fimmtudagur, júní 19, 2008

Jólaverslun í júní

Enn er letin að gera útaf við mig og manninn, þrátt fyrir að starfsfólk leikskólans sé aftur komið til starfa. Ég hafði mig þó á fætur á mannsæmandi tíma í morgun og dreif mig með heimasætuna til læknis. Krafturinn var svo mikill að ég fór meira að segja í Rosengårdcentret með Slöttílein-Heiðu og Rexinu hennar. Þar skóflaði ég eins og nokkrum jólagjöfum í poka, þrátt fyrir að enn séu örfáir mánuðir til jóla. Það er aldrei verra að vera á undan áætlun ;)

Nú ligg ég hins vegar fyrir framan imbann, sem hefur ekki upp á neitt annað að bjóða þessa dagana en fótbolta, með uppáfitjað fyrir nýja lopapeysu. Það er kannski spurning að fara að drífa sig í að koma puttunum í gang, í stað þess að horfa á hnyklana.

Þar til næst...

laugardagur, júní 14, 2008

Kátt í höllinni

Þá eru Jódís, Hinni og Allan mætt á svæðið. Þau brunuðu í hlað í gærmorgun eftir rúmlega sólarhringsvöku. Létu það þó ekki á sig fá og trölluðu sér í miðbæinn með Helga og Bríeti Huld. Við mæðginin urðum öll eftir heima, ásamt stórvininum Hákoni Inga. Það var því ekki fjarri lagi að þreytan gerði vart við sig þegar líða tók á daginn og fólk var komið nokkuð snemma í ból, sé litið framhjá frameftirvöku unganna þriggja. Nú er stóðið í Rose að kíkja á tuskur. Á meðan sefur Tóbías Mar í vagninnum og múttan brýtur saman þvott með internethléum ;)

Ég brunaði með yngsta fjölskyldumeðliminn til læknis í gær þar sem hann átti að mæta í fimm vikna skoðun, þrátt fyrir það að vera einungis fjögurra vikna! Hann kom vel út úr skoðuninni, orðin 4,7 kg. og 59 cm. Svo hann stækkar og það vel.
Í gærkvöldi ákvað herramaðurinn þó að láta svolítið í sér heyra sökum vindverkja. Trúlegt er að sveinninn ungi hafi með öskrunum verið að mótmæla hangikjötsáti móðurinnar. Skammi, skamm mamma!


Að öðrum mömmum. Hún mútta mín verður stór á morgun, þegar hún kemst á sextugsaldurinn. Hún heldur, að gefnu tilefni, svaka samkomu í kvöld (enda miklu að fagna þar sem ég er ekki á landinu!) með vinum og vandamönnum. Það verður án efa mikið um söng og gleði og góða súpu. Verst að missa af stuðinu! Til hamingju með afmælið fyrirfram, elsku mamma!

Gangið hægt um gleðinnar dyr!
Þar til næst...

fimmtudagur, júní 12, 2008

Letin er við völd

Vellívell...
Leti, leti og aftur leti. Þetta er eina orðið sem lýsir fjölskyldunni þessa dagana. Gestirnir hurfu á brott, allir með tölu, á þriðjudaginn, svo hér er tómlegt um að litast, sé reynt að horfa framhjá öllu draslinu ;) Helgi meikaði það þó að drífa í eins og eina þvottavél í morgun á meðan við Tóbías Mar sváfum eins og steinar. Eldri gemlingarnir eru aldir á sælgæti og Cartoon Network og ristuðu brauði þess á milli. Dagskrá dagsins er þó að drífa í því að brjóta Mount Þvott saman og koma honum fyrir á réttum stöðum, drífa afmælis- og skírnargjafir á sína staði og gera gestaklárt fyrir morgundaginn, þegar Jósa mjósa, Hinni pinni og Alli skralli mæta á svæðið.

Skírnar- og afmælisveislan tókst svaka vel og mæting var góð, sólin lét meira að segja sjá sig og staldraði barasta lengi við, og má afrakstur útiverunnar sjást á mörgum gestanna ;) Þétt var setið útifyrir og börnin nutu sín í botn í Sun Lolly- og sleikipinnaáti. Skírnarkakan tókst bara nokkuð vel, sem og mexíkóska súpan. Enda varla við öðru að búast með allar þessar hjálparhellur í kringum okkur! Ömmurnar þrjár börðust um athygli yngsta piltsins, sem naut þess í botn að sofa á börmum þeirra til skiptis. Nú tekur því við afvenjunartímabil hjá foreldrunum, þar sem reynt verður að fá piltinn til að sofa annars staðar en í fangi einhvers. Vagninn kemur þar sterkur inn! Snuð vill drengurinn helst ekki sjá og hver veit nema það fylgi fæðingardeginum! Hihihi...

Við þökkum kærlega fyrir börnin og þau fyrir sig! Auk þess sem við þökkum fyrir alla þá ómældu hjálp frá ömmunum, löngunni, afanum og öðrum sem hönd lögðu á plóginn, svo veislan yrði að veruleika. Takki takk, allir saman!

sunnudagur, júní 08, 2008

Drengurinn heitir...

...Tóbías Mar.

fimmtudagur, júní 05, 2008

Hvað á barnið að heita?

Þá er komið að smá samkeppni...

Hvað á litli drengurinn að heita?



Um er að ræða tvö nöfn, það fyrra inniheldur sex stafi og það seinna þrjá. Endilega komið með ykkar framlag á athugasemdirnar! Munið bara að um er að ræða drengjanöfn ;)

Tæpar þrjár vikur

Stjörnuspáin á vel við daginn í dag!

Hrútur:
Leiðileg vinna er tækifæri til að kanna ímyndunaraflið. Fáðu þér far með hugmyndafluginu. Þú átt góðar samræður seinni partinn sem þú græðir á.

Er að vinna að blessaða verkefninu, sem ég er löngu orðin alltof þreytt á, og gengur afskaplega hægt að klára. Ekki svo að skilja að efniviðurinn sé leiðinlegur, því fer fjarri, en ég er bara á engan hátt búin að vera stefnd í ritgerðarsmíð undanfarna mánuði. Ég rumpa þessu vonandi af í dag, svo ég geti notið tímans með mömmu, ömmu og tengdó, að ég tali nú ekki um Jódísi og co. líka. Til að auðvelda mér vinnuna sendi ég Helga með eldri gemsana vestur eftir. Hann ætlar að hitta Elísabetu einhvers staðar á Jótlandi þar sem þau hafa mannaskipti, tengdó fer í bílinn hjá Helga og krakkarnir í bílinn hjá Elísabetu og halda áleiðis til Esbjerg, á meðan fullorðna fólkið í hinum bílnum ætlar að skella sér í innkaupaleiðangur á grensann og þaðan í bryggjurölt í Flensborg.

Annars allt gott, kauðinn litli sefur enn á næturnar, þó hann láti stundum hafa fyrir sér á daginn. Hann er farinn að sjá lengra frá sér og þar af leiðandi farinn að una sér betur í fína ömmustólnum sem hann fékk um daginn frá afa sínum og ömmu. Hann er farinn að fylgjast vel með krökkunum, sem honum þykir óskaplega spennandi. Brosin eru farin að birtast á vörum hans og hann er farinn að hjala aðeins, auk þess sem hann er farinn að veita leikföngum svolitla athygli. Hann er tregur við snuðið, en tekur það einstaka sinnum. Svo það gengur allt eins og á að ganga.

Verið sæl að sinni, unginn litli kallar!