fimmtudagur, desember 31, 2009

Áramótin 2009-2010

Upp er runninn síðasti dagur ársins 2009. Árs sem minnst verður vegna skemmtilegra Íslandsferða, skemmtilegra áramóta er 2009 gekk í garð, meiriháttar brúðkaupa hjá frábæru fólki, yndislegra augnablika með börnunum og eiginmanninum, samverustunda með góðum vinum, nýjum vinum og gömlum, loka BA-prófs í talmeinafræði, upphafs kandídatsnáms, komu Sólu, hvítra jóla, fallegs vors og góðs sumars, ófárra morgunkaffibolla á Hindbærvej, loka fyrsta skólaárs heimasætunnar, upphafs þess annars, tannleysis, tanntöku, prjónaskaps, saumaskaps, óþrifnaðar og þrifnaðar, lesturs góðra bóka, heilbrigiðs, veikinda og svo margs, margs fleira!
Ég þakka guði lífið, sem oft getur verið krefjandi. Ég þakka honum börnin mín og eiginmann. Ég þakka honum allt hið góða í samfélaginu öllu. Ég þakka heilsu og lífsgæða, möguleika á því að fá að mennta mig og börn mín. Þakka fyrir að hafa þak yfir höfuðið og mat á borðum. Ég þakka fyrir frábæra fjölskyldu og meiriháttar vini, hér og þar og alls staðar!
Ég tek á móti árinu 2010 með brosi á vör og von í hjarta.

Megi árið 2010 verða ykkur öllum heillaríkt og gott!

Gleðilegt ár kæru vinir og takk fyrir frábæra tíma saman!

mánudagur, desember 28, 2009

Jólin, jólin alls staðar!

Sælt veri fólkið!

Það kom að því að hér yrði eitthvað ritað. Hve innihaldsríkt það er má svo liggja milli hluta. Reyndar fær fólk þær fréttir af manni sem það fær á fésinu, en það er kannski allt í lagi að smella inn svona eins og einni og einni færslu á bloggið. Enda er það nú kannski öllu persónulegra en blessað fésið, sem þó stendur fyrir sínu sem upplýsingagátt fyrir okkur sem búum í útlöndunum.

Jólin gengu í garð með tilheyrandi gleði og fögnuði hjá öllu heimilisfólkinu. Það varð þó skammvinn sæla sem smjó um húsið klukkan 18 á aðfangadag þar sem allir, að undanskildum Elí Bergi og kettinum, byrjuðu að kasta upp og skila óþarflega þunnu út í gegnum óæðri endann er leið á kvöldið og nóttina. Heilsan fór fyrst batnandi er langt var liðið á jóladagskvöld. Því var lítið úr hangiketsáti þann dýrðardaginn. En þrjóska húsmóðurinnar braust fram kartöflusuðu og uppstúfsgerð (eða jafningsgerð), kerlan þrusaði svo hangiketinu, sparistellinu, rauðkálinu og uppstúfnum á borðið og skipaði heimilisfólki að setjast að snæðingi. Það leið ekki á löngu þar til börn og fullorðnir voru farnir að skipta litum í andlitum og frúin gerði sér grein fyrir því að jóladagsmaturinn myndi samanstanda af þurru Cheeriosi og ristuðu brauði. Þannig fór um sjóferð þá.

Annar dagur jóla var þó öllu skárri. Heilsan var farin að gera vart við sig og börnin fóru út að leika ásamt foreldrum sem þurftu virkilega á fersku lofti að halda. Að lokinni brunferð, var haldið á jólaball Íslendingafélgasins hér í bæ, dansað í kringum jólatréð, borðaðar gómsætar kökur og spjallað við góða vini. Gleðinni lauk þó ekki þar því kjarnafjölskyldan hélt svo áleiðis á Faaborgvej, þar sem blásið var til dýrindis kvöldverðarveislu hjá eðaltilvonandihjónunum Michael og Hanne og þeirra skvísum. Eftir 165. geispa húsbandsins var ákveðið að halda heim á leið. Þegar heim var komið tók sá yngsti upp á því að kasta upp enn og aftur. Því ákvað móðirin að hafa samband við barnaspítalann þar sem drengurinn hefur opna innlögn sökum rannsókna sem á honum eru gerðar nú um mundir, ekki vildi læknirinn meina annað en að snáðinn væri enn að jafna sig á veikindum jólanna, svo ekkert var í málum gert. Enda hefur kauði enn ekki kastað upp aftur. Við vonum svo að það verði ekki í bráð.

