föstudagur, apríl 28, 2006

Kveðjur

Ég gleymdi alveg að óska þeim Elísabetu og Gulla til hamingju með soninn sem fæddist á þriðjudaginn og Sesselju með litla bróður! Til hamingju öll!
Svo átti hann Gummi þrjátíuogfimm ára afmæli, það var líka á þriðjudaginn. Svo til haminju Gummi Marteinn!

Kúkur í baði

Hvað er ógeðslegra en kúkur í baði?
Í þau tvö skipti sem börnin hafa verið böðuð í þessari viku hefur fundist kúkur í baðinu! Ojojoj... eins og Hallgrímur Ormur hefði orðað það. Fyrst féll það í hlut dömunnar að verða brátt í brók, þó engin væri, og í gær var það svo sveinninn sjálfur sem losaði sig við óþægindin. Ég brást hin versta við og reif börnin upp úr þessum annars "stóra" bala, sem er baðið þeirra systkina. Helgi átti hins vegar í mesta basli með að halda í sér hlátrinum, varð rauður og fjólublár í framan og tárin trítluðu niður kinnarnar. Maður sem ekki einu sinni gat grenjað þegar börnin fæddust! Að sjálfsögðu fengu börnin sturtuferð með pabba eftir ólukkuna, þeim til mikillar óánægju. Hláturinn og skemmtunin yfir úrgangnum varð því fljótt að gráti í sturtu með pabba. Börnin, sem annars sjaldan eru þvegin með sápu, nema á allra helgustu stöðunum, fengu því ærlegan jólaþvott fyrir háttatímann bæði skiptin sem óvinurinn birtist í baðinu.

Súkkulaðitilvitnun (veit hreint ekki hvort hún á við í þetta skiptið, en læt hana vaða):
"Nogle breder glæde ud i verden, chokolade narkomaner breder sig bare."

sunnudagur, apríl 23, 2006

Nýtt útlit

Heibbs allir saman!
Ég vil endilega fá athugasemdir á nýja útlitið á síðunni. Er þetta nokkuð of matreiðslubókarlegt?
Mér finnst þetta svolítið hlýlegra...

Látið mig vita!

laugardagur, apríl 22, 2006

Til mömmu

Þetta fann ég. Nokkuð til í þessu!

4 ára ~ Mamma mín getur allt!
8 ára ~ Mamma mín veit mikið! Mjög mikið!
12 ára ~ Mamma veit sko ekki allt!
14 ára ~ Auðvitað veit mamma ekki þetta heldur!
16 ára ~ Mamma? Hún er nú svo gamaldags eitthvað!
18 ára ~ Sú gamla? Hún er nú hálf úrelt!
25 ára ~ Jú, hún gæti vitað eitthvað um það!
35 ára ~ Fáum álit mömmu áður en við ákveðum þetta!
45 ára ~ Hvað ætli mömmu hefði fundist um þetta?
65 ára ~ Ég vildi að ég gæti rætt þetta við hana mömmu!

Góða helgi!

Ljós í lífið

Ég vil byrja á því að óska þeim Hönnu Láru og Ingibjörgu til hamingju með daginn! Vonandi dekstra karlarnir og krakkarnir við ykkur í tilefni dagsins.

