miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Addy

Prófið að gúgla "Addy". Þið fáið upp óteljandi síður. Þetta er ættarnafn, nafn á hóteli, nafn á auglýsingaverðlaunum og dúkku. Já, og ég sem hélt að þetta væri bara sytting af öðru lengra nafni. Reyndar er Addy upphaflega hebreskt (þetta með kommuna er náttúrlega bara séríslenskt) og þýðir gimsteinn, svo það er nú ansi fallegt! Hehehe...
Tékkið á þessu ef þið hafið nákvæmlega ekkert að gera.
Kveðja,
Addý.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Senn kemur jólasveinninn, senn koma jól!

Jingle bells, jingle bells... Vá hvað ég er farin að hlakka til jólanna! Það styttist óðum í þau. Það er greinlegt að stemningin í mömmunni er farin að breiða sig út til barnanna, mér til mikillar gleði. Sérílagi þar sem minn elskulegi eiginmaður er ekkert jólabarn og því hefði möguleikinn allt eins getað verið sá að börnin hefðu heldur kosið að moka snjóinn frá dyrunum eða að vaska upp í stað þess að taka þátt í jólaskreytingum í takt við jólatónlistina. Nei, takk. Börnin mín eru sko búin að föndra nokkra jólakarla úr pípuhreinsurum og kúlum og þeim er prinsessan á heimilinu að sjálfsögðu búin að koma fyrir í glugganum, ásamt fínu jólaseríunni sem múttan keypti á laugardaginn. Bríet Huld biður ekki um neitt annað núna en að lesnar séu jólabækur fyrir háttinn og að hún fái að horfa á Rúdólf með rauða nefið eða Grinch, sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Ungi maðurinn fylgir náttúrlega með, eins og hans er von og vísa, enda systirin ein sú flottasta sem hér í heimi finnst!

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Nýtt baðherbergi á leiðinni

Nú er allt að verða vitlaust hérna. Eins og flestir vita er Helgi minn sá alskilningsríkasti, rólyndasti og notalegasti maður sem í heimi finnst (svolítið væmið, en satt!). Til að sjá til þess að það viðhaldist ákvað ég að færa honum slaghamar í hönd, ásamt meitli. Þetta er gert sökum þess hve óstýrlát ég sjálf hef verið undanfarið, frekar leiðinleg eitthvað. Svo til að hann fari nú ekki að steita skapi mót mér sá ég þessa leið eina færa, svona til að halda heimilisfriðinn. Reyndar finnst líka önnur ástæða fyrir hávaðanum og rykinu sem nú dreifist jafnt um allt heimilið, hún er sú að baðherbergið þarfnast lagfæringar. Þar sem jólabarnið ég er nú frekar ákveðið að upplagi varð eiginmaðurinn að fara að óskum mínum og vera búinn að setja upp heila klabbið fyrir hátíð ljóss og friðar. Ef ég hefði fengið að ráða þessu alein, hefði að sjálfsögðu verið stefnt á að vera búin með verkið fyrir fyrsta í aðventu, en ég verð víst að láta mér jólin nægja. Það er búið að fjárfesta í öllu sem til þarf til þessara framkvæmda að undanskildum blöndunartækjunum. Svo útkoman ætti að vera hið fínasta baðherbergi, ljóst og fínt.
Næstu dagar fara því væntanlega í svolítið væl um ryk hér og ryk þar og jafnvel um klósett- og vaskleysi.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Útdráttur úr Nyhedsavisen

