þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Veikindastúss og röraaðgerð

Ég sé að það eru tæpar tvær vikur síðan ég pikkaði eitthvað hér inn á síðuna.
Reyndar er fátt að frétta. Börnin búin að vera meira og minna veik og lítið orðið úr skrifum, og ég sem ætlaði að klára ritgerðina fyrir Íslandsför. Vonandi hefst það, þó hægt gangi.
Ég var með Tóbías Mar hjá hne í dag, þar sem hann fékk eyrnabólgu fyrir nokkru síðan. Hjá lækninum kom í ljós að hann er með mikinn vökva í eyrum og í stað þess að setja drenginn á endalausa pensillínkúra, ákvað doksi að skrá hann í röraígræðslu þann 8. desember nk. Einkennin hjá kauða eru nefnilega þau sömu og hjá eldri bróðurnum, og hann þekkir læknirinn. Það er þó óskandi að rörin sitji eitthvað lengur í Tóbíasi en Elí Bergi, sem á einu ári fékk þrisvar sinnum grædd rör í hljóðhimnurnar, að lokum voru grædd í hann svokölluð t-rör sem þarf að fjarlægja með aðgerð.
Já, þeir hafa erft þennan skemmtilega tendens fyrir eyrnabólgum, af mér synir mínir.

Eigið góða daga og munið að vera góð við hvert annað.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Gott framtak Ingibjargar Sólrúnar

Mér líst vel á ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar um að fækka sendiherrum og sendiráðum. Ég hef aldrei almennilega skilið þetta með sendiherra. Ég skil það mætavel að það þarf að hafa sendiráð á þeim stöðum í veröldinni sem Ísleningar sækja mest, en ég skil ekki hvers vegna það eru menn hafðir á fullum launum við það að sýna sig og sjá aðra. Nú getur verið að einhverjir verði argir fyrir hönd sendiherranna, sem trúlega gera eitthvað aðeins meira en að halda veislur með ómældu áfengismagni og sérreyktum íslenskum laxi, en það verður að hafa það. Mér finnst mun skynsamlegra að leggja þessi embætti niður og spara þannig launa- og húsnæðiskostnað, því að sjálfsögðu dugir ekki venjuleg blokkaríbúð fyrir herrana okkar í útlöndum, heldur verða vistarverur að vera öllu ríkmannlegri, svo hægt sé að taka á móti hinum ýmsu ráðamönnum annarra þjóða. Það ætti að duga að hafa skrifstofu, í skrifstofubyggingu, með klósetti og kaffimaskínu fyrir kaffiþyrsta gesti. Starfsmannafjöldi skrifstofunnar ætti svo að vera í samræmi við það hve mikið er að gera í sendiráðinu.

Þar sem ég er að tala um niðurskurð og sparnað, finnst mér við hæfi að minnast á þær launalækkanir sem eiga sér stað í þjóðfélaginu nú um stundir, um leið og verðlag fer hækkandi. Mér finndist ekkert nema sjálfssagt að ráðamenn þjóðarinnar tækju á sig launlækkun, landsmönnum til fordæmis. Þannig sýna þeir samstöðu og auka tiltrú fólksins á sjálfum sér og sýna í verki að þeir virkilega brenni fyrir því að landsmönnum líði vel. Þegar ég tala um ráðamenn þjóðarinnar á ég við alþingismenn jafnt sem ráðherra. Að ekki sé nú talað um spreðið í borginni í formi starfslokasamninga síðustu borgarstjóra.

Það er líka með ólíkindum að ein mikilvægustu störf þjóðarinnar, umönnunar-, uppeldis- og kennarastörf, skuli vera brotabrot af launum bankstjórnenda, sem nú eru ríkisstarfsmenn. Jú, jú, þeir eiga að axla ansi mikla ábyrgð í starfi, en ég get því miður ekki rekið augun í þá ábyrgð sem stjórnendur bankanna axla nú þegar bankar þeirra eru komnir á hausinn. Ábyrgðin sem hinar áður upptaldar starfsgreinar bera er ekki minni en bankastjórnenda, öðruvísi, en ekki minni. Því réttlætir ekkert þessi gífurlegu laun bankastjórnenda, þó svo leiðin frá bankabauknum sé styttri til þeirra en til leikskólakennaranna t.d., svona kerfislega séð. Það ætla ég að vona að þetta breytist fljótlega, þó útlitið sé ekki fyrir það.

Og hana nú!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Mjög erilsöm nótt

Mikill erill var hjá foreldrunum að Bláberjaveginum í nótt. Mikið var um uppköst og niðurgang. Óvenju mikil drykkja einkenndi einnig nóttina og voru þrengsli í svefnherberginu mikil. Þrátt fyrir vöku og umgang í húsinu tókst einum fjölskyldumeðlimanna þó að halda sér sofandi. Jók þetta ástand mjög á hitaálagið sem að undanförnu hefur einkennt heimilishaldið.
Þrátt fyrir mikla drykkju var enginn tekinn ölvaður við akstur.

Hver var lasinn?