Að öðrum málum.
Við hjónin höfum aldrei verið neitt sérstkalega þekkt fyrir það að vera tæknivædd. Höfum t.a.m. ekkert vit á tölvum, sörrándsýstemum eða öðru slíku. Í gær náðum við þó botninum í þessari ónútímavæðingu okkar. Ég rölti mér yfir til varmameisarans, sem er húsvörðurinn okkar, og fékk hann til að kíkja á ljósið í ganginum hjá okkur, sem ekki hafði virkað síðustu tvo-þrjá mánuðina (við erum svo afskaplega framkvæmdaglöð!). Við höfðum reynt allt, skipt um peru, skipt um ljós, tengt allt aftur og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar klukkan er rúmlega hádegi er bankað á dyrnar. Fyrir utan stendur sjálfur viðgerðarmaðurinn. Snillingurinn klifrar upp á stól (sem hefði þurft að vera svona 50 cm. hærri svo vinnuaðstaðan yrði góðkennd), opnar rafmagnsboxið og byrjar að fikta. Jú, allt í lagi með allt hérna. Tengir ljósið aftur. Prófaðu að kveikja. Já. Ég geri það. Ekkert ljós. Gæinn fiktar aðeins í sjálfri perunni. Prófaðu núna. Já. Ég geri það. Og þá varð ljós! Perunni hafði ekki verið skrúfað nægilega langt inn í statífið sem hún er fest í! Vá, hvað mér leið illa. Ég sá hvernig maðurinn glotti og átti í mesta basli með að halda niðri í sér hlátrinum, ekki álsa ég honum fyrir það! Frekar neyðarlegt allt saman. Ég vil meina að þetta sé allt Helga sök. Hann ólst jú upp við ljósvél og á stöku stað olíulampa. Hann saknar heimahaganna og reyndi að ná upp sömu stemningu hér. Ég held ekki að það hafi tekist, því miður.

Jæja, það var nú bara þetta í þetta skiptið. Hlæið bara að okkur og kvittið svo!

Súkkulaðitilvitnun:
"Hvordan kan en æske chokolade på 1 kg. få en kvinde til at tage 3 kg. på?"

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Hjálmar og aðrar forvarnir

Var að koma heim úr morgunhjólatúr. Skilaði Elí Bergi til dagmömmunnar og Bríeti Huld í leikskólann. Þetta var fyrsti hjólatúrinn í ansi langan tíma. Ég náði loksins að rífa hjólið MITT af karlinum og rétta honum bíllyklana. Ekki svo að skilja að ég hafi áður borið fyrir mig leiðinlegt veður og tvö börn og så videre og så videre. Nei, nei, ég var alveg parat, eins og þeir segja hérna í útlandinu, Helga finnst bara svo gaman að hjóla. Það er nú reyndar ekki eins og það sé bara til eitt hjól á heimilinu. Hitt hjólið er bara búið að vera frekar leiðinlegt. Það er víst ekki ávísun á gott farartæki þegar maður borgar bara um það bil 800 dkr. fyrir hjól í Kvickly. Nægur peningur, en lítið um gæði.
Í þessum áðurnefnda hjólatúr mínum reikaði hugur minn aðeins um síður dagblaða gærdagsins. Þar var meðal annars bakþankagrein, ansi góð. Sá sem hana skrifaði var að spá í þeim nákvæmlega sama hlut og við hjónin erum búin að vera að velta fyrir okkur, hvers vegna hjólar Daninn hjálmlaus? Það þykir sjálfsagt að smella hjálmi á barnið sem situr aftan á (reyndar er alltof algegnt að börn séu líka hjálmlaus) en það er bara svo hallærislegt að setja einn á hausinn á sjálfum sér! Ótrúlega glatað að hjóla með vörn gegn höfuðáverkum um götur bæjarins! Hann setti fram þá myndlíkingu að það væri mikið meira "kúl" að hjóla með opnar höfuðkúpur eftir óhapp heldur en að hjóla með hjálm. Hvaða gagn gera foreldrar fastir inni á stofnun eftir að hafa hlotið slæman höfuðáverka vegna þess eins að það var ekki "kúl" að hafa hjálm? Að sjálfsögðu eiga börnin að ganga fyrir og þau eiga hiklaust að hafa hjálm. Að mínu mati gildir það um foreldrana líka og auðvitað alla hina. Við hjónin erum einmitt þetta "glataða" lið sem alltaf hjólar með hjálma!