Gærdagurinn fór svo í "huggu" með Tinnu í skólanum þar sem farið var í gegnum gerð research proposal. Að því loknu, örfáum konfektmolum, mandarínum og kaffibollum síðar, hélt stórfjölskyldan í rauða hornhúsið (ótrúlegt hvað hún Heiða þarf alltaf að vera bendluð við slík hús!). Þar dúndruðum við í okkur þessari dýrindis stríðsköku, með fullt af rjóma og ávöxtum. Dýrðinni var skolað niður með góðu kaffi að gestgjafanna sið.

Nú er eiginmaðurinn hins vegar í vinnu, krakkarnir annað hvort sofandi eða glápandi. Ég á að vera skrifandi og er það svosem, þó kannski ekki rétta textann, en... Þetta er ágætis upphitun ;)
Það verður svo gaman að sjá hvort einhver kvitti fyrir innlitið, bara til að gera mig glaða. Því ég geri ekki ráð fyrir því að nokkur villist hér inn lengur.

Með jólakveðju,
Addý.

fimmtudagur, júní 04, 2009

Helllllllúúúúú...

Vá hvað það er langt síðan hér var skrifað síðast!
Svo langt að ég mundi ekki aðgangsorðið á síðuna! Það er spurning hvort maður þurfi ekki að fara að gera eitthvað í þessu.
Annars er alltaf svo lítið að frétt að maður hefur fáu að deila með örðum. Núna erum við hjónin þó með rassinn upp í vindinn í prinsessuherbergjaframkvæmdum. Heimasætan á að fá nýtt herbergi í afmælisgjöf frá bændum og búaliði.
Guttinn minnsti dafnar vel, en þó ekki það vel að læknum lítist á. Vesen alltaf á þessum læknum. Hann var sendur í blóðprufu um daginn vegna þess hve illa hann þyngist. Útkomu prufunnar er að vænta í næstu eða þarnæstu viku. Heimilislæknirinn sagði mér þó að vera róleg, þar sem barnið væri skylt bæði föður sínum og systur. Ekki er heldur hægt að bera því við að barnið borði ekki. Hann borðar oft meira en bæði stóru systkinin til samans. Það má þó diskútera það hvort þau borði þá of lítið ;)

Jæja, ég ákvað að prófa að pikka eitthvað hér inn, svona for old times sake!

Eigið góða daga!

Addý.

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Singer saumavélar

Þetta er eins og "nýja" saumavélin mín. Spurning hvort að ég geti orðið forrík á kaupunum! Ég keypti hana fyrir 100 krónur danskar. Þó ég fengi margar milljónir fyrir hana efast ég um að ég myndi vilja selja hana.

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Eftirpáskadagar

Það er greinilegt að það líður orðið all langur tími á milli færslanna hjá mér. Ég þarf alltaf að "logga" mig inn, í stað þess að fara beint inn eins og áður.
Ég var annars uppfull af áhugaverðum bloggfærslum fyrr í dag, en andinn er horfinn og ég er búin að steimgleyma hvað það var sem mér fannst svona sniðugt að ég varð að deila með ykkur lesendum (ja, eða þér lesanda). Það er spurning hvort maður fari að taka siði Laxness til sín og fari að ganga um með litla minnisblokk og blýant í brjóstvasanum. Ég hef reyndar reynt að brúka dagbók, en færi aldrei neitt inn í hana, svo ég leyfi mér að efast um notagildi minnisbókar í mínum fórum.
Páskarnir voru í það minnsta góðir. Fullt af afbragðspáskaeggjum sem fjölskyldan var ekki lengi að sporðrenna með teiknimyndunum og kaffi. Afmælisveislur og spilakvöld einkenndu hátíðina þar sem plastið var loks rifið af Partners-spili okkar hjóna og það prófað eftir áralangan dvala á hillum heimilisins. Hlaupabjáninn reis upp í mér þegar Harpa granna dobblaði mig í kvennahlaupið þann 3. maí nk. Hún fékk að sjálfsögðu þann vafasama heiður að koma mér í form fyrir herlegheitin! Nú er búið að hlaupa sex daga af sjö á undanfarinni viku. Duglegar, ekki satt?! Garðvinna átti líka hug fjölskyldunnar, enda veðrið vægast sagt búið að leika við okkur hér í Danmörkinni upp á síðkastið. Páskadegi eyddum við hins vegar í fótboltaleikjaglápi og páskalambsáti vestur í Esbjerg hjá eðalhjónunum Elísabetu og Gulla og þeirra gemsum.
Þá er það hér með upptalið. Vonandi áttuð þið líka notalega páskastund.
Þar til næst...

