9. júní og þeim lýkur ekki fyrr en 3o. júní! Frekar fúlt. Ég er einmitt að spá í því að "framkalla" valdarán og ryðja menntamálaráðherra Danmerkur af stóli og hlamma mér á hann sjálf. Það fyrsta sem ég hafði hugsað mér að gera er að færa skólaárið þannig að það henti mér betur. Láta skólana byrja í upphafi ágústmánaðar, láta jólaprófin vera í desember, sem NB er jólamánuðurinn, meira að segja líka hérna í DK! Síðan læt ég hefja kennslu í janúar í stað febrúar áður og að lokum læt ég vorprófin verða að vorprófum, ekki miðsumarsprófum! Þannig lýkur skóla með pompi og pragt eigi degi síðar en 31. maí, takk fyrir! Eftir að þetta er komið í gagnið hafði ég hugsað mér að breyta einkunnaskalanum og setja 10-skalann á. Fella niður þennan 13-skala þar sem einkunnagjöf virðist að miklu leyti vera geðþóttaákvörðun kennaranna. Að þessum breytingum loknum myndi ég setja fram frumvarp þess eðlis að engum sé leyft að breyta þessum annars líka ágætu reglum sem ég set. Eftir þessa tvo daga mína á þingi (já, það borgar sig að hafa hraðar hendur), sest ég aftur á skólabekk og nýt nýja flotta skólakerfisins, byggt með þarfir íslenskra námsmanna í huga! ;)

Súkkulaðitilvitnun:
"Barndommen er den vidunderlige periode, hvor man taber sig i vægt bare ved at gå i bad."

föstudagur, apríl 28, 2006

Kveðjur

Ég gleymdi alveg að óska þeim Elísabetu og Gulla til hamingju með soninn sem fæddist á þriðjudaginn og Sesselju með litla bróður! Til hamingju öll!
Svo átti hann Gummi þrjátíuogfimm ára afmæli, það var líka á þriðjudaginn. Svo til haminju Gummi Marteinn!

Kúkur í baði

Hvað er ógeðslegra en kúkur í baði?
Í þau tvö skipti sem börnin hafa verið böðuð í þessari viku hefur fundist kúkur í baðinu! Ojojoj... eins og Hallgrímur Ormur hefði orðað það. Fyrst féll það í hlut dömunnar að verða brátt í brók, þó engin væri, og í gær var það svo sveinninn sjálfur sem losaði sig við óþægindin. Ég brást hin versta við og reif börnin upp úr þessum annars "stóra" bala, sem er baðið þeirra systkina. Helgi átti hins vegar í mesta basli með að halda í sér hlátrinum, varð rauður og fjólublár í framan og tárin trítluðu niður kinnarnar. Maður sem ekki einu sinni gat grenjað þegar börnin fæddust! Að sjálfsögðu fengu börnin sturtuferð með pabba eftir ólukkuna, þeim til mikillar óánægju. Hláturinn og skemmtunin yfir úrgangnum varð því fljótt að gráti í sturtu með pabba. Börnin, sem annars sjaldan eru þvegin með sápu, nema á allra helgustu stöðunum, fengu því ærlegan jólaþvott fyrir háttatímann bæði skiptin sem óvinurinn birtist í baðinu.

Súkkulaðitilvitnun (veit hreint ekki hvort hún á við í þetta skiptið, en læt hana vaða):
"Nogle breder glæde ud i verden, chokolade narkomaner breder sig bare."

sunnudagur, apríl 23, 2006

Nýtt útlit

Heibbs allir saman!
Ég vil endilega fá athugasemdir á nýja útlitið á síðunni. Er þetta nokkuð of matreiðslubókarlegt?
Mér finnst þetta svolítið hlýlegra...

Látið mig vita!

laugardagur, apríl 22, 2006

Til mömmu

Þetta fann ég. Nokkuð til í þessu!

