þriðjudagur, september 18, 2007

Bleeeeeeeeeeeeee

Hér er fingurfimi hjónanna í hámarki þessa dagana. Ofnafærslur, spörtlun og málun. Barnaherbergið skal verða fínt og það fyrir afmæli prinsins sem verður nú á laugardaginn. Þá er efnt til stórveislu með kökum og tilheyrandi. Vonandi að eitthvað ætt verði á boðstólnum. Ef illa fer er Chianti pizza ekki langt undan... Annars verður gestkvæmt hjá okkur hjúum næstu vikurnar. Elísabet ætlar að koma með gemsana sína á föstudaginn, enn er óvíst hvort eiginmaðurinn verði með í för. Á laugardagskvöldið, eftir afmælið, kemur Halla Rós frænka með tvær skutlanna sinna og verður hjá okkur í rúma viku, eða þar til hún fær íbúðina sína afhenta, því fjölskyldan af Selfossi ætlar að setjast að hér í bæ um óákveðinn tíma. Drengirnir úr Sandkæret, þeir Daníel og Gabríel ætla líka að dvelja hjá okkur einhverjar nætur. Svo það verður í nógu að snúast, enda fátt leiðinlegra en að hanga í leti, þó það sé auðvelt að detta ofan í það ef maður hefur ekkert fyrir stafni.

Annars fátt í gangi. Lífið gengur sinn vanagang. Skólinn kominn á skrið, en ómögulegt er enn að fá bækur, þar sem kennararnir virðast ekki gera sér grein fyrir því að það þarf að panta þær inn svo hægt sé að selja þær í bóksölunni þar sem þær eiga að vera til sölu. Fúllt...

Best að taka til við lestur í þeirri bók sem ég hef nú þegar fengið!
Svo ég býð góða nótt!

miðvikudagur, september 12, 2007

Seint og um síðir

Ég ætlaði að vera löngu búin að setja þessa mynd inn! Fór í eitt skemmtilegasta brúðkaup sem sögur fara af í Íslandsförinni hjá þeim hjónum Ingu Birnu og Helga Þór.


Við misstum svo af brúðkaupinu hjá Emblu og Danna um helgina og svo gengu Lára og Halli líka í heilagt hjónaband þarsíðustu helgi! Til hamingju allir!

Fleiri myndir hjá gemlingunum. Ekki vera feimin að senda línu til að fá aðgangsorðið.

sunnudagur, september 09, 2007

Þegar stórt er spurt

Bríet Huld er farin að velta fæðingunni og dauðanum mikið fyrir sér. Sökum þessa spyr hún mikið út í þessa hluti, "Kemur barnið út úr maganum?", "Hvernig kemst barnið í magann?" og svo framvegis. Til að rugla barnið ekki frekar í ríminu, tjáði múttan henni að barnið færi ekki í gegnum meltingarveginn til að ná niður í maga. Tilvonandi móðirin væri heldur ekki skorin upp til að hægt væri að koma barninu fyrir í móðurlífinu. Allt rökréttar athugasemdir og vangaveltur. Í stað þess að persónugera storkinn ákvað ég að segja barninu sannleikann... ja, eða nærri því allan sannleikann; "Barnið kemur í magann þegar pabbinn knúsar mömmuna rosalega fast". Stúlkan greip þetta á lofti og fyrr en varði snéri hún sér að mér og knúsaði mig af öllum sínum lífs- og sálarkröftum og sagði: "Nú er ég komin með barn í magannn".

Já það er stundum erfitt að finna út úr því hvaða svör passa við spurningar barnanna.

þriðjudagur, september 04, 2007

Heimsókn til kvensjúkdómalæknisins

Skrapp til kvensjúkdómalæknis í gær. Bara svona vegna þess að mér finnst það alveg þrælskemmtilegt! Eða þannig... Jú, reyndar var alltaf gaman og fróðlegt að fara til Þórðar læknis á Íslandi, en allavega... Hjá Þórði fékk ég alltaf þennan fína slopp sem var opinn að aftan, svo ég gæti í það minnsta látið fara vel um mig á meðan ég trítlaði að skoðunarbekknum, en því var ekki að skipta hjá dömunni sem skoðaði mig í gær. Ég mátti láta mér nægja að toga bolinn niðurfyrir helgustu blettina á meðan ég leið yfir gólfið að útglenntum bekknum. Lækninum til aðstoðar var klínikdama sem átti fullt í fangi með að rétta doktornum hin ýmsu skoðunartæki. Þegar ég lagðist á bekkinn þurfti ég að berjast við að missa ekki hláturinn út úr mér því er ég leit upp í loftið, eins og maður gerir iðulega við þessar aðstæður, birtist mér mynd af þremur fiskum, bleikum, bláum og grænum! Ég hefði heldur viljað sjá mynd af einhverjum guðdómlega fallegum manni, það hefði kannski hresst svolítið upp á heimsóknina ;)

Ekki er öll vitleysan eins

Ég veit ekki hvað það segir um mig en ég las þetta

Er gott eða slæmt að hita pela í örbylgjuofni?

sem: Er gott eða slæmt að hita PELSA í örbylgjuofni?

Spurning að fá sér gleraugu.

mánudagur, september 03, 2007

Tilfinningaþrungi

Ég átti ansi heitt samtal við mann hjá ónefndri lánastofnun á Íslandi sem hefur mikið með mál menntafólks að gera um daginn. Aumingjas maðurinn virtist hafa stigið öfugumegin frammúr þennan morguninn þegar ég hringdi. Það sem verra var, þá lá ekkert alltof vel á sjálfri mér. Maðurinn virtist vera æstur þegar hann tók upp tólið og ekki batnaði það þegar líða tók á samtalið, hann hreinlega öskraði til að mynda á samstarfsmann sinn meðan ég var í símanum og þar fram eftir götum. Að sjálfsögðu æstist ég öll upp við þetta og bað manninn vinsamlegast að róa sig. Þá hótaði hann því að skella á mig, mér til mikillar ánægju, eða þannig... Þegar símtalinu svo var lokið settist ég í sófann og byrjaði að vola.
Ég gæti aldrei fyrir mitt litla líf verið þingmaður!