mánudagur, júlí 31, 2006

Leti

Ég hef verið numin á brott af Leti í formi lítilla grænna karla, sem sveipuðu mig böndum, drógu mig út og tróðu mér í bleikan Austin Mini, fluttu mig svo til fjarlægar eyju sem heitir Letingjaland og getið er um í bókunum um Gosa. Lætin og hamagangurinn í gæjunum litlu voru svo mikil að úr varð fellibylur sem henti dóti fram og til baka, svo ekkert er á sínum stað lengur, sandstormur skapaðist og dreifðist fínt sandrykið yfir allt hemilið, fingraför barnanna þeyttust út um alla veggi, glugga og spegla og lengi mætti telja.

Í stuttu máli: það er allt á hvolfi og ég nenni ekki neinu!

sunnudagur, júlí 30, 2006

Hjólatúr í þrumuveðri

Hafið þið prófað að hjóla í þrumuveðri með tilheyrandi úrhelli og tvö lítil börn aftan á hjólunum?
Við hjónin reyndum þetta seinnipartinn í dag. Sem betur fer rignir lóðrétt hér í landi bjórs og bauna, en ekki lárétt eins og heima, auk þess sem rigningin verður ekki eins nístingsköld eins og á klakanum (sem hefur jú nafnið einhversstaðar frá, ekki satt?!). Hjólatúrinn var þetta líka hressandi. Þó það hafi verið ansi vot fjölskylda sem mætti í hina frábæru fiskisúpu a ´la Ragnhildur á Demantsvej (takk kærlega fyrir okkur, elskurnar!) þá var hún hress. Við rifum okkur bara úr fötunum og skelltum þeim í þurrkarann hjá henni Heiðu. Á meðan þau veltust um í hitanum stripluðumst við bara á nærunum og spjölluðum við heimilisfólkið. Frekar heimilislegt allt saman.
Ég mæli eindregið með votum hjólatúr, hann hressir, bætir og kætir, það er óhætt að segja!

föstudagur, júlí 28, 2006

Er tískan helsti óvinur mannkynsins?

Já, ég held það bara, svei mér þá. Ég kíkti í nýjasta tölublað Kig Ind sem er svona low class slúðurblað hérna í DK. Kostar ekki nema 14 krónur svo maður leyfir sér eitt og eitt, bara svona til að fylgjast með gangi mála hjá mr. og mrs. Smith og félögum. Í nýjasta blaðinu eru gamlar og nýjar myndir af hinum ýmsu stjörnum dagsins í dag. Flestar þeirra eru nú bara töluvert huggulegri í dag, þónokkuð árum eldri, en þá. Munið þið til dæmis eftir Robbie Williams þegar hann var með Take that? Maður þarf ekki að segja meira. Tískan er í það minnsta ekki besti vinur okkar mannanna, þó svo að margir haldi öðru fram. En þar sem hún fer í hringi má maður búast við því að gallabuxur sem eru þröngar að neðan, með svona kúkabuxnasniði og ná upp undir handakrika, verða það heitast innan fárra ára, ásamt netahlýrabolum.
Ummmm... ég get varla beðið!

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Álagningarseðill og umræðan á barnalandi

Jæja, þá get ég kvatt hugmyndina um nýtt sófasett og borðstofuhúsgögn í nýja húsið mitt. Álagningarseðillinn var opnaður í dag og við fengum, tja... ekki það sama og við bjuggumst við að fá. Í stað mínustölu fengum við feita plústölu, sem þýðir að við þurfum að reiða fram budduna og borga fyrir syndir síðasta árs, sem aðallega felast í því að við sendum ekki næg gögn inn til skattmanns. Sökum fastheldni okkar í þessi ákveðnu gögn var okkur synjað um svokallaða skattlega heimilisfesti. Reyndar skilst mér að það sé svona nánast óskrifuð regla að nýir baunar frá Íslandi lendi í þessum vandræðum við gerð skattaskýrslunnar. Við lærum vonandi á þessu. Málið verður kært og við fáum óskandi endurgreitt því sem nemur nýjum húsgögnum. Þangað til verðum við bara að notast við nýju, flottu garðhúsgögnin okkar, enda gott veður hér í DK og verður vonandi svolítið frameftir vetri. Veðurspámaðurinn fór nú eitthvað að tuða um rigningu og þrumuveður áðan sem væri fínt að fá í nokkra daga, þó ekki væri nema bara til að einbeita sér að húsverkum og handavinnu.