Ég sá svolítið alveg stórfurðulegt í gær þegar ég var á leiðinni til læknis. Fyrir utan læknastofuna var sjúkrabíll og þegar ég geng framhjá honum koma sjúkraflutningamennirnir út með sjúkling á börum. Með manninum er konan hans. Hún hálfpartinn hleypur á eftir þeim með sígarettu í hönd, réttir karlinum sem tekur vænan smók um leið og hann fer inn í bílinn. Ég veit ekki hvers vegna maðurinn fékk far með sjúkrabílnum, en mér fannst þetta alveg bráðfyndið atriði. Inni í bílnum ætti kannski að standa "Lungnalaus maður andar ekki."?

Súkkulaðitilvitnun:
"Jeg har aldrig mødt kalorie, jeg ikke kunne li´."

mánudagur, apríl 17, 2006

Páskar

Frábært veður, Søndersø, Hasmark, Vejle, Billund, góðar móttökur frændfólks í Horsens, páskaeggjaát og Odense Zoo eru það sem einkennir páskahelgina hjá okkur fjölskyldunni á Ugluhæðinni. Notó spotó. Æðislega gott grillað lambalæri með hvítlauksgeirum og frönsk súkkulaðikaka sem aldrei varð, vonandi samt í dag. Ólesinn lestur, kannski ég kippi því í liðinn. Sjónvarp og útivera, þó ekki saman.

Haldið áfram að eiga góða páskahelgi!

Súkkulaðitilvitnun:
"Motion gør dig ikke så sulten som at tænka - på chokolade."

Addý páskaeggjadrottning.

föstudagur, apríl 14, 2006

Í minningu ömmu

Í gær hefði orðið sjötug elskuleg amma mín, Ellý Björg Þórðardóttir. Hún var sannkölluð kjarnakona. Þær eru ófáar minningarnar um hana sem ég varðveiti með mér. Ég minnist hennar helst á því hve notalegt það var að koma til hennar og afa Hreins á Háaleitisbrautina. Þar fékk ég t.a.m. að sortéra gamalt og ónothæft snyrtidót frá hinu nýrra. Það var oft stútfullur poki sem ég tók með mér heim, mömmu til ómældrar ánægju! Við amma áttum líka leyndarmál. Amma bar nefnilega hártopp. Dag einn þegar ég var í pössun hjá henni var hún að gera að toppnum og ég, barnið sjálft, skildi hvorki upp né niður í því hvernig í ósköpunum hún fór að því að taka af sér hárið. Hún sagði mér þá leyndarmálið sem ég lofaði að segja engum frá. Ég man ekki hve gömul ég var þegar þetta átti sér stað, en leyndarmálinum hélt ég út af fyrir mig þar til ég uppgötvaði, mér til skelfingar, að þetta vissu allir. Þá var ég farin að nálgast tvítugt.
Þegar við eldri systkinin fengum að gista hjá þeim afa og ömmu var hápunkturinn að fá að sofna á dýnum sem amma kom fyrir fyrir framan sjónvarpið, enda vissi hún hve mikilvægt það er að láta fara vel um sig fyrir framan kassann. Það er óhætt að segja að amma hafi verið einn dyggasti stuðningsaðili sjónvarpsdagskránna hin síðari ár.
Síðustu ár ömmu fékk ég að njóta nánari samvista með henni í kór Bústaðakirkju. Það var æðislegt! Amma naut mikilla vinsælda og hvar sem hún fór var eftir henni tekið. Það átti líka við um veru hennar í kórnum. Hún var einn af stólpunum þar. Búin að starfa með honum í áratugi, bæði með kórnum og Guðna heitnum Guðmundssyni, organista. Það varð því svolítið tómlegt á kóræfingunum eftir að hún amma lagði söngstarfið á hilluna. Það var svo notalegt að geta hallað sér upp að henni og fengið ráðleggingar þegar ég náði ekki erfiðustu alt-línunum. Hún kunni alla sálmana og fjöldan allan af sönglögum og kórverkum, hver sem höfundurinn var. Ef hún kunni ekki alt-línuna eða fannst hún leiðinleg eins og hún var, bjó hún einfaldlega til nýja! Ef hún kunni ekki textann, þá trallaði hún bara! Hún reddaði sér. Hún gerði þetta svo listavel að hún komst upp með þetta. Tónlistin var henni í blóð borin. Auk þess að syngja spilaði hún á gítar, píanó og harmónikku.
Amma var ákveðin. Hún hafði ákveðnar skoðanir. Hún kunni hins vegar þá erfiðu list að segja skoðanir sínar án þess að vera vond. Vegna þessa bar fólk virðingu fyrir henni, og gerir enn. Ástæðan er trúlega sú að hún hafði húmor, frábæran húmor. Ég man að þegar hún hitti Helga minn í fyrsta sinn tilkynnti hún mér að ef hún væri þrjátíu árum yngri myndi hún stinga undan mér! Henni fannst hann svo sætur! Svo hundskammaði hún mömmu fyrir að hafa bara sagt hann "ágætan".
Ég er þakklát fyrir að hafa átt ömmu að. Ég er líka þakklát fyrir að eiga tvær aðrar yndislegar ömmur (og að sjálfsögðu afa líka ;)), sem enn eru á lífi.