Ég fletti í gegnum Nyhedsavisen hans Gunnars Smára áðan (það var eitthvað svo mikið meira spennandi en taugafræðibókin). Af lestri mínum varð ég margs vísari. Prestur að nafni Flip Benham sem búsettur er í draumaveröldinni BNA hefur sett á laggirnar félagsskap sem heitir "Operation Save America" sem á að berjast gegn þeirri ákvörðun stórverslanakeðjunni Wal Mart sem staðsett er víða um Bandaríkin, að mér skilst, að styðja við bakið á samkynhneigðum. En eins og flestir kristnir menn vita er það hið mesta trúbrot (alveg eins og hljómsveitin) að vera samkynhneigður, og jafnvel verra að taka málstað samkynhneigðra. Já, það er margt sem á sér stað í henni Ríku minni. Ég vona svo sannarlega að íslenskir prestar séu að einhverju leiti skilningsríkari hvað þetta varðar. Svo ef Hagkaup styðja við bakið á Samtökum '78 þá taki séra Björn úti í bæ ekki upp á því að rakka fyrirtækið, sem hefur selt okkur svo margar sokkabuxur og banana í gegnum árin, niður! Áfram hommar, áfram lesbíur!
Annað fyndið dæmi úr henni Ameríku. Ja, reyndar er það nú frá Ítalíu, en fólkið er frá fyrirheitna landinu. Nú eru aðdáendur Tomma og Kötu Krús-Hólms, frekar fúlir. Þeir fengu nefnilega ekki að sjá þau á brúðkaupsdaginn þeirra! Jú, OK, þau eru náttúrlega búin að láta ansi mikið á sér bera allan þann tíma sem þau hafa átt í ástarsambandi og því lá beinast við að brúðkaupinu yrði sjónvarpað beint um heim allan, Oprah hefði þá líka átt að gefa þau saman og Beckham hjónin átt að vera svaramenn. En svo varð ekki. Fólk keypti sér í alvörunni ferðir niður til Ítalíu til að sjá hjónakornin (eins og það hafi ekki getað kíkt á eitthvað forvitnilegra þarna niðri frá!) án þess að sjá tangur né tetur af þeim. Kastalinn var þó flottur! Já, að leggja þetta á sig.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Próftörn framundan

Ohhh... ég fékk próftöfluna í dag. Hún lítur ekkert sérlega vel út. Fyrsta prófið er 20. des. kl. 08:00 sem þýðir að ég þarf að mæta í skólann klukkan 7:45 og þar af leiðandi vakna hálfsex eða þar um bil til að ná að skvera krökkunum fram úr bólunum, skella einhverju ætu í kroppinn þeirra og smella á þeim lörfum, eða þeim í larfana, allt eftir hvernig á það er litið. Síðasta prófið er svo þann 18. janúar, það er meira að segja nokkuð erfitt, taugafræðipróf. Svo jólin eru formlega rokin út í veður og vind. Þökk sé fjölskylduvæna vinnustaðnum hans Helga að börnin þurfa ekki að vera á vergangi milli jóla og nýjárs. Karlinn verður heima að gæta bús og barna á meðan ég verð lokuð inni á dimmu bókasafni háskólans. Ohhh... jeg glæder mig helvildt! Mikið verður samt rosalega notalegt að leggjast með tærnar upp í loft og horfa á imbann í að meðaltali 4-5 tíma á dag þegar próftörninni er lokið, þeas ef ég gerist svo góð að standast blessuð prófin!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Til lukku!

Fætt er stúlkubarn, 13.5 merkur og 50 cm.
Hjartanlega til hamingju elsku Hrönn og Haddi!

laugardagur, nóvember 18, 2006

Til lukku með daginn bráðum elsku Emil!

Í kvöld á sér stað eitt af partýjum ársins á Fróninu kalda. Hann "færeyski" Emil okkar hjóna fagnar árunum fjörtíu (hann á nú reyndar ekki afmæli fyrr en 22. nóv., svo hann verður á fertugsaldri nokkra daga í viðbót áður en fimmtugsaldurinn tekur við) í faðmi góðra vina. Það er á svona stundum sem það er ansi erfitt að vera langt í burtu. Elsku Emil okkar, skemmtu þér vel! Við verðum með í anda. Enda búin að opna rauðvínsflösku þér til heiðurs og það er aldrei að vita nema það verði teknar eins og tvær eða þrjár tíur!
Knús og kossar frá Danaveldi...

Barnavarnakjarnaskarnalarnafarnamarna

Hvernig stendur á því að maður þarf að beita öllum tiltækum ráðum við að vekja ungana sína á virkum dögum en svo vakna þau upp fyrir allar aldir um helgar?
Börn eru ótrúleg, en jafnfram yndisleg.
Megið þið eiga góða helgi.

Til hamingju með afmælið, Halla Rós og Allan! Palli minn til hamingju með afmælið á morgun!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Það er margt í mörgu í maganum á henni Ingibjörgu!

