Ótrúlegt þetta með tímann. Hann flýgur frá manni, án þess að maður taki hreinlega eftir því. Ég settist aðeins við tölvuna áðan, svona rétt til að vafra um og athuga með fréttir og annað slíkt, þegar skyndilega var liðinn einn og hálfur tími og ég ekki enn byrjuð að lesa, eins og ég átti að gera! Það er líka svolítið skrýtið hvað maður þarf að vera sérstaklega stemdur til að gera suma hluti. Ég ætla mér að skrifa bréf til hans bróður míns og er búin að ætla mér það í fjórar vikur núna, en enn er ekki kominn stafur á blokkina. Ég veit nefnilega ekki hvar ég á að byrja, eða hvað ég vil nákvæmlega skrifa. Sjálfsagt væri sniðugt að setjast bara niður og láta flæða út um puttana, alveg eins og gerist núna, en það er stundum þannig að maður vill vanda til verka, segja eitthvað gáfulegt og reyna að vera uppörvandi og klókur. Hvað sem bréfið kemur til að innihalda kemst það áræðinlega til skila einhvern tímann, þ.e.a.s. ef Post Danmark hagar sér almennilega. Þeir eru svolítið duglegir að týna pósti. Sjálfsagt er einn gaurinn með litla hornskrifstofu og rænir öllum jólakortum Peters Hvidt og fjölskyldu sér til dundurs og gamans. Þessa iðju stundar gaurinn eingöngu vegna þess að hann á ekki fjölskyldu, lifir einmanalegu lífi og hefur ekkert að gera á sjálfum jólunum. Hann lætur sér ekki einu sinni detta í hug að láta gott af sér leiða á hátíðunum með hjálparstarfi. Þess í stað situr hann í fermingarskyrtunni, sem fyrir löngu er sprungin utan af honum, með klístraða fingur í dimmu skotinu að skoða jólakort Hvidt-fjölskyldunnar, sem hann öfundar óendanlega mikið. Sannleikurinn er sá að Peter þessi Hvidt, er pabbi gamalls vinar póstmannsins, vinar sem löngu er komin með konu, krakka og prófskírteini. Eitthvað sem gæinn sem les kortin hefur aldrei eignast. Hann öfundar félagann og hefnir sín á þennan hátt, með því að stela jólakortum fjölskyldu fornvinar síns. Ömurlegt. Sorglegt og ömurlegt. Hann lætur sig dreyma, dreyma um fjölskyldu og frama. Dreyma um Önnu í flokkunardeildinni. Með henni myndi hann eignast fjögur börn, aka um á sjömannabíl og panta pítsur á föstudögum og fara í sumarbústað á sumrin. Yndislegt. En þetta er bara draumur.
Jæja, þetta er fyrir löngu orðið að bulli. Vonandi fær fjölskyldan Hvidt allan sinn jólapóst í ár. En þeir sem vilja senda okkur jólapóst þurfa að vera snemma í því þetta árið, eða hreinlega senda póstinn á foreldra okkar á klakanum, því við komum til Íslands þessi jólin! Áætluð koma er 18. desember og brottför þann 1. janúar á nýju ári.
Með kveðju og góðum fyrirheitum,
Addsin paddsin.
miðvikudagur, september 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
klukk :o)
Ertu með heimilisfangið hjá Hvidt familí ! ég finn svo til með honum að ég er að hugsa um að skutlast með kort til hans ! treysti ekki póstinum eftir að hafa lesið þetta ;)
Annars þá er bara tilhlökkun í sunnudag, eigum við að slá fast á að mæting sé milli 17 og 17:30 ?
Kveðja úr Skt. Klemens
Margret og ZOO
ha ha ha!
oooooo
veit nákvæmlega hvernig þessi gaur(the postman)
lítur út eftir þessa lýsingu...:)
þú ættir að skrifa spennu-bækur sem eru svona, 'funny family story'
það gæti engum leiðst yfir því
góður adds padds...
kv. mjósan
Hellú,
flott að heyra að þið ætlið að eyða jólunum á Íslandi, það verður þá miðað við það að halda jólabrunch á tíma sem þið komist!
kveðjur,
Lísa
Skrifa ummæli