Gleðilega páska!

Súkkulaðitilvitnun:
"I livets kager, er vennerne chokoladestykkerne."

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Vorfílingur og spilafíkn

Ég fékk vorfílinginn yfir mig áðan. Við fjölskyldan hjóluðum út í Højbyskov, sem er skógurinn "okkar" skv. landfræðilegri staðsetningu. Ummm... hlýtt, stilla og fuglasöngur. Yndilsegt. Þetta fékk mig eiginlega til að endurskoða þá hugmynd okkar hjóna um að flytja okkur upp fyrir hraðbraut. Þó sveitin sem við búum í sé nokkuð langt frá miðbænum er svo rólegt hérna. Þetta er einskonar smábær í borginni. Alltaf frekar rólegt og notalegt. Auk þess sem það er ekkert sérlega langt að hjóla í skólann (sérstaklega þegar litið er á að Helgi beib hjólar kvölds og morgna í vinnuna sem er norðan við miðbæinn, sirka 15 kílómetrar eða þar um kring). Þar að auki erum við með bíl og komumst allra okkar ferða óhindrað, það er svo lengi sem bíllinn fær ekki þá flugu í hausinn að gera sér upp heilsuleysi og angra okkur á þann háttinn. Sveitasælan er notaleg. Ég væri hins vegar til í rúmbetra húsnæði, þó ekki sé hægt að kvarta undan plássleysi miðað við margt annað húsnæði, en mikill vill meira! Raðhús með garði væri náttúrlega toppurinn, hvað þá einbýlishús með garði! Garður er skilyrði hér í Danaveldi, vil ég segja. Hér er sumarið sumar og hægt að nýta garðinn. Við kynntumst því aðeins á Kochgsgade síðasta sumar. Þar var fínn afgirtur garður sem við höfðum aðgang að og þar sem við vorum á stuen, eða fyrstu hæð, var ekki langt fyrir okkur að fara með drykkjarföng og annað góðgæti út. Sem betur fer erum við þó með smá skika hérna, þó ekki sé hann stór, þá er hann afgirtur og hægt að skutla börnunum út og vaska upp á meðan. Maður hleypur bara út þegar maður heyrir öskur eða þegar börnin verða of hljóð.

