Þar sem fáir lesa, þá get ég trúlega notað þessa síðu sem einskonar dagbók, óritskoðaða með fullt af einkahúmor og skoðunum. Það er svosem ágætt, sé litið til þess að maður er oftast með tölvuna opna en á oftast í mesta basli með að finna penna sem virkar og pappír ef þess þarf. Þetta er því handhægasti miðillinn þegar upp er staðið ;)
Hér er allt í rólegheitum, EB er heima hjá okkur TM þar sem hann var hjólaður niður á leiðinni í skólann í morgun. Hann slasaðist reyndar hvergi annars staðar en í hjartanu sínu. Andamamma leyfði þó unganum að koma með heim, svo sárið myndi gróa fyrir fermingu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna margir Íslendingar noti erlenda frasa þegar þeir tjá hverjir öðrum tilfinningar sínar. "I love you" og "I miss you" eru brot af þeim frösum sem ganga manna á milli, bæði í töluðu máli og rituðu. Þetta pirrar mig svolítið. Sérstaklega þar sem mér finnst svo yfirborðskennt að nota þessa frasa, við eigum falleg íslensk orð sem segja það sama, ja, eða berja jafnvel meiri merkingu. Að mínu mati, í það minnsta. "Ég elska þig" hefur ansi sterka þýðingu og það notar maður til að segja einhverjum að maður ELSKI hann, ekki satt? "I love you" hefur hins vegar breiðari þýðingu á ensku en "ég elska þig" á íslensku og því notar fólk það óspart. Þess vegna hef ég oft velt því fyrir mér hvers vegna fólk getur ekki heldur sagt: "Mér þykir vænt um þig". Það er gott og gilt og ber ennþá meiri tilfinningalega merkingu en þetta fyrrnefnda "I love you" þegar íslendingar eiga í hlut. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt einhvern segja "mér þykir vænt um þig" í háa herrans tíð, en ég heyri oft "I love you". Karlinn og börnin tjá mér oft ást sína með orðunum "ég elska þig". Nú vona ég að ég særi engan þegar ég tala um þetta, og það veit ég vel að fólk meinar mér þykir vænt um þig þegar það notar þessa ensku frasa. Það pirrar mig bara að fólk skuli ekki nota þau fallegu orðasambönd sem finnast á íslensku, eins og þau ofannefndu.
Jæja, þá er ég búin að fá útrás fyrir daginn í dag!
Eigið góða helgi ;)
Ps. Mér þykir vænt um ykkur öll!
föstudagur, mars 06, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
I love you.
kv. Sætabrauðsdrengurinn
Jah!
mér þykkir vænt um þig Addý mín,
en sorrý var rétt í þessu að kvitta í gestabók barnanna og nota þennan frasa þar....
núna sit ég hér heima með morra:(
kv. Jósan
Mér finnst alltaf hálfskrítið þegar leikskólabörn tala um að elska brauð, grjónagraut og púsl. Það finnst mér vera dálítil heimfæring á I love yfir á íslenskuna og ofnotkun á orðinu "elska". það er nóg að segja að manni finnist brauð gott, eða alveg rosalega gott en maður er kannski ekki ástfanginn af brauði hehe.
En alveg sammála þér Addý, við eigum þessi fínu íslensku orð sem segja ennþá nákvæmar hvað við erum að hugsa en þetta endalausa I love þetta og hitt. Notum þau, það er ekkert hallærislegt!
Kveðjur,
Lísa
Skrifa ummæli