4 ára ~ Mamma mín getur allt!
8 ára ~ Mamma mín veit mikið! Mjög mikið!
12 ára ~ Mamma veit sko ekki allt!
14 ára ~ Auðvitað veit mamma ekki þetta heldur!
16 ára ~ Mamma? Hún er nú svo gamaldags eitthvað!
18 ára ~ Sú gamla? Hún er nú hálf úrelt!
25 ára ~ Jú, hún gæti vitað eitthvað um það!
35 ára ~ Fáum álit mömmu áður en við ákveðum þetta!
45 ára ~ Hvað ætli mömmu hefði fundist um þetta?
65 ára ~ Ég vildi að ég gæti rætt þetta við hana mömmu!

Góða helgi!

Ljós í lífið

Ég vil byrja á því að óska þeim Hönnu Láru og Ingibjörgu til hamingju með daginn! Vonandi dekstra karlarnir og krakkarnir við ykkur í tilefni dagsins.

Að öðrum málum.
Við hjónin höfum aldrei verið neitt sérstkalega þekkt fyrir það að vera tæknivædd. Höfum t.a.m. ekkert vit á tölvum, sörrándsýstemum eða öðru slíku. Í gær náðum við þó botninum í þessari ónútímavæðingu okkar. Ég rölti mér yfir til varmameisarans, sem er húsvörðurinn okkar, og fékk hann til að kíkja á ljósið í ganginum hjá okkur, sem ekki hafði virkað síðustu tvo-þrjá mánuðina (við erum svo afskaplega framkvæmdaglöð!). Við höfðum reynt allt, skipt um peru, skipt um ljós, tengt allt aftur og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar klukkan er rúmlega hádegi er bankað á dyrnar. Fyrir utan stendur sjálfur viðgerðarmaðurinn. Snillingurinn klifrar upp á stól (sem hefði þurft að vera svona 50 cm. hærri svo vinnuaðstaðan yrði góðkennd), opnar rafmagnsboxið og byrjar að fikta. Jú, allt í lagi með allt hérna. Tengir ljósið aftur. Prófaðu að kveikja. Já. Ég geri það. Ekkert ljós. Gæinn fiktar aðeins í sjálfri perunni. Prófaðu núna. Já. Ég geri það. Og þá varð ljós! Perunni hafði ekki verið skrúfað nægilega langt inn í statífið sem hún er fest í! Vá, hvað mér leið illa. Ég sá hvernig maðurinn glotti og átti í mesta basli með að halda niðri í sér hlátrinum, ekki álsa ég honum fyrir það! Frekar neyðarlegt allt saman. Ég vil meina að þetta sé allt Helga sök. Hann ólst jú upp við ljósvél og á stöku stað olíulampa. Hann saknar heimahaganna og reyndi að ná upp sömu stemningu hér. Ég held ekki að það hafi tekist, því miður.

Jæja, það var nú bara þetta í þetta skiptið. Hlæið bara að okkur og kvittið svo!

Súkkulaðitilvitnun:
"Hvordan kan en æske chokolade på 1 kg. få en kvinde til at tage 3 kg. på?"

