laugardagur, mars 31, 2007

Raddþjálfun og fleira

Eitthvað hafa puttarnir verið óviljugir að pikka í lyklaborðið þessa vikuna. Það hefur líka lítið verið fréttnæmt undanfarna daga. Það helsta er kannski að Karítas Kristel hennar Heiðu er búin að vera hjá okkur síðan á miðvikudag. Reyndar var kennslan þessa vikuna nokkuð skemmtileg. Við fengum þennan fína audiologopæd frá norður Jótlandi, sem reyndar er sænsk, til okkar. Hún kenndi okkur ýmsar öndunar- og raddæfingar með ansi líflegum hætti. Það er ekki amalegt þegar maður er látinn reysa sig af flatbotnanum og takast á við æfingar. Skemmtilegt, skemmtilegt. Hún var líka svo lífleg og skemmtileg og gott ef hún tali bara ekki betri dönsku en dönsku kennararnir, í það minnsta þurftu sellurnar ekkert að einbeita sér neitt sérstaklega við hlustun. Flottur kennari hún Jenny Iwarssen, eða var það son? Ég man það ekki. Í miðvikudagstímanum hjá henni hollensku Mieke var farið í afslöppunaræfingar, það er notó! Eitthvað sem maður ætti að gera á hverjum degi, jafnvel oft á dag. Maður verður endurnærður eftir þessar æfingar. Mieke er með okkur í raddþjálfun, því að sjálfsögðu þurfum við að vita hvernig slík þjálfun fer fram svo við sjálfar getum tekið þetta að okkur. Já, þetta er búin að vera ansi lífleg og skemmtileg vika í skólanum.
Framundan er svo kaffi hjá Ragnhildi og Mána. Ragnhildur átti afmæli í gær og ég óska henni hér með til lukku með daginn! Afmælisdeginum mínum ætlum við fjölskyldan að eyða í Kaupmannahöfn þar sem við ætlum að sækja litlu syss sem ætlar að vera hjá okkur yfir páskana. Í tilefni páskanna höfum við ákveðið að fara til Berlínar. Haldið verður af stað á fimmtudaginn og komið heim á páskadag, trúlega seint. Mikið afskaplega hlakka ég til. Reyndar er skjárinn á myndavélinni brotinn, en það verður vonandi hægt að redda myndatökum með litla gatinu, eins og í gamla daga.
Svo eru smá skilaboð til Ingu Birnu: Ég er búin að kaupa kjólinn fyrir brúðkaupið í sumar, svo ég er alveg að verða reddý!
Knúsar og óskir um góða helgi...

miðvikudagur, mars 21, 2007

mánudagur, mars 19, 2007

Sjálfsagi átvaglsins

Ég byrjaði í nammibindindi í morgun og féll... á hádegi! Fullir skápar af íslensku sælgæti geta varla haldið manni frá nammiátinu. Mig skortir sjálfsaga og mikið af honum! Svo ef þú hefur rekist á vafrandi sjálfsaga, eirðarlausan og áttavilltan þá veistu að hann er minn!
Skilaðu honum!

fimmtudagur, mars 15, 2007

Søde stemmelæber

Veðrið er ennþá gott og gestirnir eru komnir. Þau komu með fullan poka af Royal-búðing við MIIIIIIIIKINN fögnuð yngstu fjölskyldumeðlimanna, auk þess sem þau færðu okkur ýmislegt annað sem varla er hægt að vera án í útlandinu. Ég skelli inn þakklætiskveðjum hingað þó ég sé búin að þakka þeim formlega. Takk fyrir okkur!

Annars fór ég að skoða raddböndin mín áðan. Þau eru frekar flott að mér skilst, enginn noduli eða cyster eða eitthvað þaðan af verra, bara smá bólga fyrir aftan þau nánar tiltekið fyrir aftan, eða við, cartilago arytenoidea (ísl. könnubrjóskin), ekkert alvarlegt og stafar trúlega af magasýrum. Sveiflunin var góð og eins flott og hægt er að hafa hana í háu tónunum. Mér létti mikið við fréttirnar og stefni ótrauð á mikinn og glæstan frama á söngbrautinni, þegar ég er búin að meika það í talmeinafræðiheiminum.

Eigið áfram góðan dag!

þriðjudagur, mars 13, 2007

Í sól og sumaryl...

