fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Leikhorn í verslunum

Mér hefur reyndar oft dottið þetta í hug. Reyndar er ég sammála því að svona sjónvarpshorn eigi ekki heima í matvöruverslunum, en það væri kærkomið í H&M t.a.m. Mikið yrði Helgi minn glaður og það sem betra er, ég fengi tíma til að þukla á öllum spjörunum, án þess að hafa karlinn dragandi lappirnar á eftir sér með fýlusvip á vör, sökum skemmtanaleysis innkaupaferðarinnar. Hingað til hef ég þó leyst þetta vandamál þannig að hann er geymdur heima ásamt börnum á meðan ég fæ að njóta mín í Rose eða miðbænum ;) Þrátt fyrir umræðu um misrétti, þar sem ég er að mestu leyti sammála jafnréttissinnum, verðum við jú líka að viðurkenna muninn á körlum og konum. Flestum okkar kvennanna þykir skemmtilegra en körlunum í búðunum.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Slen

Ótrúleg leti, þreyta og droll einkennir heimilislífið þessa dagana. Ég skelli skuldinni að sjálfsögðu á ferðalangann sem hefur tekið sér bólfestu í kroppnum mínum. Svo slæmt er þetta orðið að fólk er farið að kvarta yfir því að komast ekki framhjá garðinum sökum óklipptra trjáa, svo það er spurning að fara að gera eitthvað í þeim málum. Það ætti ekki að taka svo langan tíma. Reyndar ætla ég að skella mér í jólabakstur á morgun á meðan Helgi er í vinnunni. Ætli ég fái ekki spræka unga til liðs við mig. Tegundir morgundagsins eru reyndar ekki útvaldar enn, en ég geri ráð fyrir einni brúnni lagtertu og svo eins og einfaldri uppskrift af einhverri sniðugri sort. Svo mikill er slappleikinn hér á bæ að ég er meira að segja að spá í að vera snemma með jólaskrautið í ár, svona til að létta lundina aðeins og vonast eftir smá orkukipp við ljósasjóvið sem við ætlum að setja upp. Það er óskandi að það takist, enda þarf að skila svona eins og einni ritgerð fyrri 20. des. og svo tekur við próflestur, svo ekki fer mikill tími í jólabókalestur þessi jólin frekar en þau tvö fyrri. Jólabókin mín í ár er Cleft Palate Speech. Mæli eindregið með henni!
Hef þetta ekki lengra að sinni. Ég ætla að koma mér í búðina að kaupa fyrir baksturinn áður en ég dríf mig á fyrirlestur uppi í skóla og svo á jólafrúkost! Jahú!

laugardagur, nóvember 17, 2007

Hvað er málið?

Ég veit ekki hvort ég nái honum Helga mínum nokkurn tímann aftur heim til Íslands ef maður þarf að hafa 680.000 í mánaðarlaun til þess eins að geta greitt af húsnæði og bíl. Ég efast stórlega um að ég verði hálaunamanneskja hjá íslenska ríkinu. Svo það er spurning að sjá hvað setur hér í Danaveldi áður en farið verður að huga að heimferð, enda ekki á dagskrá næstu árin. Mér finnst þessi hækkun á húsnæðisverði heima sem og vöxtum húsnæðislánanna til skammar. Þörf fyrir húsnæði er ein okkar helstu þarfa. Svo það ætti í raun að vera þak á húsnæðisverði, þar sem ríkið tekur í taumana til að sjá til þess að allir hafi kost og möguleika á því að kaupa sér húsnæði, því ekki er verðið á leigumarkaðnum á klakanum mikið skárra. Í fréttinni er í jú einungis rætt um Reykjavík, en ég geri ráð fyrir því að það sama eigi við um nágrannabæjarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Það er spurning hvort maður endi á Flateyri eða í öðru smáþorpi á Vestfjörðum ef hugurinn leitar heim og maður vill getað leyft sér almennilegan vinnutíma og góða sunnudagssteik öðru hverju.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Er mannslíf einskis virði?

Ég veit að maður á að bera virðingu fyrir hinum ýmsu siðum, venjum og trúarbrögðum og það reyni ég eftir fremsta megni að gera. En hvernig er hægt að bera virðingu fyrir fólki sem leyfir sér að framkvæma þetta?
Ég skil ekki svona. Ærumorð og -meiðingar virðast heldur vera regla en undantekning hjá þeim þjóðarbrotum sem koma frá miðausturlöndum, hvort sem þeir eru búsettir í heimalandi sínu eða í öðrum löndum, eins og reynslan hefur sýnt fram á hér á Norðurlöndum.
Hræðilegt.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