Ég kíkti inn á hinn annars ágæta vef barnaland.is í dag. Ég ákvað að skoða aðeins þennan umræðuvef sem þar er haldið uppi, ég hafði aldrei tékkað á honum áður. Heimsóknin staðfesti allar þær sögur sem hljómað hafa í mínum eyrum um umræðurnar sem þarna spinnast upp. Ég spyr nú bara eins og fávís kona: er fólk virkilega að rífast inni á svona vef, sem opinn er almenningi, án þess að þekkjast eða jafnvel vita nokkuð hvert um annað? Það er fyrir neðan allar hellur þegar fólk er farið að kalla hvert annað ónefnum og rengja hvert annað án þess kannski að vita nokkuð til málanna. Ég segi það ekki að það finnast líka fullkomlega eðlilegar umræður þarna, þar sem mæður eða feður spyrja aðra ráða varðandi uppeldi og umönnun barna, en þegar ég lenti ítrekað inn á umræðusíðum sem aðallega fólust í því að gera lítið úr öðrum var mér nóg boðið. Öllum er frjálst að hafa skoðanir, en ég tel svo vera að það sé vel hægt að viðhalda almennri kurteisi þegar skiptst er á skoðunum. Fólk er ekki fífl og hálfvitar fyrir það eitt að hugsa sjálfstætt.

Þetta verða lokaorðin í kvöld. Góða nótt.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Eru það forréttindi að kynnast báðum foreldrum sínum?

Þar sem ég er komin í gírinn og nenni ómögulega að fara að þrífa ákvað ég bara að halda aðeins áfram.

Á bloggsíðu vinkonu vinkonu minnar (svolítið langsótt sko...) hefur síðustu daga verið í gangi umræða um ansi viðkvæmt og brýnt málefni, umgengnisrétt foreldra við börn sín. Mér persónulega finnst það æði mikilvægt fyrir barn að fá að umgangast og kynnast báðum sínum foreldrum og fjölskyldum þeirra. Svo virðist þó sem ekki séu allir á sama máli í þessum efnum. Að sjálfsögðu finnst fólk sem ekkert hefur með umgengni við börn sín að gera, en þá erum við með dómstóla og stofnanir sem eiga að skera úr um það (með misjöfnum árangri þó, en látum það liggja milli hluta). Því finnst mér það mjög sorglegt þegar foreldrar, í flestum tilvikum mæður, taka upp á sitt einsdæmi að skera á allt samband við hitt foreldrið, sem þá í flestum tilvikum eru feður, og þeirra fjölskyldur sökum ágreinings sín á milli, þ.e.a.s. foreldranna. Þetta er í flestum tilvikum gert til að "hefna sín á" því foreldri sem enga umgengni nýtur við barnið en hefur þveröfug áhrif því það sem gerist er að barnið fer á mis við sinn rétt, þ.e.a.s. að umgangast það foreldri sem það ekki býr hjá. Ég hef aldrei verið sérstaklega hlynnt svokölluðum pabbahelgum (þá mömmuhelgum þegar það á við) á þann háttinn að ég tel þetta fyrirkomulag ekki henta öllum þeim börnum sem ekki búa hjá báðum foreldrum (sem að sjálfsögðu eru alltof mörg). Að mínu mati ætti heldur að fara eftir hentugleika hvers og eins barns í stað þess fara eftir stöðluðu formi. Þó svo að barninu henti ekki að koma og gista aðra hverja helgi er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera eitthvað með því, heill dagur eða seinnipartur ætti að duga. Svo lengi sem barnið fær að hitta báða foreldra sína.
Þó svo að það foreldri sem barnið elst upp hjá reyni að leyna barnið uppruna sínum kemst það fyrr en varir að sannleikanum. Fólk talar og við erum jú ekki nema 300.000 (þrátt fyrir að Kristján Jóhannsson hafi sagt upp ríkisborgararétti sínum ;) ) og hér er Gróa á Leiti víða og fólk spjallar saman svo sannleikurinn er sagna bestur í það minnsta í þessum málum.
Við sjáum í fréttum þegar feður flytja af landi brott með börn sín (reyndar er oft um erlenda ríkisborgara að ræða, en...) en mæður flytja líka af landi brott með börn sín og gefa feðrunum ekki tækifæri til að hafa samband á einn eða annan hátt. Ég þekki dæmi um að faðir hafi reynt að hafa uppi á símanúmeri barnsmóður sinnar á erlendri grundu, þar sem hún nú býr ásamt barni sínu, í gegnum móðurömmu barnsins. Upplýsingarnar sem hann fékk voru þær að hvorki símanúmerið né heimilisfangið væri falt, því ef hún léti þessar upplýsingar uppi ætti amman sjálf á hættu að missa allt samband við barnabarn sitt! Er þetta ekki orðið frekar gróft þegar fólk er farið að hóta hvert öðru og láta reiði sína bitna á börnunum, því sem í lífinu okkur þykir vænst um? Ég skil stundum ekki þennan blessaða heim sem ég er fædd í...
Svarið við spurningunni er að mínu mati það að það séu ekki forréttindi að kynnast báðum foreldrum sínum, heldur sjálfsögð mannréttindi.

Staying alive!