föstudagur, mars 06, 2009

Að elska eða ekki elska

Þar sem fáir lesa, þá get ég trúlega notað þessa síðu sem einskonar dagbók, óritskoðaða með fullt af einkahúmor og skoðunum. Það er svosem ágætt, sé litið til þess að maður er oftast með tölvuna opna en á oftast í mesta basli með að finna penna sem virkar og pappír ef þess þarf. Þetta er því handhægasti miðillinn þegar upp er staðið ;)
Hér er allt í rólegheitum, EB er heima hjá okkur TM þar sem hann var hjólaður niður á leiðinni í skólann í morgun. Hann slasaðist reyndar hvergi annars staðar en í hjartanu sínu. Andamamma leyfði þó unganum að koma með heim, svo sárið myndi gróa fyrir fermingu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna margir Íslendingar noti erlenda frasa þegar þeir tjá hverjir öðrum tilfinningar sínar. "I love you" og "I miss you" eru brot af þeim frösum sem ganga manna á milli, bæði í töluðu máli og rituðu. Þetta pirrar mig svolítið. Sérstaklega þar sem mér finnst svo yfirborðskennt að nota þessa frasa, við eigum falleg íslensk orð sem segja það sama, ja, eða berja jafnvel meiri merkingu. Að mínu mati, í það minnsta. "Ég elska þig" hefur ansi sterka þýðingu og það notar maður til að segja einhverjum að maður ELSKI hann, ekki satt? "I love you" hefur hins vegar breiðari þýðingu á ensku en "ég elska þig" á íslensku og því notar fólk það óspart. Þess vegna hef ég oft velt því fyrir mér hvers vegna fólk getur ekki heldur sagt: "Mér þykir vænt um þig". Það er gott og gilt og ber ennþá meiri tilfinningalega merkingu en þetta fyrrnefnda "I love you" þegar íslendingar eiga í hlut. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt einhvern segja "mér þykir vænt um þig" í háa herrans tíð, en ég heyri oft "I love you". Karlinn og börnin tjá mér oft ást sína með orðunum "ég elska þig". Nú vona ég að ég særi engan þegar ég tala um þetta, og það veit ég vel að fólk meinar mér þykir vænt um þig þegar það notar þessa ensku frasa. Það pirrar mig bara að fólk skuli ekki nota þau fallegu orðasambönd sem finnast á íslensku, eins og þau ofannefndu.

Jæja, þá er ég búin að fá útrás fyrir daginn í dag!
Eigið góða helgi ;)

Ps. Mér þykir vænt um ykkur öll!

þriðjudagur, mars 03, 2009

Lógópeðið Addý

Hmmmm... árið 2009 ætlar greinilega ekki að vera ár bloggsins, heldur ár fésbókarinnar. Því er nú verr og miður. Hugsanir fólks og meiningar eru töluvert ígrundaðari á bloggsíðum veraldarvefsins en á síðum fésbókarinnar, sem er yfirfull af fyrirsögnum. Þetta er kannski einkennandi fyrir aukinn hraða þjóðlífsins, sem krefst meiri og meiri upplýsinga í styttri textum. Ætli HKL yrði ekki æfur ef hann væri enn meðal vor og yrði vitni af þessari þróun.
Allavega... ég er orðin lógópeð eins og það er borið fram á máli drottningar. Ætli Arnar Thor myndi ekki útleggja þetta sem klikkaður nóbodí. Ég leyfi mér þó að vona að eitthvað hafi ég lært þessi þrjú ár sem ég hef stundað nám í faginu og að ég geti stolt borið titilinn talkennari (sem er starfsheitið sem hlýst eftir fengna BA-gráðu og er reyndar lögverndað á Íslandi og því get ég ekki kallað mig talkennara, fyrr en leyfi fæst frá menntamálaráðuneytinu). Svo er bara að bretta upp ermar og bæta við tveimur árum til kandídatsprófs og verða sér úti um titilinn talmeinafræðingur eða réttara sagt heyrnar- og talmeinafræðingur, sé bein þýðings danska heitisins (audiologopæd) notuð.
Nú tekur hins vegar við atvinnuleit, en lítið er að fá í faginu um þessar mundir. Á meðan hugga ég heima með TM og bíð þess að hann fái pláss á vuggestuen á leikskólanum sem EB er á. Ég býst svosem ekki við því fyrr en í sumar en ég vona svo sannarlega að hann fái þar inni.
Welli, well... hef svosem ekki fleira að sinni.
Megið þið eiga góða daga.