London

Þá er seinteknum hveitibrauðsdögum okkar hjóna lokið. London var rosa fín, en slær þó ekki Berlín út. Tíminn fór mikið í ráp, á milli túristastaða og búða, frábært alveg! Ég hafði þó hemil á mér í innkaupapokauppfyllingum, enda eiginmaðurinn mér til halds og trausts. Hótelherbergið olli svolitlum vonbrigðum þar sem það var líkara káetu en hótelherbergi, þar sem plássið var af skornum skammti. Baðherbergið var minna en það í Goðatúninu, og við sem héldum að það væri ekki hægt! Óléttuskapið lét til sín segjast og kerla snappaði smá, en bara smá. Hélt þó andliti og lét vonbrigðin með herbergið ekki skemma ferðina, enda laglegur ferðalangur með í för ;) Við skelltum okkur á Mamma mia sjóvið a´la ABBA-meðlimirnir Benny og Björn. Hreint út sagt frábær sýning! Meiriháttar alveg. Reyndar fór skapið versnandi hjá kerlu eftir að inn í leikhúsið var komið og við gerðum okkur grein fyrir því að við sátum á bekk 2 og það beint fyrir aftan hljómsveitarstjórann. Addý ákvað því að skjótast fram til sætaskiparanna og athuga hvort mögulegt væri á sætaskiptum, en því miður var uppbókað. Það varð þó ekkert því miður þegar sýningin hófst því ég tók aldrei eftir þessum gaur þarna fyrir framan mig sem baðaði út höndum til að halda hljómsveitarmönnunum við efnið. Neibb, til þess var sýningin alltof áhugaverð. Mæli eindregið með henni ef leiðin liggur um London!
Túristafílingurinn náði hámarki í rútuferð um borgina, fyrir utan Buckingham Palace og Tower of London, inni í Westminister Abbey og hátt yfir borginni í London eye. Geggjað. Maturinn á Aberdeen Angus Steakhouse var líka rosa góður, nautafillet með tilheyrandi. Ummm... Ókryddaði sósulausi hamborgarinn á Planet Hollywood var hins vegar ekkert til að hrópa húrra fyrir, en við fáum aldrei leið á Starbucks Café! Ummm... KFC heimsóttum við líka, ásamt Disney store, Marks og Spencer og fleiri sniðugum búðum. Í Debenhams afgreiddi okkur stúlka sem kunni örfá orð í dönsku og skildi því dönskublönduðu enskuna mína, sem betur fer!
Myndir koma seinna inn á síðuna hjá krökkunum. Myndavélin dó efst í London Eye!

Þar til næst...

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Helgi afmælisbarn

Í dag á karlinn minn afmæli! Til lukku!

Að þessu tilefni ætlar hann að drösla frúnni yfir á eina af Bretlandseyjunum hér í vestri. Dögum helgarinnar verður eytt í stórborginni Lundúnum þar sem við munum upplifa hveitibrauðsdagana í brjáluðu roki og bullandi rigningu, sem skiptir engu þar sem við getum haldist í hendur og haft það kósý! Engin börn, bara við tvö. Það setur þó strik í reikninginn að börnin eru bæði með hitavellu og búin að vera síðan á þriðjudaginn. Þau eru þó nokkuð brött svo við ákváðum að halda okkur við setta dagskrá þannig að Kristrún og Alli og Halla Rós og Sturla fá að hugsa um þau í veikindunum á meðan við heilsum upp á hennar hátign Elísabetu og co. Þau höndla þetta án efa með sóma hjónin!

Með von um að allt fari vel!
Þar til næst...

föstudagur, nóvember 02, 2007

Bæn fyrir Gillí

Hún Gillí vinkona okkar liggur nú á líknardeild LSH, því langar mig að setja inn bæn fyrir hana, fyrir valinu varð bæn fyrir sjúka sem finnst í sálmabókinni.

"Drottinn minn Jesús Kristur. Þú hefur sagt: Komið til mín allir þér, sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir, og ég mun veita yður hvíld. Nú á ég erfitt og hef byrði að bera, sem þú þekkir betur en nokkur annar. Því kem ég til þín. Oft gleymdi ég þér, þegar allt gekk vel. Gleym þú gleymsku minni. Þú hefur sjálfur liðið og ert kunnugur þjáningum. Þú barst þinn kross, af því að þú vildir taka veikindi vor og bera sjúkdóma vora. Þú elskaðir mig, sekan mann, og gekkst í dauðann fyrir mig. Elska þín er eilíf og getur aldrei brugðizt. Því treysti ég heiti þínu, að þú veitir mér hvíld. Ég bið þig um bata, en segi eins og þú: Verði þinn vilji, faðir í himnunum. Lát mig aðeins finna höndina þína, hvað sem annars mætir mér. Lát mig muna höndina þína og treysta henni, þótt ég finni hana ekki. Veit mér traust hjartans, þolinmæði, rósemi, þann frið þinn, sem er æðri öllum skilningi. Ver þú mín hjálp og hreysti og líf. Bænheyr mig, Drottinn minn og frelsari. Amen."

Elsku Gillí mín og fjölskylda, okkar innilegustu baráttukveðjur.