miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Komin í undanúrslit á OL

Jibbííííí!
Til hamingju Ísland!
Æðislegur árangur peyjanna OKKAR!
Spurning hvort ég sendi HSÍ reikninginn fyrir blóðþrýstingslyfjunum eftir þessa törn. Hehe...

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Rútína

Þá er skólaganga dótturinnar að verða að rútínu. Móðurinni þykir það þó ennþá heldur skrítið að senda dótturina í skólann í stað þess að rölta beint í Bolden. Við komum þó iðullega við á Bolden þar sem herramaðurinn í miðjunni þarf að komast á sinn stað. Bettina, Maria og Allan losna því ekki við okkur nærri strax.

Annars er þreyta farin að gera vart við sig hjá móðurinni, enda er vekjaraklukkan stillt á 6:10 svo hægt sé að koma gemlingunum öllum á sína staði án þess að upphefjist stress og ómögulegheit. Enn sem komið er er það ekkert mál að rífa sig upp svo snemma enda ennþá bjart á þessum tíma sólarhrings. Það er þó verra þegar eldri börnin taka upp á því að skella sér yfir í mömmu- og pabbaból á næturnar, því sá yngsti fær iðullega að kúra í milliholunni þegar kemur að næturgjöfum, mamman er svo hrædd um að missa hann á gólfið ef hún fer að dotta! Þegar börnin taka upp á þessum ósið þarf pabbinn að flýja bólið, enda ekki pláss fyrir karlgreyið fyrir gemlingum. Sumir spyrja sig væntanlega hvers vegna við bönnum bara börnunum ekki að koma upp í, sem væri trúlega bráðsniðugt, en þras um miðjar nætur er ekki alveg fyrir mig né manninn minn, því kjósum við heldur svefn hvar sem við nú fáum hann!

Að öðru. Við ætlum að skjótast til Köben næstu helgi! Jibbí... Við erum búin að bóka gistipláss á Danhostel, sem er bara svona vandræðaheimili eins og Danirnir kalla þetta ;) Það verður fínt að komast í annað umhverfi og gera eitthvað saman sem brýtur upp hversdagsleikann. Eitthvað skemmtilegt og fjölskylduvænt verður væntanlega fyrir valinu, Bakken eða Eksperimentarium, Strikið eða eitthvað álíka sniðugt! Ég geri þó ráð fyrir því að toppurinn verði að hitta Emil Orra litla sem er ekki svo löngu kominn í heiminn.

Þar til næst...

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Fyrsti skóladagurinn

Munið þið eftir lyktinni af haustinu? Ilminum af glænýjum skólabókum? Eða splunkunýrri skólatösku á stólbaki, pennaveski með velydduðum blýöntum og trélitum og tilfinningunni að vera nýr, á nýjum stað, á nýju skólaári? Dóttir mín upplifði þetta í dag, á sínum fyrsta skóladegi, sínum allra fyrsta skóladegi. Foreldrarnir fylgdu galvaskir frumburðinum í skólann og stoltið finnst varla meira en það var hjá okkur hjúunum þegar litla skinnið fann sætið sitt og deildi spenningnum með hinum börnunum í 0A í Hjalleseskolen.


Sjálf fór ég á fund hjá Sidse Borre á Ringe Sygehus í gær. Sidse var svo elskuleg að taka að sér að verða leiðbeinandi minn í BA-starfsnáminu. Ég byrja hjá henni þann 1. september. Við komumst að samkomulagi um að ég athugi alexi og agrafi hjá tveimur týpum af málstoli, annars vegar hjá sjúklingi með svokallað ikke flydende afasi, sem einkennist af því að sjúklingurinn á erfitt með tjáningu en skilur það sem sagt er við hann, og hins vegar hjá sjúklingi sem er með flydende afasi, en þeir sjúklingar geta talað mikið en skilja minna, oft er það sem þeir segja innihaldslítið þó setningauppbygging sé rétt. Að mínu mati er þetta allt rosalega spennandi og ég hlakka til að takast á við verkefnið, þó álagið verði mikið meðan á þessu stendur. En íslenskir víkingar láta það ekki á sig fá heldur klára það sem fyrir er sett.

Eigið gott kvöld kæru vinir!

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Þá er enn ein verslunarmannahelgin við það að verða hálfnuð.
Það eru átta ár síðan ég fór síðast á þjóðhátíð og það er ekki laust við að það læðist að mér lítill þjóðhátíðarpúki. Það er ekki hægt að segja annað en að þjóðhátíð Vestmannaeyja skjóti mörgum öðrum skemmtunum ref fyrir rass. Notalegheitin í brekkunni á kvöldvökunum og í brekkusöngnum, ylurinn frá brennunni á Fjósakletti, blysin sem tákna fjölda þjóðhátíðanna sem haldnar hafa verið, flugeldasýningin, gítarspil og söngur í hvítu tjöldunum, spjall við kunningja og ættingja sem maður hittir örsjaldan, lundaát, kjötsúpuát, pissusteinninn minn, bekkjarbílar, þjóðhátíðarlög, dans á stóra pallinum eða litla pallinum, stemningin er ólýsanleg. Minningarnar um þjóðhátíðina ylja mér um hjartarætur. Þjóðhátíðin var svo fastur liður í uppeldinu mínu að ég kynntist ekki orðinu verslunarmannahelgi fyrr en ég var komin langt að táningsaldri. Ég fékk líka bara tvenn spariföt á ári; jólaföt og þjóðhátíðarföt. Þjóðhátíðarfötin voru vanalega heimagerð, enda mamma iðin við að prjóna á okkur peysur sem skarta mátti á stærstu hátíð ársins, að undanskildum jólum. Hún tók sig kannski til, kerlingin, tveimur vikum fyrir þjóðhátíð og var búin að fata alla fjölskylduna upp klukkan kortér í setningu. Mikið væri gaman að fá að upplifa þessa æðislegu stemningu aftur.
Eigið góða helgi.