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Hjálmar og aðrar forvarnir

Var að koma heim úr morgunhjólatúr. Skilaði Elí Bergi til dagmömmunnar og Bríeti Huld í leikskólann. Þetta var fyrsti hjólatúrinn í ansi langan tíma. Ég náði loksins að rífa hjólið MITT af karlinum og rétta honum bíllyklana. Ekki svo að skilja að ég hafi áður borið fyrir mig leiðinlegt veður og tvö börn og så videre og så videre. Nei, nei, ég var alveg parat, eins og þeir segja hérna í útlandinu, Helga finnst bara svo gaman að hjóla. Það er nú reyndar ekki eins og það sé bara til eitt hjól á heimilinu. Hitt hjólið er bara búið að vera frekar leiðinlegt. Það er víst ekki ávísun á gott farartæki þegar maður borgar bara um það bil 800 dkr. fyrir hjól í Kvickly. Nægur peningur, en lítið um gæði.
Í þessum áðurnefnda hjólatúr mínum reikaði hugur minn aðeins um síður dagblaða gærdagsins. Þar var meðal annars bakþankagrein, ansi góð. Sá sem hana skrifaði var að spá í þeim nákvæmlega sama hlut og við hjónin erum búin að vera að velta fyrir okkur, hvers vegna hjólar Daninn hjálmlaus? Það þykir sjálfsagt að smella hjálmi á barnið sem situr aftan á (reyndar er alltof algegnt að börn séu líka hjálmlaus) en það er bara svo hallærislegt að setja einn á hausinn á sjálfum sér! Ótrúlega glatað að hjóla með vörn gegn höfuðáverkum um götur bæjarins! Hann setti fram þá myndlíkingu að það væri mikið meira "kúl" að hjóla með opnar höfuðkúpur eftir óhapp heldur en að hjóla með hjálm. Hvaða gagn gera foreldrar fastir inni á stofnun eftir að hafa hlotið slæman höfuðáverka vegna þess eins að það var ekki "kúl" að hafa hjálm? Að sjálfsögðu eiga börnin að ganga fyrir og þau eiga hiklaust að hafa hjálm. Að mínu mati gildir það um foreldrana líka og auðvitað alla hina. Við hjónin erum einmitt þetta "glataða" lið sem alltaf hjólar með hjálma!

Ég sá svolítið alveg stórfurðulegt í gær þegar ég var á leiðinni til læknis. Fyrir utan læknastofuna var sjúkrabíll og þegar ég geng framhjá honum koma sjúkraflutningamennirnir út með sjúkling á börum. Með manninum er konan hans. Hún hálfpartinn hleypur á eftir þeim með sígarettu í hönd, réttir karlinum sem tekur vænan smók um leið og hann fer inn í bílinn. Ég veit ekki hvers vegna maðurinn fékk far með sjúkrabílnum, en mér fannst þetta alveg bráðfyndið atriði. Inni í bílnum ætti kannski að standa "Lungnalaus maður andar ekki."?

Súkkulaðitilvitnun:
"Jeg har aldrig mødt kalorie, jeg ikke kunne li´."

mánudagur, apríl 17, 2006

Páskar

Frábært veður, Søndersø, Hasmark, Vejle, Billund, góðar móttökur frændfólks í Horsens, páskaeggjaát og Odense Zoo eru það sem einkennir páskahelgina hjá okkur fjölskyldunni á Ugluhæðinni. Notó spotó. Æðislega gott grillað lambalæri með hvítlauksgeirum og frönsk súkkulaðikaka sem aldrei varð, vonandi samt í dag. Ólesinn lestur, kannski ég kippi því í liðinn. Sjónvarp og útivera, þó ekki saman.

Haldið áfram að eiga góða páskahelgi!

Súkkulaðitilvitnun:
"Motion gør dig ikke så sulten som at tænka - på chokolade."

Addý páskaeggjadrottning.