Ef svo ólíklega vill til að fólk hafi verið farið að hafa áhyggjur af mér og farið að hallast að því að ég væri liðin frekar en lífs, þá kemur smá pistill lífi mínu til sönnunnar.
Síðstu vikur eru búnar að vera ansi þétt skrifaðar, svo enginn hefur tíminn gefist til verkefna svo neðarlega á forgangslistanum eins og bloggs. Eins og þið tókuð eftir í síðasta bloggi var margt um börn hér eina helgina. Mánudeginum eftir þá helgi komu Inga Birna, Helgi Þór og Sveinn Elí til okkar og dvöldu fram á laugardag. Þriðjudaginn þar á eftir komu Katla, Haukur, Aron Örn og Árni Már í heimsókn og þau kvöddu í morgun eftir viku dvöl á Ugluhæðinni. Veðrið lék við gestina svo hægt var að gera hvað sem hugur girntist, annað en að busla í pollum. Ströndin fór ekki varhluta af dvöl gestanna, Legoland og dýragðurinn voru heimsótt, efnahagur Danmerkur réttur við og ýmislegt annað sér til gamans gert. Takk fyrir komuna elsku vinir!

Smá súkkulaðitilvitnun í tilefni dagsins:
"Venskaber lever længere, hvis de smøres regelmæssigt med chokolade."

laugardagur, júlí 08, 2006

Sex börn

Ég tek ofan fyrir tengdamóður minni, hún er sannkölluð hetja. Ég reyndi að feta í fótspor hennar á fimmtudaginn og föstudaginn þegar ég tók að mér fjögur auka börn (Helgi hjálpaði reyndar smá ;) ). Foreldrarnir voru allir í kóngsins Köben að hlusta á Robbie karlinn Williams. Yngsta barnið er eins árs síðan í janúar og það elsta sjö síðan í apríl, hin fjögur fylltu bilið. Þó ótrúlegt megi virðast tókst okkur hjónum bara ágætlega upp. Börnin komust ósködduð frá okkur, ja, allvega þau tvö sem flogin eru úr hreiðrinu okkar, hin tvö verða hér til morguns. Við vonum þó að þau verði jafn heilbrigð þegar þau kveðja og þegar þau heilsuðu. Engir meiriháttar árekstrar urðu, þó slegist væri um einn og einn bíl eða dúkku, ekkert sem ekki mátti leysa með smá spjalli. Þökk sé sól og sumri að gemlingarnir fengu að dvelja langa stund úti við. Vatni var skellt í semisundlaugina og liðið fékk að busla smá, enda annað varla hægt í þeim ólífa hita sem hefur veirð að undanförnu. Vatn og busl er það eina sem blívur, allt annað er ómanneskjulegt. Þó tekist hafi vel, verð ég að játa að vinnan var mikil. Síðasti magi varla orðinn mettur þegar garnagaulir þess næsta farnar að gaula, verið að skeina einum rassi þegar bleia þess næsta var full og þar fram eftir götum. Verkefnið var því bæði skemmtilegt og krefjandi, eins og verkefni eiga að vera. Ég verð því að viðurkenna að sex börn á sex árum, eins og var hjá henni Settu, og eitt eldra er frekar mikið og ég dáist að þeirri kjarnakonu að hafa staðið í þessu öllu saman. Hún er sannkölluð hetja.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Í sól og sumaryl...

Vá, hvað það er búið að vera gott veður hérna hjá okkur í baunalandinu! Hitinn er búinn að vera þvílíkur að maður hefst varla við úti, en maður lætur sig að sjálfsögðu hafa það að steikja sig fremur en að láta það spyrjast út að maður flýji sólina! Nei, að sjálfsögðu á maður að njóta hennar í botn. Þó svo það sé nú hægt að deila um það hvort enn sé hægt að tala um að njóta hennar þegar allir svitakirtlar líkamans hafa vart undan og maður dæsir og blæs úr nös þrátt fyrir að sitja límdur við plastRúmfatalagersstólana. En þráinn er svo gífurlegur að inn verður ei farið, nema brýna nauðsyn beri við.

Við fjölskyldan nutum góða veðursins í gær og skruppum aðeins á ströndina. Þvílíkur unaður að flatmaga á teppi í sandinum og skola af sér svitann í ylvolgum sjónum. Börnin nutu þessa líka út í ystu æsar, enda finnst nú varla stærri sandkassi en sjálf ströndin! Liðinu var svo skipað að hátta sig úti í garði þar sem húsmóðirin skrúbbaði gólf kvöldið áður og hefur það ekki í hyggja að gera það aftur í bráð! Sjáum svo til hvernig það gengur ;)

Á morgun koma svo grislingarnir frá Sønderborg og ætla að dvelja hér hjá okkur þar til á sunnudaginn. Foreldarnir ætla að fara og berja Robbie Williams augum. Þau eru meira að segja svo heppin að þau gista á sama hóteli og kauði, sem að sjálfsögðu skipti um hótel þegar hann frétti af því að þau ætluðu ekki að gista á sama hóteli og hann. Hann vildi að sjálfsögðu vera eins nálægt Íslendingum og hægt var, álsi honum enginn. Enda afburðarfólk upp til hópa og stuðboltar miklir. Spurning hvort hann verði líka í brúðkaupinu sem Guðrún og Bogga eru að fara í.

Síðasta föstudag hittumst við Logopædi-nemar og fengum okkur í gogginn og í aðra tána eða svo.

Eigið gott fótboltakvöld!


Hópurinn saman kominn, fámennt en góðmennt!