Það er nú varla hægt annað en að vera pínku uppi með sér hvað það eru margir sem nenna að leggja leið sína hingað á síðuna til mín! Heilir 55 á tveimur sólarhringum, það er nokkuð betra en ég bjóst við miðað við kvitteríið... uhummmm! Hihihi
Annars er allt fínt að frétta héðan, allir við hestaheislu, enda blíðviðrið hér! Enginn snjór, ekkert rok, enginn kuldi! Ummm... ég var einmitt að koma heim úr þessum fína göngutúr með henni Ragnhildi, við þrömmuðum um götur Hjallese og spjölluðum um brýn málefni, takk fyrir það mín kæra! Eftir svona hressandi göngu er fátt betra en að koma heim, hlamma sér fyrir framan tölvuna og pikka inn nokkrar línur til ykkar, kæru vinir :)
Næstu vikur verða þó öllu hressilegri en þær sem á undan eru gengnar. Við hjónin erum búin að sanka að okkur hinum ýmsu efnum sem nothæf eru í baðherbergisuppbyggingu, baðinnréttingu, klósetti, sturtuhurðum, flísum og einhverju fleiru. Næst á dagskrá eru framkvæmdir! Mikið hlakka ég til þegar þetta verður allt komið í stand. Enn meira tilhlökkunarefni er þó að hann Bergur bró og kærastan hans, hún Rebekka, ætla að kíkja á okkur hingað fyrir jólin. Það verður heldur betur stuð. Ég get varla beðið eftir því að fá að berja þessa margumtöluðu skvísu augum. Það er óþolandi að hafa ekkert andlit að tengja nafnið við!
Nóg í bili,
farin að borða...

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Njósnabúnaður 21. aldarinnar

Jæja félagar!
Nú er ég búin að setja upp njósnavél á síðuna. Sem telur þau skipti sem ég heimsæki síðuna, já og Gillí líka og vonandi einhverjir fleiri!
Farvel í bili.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Laudrup, til hamingju!

Bara svona til að leyfa ykkur fylgjast með þá hlaut hinn danski Michael Laudrup hinn umdeilda titil "Danmarks bedste fodboldspiller" og skaut þar með erlendum framapoturum, eins og Peter Schmeichel og Jon Dahl Tomasson ref fyrir rass. Það verður því án efa stuð í jólaboðunum í ár í Laudrupfjölskyldunni, þar sem bræðurnir Michael og Brian voru báðir tilnefndir. Sá síðarnefndi er án efa nokkuð svekktur yfir því að hafa ekki sjálfur unnið sigur í þessari keppni. Spurning hvort Mikki gefi brósa sínum eftirlíkingu af verðlaunagripnum í jólagjöf, bara svona til að smella á arinhilluna sína!

Fótbolti, fótbolti!

Jahá... Ég efast ekki um það stundarkorn núna að við hjónin höfum flutt til draumlandsins, í það minnst hvað fótbolta varðar. Í þessum pikkuðu orðum er stillt á TV2 þar sem fram fer val á besta fótboltamanni Danmerkur fyrr og síðar. Reyndar hafa þeir úr miklu að moða hér í DK, Gravesen, Tómasson (sem NB er íslenskur), Schmeichel (sem reyndar er pólskur), Laudrupbræður og fleiri og fleiri. Við þyrftum að láta okkur nægja Ásgeir Sigurvinsson, Eið Smára Guðjónsen og Albert Guðmundsson. Svo fyrir ekta fótboltaáhugamann, eins og minn elskulega eiginmann, er Danmörk paradís á jörðu! Reyndar líka fyrir íslenska námsmenn, en það er svo allt önnur saga ;)

laugardagur, nóvember 11, 2006

Fjöldasöngur

Hafið þið einhvern tímann lent í því að vera í troðfullum strætó þar sem enginn segir orð og langað til að standa upp, klappa saman lófunum og fá liðið til að syngja saman einhvern góðan slagara eins og "Allir krakkar"?

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ég elska samt Danmörku líka!