föstudagur, apríl 14, 2006

Í minningu ömmu

Í gær hefði orðið sjötug elskuleg amma mín, Ellý Björg Þórðardóttir. Hún var sannkölluð kjarnakona. Þær eru ófáar minningarnar um hana sem ég varðveiti með mér. Ég minnist hennar helst á því hve notalegt það var að koma til hennar og afa Hreins á Háaleitisbrautina. Þar fékk ég t.a.m. að sortéra gamalt og ónothæft snyrtidót frá hinu nýrra. Það var oft stútfullur poki sem ég tók með mér heim, mömmu til ómældrar ánægju! Við amma áttum líka leyndarmál. Amma bar nefnilega hártopp. Dag einn þegar ég var í pössun hjá henni var hún að gera að toppnum og ég, barnið sjálft, skildi hvorki upp né niður í því hvernig í ósköpunum hún fór að því að taka af sér hárið. Hún sagði mér þá leyndarmálið sem ég lofaði að segja engum frá. Ég man ekki hve gömul ég var þegar þetta átti sér stað, en leyndarmálinum hélt ég út af fyrir mig þar til ég uppgötvaði, mér til skelfingar, að þetta vissu allir. Þá var ég farin að nálgast tvítugt.
Þegar við eldri systkinin fengum að gista hjá þeim afa og ömmu var hápunkturinn að fá að sofna á dýnum sem amma kom fyrir fyrir framan sjónvarpið, enda vissi hún hve mikilvægt það er að láta fara vel um sig fyrir framan kassann. Það er óhætt að segja að amma hafi verið einn dyggasti stuðningsaðili sjónvarpsdagskránna hin síðari ár.
Síðustu ár ömmu fékk ég að njóta nánari samvista með henni í kór Bústaðakirkju. Það var æðislegt! Amma naut mikilla vinsælda og hvar sem hún fór var eftir henni tekið. Það átti líka við um veru hennar í kórnum. Hún var einn af stólpunum þar. Búin að starfa með honum í áratugi, bæði með kórnum og Guðna heitnum Guðmundssyni, organista. Það varð því svolítið tómlegt á kóræfingunum eftir að hún amma lagði söngstarfið á hilluna. Það var svo notalegt að geta hallað sér upp að henni og fengið ráðleggingar þegar ég náði ekki erfiðustu alt-línunum. Hún kunni alla sálmana og fjöldan allan af sönglögum og kórverkum, hver sem höfundurinn var. Ef hún kunni ekki alt-línuna eða fannst hún leiðinleg eins og hún var, bjó hún einfaldlega til nýja! Ef hún kunni ekki textann, þá trallaði hún bara! Hún reddaði sér. Hún gerði þetta svo listavel að hún komst upp með þetta. Tónlistin var henni í blóð borin. Auk þess að syngja spilaði hún á gítar, píanó og harmónikku.
Amma var ákveðin. Hún hafði ákveðnar skoðanir. Hún kunni hins vegar þá erfiðu list að segja skoðanir sínar án þess að vera vond. Vegna þessa bar fólk virðingu fyrir henni, og gerir enn. Ástæðan er trúlega sú að hún hafði húmor, frábæran húmor. Ég man að þegar hún hitti Helga minn í fyrsta sinn tilkynnti hún mér að ef hún væri þrjátíu árum yngri myndi hún stinga undan mér! Henni fannst hann svo sætur! Svo hundskammaði hún mömmu fyrir að hafa bara sagt hann "ágætan".
Ég er þakklát fyrir að hafa átt ömmu að. Ég er líka þakklát fyrir að eiga tvær aðrar yndislegar ömmur (og að sjálfsögðu afa líka ;)), sem enn eru á lífi.

Gleðilega páska!

Súkkulaðitilvitnun:
"I livets kager, er vennerne chokoladestykkerne."

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Vorfílingur og spilafíkn

Ég fékk vorfílinginn yfir mig áðan. Við fjölskyldan hjóluðum út í Højbyskov, sem er skógurinn "okkar" skv. landfræðilegri staðsetningu. Ummm... hlýtt, stilla og fuglasöngur. Yndilsegt. Þetta fékk mig eiginlega til að endurskoða þá hugmynd okkar hjóna um að flytja okkur upp fyrir hraðbraut. Þó sveitin sem við búum í sé nokkuð langt frá miðbænum er svo rólegt hérna. Þetta er einskonar smábær í borginni. Alltaf frekar rólegt og notalegt. Auk þess sem það er ekkert sérlega langt að hjóla í skólann (sérstaklega þegar litið er á að Helgi beib hjólar kvölds og morgna í vinnuna sem er norðan við miðbæinn, sirka 15 kílómetrar eða þar um kring). Þar að auki erum við með bíl og komumst allra okkar ferða óhindrað, það er svo lengi sem bíllinn fær ekki þá flugu í hausinn að gera sér upp heilsuleysi og angra okkur á þann háttinn. Sveitasælan er notaleg. Ég væri hins vegar til í rúmbetra húsnæði, þó ekki sé hægt að kvarta undan plássleysi miðað við margt annað húsnæði, en mikill vill meira! Raðhús með garði væri náttúrlega toppurinn, hvað þá einbýlishús með garði! Garður er skilyrði hér í Danaveldi, vil ég segja. Hér er sumarið sumar og hægt að nýta garðinn. Við kynntumst því aðeins á Kochgsgade síðasta sumar. Þar var fínn afgirtur garður sem við höfðum aðgang að og þar sem við vorum á stuen, eða fyrstu hæð, var ekki langt fyrir okkur að fara með drykkjarföng og annað góðgæti út. Sem betur fer erum við þó með smá skika hérna, þó ekki sé hann stór, þá er hann afgirtur og hægt að skutla börnunum út og vaska upp á meðan. Maður hleypur bara út þegar maður heyrir öskur eða þegar börnin verða of hljóð.

Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni um daginn. Sá póstur fjallaði um ungan dreng og spilafíkn hans sem leiddi til sjálfsmorðs. Spilafíkn er hræðileg fíkn, jafnvel hræðilegri en áfengisfíknin þegar tekið er með í reikninginn að hana er auðveldara að fela, það finnst t.a.m. engin lykt af fíklinum. Fíkillinn notar hvert tækifæri sem gefst til að spila og telur heppnina alltaf vera á næsta leiti. 500 kallinn sem hann vann í gær heldur honum við efnið og í dag telur hann miklar líkur á því að stóri potturinn falli honum í skaut. Það gerist sjaldan. Oftar en ekki fer spilarinn heim slyppur og snauður, með bullandi móral og áhyggjur sem naga hann inn að beini. Hvað á að segja konunni, fjölskyldunni og vinunum? Hvernig á að borga næstu leigu eða hafa efni á mat? Spilafíkn er viðbjóður, eins og öll önnur fíkn. Í dag er ég búsett í Danmörku þar sem spilasalir, eða Casino, eru leyfðir. Hér birtast auglýsingar í hléum allra helstu sjónvarpsþáttanna þar sem auglýstar eru heimasíður þar sem hægt er að veðja á allt mögulegt sem ómögulegt. Frekar sorglegt. Alls staðar er bent á hvernig maður getur orðið skjótríkur, enginn talar um að tapa. Þeim parti halda menn fyrir sig. Í dag er t.a.m. grein í Ugeavisen þar sem pókerspilari fer fögrum orðum yfir "íþróttina". Hann talar um hve auðveldlega hann vann sér inn 30 þús. dkr. á rúmri klukkustund, í klaus fyrir neðan stendur í smáu letri hve skamman tíma það tók hann að tapa 27 þús. dkr. Það tók hann lengri tíma að tapa þeim, svo vinningurinn var hans! Hræðilegt að þetta skulu vera skilaboðin til ungs fólks. Sittu fyrir framan tölvuna og spilaðu, þannig verðurðu ríkur! Bullshit!

Takk fyrir mig.

Súkkulaðitilvitnun:

"Spis et varieret måltid om dagen - en æske fyldt med chokolade."

sunnudagur, apríl 09, 2006

Einfeldni er af hinu góða, ekki satt?

Mikið hef ég verið furðulegur krakki. Ég gat aldrei skilið það hve hratt Jesúbarnið óx úr grasi. Frá jólum að páskum hafði hann elst um hvað 33 ár! Að sjálfsögðu átti allt sem á daga Jesúbarnsins hafði drifið að hafa gerst á einu og sama árinu, en ekki hvað! Jólin koma jú á undan páskum, svo þetta var alveg rökrétt. Annað var algert rugl enda er ekki hægt að kalla fullorðinn mann JesúBARNIÐ! Barnið hljót því að vera barn, en ekki fullvaxta maður.

Smá tuð í telefni dymbilviku.

Súkkulaðitilvitnun:

"Chokolade er blandt de mest populære ting, der kan redde én fra depression."

laugardagur, apríl 08, 2006

Góða helgi

Þar sem frúin er búin að vera ansi upptekin síðustu daga kemur þessi svolítið seint:

ELSKU BESTA AMMA MÍN, TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ÞANN 5.!