Ég fékk tölvupóst frá vinkonu minni um daginn. Sá póstur fjallaði um ungan dreng og spilafíkn hans sem leiddi til sjálfsmorðs. Spilafíkn er hræðileg fíkn, jafnvel hræðilegri en áfengisfíknin þegar tekið er með í reikninginn að hana er auðveldara að fela, það finnst t.a.m. engin lykt af fíklinum. Fíkillinn notar hvert tækifæri sem gefst til að spila og telur heppnina alltaf vera á næsta leiti. 500 kallinn sem hann vann í gær heldur honum við efnið og í dag telur hann miklar líkur á því að stóri potturinn falli honum í skaut. Það gerist sjaldan. Oftar en ekki fer spilarinn heim slyppur og snauður, með bullandi móral og áhyggjur sem naga hann inn að beini. Hvað á að segja konunni, fjölskyldunni og vinunum? Hvernig á að borga næstu leigu eða hafa efni á mat? Spilafíkn er viðbjóður, eins og öll önnur fíkn. Í dag er ég búsett í Danmörku þar sem spilasalir, eða Casino, eru leyfðir. Hér birtast auglýsingar í hléum allra helstu sjónvarpsþáttanna þar sem auglýstar eru heimasíður þar sem hægt er að veðja á allt mögulegt sem ómögulegt. Frekar sorglegt. Alls staðar er bent á hvernig maður getur orðið skjótríkur, enginn talar um að tapa. Þeim parti halda menn fyrir sig. Í dag er t.a.m. grein í Ugeavisen þar sem pókerspilari fer fögrum orðum yfir "íþróttina". Hann talar um hve auðveldlega hann vann sér inn 30 þús. dkr. á rúmri klukkustund, í klaus fyrir neðan stendur í smáu letri hve skamman tíma það tók hann að tapa 27 þús. dkr. Það tók hann lengri tíma að tapa þeim, svo vinningurinn var hans! Hræðilegt að þetta skulu vera skilaboðin til ungs fólks. Sittu fyrir framan tölvuna og spilaðu, þannig verðurðu ríkur! Bullshit!

Takk fyrir mig.

Súkkulaðitilvitnun:

"Spis et varieret måltid om dagen - en æske fyldt med chokolade."

sunnudagur, apríl 09, 2006

Einfeldni er af hinu góða, ekki satt?

Mikið hef ég verið furðulegur krakki. Ég gat aldrei skilið það hve hratt Jesúbarnið óx úr grasi. Frá jólum að páskum hafði hann elst um hvað 33 ár! Að sjálfsögðu átti allt sem á daga Jesúbarnsins hafði drifið að hafa gerst á einu og sama árinu, en ekki hvað! Jólin koma jú á undan páskum, svo þetta var alveg rökrétt. Annað var algert rugl enda er ekki hægt að kalla fullorðinn mann JesúBARNIÐ! Barnið hljót því að vera barn, en ekki fullvaxta maður.

Smá tuð í telefni dymbilviku.

Súkkulaðitilvitnun:

"Chokolade er blandt de mest populære ting, der kan redde én fra depression."

laugardagur, apríl 08, 2006

Góða helgi

Þar sem frúin er búin að vera ansi upptekin síðustu daga kemur þessi svolítið seint:

ELSKU BESTA AMMA MÍN, TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ÞANN 5.!

Matarboð, gestir, gruppearbejde og rok er eitthvað sem einkennir þessa vikuna. Að ógleymdum enn fleiri afmælisgjöfum! Ég veit hreinlega ekki hvað gengur að fólki, en ég þakka kærlega fyrir mig! Þrátt fyrir kvabb og kvein er aldrei leiðinlegt að fá afmælisgjafir. Helgi minn fór einmitt í vikunni og keypti geislaspilarann fyrir mig í græjurnar svo nú er hægt að tjútta almennilega við heimilisstörfin. Lundin verður eitthvað svo létt þegar maður getur sungið og dansað við ryksuguna.

Vorið er loksins farið að gera aðeins vart við sig þó það eigi nú samt erfitt með að koma alveg úr felum. Veðrið í gær minnti t.a.m. svolítið á íslenskt útileguveður, sól, rok og hvorki kalt né hlýtt. Í dag er hins vegar dumbungi yfir öllu svo garðyrkjustörf verða að bíða betri tíma.