Kristrún skutla bauð mér á kvennamessu seinnipartinn í dag. Við höfðum það rosa huggó og skoðuðum allt milli himins og jarðar sem konur gætu mögulega haft áhuga á! Þegar við komum inn keyptum við poka með alls kyns skemmtilegheitum fyrir konurnar, meðal annars úrvals Lamba-salernisrúllum! Já, viti menn, konur kúka! Ekki nóg með að við höfum fengið þennan fína klósettpappír, heldur fylgdu nokkrir auglýsingabæklingar með í kaupbætir, ásamt tískublöðum og fleiru. Innan um auglýsingabæklingana og sneplana rak ég augun í einblöðung þar sem auglýst var heimasíða. Heimasíðan heitir www.babyverden.dk, barnets verden på nettet! Sama merki og sama nafn og á íslensku barnalandssíðunni! Já, við Íslendingar látum okkur ekki nægja stórfyrirtæki eins og Magasin, eða húsnæði hér í véum Óðins, neibb... Netið skal líka undir okkar hatt!
Ég veit að einn félagi okkar var skammaður af rúmlega fertugri danskri konu fyrir að kaupa Danmörku upp! Aumgingjas peyinn sat í rólegheitum inni á írsku vertshúsi og teygaði mjöð að sið innfæddra þegar konugarmurinn réðist að honum, hann vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið!
Ég enda því þessa færslu á fleygum orðum auglýsingabransans: Ísland bezt í heimi!

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Til hamingju Helgi!

Í tilefni þess að Helgi minn á afmæli í dag ætla ég að skrifa 100. færsluna á þessari bloggsíðu! Til lukku Helgi minn, svona ef ég gleymi að óska þér til hamingju með daginn!
Annars er þessi afmælisdagurinn búinn að vera hreint ágætur, þó ég segi frá. Veisluglaði eiginmaður minn vildi að sjálfsögðu ekki gera neitt í tilefni dagsins, svo hún Heiða vinkona okkar skveraði sér í heimsókn til okkar og dróg þau Ragnhildi og Mána með ásamt grislingunum. Við skutumst því í Netto til að kaupa svolítið inn svo hægt væri nú að bjóða upp á eitthvað (þau voru svo elskuleg að láta okkur vita um komu sína með góðum fyrirvara). Svo skelltum við í einn heitan brauðrétt og smelltum á lagkagebunder. Þetta kom barasta ágætlega út. Ég setti rjóma, flödeboller, súkkulaðirúsínurnar sem Helgi fékk í afæmlisgjöf frá Tinnu og vínber á milli botnanna og gerði svo piparmyntusúkkulaðikrem og hellti því yfir, útkoman: hin fínasta afæmliskaka!
Fortsæt god dag, eins og þeir segja hérna í baunaveldinu!

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Afmæli á morgun

Hann Helgi minn á afmæli á morgun. Því hefur árlegur hausverkur látið á sér kræla undanfarna daga. Hvað á að gefa manninum? Dóttirin var alveg með þetta á hreinu, "nú fullorðins spólu, svona sem ég má ekki horfa á!" Það stendur ekki á svörum hjá blessuðum börnunum. Hvað lesa má á milli línanna læt ég liggja milli hluta.
Meira var það ekki í bili...

mánudagur, nóvember 06, 2006

Græðgi eða sniðugheit?

Ég er að spá í að fara í aðgerðir. Gera hugmynd Gillíjar að minni og kynna Albani jólaölinn fyrir íslensku þjóðinni, gott ef hinar afurðir þessa líka ágæta bjórframleiðanda fylgi ekki í kjölfarið. Síðan ætla ég að opna KFC-stað hérna í Óðinsvéum og grípa hugmyndina frá Ingu Birnu og hafa leik"hornið" í miðjunni, svo foreldrarnir geti nú borðað matinn sinn í friði án þess að hafa áhyggjur af grislingunum á meðan þeir hlaupa um og hoppa. Hljómar eins og frábær staður fyrir fjölskyldufólk, ekki satt? Kannski ég fái Ingu Birnu með mér í þetta, þá getur Helgi Þór látið draum sinn rætast og flutt hingað út!
Fleiri tillögur varðandi gróðrastarfssemi eru vel þegnar!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Hvar er tvífarinn minn?