Matarboð, gestir, gruppearbejde og rok er eitthvað sem einkennir þessa vikuna. Að ógleymdum enn fleiri afmælisgjöfum! Ég veit hreinlega ekki hvað gengur að fólki, en ég þakka kærlega fyrir mig! Þrátt fyrir kvabb og kvein er aldrei leiðinlegt að fá afmælisgjafir. Helgi minn fór einmitt í vikunni og keypti geislaspilarann fyrir mig í græjurnar svo nú er hægt að tjútta almennilega við heimilisstörfin. Lundin verður eitthvað svo létt þegar maður getur sungið og dansað við ryksuguna.

Vorið er loksins farið að gera aðeins vart við sig þó það eigi nú samt erfitt með að koma alveg úr felum. Veðrið í gær minnti t.a.m. svolítið á íslenskt útileguveður, sól, rok og hvorki kalt né hlýtt. Í dag er hins vegar dumbungi yfir öllu svo garðyrkjustörf verða að bíða betri tíma.

Það er ekki laust við það að prófkvíði sé farinn að plaga dömuna. Að minnsta kosti hafa tvær nætur í þessari viku farið í draumfarleg kvíðaköst (flott nýyrði, ekki satt?). Fyrra skiptið dreymdi mig að ég væri á leiðinni í próf til ákveðins kennara í HÍ, sá er m.a. kenndur við setningarfræði og íslenskt nútímamál (þeir vita sem til þekkja). Það vildi nú ekki betur til en svo að ég varð of sein í prófið og til að bæta gráu ofan á svart þá gleymdi ég þeim gögnum sem nota mátti í prófinu heima. Það gekk allt á afturfótunum. Boðar ekki gott. Ætli málið sé ekki bara að rífa sig upp af rassgatinu og hefja lestur.

Ég er gersamlega andlaus, en skrifa bara til að skrifa. Vona að það gerist ekki aftur í bráð.

Súkkulaðitilvitnun fær að fylgja:

"Jeg kan godt lide chokolade gaver, men jeg vil allerhelst have noget, du selv har lavet - som penge du har tjent."

Góða helgi, gott fólk!

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Smá afmæliskveðja

Að sjálfsögðu gleymdi ég svo að óska henni móðursystur minni til hamingju með daginn.

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ELSKU SIGFRÍÐ MÍN!

Kossar og knúsar frá DK,
Adds padds og co.

Kærar þakkir til ykkar allra!

Vá! Ég þakka allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið. Hvort sem þær bárust í gegnum internetið, með sms-i, msn-i, símtali eða með fólki sem flutti mér þær í eigin persónu! Takk, takk, takk! Alltaf gaman þegar fólk man eftir mér. Sjálf er ég ekki sú allra sterkasta á sviði afmælisdagaminnis, svo ég get ekki farið fram á það að fólk muni eftir mér (kannski síðasta færsla hafi hjálpað ;D).

Sjálfur afmælisdagurinn var ansi fínn. Við fengum nokkra gesti hingað til okkar í kaffi, þau Tinnu og Emelíu Ögn (Daddi var lasinn, greyið), Rósa, Palli og grislingarnir tveir mættu líka ásamt Heiðu og hennar börnum. Svo það var ansi fjörugt hérna. Þó óþarfinn sé algjör, fékk ég fullt af gjöfum í tilefni dagsins. Mjólkurkar og sykurkar í stíl við tekönnuna mína frá Evu Solo (held reyndar að merkið heiti Solo og hönnuðurinn Eva, eða eitthvað svoleiðis), rosa flott varagloss og augnskugga og þessa líka frábæru bók um súkkulaði (greinilegt að það þarf ekki að þekkja mig lengi til að kynnast mér vel ;)) og blóm, að ógleymdum alltof háum peningaupphæðum inn á bankareikninginn minn, sem fara að sjálfsögðu beint í Tivoli-geislaspilarann. Þúsund þakkir fyrir mig!

Á laugardagskvöldið héldum við hjónin í afmæli til þriggja skvísa hérna í Óðinsvéum, þeirra Ellu, Hillu og Ragnhildar, sem voru svo yndælar að troða mér í saumaklúbbinn sinn. Þar var tjúttað fram á miðja nótt, með gítarspili og fleiru tilheyrandi (og alltof góðri bollu :I). Sunnudagurinn var hins vegar ekki eins góður, enda er það sjálfskaparvíti að fá sér í glas, svo mér er engin vorkunn.