Það er ekki laust við það að prófkvíði sé farinn að plaga dömuna. Að minnsta kosti hafa tvær nætur í þessari viku farið í draumfarleg kvíðaköst (flott nýyrði, ekki satt?). Fyrra skiptið dreymdi mig að ég væri á leiðinni í próf til ákveðins kennara í HÍ, sá er m.a. kenndur við setningarfræði og íslenskt nútímamál (þeir vita sem til þekkja). Það vildi nú ekki betur til en svo að ég varð of sein í prófið og til að bæta gráu ofan á svart þá gleymdi ég þeim gögnum sem nota mátti í prófinu heima. Það gekk allt á afturfótunum. Boðar ekki gott. Ætli málið sé ekki bara að rífa sig upp af rassgatinu og hefja lestur.

Ég er gersamlega andlaus, en skrifa bara til að skrifa. Vona að það gerist ekki aftur í bráð.

Súkkulaðitilvitnun fær að fylgja:

"Jeg kan godt lide chokolade gaver, men jeg vil allerhelst have noget, du selv har lavet - som penge du har tjent."

Góða helgi, gott fólk!

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Smá afmæliskveðja

Að sjálfsögðu gleymdi ég svo að óska henni móðursystur minni til hamingju með daginn.

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ELSKU SIGFRÍÐ MÍN!

Kossar og knúsar frá DK,
Adds padds og co.

Kærar þakkir til ykkar allra!

Vá! Ég þakka allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið. Hvort sem þær bárust í gegnum internetið, með sms-i, msn-i, símtali eða með fólki sem flutti mér þær í eigin persónu! Takk, takk, takk! Alltaf gaman þegar fólk man eftir mér. Sjálf er ég ekki sú allra sterkasta á sviði afmælisdagaminnis, svo ég get ekki farið fram á það að fólk muni eftir mér (kannski síðasta færsla hafi hjálpað ;D).

Sjálfur afmælisdagurinn var ansi fínn. Við fengum nokkra gesti hingað til okkar í kaffi, þau Tinnu og Emelíu Ögn (Daddi var lasinn, greyið), Rósa, Palli og grislingarnir tveir mættu líka ásamt Heiðu og hennar börnum. Svo það var ansi fjörugt hérna. Þó óþarfinn sé algjör, fékk ég fullt af gjöfum í tilefni dagsins. Mjólkurkar og sykurkar í stíl við tekönnuna mína frá Evu Solo (held reyndar að merkið heiti Solo og hönnuðurinn Eva, eða eitthvað svoleiðis), rosa flott varagloss og augnskugga og þessa líka frábæru bók um súkkulaði (greinilegt að það þarf ekki að þekkja mig lengi til að kynnast mér vel ;)) og blóm, að ógleymdum alltof háum peningaupphæðum inn á bankareikninginn minn, sem fara að sjálfsögðu beint í Tivoli-geislaspilarann. Þúsund þakkir fyrir mig!

Á laugardagskvöldið héldum við hjónin í afmæli til þriggja skvísa hérna í Óðinsvéum, þeirra Ellu, Hillu og Ragnhildar, sem voru svo yndælar að troða mér í saumaklúbbinn sinn. Þar var tjúttað fram á miðja nótt, með gítarspili og fleiru tilheyrandi (og alltof góðri bollu :I). Sunnudagurinn var hins vegar ekki eins góður, enda er það sjálfskaparvíti að fá sér í glas, svo mér er engin vorkunn.

Jæja, ég vildi bara þakka fyrir mig!

Læt hérna fylgja eina tilvitnun úr bókinni góðu um súkkulaðiunnendur, hún er reyndar á dönsku svo það er bara um að gera að dusta rykið af menntaskóladönskunni og reyna að skilja þetta.

"Jeg ville opgive chokolade - men jeg er ikke typen, der giver op."

