miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Peysan klár


Hér eru myndir af peysunni sem ég prjónaði fyrir hana Cherie, dagmömmuna hans Elís Bergs, sett inn fyrir múttu og ömmu að skoða. Maður þarf víst alltaf að fá viðurkenningu frá mömmum og ömmum fyrir handavinnuna, ekki satt?! Svo ég vona að mínir fáu dyggu lesendur láti þessa myndbirtingu ekki ergja sig.





Ég fann einmitt búð í dag sem selur rándýran Álafoss lopa! Hér í miðbæ Óðinsvéa er sem sagt hægt að nálgast slíkan varning, en dýr er hann!

Hilsen...

laugardagur, ágúst 26, 2006

Góð heimsókn en slæmar fregnir

Klukkan er 9 þennan danska morgun og það er greinilegt að flestir klakaverjar sofa á sínu græna þar sem enginn er mættur á öldur msn-sins. Því ákvað ég að setjast niður við tölvuípikkingar og segja eitthvað fréttnæmt af okkur fjölskyldunni hér í landi hennar hátignar Margrétar Þórhildar.

Í vikunni komu þau amma Addý og Jón við hérna hjá okkur eftir góðan siglingartúr í Svíþjóðinni. Þau dvöldu hér frá mánudegi til fimmtudags og það var alveg yndislegt að hafa þau. Það fór gustur, sem sárlega var farið að vanta, um heimilið. Krafturinn í skvísunni, henni ömmu minni, var svo mikill að uppþvottavélin fékk meira að segja frí! Ekki svo að skilja að gestirnir eigi að taka að sér heimilisstörfin hér á bæ, en þið vitið hvernig þessar ömmur og mömmur eru... Eina ráðið til að halda henni frá húsverkunum hefði trúlega verið að færa henni prjóna og lopa í hönd og segja: "hana'!". Nei það fer ekki mikið fyrir letinni hjá fólki mér eldra. Ég mætti taka það mér til fyrirmyndar hve atorkusamt þetta fólk er. Mömmur, ömmur, pabbar og afar, alltaf eru allir á fullu. Svo mæðist ég við tilhugsunina um þvottinn og amma hafði ekki einu sinni þvottavél á upphafsárum búskapar síns! Að ég skuli ekki skammast mín, sem allt hefur til alls. Það eina sem ég þarf að gera er að sortéra þvottinn, spreyja blettahreinsi hér og hvar, skella honum í vél og setja í gang. Svo einfalt er það. En mikill vill meira, þannig er það bara, það jaðrar hreinlega við að vera náttúrulögmál.

Annars eru þær fréttir heimanað að hann Bergur litli bróðir minn varð fyrir því óláni að vera hrint fyrir lögreglubíl á menninganótt. Af þessu hlaut hann opið beinbrot á sköflungi þar sem báðar pípurnar brotnuðu. Settur var í hann nagli sem nær frá hné niður að hæl og er boltaður fastur á að minnsta kosti fimm stöðum. Hann er því búinn að vera inni á spítala í tæpa viku og sleppur þaðan í fyrsta lagi á morgun. Vonandi nær hann sér sem allra fyrst. Það eina sem hægt er að segja er að sem betur fer fór ekki verr. Þrátt fyrir að lítil huggun sé í þeim orðum fyrir þann sem liggur kvalinn inni á spítala. En ég veit hve duglegur og atorkusamur hann er svo ég geri hreinlega ráð fyrir því að hann finni hjá sér krafta til að sigrast á þessu.
Já, það er ótrúlegt hvað ölæði og stundarbrjálæði getur haft í för með sér.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Hér er nákvæmlega ekkert í gangi

Það er ekkert að viti í gangi í hausnum á mér núna en ég finn mig tilneydda til að pikka nokkrar línur hérna inn, bara svona til að halda mínum dyggu lesendum við efnið.
Svo við byrjum þetta á hefðbundnu nótunu þá er veðrið búið að vera í fínasta lagi þó svo að hitinn sé ekki lengur jafn mikill og hann hefur verið. Hér er kalt á morgnana en hitnar yfir daginn svo börnin eru oft meir dúðuð en þau í raun þurfa þegar haldið er af stað til daggæslu. Það er erfitt að læra hvernig maður á að klæða blessuðu grislingana.

Enn er ég heima á daginn og dunda mér við nefpikkingar, Friends-áhorf og þvotta þess á milli. Mér tókst þó loksins að að snurfusa heimilið þegar 365ta tilraun var gerð í gær með ásættanlegum árangri. Sumir kalla það þrif en aðrir kalla það tiltekt, svo við látum það liggja milli hluta hvursu vel starfið var unnið, en það er svona tiltölulega hreint hérna núna. Það er óskandi að þetta haldist að mestu í horfinu þar til ættarhöfðinginn, hún amma mín, lítur við í næstu viku.

Bíllinn sem við hjónin keyptum okkur í síðustu viku er bara asssskoti fínn. Þvílíkur munur að hafa vökvastýri, ég skil bara eiginlega ekki hvers vegna maður er ekki kominn með almennilega upphandleggsvöðva! Eitthvað ætti maður að hafa út úr þessum áreynsluakstri!

Jæja, ég hef, eins og áður sagði, nákvæmlega ekkert að segja! En kvittið endilega!

laugardagur, ágúst 12, 2006

Stuði stuð!

Það hefur greinilega verið stuð á þjóðhátíðinni eins og þessi góða mynd af henni litlu systur minni gefur til kynna!


Vonandi fyrirgefur hún mér stríðnina...

laugardagur, ágúst 05, 2006

Þjóðhátið og prinsessa

Þjóðhátið, þjóðhátið.
Um helgina er hin margumtalaða verslunarmannahelgi. Hér sitjum við hjónin ásamt börnum í rólegheitum í blíðunni í Danaveldi á meðan obbinn af móðurfjölskyldu minni drekkur mjöð á hinni fögru eyju, Heimaey. Í dalnum er vanalega mikið fjör og mikið gaman og álsi þeim engum sem þangað sækir stuð og stemningu. Hin síðustu ár hef ég ekki gengið á vits glaums og gleði í dalnum fagra, en þess í stað leitað hælis í örmum míns ástkæra eiginmanns og barna. Ekki slæm skipti, að minnsta kosti að ég tel. Hins vegar kemur upp löngun, ekki mikil en kannski smá, í að skjótast inn í svo sem eins og eitt gott gítarsöngpartý í einu heimatjaldinu. Ummmm... those were the days... En lífinu er víst deilt upp í kafla og þjóðhátíðarkaflanum virðist að mestu lokið, þó ég gæli við hugmyndina um svona eins og eina góða með honum Helga mínum síðar. Vonandi verður mér að ósk minni innan ekki alltof margra ára... Reyndar efast ég um að úthald mitt til djamms yrði meira en sem nemur nokkrum klukkustundum hvert kvöld, en það yrði án efa gaman, svo lengi sem börnin yrðu í góðum höndum.

Jæja, ég vil óska þjóðhátíðargestum góðarar skemmtunar!

Auk þess vil ég óska henni Sollu, frænku minni, og honum Gumma mági mínum til hamingju með litlu prinsessuna, sem fæddist þann 1. ágúst. Hún verður án efa sannkölluð þjóðhátíðardrottning einhvern daginn, enda ættuð úr Eyjum!

Hilsen,
Adds padds