Ég sá afa Hrein úti að hlaupa með hundinn í gær. Við sáum Andreu systur í bænum í sumar að skála með vinkonunum. Ætli það séu til nokkur sett af öllum kroppum sem deilt er milli landa? Hvar ætli hin "ég" sé þá? Kannski matráður í ráðuneyti Þjóðverja í Kasakstan eða sundlaugarvörður í Tælandi? Hver veit? Ef einhver sér hina "mig" þá vinsamlegast látið mig vita!

föstudagur, nóvember 03, 2006

J-dagur!

Föstudagur, enn og aftur! Það segir manni bara það að það styttist óðum í prófin svo það væri kannski ágætis hugmynd að taka plastið utan af bókunum. Uhummm...
Þetta er þó enginn venjulegur föstudagur því þetta er hinn frægi J-dagur! Jamm, í kvöld klukkan 20:59 hefst sala á jólabjórnum hér í DK. Þá streymir fólk út á skemmtistaðina til að renna hinum ljúfa drykk niður. Við hjónin sögðum reyndar skilið við Tuborg jólaölinn í fyrra og tókum upp betri siði með drykkju Albani jólaölsins. Ummm... sá er góður, enda framleiddur hér í borg. Hann fæst meira að segja í tveimur útgáfum, ljósri sem kallast Blålys og dökkri sem kallast Rødhætte. Hún Rauðhetta smakkast sérdeilis vel, skal ég segja ykkur, og það er synd að hún skuli ekki fást heima á Fróni. Ég legg því til að allir mínir vinir og vandamenn taki sig saman og skjótist hingað út í smá ölsmökkun!
Megið þið eiga góða helgi!
Það ætla ég að gera!

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Síson

Úff púff... ég eyddi peningum í gær. Alltof miklum. Keypti mér kápu, tvö pils og einhverskonar blússu. Allt rosa flott. Þetta var ekkert ætlunin en þær stöllur Rex pex og Heidi Klum drógu mig með sér á Vilakvöld, þær vissu alveg hvað þær voru að gera! Reyndar er ég að spá í að geyma annað pilsið, ullarpils, og fínu blússuna til jóla. Spurningin er bara hvursu lengi ég held út! Hehehe...
Ég smitaðist aðeins af framkvæmdagleði Helga hérna í fyrradag. Tók mig til og keypti gardínur og gardínustöng inn til barnanna og smellti þeim upp (með aðstoð míns ástækra, að sjálfsögðu, enda hefði veggurinn orðið eins og gatasigti hefði ég mundað borvélina), svo smellti ég nýju áklæði á gamlan stól sem við eigum, eitthvað sem átti að vera búið að gera fyrir langa löngu! Kvöldið endaði ég svo á því að ljúka við lopapeysuna mína, sem er búin að vera í vinnslu síðan síðasta vetur. Kuldinn sparkaði í rassinn á mér og fékk mig til að klára stykkið. Það er nefnilega orðið vibba kalt hérna hjá okkur. Kuldinn smýgur inn um merg og bein, en það venst. Grislingarnir voru bara settir í ullarnærtreyjur, sem einhverra hluta vegna koma sér betur hér í DK en heima á Fróni, og kuldagalla. Nýju kuldaskórnir koma sér einmitt vel núna. Við keyptum fyrir Elí Berg í síðustu viku og Bríeti Huld núna í vikunni. Þorðum ekki öðru þar sem allt er að seljast upp og viti menn, næst á dagskrá eru sandalar! Við erum að tala um að það koma ekki fleiri kuldaskór í búðirnar, þó svo að nú séum við bara stödd í byrjun nóvember! Já, kvinnan í búðinni tilkynnti mér það að í næstu sendingu fengju þau bara sandala og annað slíkt! Ótrúlegt. Sísonið fyrir kuldaskó nær frá lok júlí/byrjun ágúst fram til byrjun nóvember. Á þessum tíma er varla orðið kalt! Talandi um síson, ein vinkona okkar hérna sagði okkur frá því að vinafólk hennar hefði farið í Bilka um daginn að athuga með barnavagn fyrir ófætt kríli sitt, svarið var: "Nei, því miður það er ekki síson fyrir barnavagna núna"! Aumingjas konan stóð með bumbuna út í loftið að því komin að eiga og skildi hvorki upp né niður í starfsmanninum. Nei í Danmörku fæðast börnin bara á vorin og á sumrin!
Já, það er margt sem maður lærir í útlandinu.