Jæja, ég vildi bara þakka fyrir mig!

Læt hérna fylgja eina tilvitnun úr bókinni góðu um súkkulaðiunnendur, hún er reyndar á dönsku svo það er bara um að gera að dusta rykið af menntaskóladönskunni og reyna að skilja þetta.

"Jeg ville opgive chokolade - men jeg er ikke typen, der giver op."

Megi þið eiga góðan dag.

laugardagur, apríl 01, 2006

Afmæli

Í dag eru liðin 28 ár frá því að ég leit heiminn fyrst augum. Flestir hefðu trúlega haldið að þá hefði himinninn verið heiður, sólin yljað landanum og blómin verið útsprungin, en sú var nú ekki raunin. Mér skilst á henni móður minni, sem er minn helsti heimildamaður varðandi fæðingu mína, að veðurguðirnir hefðu leikið öllum illum látum, birgt fyrir sólu, hellt úr fötu og sagt eitt stórt "ATSJÚ!". Það var sem sagt rok og rigning daginn sem ég fæddist.
Á þessum árum hefur margt gerst. Það stendur án efa uppúr að eiga heila fjölskyldu útaf fyrir mig! MÍNA fjölskyldu. Auk þess sem margt yndislegt og skemmtilegt fólk hefur orðið á leið minni í gegnum reynsluskóginn. Takk fyrir það!
Í tilefni þessa dags ákvað ég að bjóða nokkrum vinum hérna í útlandinu til kaffisamlætis, enda komast þeir næst því að vera fjölskyldan okkar hérna. Í kvöld er svo þrusuafmælispartý hjá þremur píum hérna í DK á áætlun.

Ég vil líka óska henni Söru Líf, litlu frænku minni, til hamingju með daginn!

Þegar maður á afmæli á maður að vera fínn, ekki satt?! Því brá ég á það ráð að kíkja á eina hárgreiðslustofuna hér í bæ. Fyrir valinu varð hárgreiðslustofan Afrodita sem liggur lengra upp í bæ. Ég valdi hana sökum verðlags og þess að hún Heiða pæja fór þangað í síðustu viku og kom svona ægi fögur þaðan. Ég fékk tíma hjá nemanum á staðnum, enda eina lausa þegar ég pantaði tíma. Mitt mottó er nefnilega "betra er seint en aldrei". Neminn var lítil sæt stelpa af indversku bergi brotin. Hún stóð sig bara asskoti vel. Hún fékk reyndar að hafa frekar frjálsar hendur, enda er ég ekki vön því að ákveða sjálf hvernig hárið á að vera. Ég hef sjaldan haft ákveðnari hugmyndir um það en þær hvort það eigi að verða styttra eða lengra. Auk þess sem þær fáu sem ég hef þegar ég mæti á staðinn gleymast þegar fingur klipparans hefjast handa. Ég held þetta sé einhver töframáttur sem þjálfaður er upp í hárgreiðslunáminu. Allavega, hún fékk semsagt nokkurn veginn að ráða hárinu sjálf, þessi unga dama. Mér brá nú nokkuð þegar liturinn kom í ljós sem hún setti í. Rautt. Ég sá ekkert nema rautt. Svo til að bæta gráu ofan á svart (eða appelsínugulu ofan á rautt) setti hún tvo risastóra ljósa lokka á sitt hvorn staðinn á kollinum. Úfff... Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við, en ákvað að sitja aðeins lengur á honum stóra mínum og sjá hvernig heildarútkoman yrði. Þegar daman hafði þurrkað og sléttað hárið og sett eitthvað klístur í, leit þetta bara ekkert svo hrikalega illa út! Þetta var satta að segja bara nokkuð fínt. Hárið varð ekkert rautt, bara með smá rauðum blæ, og lokkarnir tveir (annar að framan og hinn í hnakkanum) komu bara svona þrusuvel út. Það er nauðsynlegt að breyta til. Svo er það líka svo skemmtilegt! Ég er bara ansi sátt við þessa heimsókn norður fyrir hraðbraut, þó svo að herlegheitin hafi tekið hálfan fjórða tíma.

