Helgin var góð. Hún hófst með þessari líka fínu pítsuveislu hjá Heiðu á föstudaginn þar sem engin var pítsan, heldur sniglar í hvítlaukssmjöri og sveppum og nautakjöti með tilheyrandi. Í góðu yfirlæti snæddum við og horfðum svo á sjónvarpið á meðan krakkarnir nýttu tímann til leikja. Sökum veikinda í Esbjerg mætti frúin þar ein síns liðs með afkvæmin tvö, þau Sesselju og Eyþór Gísla, í "jólaheimsókn" á laugardaginn. Haldið var í miðbæinn að skoða jól í anda HC Andersen og samlifenda, auk þess sem fest voru kaup á hinu ylmandi karamelluenglatei. Ummm... svo gott, svo gott. Át mikið hófst svo fljótlega eftir heimkomu, þrátt fyrir að nýbökuðum dönskum og norskum kleinum hafi verið gerð góð skil á bæjarröltinu. Gemlingar fengu að vaka lengur í tilefni heimsóknarinnar og foreldrarnir höfðu varla eirð í sér að koma þeim í ból sökum mikillar seddu. Sunnudagurinn fór svo í piparkökubakstur þar sem ungarnir fengu notið sín, bæði stórir og smáir, við útskurð á jólasveinum, -skóm, -stjörnum og fleiru spennó. Dagsverkinu var lokið með heimsókn til fólksins í langtíburtiztan, Bæba og Salvarar. Þar hámuðum við að sjálfsögðu í okkur nýbakaðar smákökur, kaffi og brauð. Ummm... nammi, namm!
Svo spennandi var helgin okkar.
En að öðru. Honum Vífli Atlasyni hefur tekist ætlunarverk sitt! Í dag er hann bæði á forsíðu Nyhedsavisen og á síðu 2, sem að mig minnir séu nú merkilegustu síður blaðanna, auk baksíðu. Saga símaatsins er rakin og hann er sagður hafa farið illa með bæði forsetakrifstofuna í Hvíta húsinu sem og íslenska fjölmiðla. Ég get nú ekki að því gert að brosa svolítið innan í mér af þessu athæfi hans. Eitt er að hann hafi fengið símanúmerið einhvers staðar og svo þorað að láta til leiðast og hringja í símanúmerið, en hitt að hann hafi einungis þurft að svara spurningum um forseta voran sem flestir Íslendingar, sem og aðrir, geta leitað svara við á einfaldan og fljótlegan hátt ef þeir á annað borð ekki vita svörin nú þegar, eins og kom í ljós hjá Vífli, finnst mér hreinasta vitleysa. Hvers vegna er ekki öllum toppum landa sem í sambandi eiga við forseta BNA útdeildur kóði sem þarf að lesa upp fyrir ritara forsetans? Mér er spurn! Vita þeir þarna fyrir vestan ekki að internetið er stórum hluta vestrænnar menningar aðgengilegt? Vonandi taka þeir þó ekki upp á því að loka fyrir internet aðgang annarra en Bandaríkjamanna sökum þessa ;)
mánudagur, desember 10, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli