þriðjudagur, október 24, 2006

Ummmm...

Brambolt á þakinu sem reyndist eiga rætur að rekja til kattarófétis, grátur tveggja barna, rifrildi annars þeirra við heimilisföðurinn og drukknun í eigin líkamsvessum einkenndu nóttina. Life is beautiful!

föstudagur, október 20, 2006

Skál fyrir öllum, konum og köllum!

Hvað er mikilvægara en að hanga á Netinu eða í símanum öllum stundum?
Þó svo að þvotturinn bíði, ásamt ólesnum skólabókum, óunnum verkefnum og óþrifnu húsi fara samskipti umheimsins við mig ekkert minnkandi (þið ætlið varla að fara að skella skuldinni á mig?!). Börnin eru höfð í náttfötum til klukkan tvö og gott ef móðirin hafi nokkuð ratað úr sínum fyrr en um svipað leyti. Ég held stundum að ég þyrfti pískara hingað, eina frekar reiða kerlu með svipu sem sér til þess að verkin séu unnin og það vel! Ekki af henni, heldur mér! Jább, skább... Haustfríið fór því ekki nema að litlu leyti í það sem því var ætlað. Lestur og verkefnavinna fékk að víkja fyrir almennu hangsi og sjálfsdekri, sem að mestu fólst í of miklu áti og of lítilli hreyfingu. Rex pex ætlar, að mér skilst, að reyna að koma mér upp úr sófanum um helgina og fá mig til að hlaupa á eftir sér. Ég hef svikist undan síðustu tvö skipti og borið við barnavesen, það fer að verða álíka gömul lumma og að hundurinn hafi étið heimavinnuna. Svo það er ljóst að ég verð að fara að finna upp á einhverju nýju. Nota kannski sófasetu helgarinnar í fílósóferingu um það.
Ég vil að lokum lyfta glasi (reyndar er þetta bara tebolli) fyrir henni Andreu Líf, frænku minni, sem í dag fyllir eitt ár. Auk þess skála ég að sjálfsögðu líka fyrir honum Halla frænda sem er 16 ára í dag (trúlega meira tilefni til að skála!)!

Eigið góða helgi!

fimmtudagur, október 12, 2006

Ekki neitt

Ég ætla að byrja á því að óska henni Þórdísi, "frænku" minni, til lukku með tvítugs afmælið! Auk þess vil ég óska öllum hinum sem hafa átt afmæli undanfarnar vikur til lukku með daginn, þau eru ófá afmælisbörnin sem ég hef gleymt að senda kveðju hér á síðunni, þar á meðal er hann Íbbi bró. Til lukku karlinn!

Annars er nú lítið af okkur Dönunum að frétta. Reyndar fengum við AuPairina okkar í gær. Hann Janus, pabbi hennar Láru, vinkonu okkar, ætlar að dvelja hér hjá okkur um stundarsakir. Hann á víst að vera óbreyttur gestur (mér finnst orðið leigjandi ekki alveg passa) en hann smellti sér bara í málningargalann í gær og hjálpaði Helga að hespa málningarvinnuna af og afmáði þar með gestatitilinn. Nú er því búið að mála öll herbergin og stofurnar báðar. Þvílíkur munur! Næst á dagskrá eru myndaupphengingar og gardínusaumur. Vei, vei, jibbí jei! Borðstofustólarnir koma á morgun, svo ferðina á haugana með gamla dótið má ekki draga um of. Skvísan þarf að gera fínt hér!

Þar til verður brýnni verkefni að leysa, svosem eins og nefípikkingar og pósthúsferð (það eru ansi margir á klakanum farnir að bíða eftir bögglum héðan).

Eigið góða helgi.

miðvikudagur, október 04, 2006

Hver sagði og hvað þýðir?

"Colourless green ideas sleep furiously."

Nú vonast ég eftir viðbrögðum frá íslenskufræðingunum...

mánudagur, október 02, 2006

Listin að baka vandræði

Hvað á maður að gera þegar maður er kominn á síðasta snúning með verkefni og er gjörsamlega sneyddur allri sköpunargáfu sem til skriftar þarf? Sparka í rassinn á sér og koma sér að verki, óháð því hvað út úr því kemur? Lalla sér inn í ból og vona að nætursvefninn laumi einni og einni hugmynd inn í kollinn um innihald verkefnisins? Eða bara loka bókunum og glápa á imbann? Eins og oft áður er ég gjörsamlega týnd í heimi netheimilda og dönskunnar! Reyndar er verkefnið sem slíkt hvorki flókið né leiðinlegt, en rassseta undanfarinna vikna gerir það að verkum að næstum ómögulegt reynist að dúndra í flatbotnann (sem þó er ívið of kringlulaga þessa mánuðina). Málið er bara að koma hugsununum niður á blað, eða í tölvutækt form. Ótrúlegt hvað einföldustu mál verða flókin þegar maður fer að hugsa um þau. Málið er kannski bara það að ég ætti að setja mig í spor karlmanns (án allrar móðgunar við hitt kynið) og leysa vandann (sem þeir halda alltaf að sé í þeirra verkahring) með því að hripa eitthvað niður og láta þar við sitja. Ég hef heyrt að þeir séu töluvert afslappaðri gagnvart próftöku og verkefnavinnu en við kerlurnar, ég læt það liggja milli hluta hvursu mikið sé til í því, enda er ég hvorki karlmaður né mannfræðingur. Hitt er annað að við kerlurnar eigum það til að mikla fyrir okkur hina einföldustu hluti, að minnsta kosti ég (og ég tel mig vera meðalkvenmann hvað þessi mál snertir). Ég held að hórmónum sé um að kenna, þessum sömu og fá okkur til að vola yfir regnfataauglýsingum frá Hagkaupum einu sinni í mánuði. Því miður.
Sökum þessa ætla ég að skella verkefninu á hold og dúndra mér í lestur, svona rétt til að friða samviskuna.

sunnudagur, október 01, 2006

Hamborgari eða skokk?

Hvað jafnast á við feitan hamborgara eftir sveitt þrif? Ekkert! Til að bæta um betur kippti ég hálfum lítra af kóki og einu stykki Snickers með! Ummmm... Reyndar flaug brennslan með þrifunum og skokkinu með henni Ragnhildi út um gluggann um leið og ég renndi þessu niður, en koma tímar koma ráð. Hún Ragnhildur er staðráðin að gera úr mér hlaupagarp, svo það er um að gera að hlýða yfirvaldinu. Ég held að Helgi hafi talað við hana og fengið hana í lið með sér gegn aukinni leti og síþreytu minni. Best væri ef skólabækurnar nytu góðs af þessu líka. Félagsskapurinn er allavega góður og þó ótrúlegt megi virðast líður mér bara asssskoti vel eftir þessar fjörutíu mínútur sem við skvísurnar skokkum saman, sveittar og sælar.