þriðjudagur, desember 16, 2008

Nýjasti megrunarkúrinn: hrotur

Þá vitum við það. Það er háls- nef- og eyrnarlæknum að kenna að ég sé ekki grennri en raun ber vitni! Þeir fjarlægðu nefkirtlana sem gerðu það að verkum að ég hryti. Þetta gerðu þeir ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum! Svo það er eiginlega spurning hvort ég geti farið í skaðabótamál við þá þar sem einlægur ásetningur virðist hafa einkennt "brot" þeirra?

Annars eru bara tveir dagar (og sirka hálfur) til Íslandsafarar. Tilhlökkunin er mikil á heimilinu. Karlinn ræður sér ekki fyrir gleði, börnin missa sig yfir því minnsta og ég græt stöðugt. Búið er að skvera allt, gólf, veggi og skápa, baka sex sortir af smákökum og þvo gluggana. Jólatréð verður skreytt í kvöld og pallurinn spúlaður. Gjöfum sleppum við, sökum hugmyndaleysis. Ritgerðin er komin í umslag og er á leiðinni til kennarans í pósti.

Hlakka til að sjá fólkið okkar og vini á Íslandinu!

Fjarknús þangað til...

þriðjudagur, desember 09, 2008

Þreyta...

Einhver laug því að mér að barnið svæfi sem steinn eftir röraígræðslu. Sá hinn sami ætti að skammast sín! Það var í gær sem Tóbías Mar fékk rörin sett í og nóttin í nótt var trúlega ein sú erfiðasta hingað til, kannski stríddu rörin honum svona fyrstu nóttina, en það lak ekkert úr þeim, svo það er fínt. Ég fór inn um klukkan eitt í gærkvöldi eftir að hafa reynt að vinna aðeins við ritgerðarsmíði, sem gengur vægast sagt hægt þessa dagana. Svo var vaknað rétt rúmlega sex eftir heldur slitróttan svefn. Svo það er eins gott að það mæti mér engin börn í myrkri núna, þau yrðu þess handviss að Grýla væri til!
Litli drengurinn sefur svo vært úti í vagni núna, án þess að hafa gert pláss fyrir mömmu sína, sem sest er við tölvuna í þeirri von um að geta klístrað einhverju á blað í ritgerðinni.
Vonandi verður biðin eftir virkni röranna ekki alltof löng, ég efast um að geðheilsa foreldranna bjóði upp á það.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Aaarrrg!

Halda ráðamenn þjóðarinnar að landsmenn séu eins og börn sem helst eiga sem minnst að vita um fjárhagsstöðu heimilisins?
Er ekki kominn tími til að fólk fari að verða heiðarlegt í þessum málum öllum?

miðvikudagur, desember 03, 2008

Gjafhugmyndir fyrir talmeinafræðinema

Ég fann þessa fínu síðu fyrir talmeinafræðinema eins og mig. Það er greinilega ekkert að gerast í þessum ritgerðarskrifum! ;)
Skoðið og njótið!

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Veikindastúss og röraaðgerð

Ég sé að það eru tæpar tvær vikur síðan ég pikkaði eitthvað hér inn á síðuna.
Reyndar er fátt að frétta. Börnin búin að vera meira og minna veik og lítið orðið úr skrifum, og ég sem ætlaði að klára ritgerðina fyrir Íslandsför. Vonandi hefst það, þó hægt gangi.
Ég var með Tóbías Mar hjá hne í dag, þar sem hann fékk eyrnabólgu fyrir nokkru síðan. Hjá lækninum kom í ljós að hann er með mikinn vökva í eyrum og í stað þess að setja drenginn á endalausa pensillínkúra, ákvað doksi að skrá hann í röraígræðslu þann 8. desember nk. Einkennin hjá kauða eru nefnilega þau sömu og hjá eldri bróðurnum, og hann þekkir læknirinn. Það er þó óskandi að rörin sitji eitthvað lengur í Tóbíasi en Elí Bergi, sem á einu ári fékk þrisvar sinnum grædd rör í hljóðhimnurnar, að lokum voru grædd í hann svokölluð t-rör sem þarf að fjarlægja með aðgerð.
Já, þeir hafa erft þennan skemmtilega tendens fyrir eyrnabólgum, af mér synir mínir.

Eigið góða daga og munið að vera góð við hvert annað.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Gott framtak Ingibjargar Sólrúnar

Mér líst vel á ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar um að fækka sendiherrum og sendiráðum. Ég hef aldrei almennilega skilið þetta með sendiherra. Ég skil það mætavel að það þarf að hafa sendiráð á þeim stöðum í veröldinni sem Ísleningar sækja mest, en ég skil ekki hvers vegna það eru menn hafðir á fullum launum við það að sýna sig og sjá aðra. Nú getur verið að einhverjir verði argir fyrir hönd sendiherranna, sem trúlega gera eitthvað aðeins meira en að halda veislur með ómældu áfengismagni og sérreyktum íslenskum laxi, en það verður að hafa það. Mér finnst mun skynsamlegra að leggja þessi embætti niður og spara þannig launa- og húsnæðiskostnað, því að sjálfsögðu dugir ekki venjuleg blokkaríbúð fyrir herrana okkar í útlöndum, heldur verða vistarverur að vera öllu ríkmannlegri, svo hægt sé að taka á móti hinum ýmsu ráðamönnum annarra þjóða. Það ætti að duga að hafa skrifstofu, í skrifstofubyggingu, með klósetti og kaffimaskínu fyrir kaffiþyrsta gesti. Starfsmannafjöldi skrifstofunnar ætti svo að vera í samræmi við það hve mikið er að gera í sendiráðinu.

Þar sem ég er að tala um niðurskurð og sparnað, finnst mér við hæfi að minnast á þær launalækkanir sem eiga sér stað í þjóðfélaginu nú um stundir, um leið og verðlag fer hækkandi. Mér finndist ekkert nema sjálfssagt að ráðamenn þjóðarinnar tækju á sig launlækkun, landsmönnum til fordæmis. Þannig sýna þeir samstöðu og auka tiltrú fólksins á sjálfum sér og sýna í verki að þeir virkilega brenni fyrir því að landsmönnum líði vel. Þegar ég tala um ráðamenn þjóðarinnar á ég við alþingismenn jafnt sem ráðherra. Að ekki sé nú talað um spreðið í borginni í formi starfslokasamninga síðustu borgarstjóra.

Það er líka með ólíkindum að ein mikilvægustu störf þjóðarinnar, umönnunar-, uppeldis- og kennarastörf, skuli vera brotabrot af launum bankstjórnenda, sem nú eru ríkisstarfsmenn. Jú, jú, þeir eiga að axla ansi mikla ábyrgð í starfi, en ég get því miður ekki rekið augun í þá ábyrgð sem stjórnendur bankanna axla nú þegar bankar þeirra eru komnir á hausinn. Ábyrgðin sem hinar áður upptaldar starfsgreinar bera er ekki minni en bankastjórnenda, öðruvísi, en ekki minni. Því réttlætir ekkert þessi gífurlegu laun bankastjórnenda, þó svo leiðin frá bankabauknum sé styttri til þeirra en til leikskólakennaranna t.d., svona kerfislega séð. Það ætla ég að vona að þetta breytist fljótlega, þó útlitið sé ekki fyrir það.

Og hana nú!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Mjög erilsöm nótt

Mikill erill var hjá foreldrunum að Bláberjaveginum í nótt. Mikið var um uppköst og niðurgang. Óvenju mikil drykkja einkenndi einnig nóttina og voru þrengsli í svefnherberginu mikil. Þrátt fyrir vöku og umgang í húsinu tókst einum fjölskyldumeðlimanna þó að halda sér sofandi. Jók þetta ástand mjög á hitaálagið sem að undanförnu hefur einkennt heimilishaldið.
Þrátt fyrir mikla drykkju var enginn tekinn ölvaður við akstur.

Hver var lasinn?

föstudagur, október 31, 2008

Börnin, blessuð börnin

Um daginn þegar við fjölskyldan komum heim lagðist Elí Berg í gólfið og bað um að verða háttaður. Þegar lokið var við útigallaháttunina heyrðist í Bríeti Huld: " Elí Berg, eigum við að koma að bolla?" og Elí Berg sem enn lá í gólfinu svaraði: "Nei, ég nenni því ekki núna!".
Já, það er greinilegt að leyndarmál heimsins eru börnunum kunn. Þó virðast elskuleg börnin mín ekki þekkja nema hálfa söguna því er móðirin krafðist útskýringar á því hvað "bolla" þýðir urðu útskýringar dóturinnar á þá leið að þetta væri eitthvað sem kærustupör gerðu, að stelpan legðist ofan á strákinn og styndi svolítið.

Annars er ég ánægð með kennarann hennar Bríetar Huldar (sem ég geri ráð fyrir að ekki stuðli að umræðum um kynlíf í bekknum). Hún kennir börnunum ótrúlegustu hluti. Áherslan er ekki bara lögð á stafrófið og reikning, heldur kemur barnið uppfullt af vitneskju heim um hitt og þetta. Um daginn var mikið rætt um Ástralíu og Egyptaland. Skömmu seinna var þemavika um kroppinn og næringu (og foreldrarnir fengu vel að kenna á skvísunni í sambandi við matvælainnkaup til heimilisins), í vikunni er svo búið að ræða mikið um vatn og gera tilraunir með vatn. Skvísan skellti sér því fyrir framan töfluna í eldhúsinu og tók móðurina í kennslustund í því hvað flýtur og ekki flýtur. Hún sagði mér m.a. frá því að 2/3 ísjakans eru undir sjávarmáli og einungis 1/3 yfir því. Í sambandi við vatnið var einnig rætt um hvernig bátar flytu og m.a. var farið í grófar útskýringar varðandi það þegar Titanic sökk. Þetta var skvísan mín allt með á hreinu. Í kennslunni les kennarinn fyrir börnin eins og venja er og nú um mundir er hún að lesa Hobbitann eftir Tolkien, bók sem ég heyrði ekki um fyrr en í FB. Þetta finnst mér alveg brilljant. Kennarinn virðist nota alla þá resúrsa sem hún finnur í daglega amstrinu og fletta sögunni inn í kennsluefnið.
Marianne fær því tíu stig frá mér!

Jæja þá. Eigið góða helgi!

mánudagur, október 27, 2008

Ofurmamma

Ég er svo löngu búin að læra þetta. Enda sést það á sívaxandi þvottafjöllum, ryki á gólfi og á hillum, uppvaski í vaskinum og blöðum og bókum um allt hús. Það er spurning hvort kannski sé verið að tala um þennan gullna meðalveg?
Kannski.

miðvikudagur, október 22, 2008

Íslendingur á erlendri grundu

Já, við getum greinilega lent í ýmsu hér í Danmörkinni. Hún Heiða vinkona okkar lenti í þessu. Þetta er hreint út sagt fáránlegt!
Spurning hvort við getum ekki sett upp okkar Íslendingareglur og sniðgengið fyrirtæki sem haga sér svona! Við verslum ekki við Sonofon, það er á hreinu!

miðvikudagur, október 15, 2008

Núið

Ég skráði mig í Núið um daginn. Sem væri ekki í frásögur færandi nema sökum þess að ég hef fengið fjóra glaðninga! Það er alveg frábært, nema ég er náttúrlega ekkert á Íslandi til að njóta þessara glaðninga og það vita þeir í Núinu og notfæra sér áræðinlega að koma gjöfunum á einhverja sem ekki koma til að leysa þá út! Hihihi... ég sá mér því leik á borði og sendi gjafirnar á hina ýmsu vini mína til að þær færu nú alveg ábyggilega ekki til spillis!
Þar hafið þið það!

mánudagur, október 13, 2008

Fjölskyldulíf

Og fólk er að spyrja okkur hvort 117 fermetra húsið dugi undir okkur og okkar þrjú börn! Svona var þetta í gamla daga. Það að fólki detti í hug að fjögurra herbergja 117 fermetra húsnæði dugi ekki undir fimm manna fjölskyldu hlýtur að vera í anda þeirrar græðgi og yfirborðskenndar sem í dag ríkir oft á tíðum. Breytum þessu! Auðvitað er notó að fá að vera í sérherbergi, og ég fékk það oftast sem krakki, en það er ekki nauðsyn. Maður hlýtur að læra það að taka tillit til annarra ef maður deilir herbergi með systkini auk þess sem samböndin verða trúlega oft nánari. Sumum þykir við trúlega líka skrítin af því við erum "bara" með eitt sjónvarp á heimilinu, í stofunni. Ekkert sjónvarp er í neinu herbergjanna, enda að mínu mati er þess ekki þörf. Það er orðið ansi lítið fjölskyldulíf ef allir hverfa inn í sitt herbergi til að horfa hver á sinn þáttinn. Það er kósý að vera saman. Ég veit að þetta er svolítið svart/hvítt, en að mínu mati svolítið sem við þurfum að athuga nú á þessum síðustu og verstu. Hvað er nauðsyn og hvað er bruðl?

föstudagur, október 10, 2008

Ekki batnar það!

Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen udfører ikke længere betalinger til og fra Island på grund af den nuværende økonomiske situation i Island.

Vi beklager de gener, det giver.

Jahá!

Annað hvort les engin það sem hér er skrifað eða þeir sem lesa skilja annað hvort ekki dönsku eða eru afar slæmir af gigt og geta þar af leiðandi ekki pikkað á lyklaborðið. Mín vegna vona ég að það sé ekki það fyrst nefnda ;)
Héðan er annars fínt að frétta, ef frá er litið efnahagskreppunni miklu. Reyndar er sama hvert maður snýr sér, þetta er á allra vörum, líka Dananna. Það er ekki laust við að það hlakki í nokkrum þeirra núna, enda var hneykslan þeirra á vitleysishátti fyrri ára mikil. Reyndar túlkuðum við þessa hneykslan sem pjúra öfundssýki yfir því að Íslendingar væru að eignast allt sem Dönunum var kært. Kannski sáu þeir bara fram á það, blessaðir, að þetta gengi ekki til lengdar. Ullin af rollunum eða síldaraflinn dugar hreinlega ekki fyrir allri þessari neyslu sem hefur verið á klakanum síðustu misserin. Fremstir í flokki eru náttúrlega ráðamenn bankanna og ekki síður þjóðarinnar, þó svo að hinn almenni borgari verði líka að taka ábyrgð á sínum gjörðum, hafi sá hinn sami veðsett allt fyrir lánum umfram greiðslugetu. Hitt er annað að myntkörfulánin sem bankarnir prönguðu upp á marga eru að fara með fólk og því er ekki stjórnað af lánþega. Þó áhættan hafi verið hans.

Annars fórum við á opið hús í skólanum hjá Bríeti Huld í gær. Þar var stuð og stemning, þemað var kroppurinn og næring, svo nú getur dóttirin farið að taka foreldrana í bakaríið hvað varðar neyslu hollustuvarnings ;) Súkkulaðið er þó látið kyrrt liggja þar til börnin eru komin í ró á kvöldin. Við kunnum okkur!

Jæja, best að fara að lesa eitthvað að viti svo ég komist nú í að senda þessa ritgerð frá mér og þiggja danskar krónur í stað íslenskra sem fyrst.

Eigið góða helgi öll sömul og þeir sem kvitta verða obboð góðir vinir mínir!
Kveðja úr krepputalandisamfélagiíslendingaíóðinsvéum,
Addý.

fimmtudagur, október 09, 2008

Eniga meniga, allir röfl' um peninga

Ég var inni á netbankanum okkar hjóna rétt í þessu. Þar rak ég augun í þennan texta:

Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen behandler overførsler til og fra Island enkeltvis på grund af den nuværende økonomiske situation i Island. Berørte kunder bliver orienteret, hvis betalingen forsinkes eller ikke gennemføres.

Skemmtó, ekki satt?

þriðjudagur, október 07, 2008

Enn af kreppustandi

Þessar ljóðlínur fékk ég sendar í tölvupósti frá frænku minni. Sökum "ástandsins" finnst mér það við hæfi að birta þær hér, enda varla um annað hugsað þessa dagana en slæmt gengi krónunnar og yfirvofandi kreppu á Íslandinu góða. Ef sá sem línurnar orti rekur inn nefið á síðunni minni og er óhress með birtingu þessa annars ágæta kveðskapar, má hann láta mig vita hið snarasta svo ég geti fjarlægt ljóðið.

Þjóðnýting

Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.

Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.

En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.


Með kveðju,
Addý.

mánudagur, október 06, 2008

Kreppustand

Er þetta ekki í anda kreppunnar?

Hrútur: Þú skilur hvort eð er við peningana þína fyrr eða síðar, svo þú getur alveg eins skemmt þér á meðan á því stendur. Það er svo notalegt að vera gjafmildur.

Best að skjótast út í Rose og eyða peningum ;)

fimmtudagur, september 25, 2008

Ég var klikkuð... nei, ég meina klukkuð

Hér koma svörin, njótið vel!

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina: Verslunarstörf, skrifstofustörf, sem ræstitæknir og á elló.

Fjórar Kvikmyndir sem ég held upp á: The Sound of Music, The Way We were, Nýtt líf og Schindlers List.

Fjórir Staðir sem ég hef búið á: Vestmannaeyjar, Reykjavík, Mosfellsbær, Óðinsvé.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar: Vinir, Despó, Ugli Betty og ýmsir fræðandi heimildarþættir.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum: Berlín, Benidorm, Hraunholt og Stokkhólmur.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg: mbl.is, visir.is, fyens.dk, berlingske.dk.

Fernt sem ég held uppá matarkyns: Humar, fyllt svínalund með góðu gumsi, innbökuð nautalund líka með góðu gumsi og Hraunholtabjúgu með uppstúf.

Fjórar bækur sem ég les oft: Ævintýri barnanna, Disney-bækurnar, Medicinske Fagudtryk (meira til uppsláttar reyndar) og Dimmalimm.

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna: Á sólarströnd með tærnar uppíloft, á Íslandi að knúsa mömmu, Ívar bróður og alla hina, að ekki sé talað um að kíkja á öll litlu börnin, í NY að skoða og á ferðalagi um Afríku.

Fjórar manneskjur sem ég vil klukka: Margrét H&M dama með meiru, Kristrún, Eyrún Huld og Halla Rós.

Þannig var nú það.

miðvikudagur, september 24, 2008

Jahú og jibbíjei!

Ótrúlegt þetta með tímann. Hann flýgur frá manni, án þess að maður taki hreinlega eftir því. Ég settist aðeins við tölvuna áðan, svona rétt til að vafra um og athuga með fréttir og annað slíkt, þegar skyndilega var liðinn einn og hálfur tími og ég ekki enn byrjuð að lesa, eins og ég átti að gera! Það er líka svolítið skrýtið hvað maður þarf að vera sérstaklega stemdur til að gera suma hluti. Ég ætla mér að skrifa bréf til hans bróður míns og er búin að ætla mér það í fjórar vikur núna, en enn er ekki kominn stafur á blokkina. Ég veit nefnilega ekki hvar ég á að byrja, eða hvað ég vil nákvæmlega skrifa. Sjálfsagt væri sniðugt að setjast bara niður og láta flæða út um puttana, alveg eins og gerist núna, en það er stundum þannig að maður vill vanda til verka, segja eitthvað gáfulegt og reyna að vera uppörvandi og klókur. Hvað sem bréfið kemur til að innihalda kemst það áræðinlega til skila einhvern tímann, þ.e.a.s. ef Post Danmark hagar sér almennilega. Þeir eru svolítið duglegir að týna pósti. Sjálfsagt er einn gaurinn með litla hornskrifstofu og rænir öllum jólakortum Peters Hvidt og fjölskyldu sér til dundurs og gamans. Þessa iðju stundar gaurinn eingöngu vegna þess að hann á ekki fjölskyldu, lifir einmanalegu lífi og hefur ekkert að gera á sjálfum jólunum. Hann lætur sér ekki einu sinni detta í hug að láta gott af sér leiða á hátíðunum með hjálparstarfi. Þess í stað situr hann í fermingarskyrtunni, sem fyrir löngu er sprungin utan af honum, með klístraða fingur í dimmu skotinu að skoða jólakort Hvidt-fjölskyldunnar, sem hann öfundar óendanlega mikið. Sannleikurinn er sá að Peter þessi Hvidt, er pabbi gamalls vinar póstmannsins, vinar sem löngu er komin með konu, krakka og prófskírteini. Eitthvað sem gæinn sem les kortin hefur aldrei eignast. Hann öfundar félagann og hefnir sín á þennan hátt, með því að stela jólakortum fjölskyldu fornvinar síns. Ömurlegt. Sorglegt og ömurlegt. Hann lætur sig dreyma, dreyma um fjölskyldu og frama. Dreyma um Önnu í flokkunardeildinni. Með henni myndi hann eignast fjögur börn, aka um á sjömannabíl og panta pítsur á föstudögum og fara í sumarbústað á sumrin. Yndislegt. En þetta er bara draumur.

Jæja, þetta er fyrir löngu orðið að bulli. Vonandi fær fjölskyldan Hvidt allan sinn jólapóst í ár. En þeir sem vilja senda okkur jólapóst þurfa að vera snemma í því þetta árið, eða hreinlega senda póstinn á foreldra okkar á klakanum, því við komum til Íslands þessi jólin! Áætluð koma er 18. desember og brottför þann 1. janúar á nýju ári.

Með kveðju og góðum fyrirheitum,
Addsin paddsin.

fimmtudagur, september 11, 2008

Long time no see

Já, það er orðið ansi langt síðan síðast, svo það er best að bögga fólk með smá nöldri.

Það er allt fínt að frétta og allir við hestaheilsu. Starfsnám mitt við Ringe Sygehus byrjaði fyrir tæpum tveimur vikum síðan, svo nú eru bara rúmar tvær vikur eftir af því dæminu. Helgi er á kvöldvakt meðan á herlegheitum stendur, svo ég stend í stórræðum þegar heim er komið og karlinn farinn í vinnuna, drösla gemlingum í sund og leikfimi, elda, gef að eta, baða og skelli skrílnum í bælið. Allt gengur þetta þó nokkuð þolanlega, þó börnin sakni pabba síns umtalsvert, enda er karlinn mun skemmtilegri en kerlingin.
Annað markvert á heimilinu er það að frumburðurinn er með lausa tönn, svo skvísan er næstum því fullorðin. Á meðan hún hefur ákveðið að losa sig við tennurnar, hefur sá yngsti tekið þá ákvörðun að safna í tannaforðann, því gemlingurinn er vægast sagt bólginn í neðri gómi, svo von er á tönnum þá og þegar, enda hnúinn nagaður ótt og títt og höfð eru gallaskipti í það minnsta fjórum sinnum á dag, að frátöldum öllum slefusmekkjaskiptunum. Pirringur í kauða er einnig í takt við slefið.

Síðasta föstudag fórum við hjónin í hugguferð í Rosengaardcentret, eins huggó og það hljómar. Sannleikurinn er þó sá að eitthvað þurfti að vesenast þar, þó mér sé ómögulegt að muna hvað dró okkur í verslunarkjarnann, enda flest í mjólkurþoku þessa dagana. Á leiðinni á Jensens að fá okkur að borða (við erum búin að komast að því að það er ekkert dýrara en að fara á kaffihús, tók svolítið langan tíma, enda erum við óvenju tregt fólk), stöðvaði mig útlend skvísa, sem tilkynnti mér á ensku að hún vildi gjarnan sýna mér svolítið. Að sjálfsögðu varð forvitnin yfirsterkari (og kannski svolítil kurteisi líka) skynseminni og ég lét til leiðast. Daman tók fram á mér löngutöng hægri handar og byrjaði að þjarma að nöglinni með einhverri voða fínni naglaþjöl með möööörgum hliðum og fítusum. Eftir dágóða stund sýndi hún mér nöglina stolt og tilkynnti mér að þetta væri hinn náttúrulegi gljái naglarinnar minnar. Fínt var það, því er ekki að neita, en dýrt líka, hefði ég viljað halda herlegheitunum við. Hún slúttaði kynningunni með því að sprauta smá handáburði í lófa minn. Svipurinn á dömunni þegar hún sá siggið sem í lófanum er var vægast sagt skondinn, sorgin og meðaumkunin sem skein úr augum hennar var þvílík. Mér var skemmt, því ég er pinku stollt af því að hafa sigg í lófunum, það segir að mínu mati svolítið um hvort maður hafi nennu til vinnu eður ei. Siggið er trúlega bara þarna sökum moppubeitinga síðustu margra ára og þar á undan kjötskrokkabaráttu Nóatúnsáranna. Sjálfsagt er sigg í augum annarra ekkert annað en merki um illa hirðu handanna, en svona er það. Ég man (þó langt sé um liðið) að ég átti það til að dæma "vænlega" pilta á handataki og lófum þeirra. Ekkert fannst mér, minna sjarmerandi en sléttar og felldar tölvuhendur karlmanna. Fátt er, að mínu mati, minna karlmannlegt. Trúlega er þetta vegna þess að ég ég er meira fyrir þessa "retrósexjúal" týpu, sem er víst heitasta karlmannstýpan í dag, skítug iðnaðarmannatýpa í slitnum gallabuxum og ósamstæðum sokkum. Þessar "metrósexjúal" týpur eru ekki alveg my cop of tea. Snyrtivörurnar hans Helga taka töluvert minna pláss í baðherbergisskápnum en mínar, sem betur fer.

Ég bið að heilsa þeim sem enn eru að lesa og óska ykkur góðrar helgar! Og heimta um leið kvitt í bókina!

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Komin í undanúrslit á OL

Jibbííííí!
Til hamingju Ísland!
Æðislegur árangur peyjanna OKKAR!
Spurning hvort ég sendi HSÍ reikninginn fyrir blóðþrýstingslyfjunum eftir þessa törn. Hehe...

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Rútína

Þá er skólaganga dótturinnar að verða að rútínu. Móðurinni þykir það þó ennþá heldur skrítið að senda dótturina í skólann í stað þess að rölta beint í Bolden. Við komum þó iðullega við á Bolden þar sem herramaðurinn í miðjunni þarf að komast á sinn stað. Bettina, Maria og Allan losna því ekki við okkur nærri strax.

Annars er þreyta farin að gera vart við sig hjá móðurinni, enda er vekjaraklukkan stillt á 6:10 svo hægt sé að koma gemlingunum öllum á sína staði án þess að upphefjist stress og ómögulegheit. Enn sem komið er er það ekkert mál að rífa sig upp svo snemma enda ennþá bjart á þessum tíma sólarhrings. Það er þó verra þegar eldri börnin taka upp á því að skella sér yfir í mömmu- og pabbaból á næturnar, því sá yngsti fær iðullega að kúra í milliholunni þegar kemur að næturgjöfum, mamman er svo hrædd um að missa hann á gólfið ef hún fer að dotta! Þegar börnin taka upp á þessum ósið þarf pabbinn að flýja bólið, enda ekki pláss fyrir karlgreyið fyrir gemlingum. Sumir spyrja sig væntanlega hvers vegna við bönnum bara börnunum ekki að koma upp í, sem væri trúlega bráðsniðugt, en þras um miðjar nætur er ekki alveg fyrir mig né manninn minn, því kjósum við heldur svefn hvar sem við nú fáum hann!

Að öðru. Við ætlum að skjótast til Köben næstu helgi! Jibbí... Við erum búin að bóka gistipláss á Danhostel, sem er bara svona vandræðaheimili eins og Danirnir kalla þetta ;) Það verður fínt að komast í annað umhverfi og gera eitthvað saman sem brýtur upp hversdagsleikann. Eitthvað skemmtilegt og fjölskylduvænt verður væntanlega fyrir valinu, Bakken eða Eksperimentarium, Strikið eða eitthvað álíka sniðugt! Ég geri þó ráð fyrir því að toppurinn verði að hitta Emil Orra litla sem er ekki svo löngu kominn í heiminn.

Þar til næst...

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Fyrsti skóladagurinn

Munið þið eftir lyktinni af haustinu? Ilminum af glænýjum skólabókum? Eða splunkunýrri skólatösku á stólbaki, pennaveski með velydduðum blýöntum og trélitum og tilfinningunni að vera nýr, á nýjum stað, á nýju skólaári? Dóttir mín upplifði þetta í dag, á sínum fyrsta skóladegi, sínum allra fyrsta skóladegi. Foreldrarnir fylgdu galvaskir frumburðinum í skólann og stoltið finnst varla meira en það var hjá okkur hjúunum þegar litla skinnið fann sætið sitt og deildi spenningnum með hinum börnunum í 0A í Hjalleseskolen.


Sjálf fór ég á fund hjá Sidse Borre á Ringe Sygehus í gær. Sidse var svo elskuleg að taka að sér að verða leiðbeinandi minn í BA-starfsnáminu. Ég byrja hjá henni þann 1. september. Við komumst að samkomulagi um að ég athugi alexi og agrafi hjá tveimur týpum af málstoli, annars vegar hjá sjúklingi með svokallað ikke flydende afasi, sem einkennist af því að sjúklingurinn á erfitt með tjáningu en skilur það sem sagt er við hann, og hins vegar hjá sjúklingi sem er með flydende afasi, en þeir sjúklingar geta talað mikið en skilja minna, oft er það sem þeir segja innihaldslítið þó setningauppbygging sé rétt. Að mínu mati er þetta allt rosalega spennandi og ég hlakka til að takast á við verkefnið, þó álagið verði mikið meðan á þessu stendur. En íslenskir víkingar láta það ekki á sig fá heldur klára það sem fyrir er sett.

Eigið gott kvöld kæru vinir!

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Þá er enn ein verslunarmannahelgin við það að verða hálfnuð.
Það eru átta ár síðan ég fór síðast á þjóðhátíð og það er ekki laust við að það læðist að mér lítill þjóðhátíðarpúki. Það er ekki hægt að segja annað en að þjóðhátíð Vestmannaeyja skjóti mörgum öðrum skemmtunum ref fyrir rass. Notalegheitin í brekkunni á kvöldvökunum og í brekkusöngnum, ylurinn frá brennunni á Fjósakletti, blysin sem tákna fjölda þjóðhátíðanna sem haldnar hafa verið, flugeldasýningin, gítarspil og söngur í hvítu tjöldunum, spjall við kunningja og ættingja sem maður hittir örsjaldan, lundaát, kjötsúpuát, pissusteinninn minn, bekkjarbílar, þjóðhátíðarlög, dans á stóra pallinum eða litla pallinum, stemningin er ólýsanleg. Minningarnar um þjóðhátíðina ylja mér um hjartarætur. Þjóðhátíðin var svo fastur liður í uppeldinu mínu að ég kynntist ekki orðinu verslunarmannahelgi fyrr en ég var komin langt að táningsaldri. Ég fékk líka bara tvenn spariföt á ári; jólaföt og þjóðhátíðarföt. Þjóðhátíðarfötin voru vanalega heimagerð, enda mamma iðin við að prjóna á okkur peysur sem skarta mátti á stærstu hátíð ársins, að undanskildum jólum. Hún tók sig kannski til, kerlingin, tveimur vikum fyrir þjóðhátíð og var búin að fata alla fjölskylduna upp klukkan kortér í setningu. Mikið væri gaman að fá að upplifa þessa æðislegu stemningu aftur.
Eigið góða helgi.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Paris Hilton is on the way

Þá er komið að því, Paris "vinkona mín" Hilton ætlar að kíkja hingað til mín í ágúst. Mikið hlakka ég til! Ég verð sú fyrsta til að mæta í Magasin til að berja fljóðið augum. Ég stilli að sjálfsögðu Bríeti Huld fremst og bendi galvösk á lokkaprúðu dömuna og segi að svona vilji ég endilega að hún verði þegar verður stór, athyglissjúk dekurdós sem fær borgað fyrir að sýna sig, eins og api í búri. Nema apinn velur það ekki sjálfur að vera til sýnis, hann fæddist bara undir rangri stjörnu eins og svo margir aðrir. Þar sem ég er svo forvitin en samt svo fáfróð vil ég endilega fá að vita hvað þessi dama, sem trúlega er getin í borg rómantíkurinnar sé eitthvað að marka nafn hennar, hafi gert merkilegt á lífsleið sinni. Er það eitthvað annað og mikilvægara en að djamma nærbuxnalaus, framleiða heimatilbúið myndband fyrir fullorðna, taka þátt í niðurlægingu á almúganum með Nicole Richie í "heimildarþáttaröðinni" Simple life (mig minnir að þættirnir hafi heitið þetta) og fleira í þessum dúr? Ég væri glöð, fyrir hennar hönd, ef eitthvað hefði stúlkan gert sér til framdráttar til að verðskulda alla þessa athygli sem hún fær um víða veröld.

Að öðru, ég gerði geðveikislegar góðar kjötbollur með sætri chili sósu í gær. Prófaði í fyrradag að gera svona ostamakkarónur, þær voru ekki alveg að gera sig, ég hef smakkað margt betra. Því er staðan í tilraunaeldhúsinu eitt-eitt.

mánudagur, júlí 21, 2008

Tilraunaeldhúsmella með skalla

Það er ótrúlegt hvað börnunum dettur í hug að segja. Í morgun sátum við eftirlegukindurnar hérna í sófanum, börnin horfðu á teiknimyndir á meðan ég gaf þeim yngsta brjóst. Upp úr þurru gellur í Elí Bergi: "Mamma mig langar að fá svona eins og pabbi." "Nú, hvað er það?" spyr múttan, "svona holu á hárið", svaraði drengurinn um hæl. Ég leyfi mér þó að stórefast um það að æðsti draumur tæplega fjögurra ára gamals peyja sé að fá skalla. Sérílagi sé litið til þess að hann á eftir að upplifa metrósexúalisma nútímans, sem ég leyfi mér að efast enn frekar um að fari minnkandi.

Ég átti annars stórfínan dag. Skellti börnunum í leikskólann og brunaði með Tóbías Mar í morgunkaffi í Seden Syd. Huggaði mig svo heima með erfingjanum þar til pabbinn mætti á svæðið og sótti leikskólakrakkana, ákvað svo að bregða á leik og prófa "nýjan" rétt á heimilinu, makkarónur með osti. Ég verð nú að segja að þetta var ekki besti maður sem ég hef boðið upp á, en þetta var skemmtileg tilraun. Talandi um það, þá erum við hjónin skyndilega komin með nóg af eldamennskunni á bænum, sem er orðin all flöt að okkar mati. Þessu til bóta fletti frúin í gegnum gamla Gestgjafa og fann nokkrar uppskriftir sem nú á að prufa. Nammi, namm...

Ég kveð úr tilraunaeldhúsinu að Bláberjavegi 88,

Addý

laugardagur, júlí 19, 2008

Stjörnuspá

Hvaða rugl er þetta: Hrútur: Ekki örvænta þótt þú hafir enn ekki fundið hinn fullkomna áheyranda sem er upprifinn af hverju orði sem þú mælir. Það verður auðveldar að finna hann í næstu viku.? Ég hef Helga! Hann er nokkuð þolinmóður hlustandi, sérstaklega þegar kveikt er á fótbolta! Hehehe...
Annars fínt að frétta. Ungi prinsinn sefur enn á næturnar og á það til að taka langa lúra á daginn, þó það sé ekki algilt, enda skiptir það litlu, það er bara þvotturinn og hreingerningarnar sem fá að bíða í staðinn. Því ungi maðurinn vill mikið vera á höndum móðurinnar þegar hann vakir, en hann er þó að verða betri á leikteppinu.
Helgi er sendur í vinnu hvern einasta laugardag núna, þar sem frúin er á íslenskum fæðingarstyrk, sem ekki er sérlega vænlegt á genginu 17! Við huggum okkur á meðan hérna heima, restin af fjölskyldunni, á meðan pabbinn streðar.

Eigið annars bara góða helgi!

mánudagur, júlí 14, 2008

Nammiminningar

Ótrúlegt hvað pikkar í minningarnar hjá manni. Helgi kom galvaskur heim með nammi handa frúnni um daginn. Meðal sætindanna var pakki með blönduðu súkkulaðisælgæti, allskonar á litinn, grænt, hvítt, brúnt og svo framvegis. Súkklaðibitar með hnetum, súkkulaðihúðaðar rúsínur og fleira skemmtilegt. Mig minnir að góssið heiti Bridge blandning eða eitthvað svoleiðis. Þannig er að amma Ellý átti oft svona nammi og mér fannst það alveg hræðilega vont. Því er hins vegar ekki að skipta í dag, þetta er nýjasta trendið á þessu heimili, sem og hnetusúkkulaði, sem einnig var alltaf hægt að fá hjá ömmu með kaffinu. Ummm... nammi, namm... Kannski eru það góðu minningarnar um ömmu sem gerir nammið betra. Það kæmi mér ekki á óvart.

Annars var helgin góð. Ágústa og gemlingar í mat á föstudaginn, leti, vinna og hjólakaup í gær (já, ég er búin að festa kaup á hjóli í afmælisgjöf frá bónda og börnum og fæ það á morgun! Jibbíííííí!) og flugdrekahlaup í Fruens Böge í dag, sem og heimsóknir góðra vina til okkar. Harpa og Hákon kíktu yfir og svo kom Heiða með hersinguna sína, þau Hillu, Skúla og börn og svo dreif hún ungana sína líka með hingað yfir.

Nú er hins vegar komið að háttatíma. Eigið góða nótt, kæru vinir.

laugardagur, júlí 12, 2008

What to do?

Hvað á maður af sér að gera þegar manni leiðist? Hlaupa maraþon? Eða fara á skíði? Baða sig í sólinni á hvítri sólarströnd með frozen strawberry margarita í hönd? Eða kannski bara ryksuga? Spurning, spurning. Það er greinilegt að ég er komin úr æfingu í því að láta mér leiðast. Best að æfa sig svolítið...

Eigið góða helgi!

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Nóttin

Klukkan er orðin hálftvö aðfaranótt fimmtudagsins 10. júlí og ég er ennþá vakandi og það ein! Sá mig hreinlega tilknúna að deila þessari upplifun með ykkur.

Njótið dagsins! Ja, eða næturinnar...

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Passaðu blóðþrýsinginn feita belja!

Jább... þá er það komið á daginn, frú Addý er let overvægtig, eins og hjúkkan orðaði svo smekklega í dag. Til að bæta gráu ofan á svart skellti hún á mig of háum blóþrýstingi. Viðbrögð mín voru nú ekkert sérlega slæm, mér fannst þetta heldur broslegt, enda veit ég upp á mig sökina. Ég verð þó að viðurkenna að að mínu mati er óþarfi að tala um þyngd og aukakíló við konu sem ól barn fyrir sjö vikum, hugurinn ætti heldur að vera við brjóstagjöfina og mjólkurframleiðsluna, en við það hvernig best sé að ná af sér aukaforðanum sem settist á kroppinn á meðgöngunni.

Svo nú er óhætt að segja að ég sé feit belja! Hehehe...

Ég lenti nú reyndar líka í klónum á spyrli frá Fyens Stiftstidende á læknastofunni. Hann spurði mig út í frumvarp sem hér á að taka fyrir á Alþingi þeirra Dana innan skamms. Frumvarpið hljóðar upp á að setja eigi gjald á læknisskoðanir. Ég geri fastlega ráð fyrir því að svar mitt verði skilið sem svo að ég sé bara nokkuð sátt við það, sem ég er ekki. Þannig er nefnilega að ég frú Addý gat ómögulega ælt út úr sér annað hvort að henni litist vel á tillöguna, eða illa, heldur varð ég að svara í einhverri langloku um að ég væri frá Íslandi þar sem við greiddum fyrir allar heimsóknir til lækna en að mér þætti það gott að þurfa ekki að greiða fyrir slíkar heimsóknir. Auli ég! Ég hefði að sjálfsögðu átt að minnast á sjálfsögð mannréttindi þjóðfélagsþegnanna hér í landi, sem m.a. felast í því að geta sótt læknisþjónustu óháð fjárhagslegri stöðu.

Welli well... börnin þurfa í rúmið. Adios í bili.

Kveðja,
blóðþrýstingshái offitusjúklingurinn.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Síðbúnar afmæliskveðjur

Haldið að sé nú?! Ég steingleymdi að óska honum Helga mínum til hamingju með brúðkaupsafmælið fyrir viku síðan! Reyndar smellti ég nú einum á hann í tilefni dagsins þá, en opinberlega hefur hann ekki fengið neinar hamingjuóskir (ekki svo að vænta að ég fái neinar, uhumm...). Málinu er hér með reddað: Til lukku elsku karlinn með mig! Lítið var þó um hátíðarhöld í tilefni dagsins, enda enn lifað á hátíðarhöldum síðasta árs, þá urðu árin fimm og því tilefni til aðgerða. Í ár telja árin hins vegar sex, eins og glöggir lesendur eru nú þegar búnir að reikna út, og því minna gert úr málinu. Þó var eldaður skítsæmilegur matur að gefnu tilefni.

Að öllu alvarlegri málum. Nú styttist í að ég þurfi að gera upp hug minn hvað BA-ritgerðarskrif varðar og ég er að komast á snoðir um efnistök ritgerðarinnar. Trúlega verður alexia og agraphia fyrir valinu, þ.e.a.s. erfiðleikar með skrift og lestur (einskonar les- og skrifblinda) eftir heilaskaða. Obboð spennó að sjálfsögðu. Lét verða að því áðan að senda leiðbeinandanum tölvupóst og vonast eftir svari fljótlega, þó trúlegt verði að það láti á sér standa þar sem nú fer í hönd þriggja vikna industriferie hér í DK, þar sem flest öll opinber starfssemi er í lágmarki. Reyndar teygir þetta frí angana sína öllu lengra og maður sér eitt og eitt bakarí lokað vegna frísins sem og blómabúðir. Vonandi verð ég þó búin að landa praktíkurplássi áður en langt um líður.

Ég vil ljúka færslunni á hamingjuóskum til Guðnýjar Margrétar: Til hamingju með sjöunda sætið í barnaflokknum á landsmóti hestamanna! Að sjálfsögðu eru líka góðar kveðjur til Axels Arnar, sem stóð sig líka með prýði! Efnilegir knapar þarna á ferð.

Best að sofna á meðan hinir sofa. Buenos noches mi amigos!

laugardagur, júlí 05, 2008

Buslumsull

Hjúkkan kom, sá og sigraði í gær. Hún reif sig upp úr sólbaðinu og lét sig hafa það að þurfa að drollast hingað í hitanum til að sinna útlendingnum Addý. Drengurinn litli var veginn, mældur og skoðaður. Útkoman var nokkðu ásættanleg: 5,5 kg., 60,5 cm., og 39,5 cm. stubburinn virðist heilbrigður, bætir á sig, drullar á sig og dafnar vel. Svo allt er eins og á að vera. Þó þótti hjúkkunni móðirin dúða peyjann heldur mikið. Hún varð nefnilega vitni að því er móðirin skellti unganum út í vagn, í nokkuð þunnum fötum, en með húfu að íslenskum sið, reyndar mjög þunna húfu en húfu samt. Hjúkkunni þótti nóg um og taldi slíkan höfuðfatnað ekki vera nauðsynlegan í hitabylgju í Danmörku. Því tók ég hana á orðinu í dag og sleppti húfunni, en setti heldur sólhatt á kauða. Út í vagn fór hann þó ekki í dag, enda hitinn alltof mikill fyrir svo lítinn kropp, 29 stig í forsælu. Hann tekur þessu þó öllu með jafnaðargeði og er heldur rólegur og vær, sefur og drekkur, enda varla að börn nenni öðru í slíkum hita.

Annars var ég að setja myndir inn á síðuna hjá gemlingunum. Njótið vel.

Góða goslokahátíðar- og landsmótshelgi!

fimmtudagur, júlí 03, 2008

I'm alive!

Ja, blogga segirðu? Það er svo erfitt að finna eitthvað að blogga um þessa stundina. Heimilishaldið er að komast aftur í fastar skorður eftir agaleysi síðustu vikna. Drengurinn yngsti farinn að vera værari úti í vagni, en þó ekki fullkomlega sáttur. Hann er þrjóskur en ég er þó þrjóskari, svo það verður að vana hjá peyjanum innan fárra daga að sofa úti. Veðrið er yndislegt og lífið, svei mér þá, líka.

Ég skráði Tóbías Mar á biðlista eftir leikskólaplássi, ja eða vuggestue-plássi, í upphafi viku en fannst þó ekkert liggja á því, enda kauði ekki orðinn sjö vikna. Fékk svo bréf þess efnis í dag að búið væri að vinna úr umsókninni. Bréfinu fylgdi aðgangs- og lykilorð á heimasíðu Óðinsvéa, þar sem ég get fylgst með stöðu mála á biðlistanum. Eins og sönnum forvitnisseggi sæmir skundaði ég beint á Netið til að athuga í hvaða sæti drengurinn lenti á þessum lista. Að sjálfsögðu 16 sæti! Hann er jú Íslendingur! ;) Samkvæmt þessu verður það greinilega að vera manns fyrsta verk að skrá börnin á biðlista eftir leikskólaplássi þegar maður kemur heim af fæðingardeildinni. Ótrúlegt hreint. Ég tek það þó fram að ég sótti að sjálfsögðu um vistun á sama leikskóla og systkini hans sækja. Ef ég læt af þeim kröfum að fá hann þar inn, þá gengur það mun fyrr fyrir sig að fá dagvistun fyrir hann, þá trúlega hjá dagmömmu.

Síðasta helgi fór í veisluhöld, þó ekki okkar, heldur hjá Heiðu "frú tæknifræðingi", á föstudaginn, þar sem við skófluðum í okku mexíkóskri súpu og skoluðum henni niður með viðeigandi drykkjum. Á sunnudaginn var ferðinni svo heitið í Højby, þar sem við átum á okkur gat í sameiginlegu afmæli þeirra feðga, Alla og Gabríels. Vel var mætt á báða staði þó Erlingur hafi hvergi látið á sér kræla ;)

Welli well... best að njóta sólarinnar á meðan kauði sefur.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Jólaverslun í júní

Enn er letin að gera útaf við mig og manninn, þrátt fyrir að starfsfólk leikskólans sé aftur komið til starfa. Ég hafði mig þó á fætur á mannsæmandi tíma í morgun og dreif mig með heimasætuna til læknis. Krafturinn var svo mikill að ég fór meira að segja í Rosengårdcentret með Slöttílein-Heiðu og Rexinu hennar. Þar skóflaði ég eins og nokkrum jólagjöfum í poka, þrátt fyrir að enn séu örfáir mánuðir til jóla. Það er aldrei verra að vera á undan áætlun ;)

Nú ligg ég hins vegar fyrir framan imbann, sem hefur ekki upp á neitt annað að bjóða þessa dagana en fótbolta, með uppáfitjað fyrir nýja lopapeysu. Það er kannski spurning að fara að drífa sig í að koma puttunum í gang, í stað þess að horfa á hnyklana.

Þar til næst...

laugardagur, júní 14, 2008

Kátt í höllinni

Þá eru Jódís, Hinni og Allan mætt á svæðið. Þau brunuðu í hlað í gærmorgun eftir rúmlega sólarhringsvöku. Létu það þó ekki á sig fá og trölluðu sér í miðbæinn með Helga og Bríeti Huld. Við mæðginin urðum öll eftir heima, ásamt stórvininum Hákoni Inga. Það var því ekki fjarri lagi að þreytan gerði vart við sig þegar líða tók á daginn og fólk var komið nokkuð snemma í ból, sé litið framhjá frameftirvöku unganna þriggja. Nú er stóðið í Rose að kíkja á tuskur. Á meðan sefur Tóbías Mar í vagninnum og múttan brýtur saman þvott með internethléum ;)

Ég brunaði með yngsta fjölskyldumeðliminn til læknis í gær þar sem hann átti að mæta í fimm vikna skoðun, þrátt fyrir það að vera einungis fjögurra vikna! Hann kom vel út úr skoðuninni, orðin 4,7 kg. og 59 cm. Svo hann stækkar og það vel.
Í gærkvöldi ákvað herramaðurinn þó að láta svolítið í sér heyra sökum vindverkja. Trúlegt er að sveinninn ungi hafi með öskrunum verið að mótmæla hangikjötsáti móðurinnar. Skammi, skamm mamma!


Að öðrum mömmum. Hún mútta mín verður stór á morgun, þegar hún kemst á sextugsaldurinn. Hún heldur, að gefnu tilefni, svaka samkomu í kvöld (enda miklu að fagna þar sem ég er ekki á landinu!) með vinum og vandamönnum. Það verður án efa mikið um söng og gleði og góða súpu. Verst að missa af stuðinu! Til hamingju með afmælið fyrirfram, elsku mamma!

Gangið hægt um gleðinnar dyr!
Þar til næst...

fimmtudagur, júní 12, 2008

Letin er við völd

Vellívell...
Leti, leti og aftur leti. Þetta er eina orðið sem lýsir fjölskyldunni þessa dagana. Gestirnir hurfu á brott, allir með tölu, á þriðjudaginn, svo hér er tómlegt um að litast, sé reynt að horfa framhjá öllu draslinu ;) Helgi meikaði það þó að drífa í eins og eina þvottavél í morgun á meðan við Tóbías Mar sváfum eins og steinar. Eldri gemlingarnir eru aldir á sælgæti og Cartoon Network og ristuðu brauði þess á milli. Dagskrá dagsins er þó að drífa í því að brjóta Mount Þvott saman og koma honum fyrir á réttum stöðum, drífa afmælis- og skírnargjafir á sína staði og gera gestaklárt fyrir morgundaginn, þegar Jósa mjósa, Hinni pinni og Alli skralli mæta á svæðið.

Skírnar- og afmælisveislan tókst svaka vel og mæting var góð, sólin lét meira að segja sjá sig og staldraði barasta lengi við, og má afrakstur útiverunnar sjást á mörgum gestanna ;) Þétt var setið útifyrir og börnin nutu sín í botn í Sun Lolly- og sleikipinnaáti. Skírnarkakan tókst bara nokkuð vel, sem og mexíkóska súpan. Enda varla við öðru að búast með allar þessar hjálparhellur í kringum okkur! Ömmurnar þrjár börðust um athygli yngsta piltsins, sem naut þess í botn að sofa á börmum þeirra til skiptis. Nú tekur því við afvenjunartímabil hjá foreldrunum, þar sem reynt verður að fá piltinn til að sofa annars staðar en í fangi einhvers. Vagninn kemur þar sterkur inn! Snuð vill drengurinn helst ekki sjá og hver veit nema það fylgi fæðingardeginum! Hihihi...

Við þökkum kærlega fyrir börnin og þau fyrir sig! Auk þess sem við þökkum fyrir alla þá ómældu hjálp frá ömmunum, löngunni, afanum og öðrum sem hönd lögðu á plóginn, svo veislan yrði að veruleika. Takki takk, allir saman!

sunnudagur, júní 08, 2008

Drengurinn heitir...

...Tóbías Mar.

fimmtudagur, júní 05, 2008

Hvað á barnið að heita?

Þá er komið að smá samkeppni...

Hvað á litli drengurinn að heita?Um er að ræða tvö nöfn, það fyrra inniheldur sex stafi og það seinna þrjá. Endilega komið með ykkar framlag á athugasemdirnar! Munið bara að um er að ræða drengjanöfn ;)

Tæpar þrjár vikur

Stjörnuspáin á vel við daginn í dag!

Hrútur:
Leiðileg vinna er tækifæri til að kanna ímyndunaraflið. Fáðu þér far með hugmyndafluginu. Þú átt góðar samræður seinni partinn sem þú græðir á.

Er að vinna að blessaða verkefninu, sem ég er löngu orðin alltof þreytt á, og gengur afskaplega hægt að klára. Ekki svo að skilja að efniviðurinn sé leiðinlegur, því fer fjarri, en ég er bara á engan hátt búin að vera stefnd í ritgerðarsmíð undanfarna mánuði. Ég rumpa þessu vonandi af í dag, svo ég geti notið tímans með mömmu, ömmu og tengdó, að ég tali nú ekki um Jódísi og co. líka. Til að auðvelda mér vinnuna sendi ég Helga með eldri gemsana vestur eftir. Hann ætlar að hitta Elísabetu einhvers staðar á Jótlandi þar sem þau hafa mannaskipti, tengdó fer í bílinn hjá Helga og krakkarnir í bílinn hjá Elísabetu og halda áleiðis til Esbjerg, á meðan fullorðna fólkið í hinum bílnum ætlar að skella sér í innkaupaleiðangur á grensann og þaðan í bryggjurölt í Flensborg.

Annars allt gott, kauðinn litli sefur enn á næturnar, þó hann láti stundum hafa fyrir sér á daginn. Hann er farinn að sjá lengra frá sér og þar af leiðandi farinn að una sér betur í fína ömmustólnum sem hann fékk um daginn frá afa sínum og ömmu. Hann er farinn að fylgjast vel með krökkunum, sem honum þykir óskaplega spennandi. Brosin eru farin að birtast á vörum hans og hann er farinn að hjala aðeins, auk þess sem hann er farinn að veita leikföngum svolitla athygli. Hann er tregur við snuðið, en tekur það einstaka sinnum. Svo það gengur allt eins og á að ganga.

Verið sæl að sinni, unginn litli kallar!

sunnudagur, maí 25, 2008

Smá fréttapistill

Þá er prinsinn orðinn níu daga gamall. Hann sefur eiginlega út í eitt og er obboð vær og góður. Við þökkum honum sérlega mikið fyrir það, sérílagi þar sem hin börnin létu okkur hafa þannig fyrir sér að gangur um gólf fram á nætur var það eina sem dugði til að róa litla kúta. Hann dafnar líka mjög vel, var vigtaður og mældur á föstudaginn, þá viku gamall. Hann er orðin 4 kg. og 55 cm., geri aðrir betur! Heil 140 gr. og 2 cm. á einni viku. Það verður bara að teljast nokkuð gott. Systkini hans juku einnig við vigtina þegar þau voru á þessum aldri, tóku ekkert upp á því að fara niður í þyngd. Trúlega er þetta öllum rjómakökunum að þakka sem móðirin hefur innbyrgt í gegnum tíðina ;)

Annars er búið að negla skírnardagsetningu og fyrir valinu varð afmælisdagur heimasætunnar, sá 8. júní nk. Skvísan á að fá að halda á drengnum undir skírn, enda nauðsynlegt að mikið verði gert úr því að hún taki sem mestan þátt í öllu í sambandi við skírnina, enda er þetta fyrst og fremst hennar afmælisdagur og það má ekki skemma. Við höfðum hugsað okkur að fá sr. Þórir Jökul Íslendingaprest hingað yfir á Fjón að skíra, en þar sem heimaskírnir eru víst bannaðar hér í landi og við hefðum þurft að fá sóknarkirkjuna lánaða, ákváðum við bara að skella skírninni inn í venjulega danska messu í Hjallesekirke, sem er okkar sóknarkirkja og því sú eina sem við getum notast við, að mér skilst. Það fylgir þessari ákvarðanatöku minna vesen og stúss en því að koma prestinum yfir Stórabeltið og redda kirkjunni líka. Til að gera skírnina svolítið íslenskari prentum við bara skírnarsálminn okkar út og það syngja hann allir skírnar- og afmælisveislugestir saman á eftir afmælissöngnum í veislunni hér heima. Það verður heldur betur stuð í veislunni því von er bæði á tengdaforeldrunum, mömmu og ömmu Addý. Svo ég hef góða hjálp þegar kemur að hnallþórubakstrinum! Hehehe...

Jæja, við höfum þetta ekki lengra að sinni, best að drífa sig í ritgerðarvinnu.
Adios amigos!

sunnudagur, maí 18, 2008

Það kom að því

Þá er pilturinn mættur í heiminn. Stórmyndarlegur og flottur drengur, sem sver sig í fjölskylduna. Með svolítinn lubba, eiginlega sítt að aftan og svolítið bólginn enn sem komið er.

Síðastliðinn föstudag, þann 16. maí, mættum við hjónin upp á OUH, stundvíslega kl. 8:30. Tekinn var status á frúnni eftir mónitor og skemmtilegheit og var komist að þeirri niðurstöðu að hún væri nógu "hagstæð" fyrir gangsetningu með belgjarofi. Eftir að þessar fréttir voru færðar okkur hjónum var næsta mál á dagskrá næringarinntaka, þar sem nú hófst bið eftir tíma á fæðingarganginum. Því héldum við niður í kantínuna á stuen á OUH og skelltum í okkur sitthvorri samlokunni með kjúklingi og drykkjarföngum með. Þegar klukkan var orðin rúmlega tólf á hádegi, var okkur komið fyrir á fæðingarstofu á fæðingarganginum, þar sem belgurinn svo var rofinn kl. u.þ.b. 12:30. Hríðirnar gerðu vart við sig 15-20 mínútum seinna og urðu jafnt og þétt nokkuð harðar og tíðar. Með góðri öndunartækni og hugarreiki á fagran íslenskan sumardag í sveitinni hófst þetta allt saman án nokkurra verkjalyfja eða inngripa og klukkan 15:16 fæddist okkur hjónum annar sonur. Hann vó við fæðingu 3860 gr. og var 53 cm. að lengd. Nokkuð þyngri en eldri systkini hans, sem vógu annars vegar 3380 gr. og hins vegar 3275 gr. Hann var þó jafnlangur bróður sínum, en skvísan var þó nokkuð styttri.
Sökum verkfalls hjá heilbrigðisgeiranum vorum við send heim með prinsinn, einungis fjórum tímum eftir fæðinguna. Þar þurftum við ekki að bíða lengi til þess að forvitin og spennt systkinin birtust í dyragættinni í fylgd Kristrúnar, sem var, ásamt Alla, svo blíð að taka þau að sér á meðan á herlegheitunum stóð.

Svo nú er bara verið að vinna í þessum helstu málefnum nýfæddra barna, þ.e.a.s. brjóstagjöf, bleiuskiptum og svefni. Systkinin spara ekki kraftana þegar kemur að því að hjálpa til og sýna mikinn áhuga á litla bróður, sem enn hefur ekki fengið nafn.

Prinsinn er búinn að vera mjög vær og meðfærilegur, sefur mikið, tottar þess á milli og óhreinkar bleiurnar. Vonandi heldur þetta bara áfram í sama farinu.

Það eru komnar inn myndir á síðuna hjá krökkunum fyrir þá sem vilja berja kauða augum.

Kveðja,
Addý ungamamma.

fimmtudagur, maí 15, 2008

Öpdeit 15. maí

Hola allesammen!
Héðan er ekkert að frétta. Litlir sem engir verkir en bjúgurinn farinn að pirra húsfrúna sem spásérar um stræti Óðinsvéa á fjólubláum Bangsímoninnsikóm sökum bjúgs, frekar flott. Þar sem herrann þurfti að fara með frúnni í vagnaleiðangur í gær ákvað hann að blæða á hana tveimur pörum af einskonar sandölum á samtals 50 kr. heimasætan fékk að velja litina og fyrir valinu urðu annars vegar bleikir og hins vegar ljósgrænir sandalar, kemur trúlega fæstum á óvart! Drengurinn á heimilinu hefur minni áhyggjur af þessu veseni.

Þar sem krílið er ekkert farið að láta á sér kræla er ég komin með tíma í gangsetningu á morgun, á afmælisdeginum hans Bergs bróður, Gústa á Heggstöðum og Ágústu hans Sigga. Flottur dagur, enda frábært fólk sem á afmæli þennan dag. Hefði þó verið til í að vera búin að þessu fyrir lööööööööööööngu síðan!

Best að fara að drífa sig í að slaka á yfir lestri góðra greina um sagnorðanotkun barna í þátíð og reyna að vinna eitthvað í verkefninu, þó kannski verði lítið um skrif.

Þar til næst...

þriðjudagur, maí 13, 2008

Brjóstamaðurinn Elí Berg

Sonur minn er brjóstamaður mikill núorðið, þrátt fyrir að hafa hafnað brjóstagjöf við sex mánaða aldur. Nú á ég í stökustu vandræðum með gæjann, því hann veit fátt skemmtilegra en að fá að berja brjóst móðurinnar augum og ekki skemmir ef hann nú nær að ýta eða toga í þau líka. Að sjálfsögðu reynir múttan að halda þessu í lágmarki, enda finnst henni þetta heldur óþægileg athygli. Um daginn lágum við tvö uppi í rúmi eftir að guttinn var vaknaður en systirin ekki, þegar hann allt í einu snýr sér að móðurinni og spyr hvort hann megi sjá brjóstin á henni, mömmunni, til að athuga hvort þau væru ennþá flott!
Já, það er spurning hvernig maður getur tekist á við þetta mál...

sunnudagur, maí 11, 2008

Enn er krílið í bumbu

Noh... þetta barn virðist ætla að vera jafn þrjóskt og restin af fjölskyldunni. Það dvelur enn í bumbu og sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Nú er komið að kvöldi níunda dags framyfirgöngu og móðirin orðin heldur spennt yfir því að fara að berja nýja krílið augum, sem og flestir í kringum hana. Auk þess sem fætur hennar vilja gjarnan fara að losna við alltof mikinn bjúg sem myndast hefur undanfarnar vikur.

Til að fá tímann til að líða að barnsburði, þá brugðu hjónakornin á heimilinu á það ráð að hefjast handa í garðinum fagra, með mikilli og góðri hjálp Alla og Elísabetar. Svo nú er búið að skella einu stykki kofa upp úti í garði, bak við rólurnar, klippa slatta af runnum og trjám, sem og stinga beðin og grisja aðeins. Frábært verk. Það var þó ekki laust við það að húsmóðirin ætti mjög bágt með það að sitja á sínum flata botni á meðan vinnumennirnir voru iðnir við kolann. Hún stalst því til þess að dunda sér aðeins með fólkinu. Börnin eru hin sælustu með kofann og daman er búin að þrífa hann að innan að minnsta kosti fjórtán sinnum síðan síðasti nagli var barinn í herlegheitin. Regla eitt er líka sú að allir sem inn í kofann fara, fara úr skónum! Já, það er gott að húsmóðurandinn hellist yfir mann þegar maður er svona ungur. Það er bara spurning hve langur tími liður þar til allar reglur eru foknar út í veður og vind. Gefum þessu viku.

Veðrið er líka búið að dúlla við okkur hérna í DK. Börnin eru vatnslegin eftir busl í sundlauginni og vatnskeppni við foreldrana. Allir skemmta sér hið mesta og þess á milli er sólin sleikt. Mmmmm...

Sökum góðra vina áttum við hjónin ljúfa kvöldstund í gærkvöldi, þegar börnunum okkar var svotil rænt af okkur af Alla og Kristrúnu annars vegar og Palla og Rósu hins vegar. Við skelltum okkur á hið margrómaða veitingahús Jensens buffhús og nutum góðra veitinga í veðurblíðunni, síðan var ferðinni heitið í göngutúr í Fruens böge og þaðan í bíó að sjá hina dönsku Flammen og Citronen. Þetta var svaka notó, enda sjaldan sem slíkt er gert hér á bæ. Takk fyrir þetta, kæru vinir. Þið eigið inni hjá okkur.

Í kvöld þurftum við heldur ekki að hafa áhyggjur af eldamennsku þar sem við aðstoðuðum Arnar og Heiðu við niðurrif háfættrar gimbrar sem eitt sinn beit íslenskt gras. Nammi namm... gott íslenskt lambakjöt með massa af hvítlauk og koníaki og tilheyrandi meðlæti. Kvöldið endaði þó ekki eins vel og það byrjaði, þar sem Alexander, eldri sonur Arnars, lenti í því að ekið var á hann á hjólinu. Sem betur fer var drengurinn með hjálm, því hann fékk fína flugferð, yfir bílinn að mér skilst. Enda var bíllinn heldur skemmdur, bæði framrúða og -ljós eftir áreksturinn. Sjúkrabíll var kallaður á staðinn, sem flutti drenginn á sjúkrahúsið til frekari aðhlynningar og tékks. Sem betur fer voru meiðslin minniháttar, og ekkert kom út úr myndatökum, en honum verður haldið á sjúkrahúsinu yfir nóttina.

Eigið góðan pinse!

Knús...

fimmtudagur, maí 08, 2008

40+6

Ég hef það rosa fínt, alltof fínt, miðað við að vera gengin þetta langt. Á þessum tíma á ég ekki að hafa það gott, ég á að engjast um með hríðir, en barnið er þrjóskupúki og "geymir sig" eins og Daninn segir. Hins vegar er nóg við að vera þar til barnið lítur dagsins ljós. Hægt gengur með ritgerðina og sólin og sumarið truflar svolítið líka. Hvernig er líka hægt að hanga inni í svona góðu veðri? Mér er það því sem næst ómögulegt. Hverjum deginum á fætur öðrum er eytt úti í blíðviðrinu og börnin hoppa og hlaupa í garðinum á nærunum einum fata. Huggulegt! Ætli mesta vesenið varðandi litla ófædda ungann verði ekki að komast að því hvernig best er að klæða svona lítið kríli í svona miklum hita! Enginn svefnpoki í sumar, varla flík á litla kroppnum, trúlega bara samfellur og léttir sokkar. Lítið annað, enda óþarfi að kappklæða börnin í rúmlega 20 stiga hita.

Well, well... lítið að frétta annars. Það eru þó reyndar komnar inn nýjar myndir á síðuna hjá gemsunum. Njótið vel!

laugardagur, maí 03, 2008

Enn og aftur andvaka

Þá er settur dagur liðinn og ég því "komin framyfir" eins og mér var svo skemmtilega tilkynnt með sms-i áðan, sem veldur því að ég get ekki sofið. Ja, eða sms-ið vakti mig og ég gat ekki sofnað aftur. Ég sem hélt að sms sendingar eftir miðnætti legðust niður upp úr 25 ára aldrinum! Til að gera gott úr öllu, sá Addý sér leik á borði og skellti sér fram í stofu, með mjólk og kex, og tók til við ritgerðarsmíðar. Það er þó spurning hve mikið gott kemur út úr skriftum sem unnar eru um fjögurleytið að nóttu til, en vonandi verður eitthvað af þessu brúklegt.

Vildi annars bara öpdeita ykkur. Staðan er góð, komin 40+1 eins og þær ljósurnar segja og hef það fínt. Engir verkir og ekkert sem bendir til fæðingar næsta sólarhringinn, þó maður viti aldrei. Reyndar eru svo margir sem við þekkjum sem eiga afmæli næstu daga, að við getum eiginlega frekar spurt okkur á afmælisdegi hvers barnið komi til með að fæðast, heldur en hvort það hitti á einhvern afmælisdag.
Allavega. Afmælisbörn dagsins í dag eru Sigga Jóna mágkona, Rósa vinkona og Silvía Sól fermingarstelpa og úberbarnapía. Til lukku skvísur!

Ég ætla að athuga hvort ég nái eitthvað að halla mér aftur, áður en skríllinn vaknar. Góða nótt!

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Þrír dagar til stefnu, ja eða rúmar tvær vikur...

Enn er verkfall á leikskólanum, svo Bríet Huld hefur ekkert farið í leikskólann í tvær vikur núna og það endar í tæpum þremur þegar hún loksins fær leyfi til að mæta á mánudaginn. Þá er ekki þar með sagt að allt sé fallið í ljúfa löð, ó, nei. Því ungi herramaðurinn á heimilinu fær þá að dveljast heima með múttunni skrúttunni. Yndislegt alveg, og mamma sem ætlaði að vera búin með ritgerðina áður en þriðji gemsinn bættist við. Það er þó ekki öll von úti enn, enda getur meðgangan dregist á langinn, þó svo að settur dagur sé núna á föstudaginn.

Annars er fínt að frétta. Vorið er komið og grundirnar gróa, þó svo að botninn á línunni eigi síður við hér í flatlendi Danans. Sannkölluð sumarblíða búin að vera síðustu daga, þó svo að rigni í dag. Enda veitir ekki af þar sem það þarf að vökva gróðurinn af og til og jafnvel taka til innifyrir, það er gersamlega ómögulegt að framkvæma þegar veðrið er blítt og fallegt. Þá hlammar maður sér heldur út í sólina og skellir í sig svona eins og einum ís og svolitlu ístei eða álíka svalandi drykk. Notó, spotó.

Skvísan á heimilinu er farin að færa sig hratt upp á skaftið núna. Þannig er að við hjónin notum þessa svokölluðu töfrar, einn, tveir, þrír aðferð við uppeldið á börnunum, sem virkar alveg þrusuvel. Það veit enginn hvað gerist ef talið er upp að þremur og enginn hlýðir ennþá, en við finnum upp á einhverju ef börnin taka upp á þeim ósið að hætta við að hlýða. Daman hefur undanfarið notað þessa aðferð á hann bróður sinn með miklum og góðum áhrifum. Hann hlýðir öllu sem hún segir þegar hún byrjar að telja. Að sjálfsögðu er búið að reyna að brýna fyrir henni að þetta sé eitthvað sem fullorðna fólkið á að segja, en það er óhætt að segja að það læðist fram örlítið bros hjá okkur þegar við heyrum hana byrja að telja. Hún fær stórt prik fyrir áræðnina og úrræðið að taka upp á þessu, ein síns liðs. Þau eru snillingar, blessuð börnin.

Við fórum svo í þessa líka fínu og flottu fermingarveislu á sunnudaginn hjá henni Silvíu Sól. Hún var að sjálfsögðu alveg obboð fín og sæt og foreldrarnir, auðvitað, líka. Eins og við var að búast voru veitingarnar ekki af verri endanum og ég þess guðslifandi fegin að geta ennþá borið fyrir mig óléttunni og hámað í mig að vild! Það er aldrei slæmt að fara í veislu til Bæba og Salvarar. Börnin komust heldur betur í feitt þegar kaffið var fremreitt, þar sem inn á milli allra kakanna leyndust kleinur. Uppáhaldið. Nammi, namm... Í veislunni, sem að mestu fór fram út í garði, sökum veðurblíðunnar, var margt um manninn. Það var gaman að hitta fullt af fólki sem maður hittir sjaldan eða hefur jafnvel aldrei hitt, en heyrt talað um. Steini, Hanna Lára, Þórdís og Arna Björg voru að sjálfsögðu líka í veislunni og það var þrusugaman að hitta þau. Reyndar ætlaði frúin í Esbjerg að koma með gemlingana líka, en komst ekki sökum flensufaraldar á heimilinu, við vonum að þau fari að ná sér, blessuð börnin þar.

Best að nýta þessar mínutur sem ég hef þar til ég sæki karlinn í ritgerðarsmíði. Þar til næst...

föstudagur, apríl 25, 2008

Hver er maðurinn?

Fann þessa frábæru mynd um daginn og varð að deila henni með ykkur.


Flottur, ekki satt?

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Já, maður spyr sig!

Hvað er betra að gera þegar maður vaknar klukkan 6 að morgni en að setjast við saumavélina og sauma saman himnasæng yfir rimlarúmið?

Fékk annars þessa fínu útlensku athugasemd á fyrra blogg. Gæinn var mjög ánægður með bloggið og fannst það áhugavert. Spurning hvort þetta hafi verið einhver þýskur íslenskunemi, en ég hefði þá búist við því að hann hefði allavega reynt að strögglast framúr íslenskunni. Ég dreg það stórlega í efa að óbreyttur útlendingur hafi miklar áhyggjur af tungumáli vorrar þjóðar, og hvað þá að sá hinn sami hafi áhuga á þessum pælingum mínum! Það er þó alltaf gott fyrir egóið þegar einhver "nennir" að kvitta, hver sem það svo er ;)

mánudagur, apríl 21, 2008

Ryksuga?

Ég hef stundum velt fyrir mér sögninni "ryksuga" þ.e.a.s. að ryksuga. Mér finnst alltaf eins og þetta sé einhver orðleysa. Nafnorðið ryksuga, fyrir samnefnt heimilistæki, er gott og gilt, enta er það suga sem sýgur ryk. Er því ekki réttara að tala um það að ryksjúga með ryksugunni? Það meikar meiri sens, eins og maður segir á "góðri" íslensku.

Hvað ætli Fjölnismenn hefðu sagt við þessu? Þeir hefðu pottþétt getað svarað þessari spurningu minni.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Yndislegt veður!

Eitthvað hefur brandarinn sem ég setti inn fyrir helgi klikkað. Hann leit vel út þegar ég var nýbúin að setja hann inn, en það er greinilegt að myndirnar sem honum fylgdu hafa dottið út. Áhugasamir mega hafa samband og ég sendi þeim brandarann um hæl ;)

Annars er fátt að frétta. Mér líður vel og hef það notó, þar sem stjanað er við mig svotil allan sólarhringinn, nú þarf ég bara að finna leið til að fá Helga til að pissa fyrir mig á næturnar ;) Fæturnir eru að verða eins og fæturnir á hennar hátign Elísabetu Bretlandsdrottningu. Frekar bólgnir, en það styttist óðum í annan endan á meðgöngunni og ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Það eina sem á eftir að gera fyrir komu barnsins er að sauma himnasæng yfir rimlarúmið. Ég er búin að kaupa efni í hana og á því bara eftir að klístra henni saman. Reyndar á ég líka eftir að skrifa ritgerðina og pakka ofan í tösku. Hér þarf maður víst að hafa allt með sér á spítalann, allt frá bleium og dömubindum til sængur og fatnaðar á barnið. Annars er herbergið svotil reddí og ég, svei mér þá, líka.

Síðan á föstudaignn eru Siggi Finnur og Magga Ásta búin að vera hjá okkur. Þau eru svo obboð notaleg að það þarf ekkert að hafa fyrir þeim. Þau skveruðu sér einmitt með Helga út í garð í dag, þar sem þau tóku til hendinni ásamt húsbóndanum, enda veðrið alveg svaka gott. Svo nú er búið að raka megnið af laufunum úr beðunum, tína upp allar trjágreinarnar og setja snyrtilega í hrúgu, sem og slá grasið og sópa veröndina. Huggulegt, ekki satt? Reyndar kitlar það mikið í puttana að fara að geta komist í þetta sjálf. Það verður voða munur. Þá ætti hún Henny hérna á móti líka að verða rosa glöð, enda hefur hún miklar áhyggjur af því hvernig garðurinn okkar lítur út! Hehehe...

Well, well, ég er að spá í að halla mér í smá stund á meðan fólkið er í bíltúr.
Þar til næst...

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Þessi verður að fá að birtast

Børnehaveklasse Test:

I hvilken retning kører bussen på billedet herunder???

Kører den til højre eller venstre????
Kan du ikke bestemme dig?

Kig nøje på billedet én gang til !!

Du ved det stadig ikke??

Samme billede vistes til børnehaveklassebørn
og de fik samme spørgsmål;
Hvilken vej kører bussen??


90% af børnene gav følgende svar:


'Bussen kører til venstre'

På spørgsmålet; 'Hvorfor tror du at bussen kører til venstre?'

svarede børnene:

'Fordi man ikke kan se døren man stiger ud og ind af bussen!'

Hvordan
føler du dig lige nu?????

Jeg ved det,

Allt í keyi

Það er greinilegt að það styttist í komu bumbubúans. Ósjaldan vakna ég um miðja nótt og á erfitt með að festa svefn aftur, annað hvort vegna of mikils brjóstsviða eða vegna mikils hamagangs í farþeganum. Þá er gott að koma sér á fætur og hella í sig eins og einu til tveimur mjólkurglösum, með eða án morgunkorns, fer alveg eftir hungurtilfinningunni, og blogga smá.
Ég hef reyndar ekkert að segja, annað en að hér er allt orðið hreint og fínt eftir að Helgi beytti töfrum sínum við heimilisstörfin og skúraði út. Ég reyndi að hjálpa eitthvað til við það sem ekki krefst of mikils ats, eins og afþurrkun og slíkt, en karlinn sá um rest. Eins gott að ég verði ekki vön þessu ljúfa dekurlífi og neiti að taka þátt í frekari heimilisstörfum eftir fæðingu barnsins!
Annars kom allt vel út hjá ljósunni í gær. Börnin voru nokkurn veginn til sóma og unnu sér inn fyrir ís í bæjarferðinni sem var farin eftir skoðunina. Þau fengu að heyra hjartsláttinn, sjá mældan blóðþrýsting og bumbu. Þrýstingurinn hefur eitthvað lagast og próteinið virðist vera lítið sem ekkert í þvaginu. Svo af mér er engar áhyggjur að hafa. Þreytan gerir stundum vart við sig og við henni er ekki hægt að bregðast öðruvísi en að leggja sig endrum og eins.
Well, well... Bið að heilsa í bili. Ég ætla að ná nokkrum mínútum í landi drauma áður en börnin vakna.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Gleðilegt vor!

Þá er búið að fjarlægja það mesta af greinunum sem felldar voru af stóra trénu í garðinum hjá okkur. Eftir eru einungis trjástubbar, sem á að brenna á "eldstæðinu" okkar við tækifæri. Veðrið er gott, svo það gæti hreinlega verið stutt í athöfnina. Við borðuðum úti á palli í fyrsta skipti þetta vorið í gær. Fyrir valinu varð pítsa a'la Chianti. Obboð góð bara. Hún rann ljúft niður eftir erfiði ruslaferðanna. Alltof lítil og snjáð föt fengu líka að fjúka á haugana, sem og gamli skápurinn sem hýsti þau, auk gamallar kerru og ónýts Netto-hjólavagns, sem þó dugði ótrúlega lengi og vel. Nú er bara að bretta upp ermar og drífa í þrifum á heimilinu, enda vel subbulegt eftir framkvæmdagleði síðustu viku. Spurning hvort ég nái hjálparhellunum út úr sjónvarpinu, eða hreinlega geymi þær þar þar til þrfiin eru yfirstaðin. Þó verð ég fyrst að drösla þeim með mér til ljósunnar, svona til að athuga hvort í lagi sé með belgfarann og þar sem búið er að lofa ís fyrir góða hegðun, ef einhver verður, verður bæjarferðin trúlega lengri en sem nemur kontrólnum hjá ljósunni. Auk þess er daman búin að heimta H&M ferð líka. Greinilega kominn sumarfílingur í litla kroppa líka, því það er víst lífs nauðsynlegt að fara að kíkja á einhverja almennilega sumarkjóla!
Þar til næst...

mánudagur, apríl 14, 2008

Verkfall!

Þá er það ljóst. Það eru allir á leiðinni í verkfall... ja... ekki alveg allir, en nokkuð margir sem hafa eitthvað með okkur fjölskylduna að gera á þessum síðustu og verstu. Pædagogmedhjælper, sem er ómenntað starfsfólk (eða þeir sem ekki eru leikskólakennarar) á leikskólunum, meðal annars. Ljósmæður ætla sér líka í verkfall, en mér skilst að þjónustan við mig eigi ekki að skerðast, enda komin það langt á leið að varla megi við því. Trúlega verður mér þó kastað út af fæðingardeildinni, ef allt gengur vel, eftir sirka fjórar klukkustundir, ef krílið ákveður að birtast á meðan á verkfalli stendur. Það plagar mig trúlega lítið, enda vön þessu barnastússi, auk þess sem mér var farið að dauðleiðast á Hreiðrinu eftir að ég átti strákinn, þó var ég komin heim innan við sólarhring eftir að gaurinn kom í heiminn. Þetta bitnar kannski heldur á þeim sem eru að prófa þetta í fyrsta skipti.
Aðfaranótt miðvikudags skellur verkfallið á, með öllu því sem því fylgir. Ég tók einmitt við tveimur blaðsneplum í dag þar sem mér var á öðrum þeirra tilkynnt að ég gæti mætt með barnið í leikskólann meðan á verkfallinu stendur, en á hinum var mér tilkynnt að því miður gæti stofnunin ekki tekið við barninu sökum verkfalsins. Jamm og já! Eldra barnið verður að vera heima, þar sem elstu börnin eiga þess ekki kost að vera pössuð meðan á verkfallinu stendur (þau virðast greinilega vera komin svo langt á þróunarbrautinni, að þau geta alveg séð um sig sjálf, eða það sem líklegra er; þau er í flestum tilvikum auðveldrara að passa en þau yngstu), en drengurinn er velkominn, þar sem hann er jú bara þriggja og hálfs ennþá! Sökum aðstæðan verð ég því að drífa mig í gang með ritgerðina, sem á að skila 10. júní, á morgun! Ekki seinna vænna, enda löngu kominn tími til að gera eitthvað í þeim málum.
Svo er bara að krossa fætur þar til verkfallið er yfirstaðið.

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Hversu mikið er til í þessu?

Endilega látið mig vita hvort þetta standist hjá ykkur sem eigið börn.

Þú finnur mánuðinn sem þú varðst ófrísk í og þann aldur sem þú varst á er þú varðst ófrísk og liturinn í reitnum á að tákna kyn barnsins.

Þetta eru skemmtilegar pælingar...

Góða skemmtun!

Dreng eller pige??

Måned hvor barnet blev undfanget

Moderens alder i den måned hvor barnet er blev undfanget, hvis feltet er lyserødt bliver det en pige, lyseblåt en dreng.

18

19

20

21

22

23

24

25

26

27

28

29

30

31

Januar

Februar

Marts

April

Maj

Juni

Juli

August

September

Oktober

November

December

32

33

34

35

36

37

38

39

40

41

42

43

44

45

Januar

Februar

Marts

April

Maj

Juni

Juli

August

September

Oktober

November

December