sunnudagur, júlí 06, 2008

Síðbúnar afmæliskveðjur

Haldið að sé nú?! Ég steingleymdi að óska honum Helga mínum til hamingju með brúðkaupsafmælið fyrir viku síðan! Reyndar smellti ég nú einum á hann í tilefni dagsins þá, en opinberlega hefur hann ekki fengið neinar hamingjuóskir (ekki svo að vænta að ég fái neinar, uhumm...). Málinu er hér með reddað: Til lukku elsku karlinn með mig! Lítið var þó um hátíðarhöld í tilefni dagsins, enda enn lifað á hátíðarhöldum síðasta árs, þá urðu árin fimm og því tilefni til aðgerða. Í ár telja árin hins vegar sex, eins og glöggir lesendur eru nú þegar búnir að reikna út, og því minna gert úr málinu. Þó var eldaður skítsæmilegur matur að gefnu tilefni.

Að öllu alvarlegri málum. Nú styttist í að ég þurfi að gera upp hug minn hvað BA-ritgerðarskrif varðar og ég er að komast á snoðir um efnistök ritgerðarinnar. Trúlega verður alexia og agraphia fyrir valinu, þ.e.a.s. erfiðleikar með skrift og lestur (einskonar les- og skrifblinda) eftir heilaskaða. Obboð spennó að sjálfsögðu. Lét verða að því áðan að senda leiðbeinandanum tölvupóst og vonast eftir svari fljótlega, þó trúlegt verði að það láti á sér standa þar sem nú fer í hönd þriggja vikna industriferie hér í DK, þar sem flest öll opinber starfssemi er í lágmarki. Reyndar teygir þetta frí angana sína öllu lengra og maður sér eitt og eitt bakarí lokað vegna frísins sem og blómabúðir. Vonandi verð ég þó búin að landa praktíkurplássi áður en langt um líður.

Ég vil ljúka færslunni á hamingjuóskum til Guðnýjar Margrétar: Til hamingju með sjöunda sætið í barnaflokknum á landsmóti hestamanna! Að sjálfsögðu eru líka góðar kveðjur til Axels Arnar, sem stóð sig líka með prýði! Efnilegir knapar þarna á ferð.

Best að sofna á meðan hinir sofa. Buenos noches mi amigos!

Engin ummæli: