föstudagur, október 31, 2008

Börnin, blessuð börnin

Um daginn þegar við fjölskyldan komum heim lagðist Elí Berg í gólfið og bað um að verða háttaður. Þegar lokið var við útigallaháttunina heyrðist í Bríeti Huld: " Elí Berg, eigum við að koma að bolla?" og Elí Berg sem enn lá í gólfinu svaraði: "Nei, ég nenni því ekki núna!".
Já, það er greinilegt að leyndarmál heimsins eru börnunum kunn. Þó virðast elskuleg börnin mín ekki þekkja nema hálfa söguna því er móðirin krafðist útskýringar á því hvað "bolla" þýðir urðu útskýringar dóturinnar á þá leið að þetta væri eitthvað sem kærustupör gerðu, að stelpan legðist ofan á strákinn og styndi svolítið.

Annars er ég ánægð með kennarann hennar Bríetar Huldar (sem ég geri ráð fyrir að ekki stuðli að umræðum um kynlíf í bekknum). Hún kennir börnunum ótrúlegustu hluti. Áherslan er ekki bara lögð á stafrófið og reikning, heldur kemur barnið uppfullt af vitneskju heim um hitt og þetta. Um daginn var mikið rætt um Ástralíu og Egyptaland. Skömmu seinna var þemavika um kroppinn og næringu (og foreldrarnir fengu vel að kenna á skvísunni í sambandi við matvælainnkaup til heimilisins), í vikunni er svo búið að ræða mikið um vatn og gera tilraunir með vatn. Skvísan skellti sér því fyrir framan töfluna í eldhúsinu og tók móðurina í kennslustund í því hvað flýtur og ekki flýtur. Hún sagði mér m.a. frá því að 2/3 ísjakans eru undir sjávarmáli og einungis 1/3 yfir því. Í sambandi við vatnið var einnig rætt um hvernig bátar flytu og m.a. var farið í grófar útskýringar varðandi það þegar Titanic sökk. Þetta var skvísan mín allt með á hreinu. Í kennslunni les kennarinn fyrir börnin eins og venja er og nú um mundir er hún að lesa Hobbitann eftir Tolkien, bók sem ég heyrði ekki um fyrr en í FB. Þetta finnst mér alveg brilljant. Kennarinn virðist nota alla þá resúrsa sem hún finnur í daglega amstrinu og fletta sögunni inn í kennsluefnið.
Marianne fær því tíu stig frá mér!

Jæja þá. Eigið góða helgi!

mánudagur, október 27, 2008

Ofurmamma

Ég er svo löngu búin að læra þetta. Enda sést það á sívaxandi þvottafjöllum, ryki á gólfi og á hillum, uppvaski í vaskinum og blöðum og bókum um allt hús. Það er spurning hvort kannski sé verið að tala um þennan gullna meðalveg?
Kannski.

miðvikudagur, október 22, 2008

Íslendingur á erlendri grundu

Já, við getum greinilega lent í ýmsu hér í Danmörkinni. Hún Heiða vinkona okkar lenti í þessu. Þetta er hreint út sagt fáránlegt!
Spurning hvort við getum ekki sett upp okkar Íslendingareglur og sniðgengið fyrirtæki sem haga sér svona! Við verslum ekki við Sonofon, það er á hreinu!

miðvikudagur, október 15, 2008

Núið

Ég skráði mig í Núið um daginn. Sem væri ekki í frásögur færandi nema sökum þess að ég hef fengið fjóra glaðninga! Það er alveg frábært, nema ég er náttúrlega ekkert á Íslandi til að njóta þessara glaðninga og það vita þeir í Núinu og notfæra sér áræðinlega að koma gjöfunum á einhverja sem ekki koma til að leysa þá út! Hihihi... ég sá mér því leik á borði og sendi gjafirnar á hina ýmsu vini mína til að þær færu nú alveg ábyggilega ekki til spillis!
Þar hafið þið það!

mánudagur, október 13, 2008

Fjölskyldulíf

Og fólk er að spyrja okkur hvort 117 fermetra húsið dugi undir okkur og okkar þrjú börn! Svona var þetta í gamla daga. Það að fólki detti í hug að fjögurra herbergja 117 fermetra húsnæði dugi ekki undir fimm manna fjölskyldu hlýtur að vera í anda þeirrar græðgi og yfirborðskenndar sem í dag ríkir oft á tíðum. Breytum þessu! Auðvitað er notó að fá að vera í sérherbergi, og ég fékk það oftast sem krakki, en það er ekki nauðsyn. Maður hlýtur að læra það að taka tillit til annarra ef maður deilir herbergi með systkini auk þess sem samböndin verða trúlega oft nánari. Sumum þykir við trúlega líka skrítin af því við erum "bara" með eitt sjónvarp á heimilinu, í stofunni. Ekkert sjónvarp er í neinu herbergjanna, enda að mínu mati er þess ekki þörf. Það er orðið ansi lítið fjölskyldulíf ef allir hverfa inn í sitt herbergi til að horfa hver á sinn þáttinn. Það er kósý að vera saman. Ég veit að þetta er svolítið svart/hvítt, en að mínu mati svolítið sem við þurfum að athuga nú á þessum síðustu og verstu. Hvað er nauðsyn og hvað er bruðl?

föstudagur, október 10, 2008

Ekki batnar það!

Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen udfører ikke længere betalinger til og fra Island på grund af den nuværende økonomiske situation i Island.

Vi beklager de gener, det giver.

Jahá!

Annað hvort les engin það sem hér er skrifað eða þeir sem lesa skilja annað hvort ekki dönsku eða eru afar slæmir af gigt og geta þar af leiðandi ekki pikkað á lyklaborðið. Mín vegna vona ég að það sé ekki það fyrst nefnda ;)
Héðan er annars fínt að frétta, ef frá er litið efnahagskreppunni miklu. Reyndar er sama hvert maður snýr sér, þetta er á allra vörum, líka Dananna. Það er ekki laust við að það hlakki í nokkrum þeirra núna, enda var hneykslan þeirra á vitleysishátti fyrri ára mikil. Reyndar túlkuðum við þessa hneykslan sem pjúra öfundssýki yfir því að Íslendingar væru að eignast allt sem Dönunum var kært. Kannski sáu þeir bara fram á það, blessaðir, að þetta gengi ekki til lengdar. Ullin af rollunum eða síldaraflinn dugar hreinlega ekki fyrir allri þessari neyslu sem hefur verið á klakanum síðustu misserin. Fremstir í flokki eru náttúrlega ráðamenn bankanna og ekki síður þjóðarinnar, þó svo að hinn almenni borgari verði líka að taka ábyrgð á sínum gjörðum, hafi sá hinn sami veðsett allt fyrir lánum umfram greiðslugetu. Hitt er annað að myntkörfulánin sem bankarnir prönguðu upp á marga eru að fara með fólk og því er ekki stjórnað af lánþega. Þó áhættan hafi verið hans.

Annars fórum við á opið hús í skólanum hjá Bríeti Huld í gær. Þar var stuð og stemning, þemað var kroppurinn og næring, svo nú getur dóttirin farið að taka foreldrana í bakaríið hvað varðar neyslu hollustuvarnings ;) Súkkulaðið er þó látið kyrrt liggja þar til börnin eru komin í ró á kvöldin. Við kunnum okkur!

Jæja, best að fara að lesa eitthvað að viti svo ég komist nú í að senda þessa ritgerð frá mér og þiggja danskar krónur í stað íslenskra sem fyrst.

Eigið góða helgi öll sömul og þeir sem kvitta verða obboð góðir vinir mínir!
Kveðja úr krepputalandisamfélagiíslendingaíóðinsvéum,
Addý.

fimmtudagur, október 09, 2008

Eniga meniga, allir röfl' um peninga

Ég var inni á netbankanum okkar hjóna rétt í þessu. Þar rak ég augun í þennan texta:

Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen behandler overførsler til og fra Island enkeltvis på grund af den nuværende økonomiske situation i Island. Berørte kunder bliver orienteret, hvis betalingen forsinkes eller ikke gennemføres.

Skemmtó, ekki satt?

þriðjudagur, október 07, 2008

Enn af kreppustandi

Þessar ljóðlínur fékk ég sendar í tölvupósti frá frænku minni. Sökum "ástandsins" finnst mér það við hæfi að birta þær hér, enda varla um annað hugsað þessa dagana en slæmt gengi krónunnar og yfirvofandi kreppu á Íslandinu góða. Ef sá sem línurnar orti rekur inn nefið á síðunni minni og er óhress með birtingu þessa annars ágæta kveðskapar, má hann láta mig vita hið snarasta svo ég geti fjarlægt ljóðið.

Þjóðnýting

Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.

Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.

En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.


Með kveðju,
Addý.

mánudagur, október 06, 2008

Kreppustand

Er þetta ekki í anda kreppunnar?

Hrútur: Þú skilur hvort eð er við peningana þína fyrr eða síðar, svo þú getur alveg eins skemmt þér á meðan á því stendur. Það er svo notalegt að vera gjafmildur.

Best að skjótast út í Rose og eyða peningum ;)