fimmtudagur, apríl 16, 2009

Singer saumavélar

Þetta er eins og "nýja" saumavélin mín. Spurning hvort að ég geti orðið forrík á kaupunum! Ég keypti hana fyrir 100 krónur danskar. Þó ég fengi margar milljónir fyrir hana efast ég um að ég myndi vilja selja hana.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Eftirpáskadagar

Það er greinilegt að það líður orðið all langur tími á milli færslanna hjá mér. Ég þarf alltaf að "logga" mig inn, í stað þess að fara beint inn eins og áður.
Ég var annars uppfull af áhugaverðum bloggfærslum fyrr í dag, en andinn er horfinn og ég er búin að steimgleyma hvað það var sem mér fannst svona sniðugt að ég varð að deila með ykkur lesendum (ja, eða þér lesanda). Það er spurning hvort maður fari að taka siði Laxness til sín og fari að ganga um með litla minnisblokk og blýant í brjóstvasanum. Ég hef reyndar reynt að brúka dagbók, en færi aldrei neitt inn í hana, svo ég leyfi mér að efast um notagildi minnisbókar í mínum fórum.
Páskarnir voru í það minnsta góðir. Fullt af afbragðspáskaeggjum sem fjölskyldan var ekki lengi að sporðrenna með teiknimyndunum og kaffi. Afmælisveislur og spilakvöld einkenndu hátíðina þar sem plastið var loks rifið af Partners-spili okkar hjóna og það prófað eftir áralangan dvala á hillum heimilisins. Hlaupabjáninn reis upp í mér þegar Harpa granna dobblaði mig í kvennahlaupið þann 3. maí nk. Hún fékk að sjálfsögðu þann vafasama heiður að koma mér í form fyrir herlegheitin! Nú er búið að hlaupa sex daga af sjö á undanfarinni viku. Duglegar, ekki satt?! Garðvinna átti líka hug fjölskyldunnar, enda veðrið vægast sagt búið að leika við okkur hér í Danmörkinni upp á síðkastið. Páskadegi eyddum við hins vegar í fótboltaleikjaglápi og páskalambsáti vestur í Esbjerg hjá eðalhjónunum Elísabetu og Gulla og þeirra gemsum.
Þá er það hér með upptalið. Vonandi áttuð þið líka notalega páskastund.
Þar til næst...