Mér datt í hug að smella nokkrum orðum hér inn á þessa blessuðu síðu. Hef, eins og svo oft áður, frá frekar litlu að segja. Er heima með veikan gemling. Elí Berg ældi í morgun svo ég ákvað að vera með hann heima, enda frekar illa liðið þegar foreldrar senda börn sín veik í leikskólann. Þar sem prinsessan mín er nú einu sinni prinsessa fór hún ósjálfrátt að finna fyrir verkjum í maganum og á fleiri stöðu, bróður sínum til samlætis, trúlega liggur hundurinn grafinn í fjórum fullum diskum af Cocoa Puffs, en það er önnur saga. Börnin eru því bæði heima í dag. Mér verður án efa lítið úr verki, ég sem annars ætlaði að vera svo dugleg. Það er tími núna frá 8 til 10 sem ég missi af, en það gerir ekki svo mikið til. Hitt er annað að félagarnir á skrifstofunni í skólanum eru alveg að missa það núna. Í síðustu viku voru settir á okkur einhverjir tímar í kringum páskana sem eru með mætingaskildu. Þetta kemur sér ákaflega illa fyrir marga sem voru búnir að ráðstafa páskafríinu og þurfa þá að breyta því, og það getur kostað skildinginn. Seinnipartinn í gær fengum við svo að vita að það er búið að smella á okkur enn fleiri tímum, bæði í þessari viku og komandi vikum. Það er ansi slæmt fyrir okkur Tinnu þar sem við eigum að mæta á mikilvægan fund á morgun á meðan á kennslu stendur. Við þurfum því að reyna að fá fundinn fluttan en það verður síður en svo auðvelt að finna dagsetningu sem hentar. Það er nokkuð súrt að geta ekki staðið við gefin loforð, því við vorum búnar að samþykkja að vinna alltaf á miðvikudögum, en blessaðir tímarnir lenda meira og minna á þeim dögum. Við möndlum þetta þó einhvern veginn, enda slagorð Íslendinga "þetta reddast!".
Að öðru skemmtilegra. Við hjónin áttum rómantíska stund saman í miðbæ Óðinsvéa í gær, í sól og 16 stiga hita. Frekar notó. Það eru svona stundir sem fá mann til að spyrja sig hvort mann virkilega langi aftur heim á klakann. Þetta var eins og fínn sumardagur á Íslandi, í mars! Í dag sést hins vegar ekki húsa á milli sökum þoku. Það léttir þó seinnipartinn þegar fjölskyldan úr Hafnarfirði mætir á svæðið.
Njótið dagsins.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Nákvæmlega ekki neitt!

Hæbb! Ég hef svosem ekki frá neinu að segja. Er búin að vera að lesa í bók sem heitir The Voice and its Disorders eftir Greene og Mathieson. Frekar áhugaverð lesning, en mér miðar voða hægt áfram. Bókin er á leslista fyrir fag sem heitir Oto-rhino-laryngologi og fjallar um röddina og eitthvað fleira skemmtilegt.

Það er lítið annað að frétta en að það hefur rignt flesta dagana eftir að síðasta færsla var skrifuð, en ég held fast í vonina að ekki fari hann kólnandi heldur hlýnandi og að Dísa og Siguroddur fái gott veður í Köben um helgina og enn betra veður þegar þau kíkja í kaffi til okkar! Já, það var ánægjulegt að heyra að hjónaleysin vestan að Snæfellsnesi ætluðu að kíkja til Köben og jafnvel að gera sér ferð hingað til véa Óðins til að þyggja svona eins og einn kaffibolla í það minnsta! Hlökkum öll til að sjá ykkur. Annars verður nóg um að vera um helgina, Sara í lærdómsgrúppunni í skólanum heldur upp á afmælið sitt á föstudaginn og á laugardaginn verður veisla hjá Kristrúnu og svo ætla einhverjar hressar kerlur að halda út að borða á laugardagskvöldið ef veður og heilsa leyfir.




Eins og áður sagði þá hef ég ekki frá neinu að segja en ég læt mynd fylgja af nýjasta afrakstri prjónavinnunnar fylgja fyrir mömmu. Þó svo að flíkin hafi legið óhreifð í prjónakörfunni í tæp tvö ár er hún loksins tilbúin og að mínu mati vel brúkleg.

föstudagur, mars 02, 2007

Vorið er komið og grundirnar gróa...

Jamm, ég held bara hreinlega að vorið sé komið til okkar hérna í Óðinsvéum. Húfu- og vettlingalaus bæjarferð var einmitt farin í dag, fuglarnir sungu og loftið angaði af vori! Það er óskandi að vorið flýi ekki neitt núna og staldri við fram að sumri.
Fór í Bolighuset Bahne sem ekki fékk mig í minna vorskap. Þangað eru sumarvörurnar komnar. Allskyns bollar, diskar, glös og fínerí fyrir garðinn í sumar. Ummm... Ég hefði getað keypt alla búðina. Svo rölti ég mér einmitt yfir í Tante Grøn, sem er blanda af hönnunar- og hannyrðarverslun, rosa flott. Þar fjárfesti ég í lítilli prjónamaskínu handa dótturinni, enda varla ráð nema í tíma sé tekið að kenna barninu að prjóna. Þó hefði ég glöð viljað ganga út úr versluninni með töluvert stærri poka!
Megi þið eiga góða helgi!