Megi þið eiga góðan dag.

laugardagur, apríl 01, 2006

Afmæli

Í dag eru liðin 28 ár frá því að ég leit heiminn fyrst augum. Flestir hefðu trúlega haldið að þá hefði himinninn verið heiður, sólin yljað landanum og blómin verið útsprungin, en sú var nú ekki raunin. Mér skilst á henni móður minni, sem er minn helsti heimildamaður varðandi fæðingu mína, að veðurguðirnir hefðu leikið öllum illum látum, birgt fyrir sólu, hellt úr fötu og sagt eitt stórt "ATSJÚ!". Það var sem sagt rok og rigning daginn sem ég fæddist.
Á þessum árum hefur margt gerst. Það stendur án efa uppúr að eiga heila fjölskyldu útaf fyrir mig! MÍNA fjölskyldu. Auk þess sem margt yndislegt og skemmtilegt fólk hefur orðið á leið minni í gegnum reynsluskóginn. Takk fyrir það!
Í tilefni þessa dags ákvað ég að bjóða nokkrum vinum hérna í útlandinu til kaffisamlætis, enda komast þeir næst því að vera fjölskyldan okkar hérna. Í kvöld er svo þrusuafmælispartý hjá þremur píum hérna í DK á áætlun.

Ég vil líka óska henni Söru Líf, litlu frænku minni, til hamingju með daginn!

Þegar maður á afmæli á maður að vera fínn, ekki satt?! Því brá ég á það ráð að kíkja á eina hárgreiðslustofuna hér í bæ. Fyrir valinu varð hárgreiðslustofan Afrodita sem liggur lengra upp í bæ. Ég valdi hana sökum verðlags og þess að hún Heiða pæja fór þangað í síðustu viku og kom svona ægi fögur þaðan. Ég fékk tíma hjá nemanum á staðnum, enda eina lausa þegar ég pantaði tíma. Mitt mottó er nefnilega "betra er seint en aldrei". Neminn var lítil sæt stelpa af indversku bergi brotin. Hún stóð sig bara asskoti vel. Hún fékk reyndar að hafa frekar frjálsar hendur, enda er ég ekki vön því að ákveða sjálf hvernig hárið á að vera. Ég hef sjaldan haft ákveðnari hugmyndir um það en þær hvort það eigi að verða styttra eða lengra. Auk þess sem þær fáu sem ég hef þegar ég mæti á staðinn gleymast þegar fingur klipparans hefjast handa. Ég held þetta sé einhver töframáttur sem þjálfaður er upp í hárgreiðslunáminu. Allavega, hún fékk semsagt nokkurn veginn að ráða hárinu sjálf, þessi unga dama. Mér brá nú nokkuð þegar liturinn kom í ljós sem hún setti í. Rautt. Ég sá ekkert nema rautt. Svo til að bæta gráu ofan á svart (eða appelsínugulu ofan á rautt) setti hún tvo risastóra ljósa lokka á sitt hvorn staðinn á kollinum. Úfff... Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við, en ákvað að sitja aðeins lengur á honum stóra mínum og sjá hvernig heildarútkoman yrði. Þegar daman hafði þurrkað og sléttað hárið og sett eitthvað klístur í, leit þetta bara ekkert svo hrikalega illa út! Þetta var satta að segja bara nokkuð fínt. Hárið varð ekkert rautt, bara með smá rauðum blæ, og lokkarnir tveir (annar að framan og hinn í hnakkanum) komu bara svona þrusuvel út. Það er nauðsynlegt að breyta til. Svo er það líka svo skemmtilegt! Ég er bara ansi sátt við þessa heimsókn norður fyrir hraðbraut, þó svo að herlegheitin hafi tekið hálfan fjórða tíma.

Jæja, ég ætla að fara og skella í eina köku fyrir fólkið.

Megið þið eiga góða daga.

Kveðja,
Addý afmælisbarn :)