Jæja, ég ætla að fara og skella í eina köku fyrir fólkið.

Megið þið eiga góða daga.

Kveðja,
Addý afmælisbarn :)

þriðjudagur, mars 28, 2006

Sérhljóðar og sund

Heilt og sælt veri fólkið (þ.e.a.s. Gillí og Lilja og hinn sem slæðist einstaka sinnum inn á síðuna)!
Það er talað um að við íslendingar séum ein ríkasta þjóð í heimi. Það getur vel passað þegar litið er á þjóðararfinn, tungumálið. Íslenskan er það alfegursta tungumál sem fyrirfinnst á jarðarkringlunni (á norðurhjara í það minnsta). Spænskan er reyndar mjög falleg líka, en ég hef aldrei verið hrifin af svona "ælu-, vælu-"málum eins og frönsku, en ítalskan finnst mér líka ansi hljómfögur. Auk þess hve íslenskan er hljómfögur og "hrein" er málfræðin ekkert svo slæm nema kannski fyrir útlendinga. Hins vegar er talað um það hve auðvelt það er að læra dönskuna. Ég er þessu ekki sammála. Um þessar mundir er ég nefnilega í hringiðu dönsku hljóðfræðinnar og setningafræðinnar. Ég hef BA-próf í báðum þessum fögum (reyndar á íslensku) og mér reynist það þrautinni þyngra að skilja hvað fram fer í tímunum. Við stelpurnar unnum t.a.m. alla helgina að verkefni sem átti einungis að taka u.þ.b. tvo tíma! Okkur var hvorki unnt að klára verkefnið né hafa það sem við þó leystum hárrétt! Taka ber fram að hópurinn samanstendur af þremur dönskum píum og tveimur íslenskum skutlum, þannig að ekki er hægt að skella skuldinni einungis á það að við höfum annað tungumál en dönsku að móðurmáli. Hér eru nefnilega reglur á reglur ofan og þó það fyrirfinnist margar undantekningar af setningarfræðireglum og hljóðfræðireglum í íslensku þá eru þær "pís of keik" miðað við þær dönsku. Ég er líka búin að komast að því að það á að innleiða sérhljóðkerfið íslenska inn í öll önnur tungumál (sérstkalega í dönskuna) það eru svona um það bil tíu útgáfur af o-i hérna, ég heyri aldrei muninn og það pirrar mig!

Að öðru skemmtilegra. Ég er að drepast úr harðsperrum! Eftir sund! Hver hefði getað trúað því að maður gæti haft svona hrikalegar harðsperrur eftir sundsprett! Gærdagurinn hófst sem sagt á því að ég tók sundsprett í lauginni sem tilheyrir háskólanum. Að sjálfsögðu synti ég eins og ég er vön, langsum yfir laugina. Eftir tvær ferðir fram og tvær til baka gekk sundlaugarvörðurinn að mér, hnippti í mig og bað mig vinsamlegast um að synda þvert yfir laugina eins og allir hinir! Já, ég hafði velt því fyrir mér hvers lags eiginlega þetta væri, ég var sú eina sem synti í rétta átt! Það kom mér ekki til hugar að ég væri sú eina sem synti í öfuga átt! Þrátt fyrir þessar ógöngur reyndist þetta svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn í dag (gerði líka misheppnaða tilraun til að losna við harðsperrurnar eftir gærdaginn með því að synda þær af mér, það tókst ekki betur en svo að þær mögnuðust um allan helming). Það kom því berlega í ljós að ég er í hræðilegu formi. Ég held því að málið sé bara að stinga sér til sunds þá daga sem ég sæki tíma í þeirri von um að þolið aukist og að ég komist í betra form.

Jæja, best að fara að sinna grislingunum.
Bið að heilsa í bili.