sunnudagur, ágúst 03, 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Þá er enn ein verslunarmannahelgin við það að verða hálfnuð.
Það eru átta ár síðan ég fór síðast á þjóðhátíð og það er ekki laust við að það læðist að mér lítill þjóðhátíðarpúki. Það er ekki hægt að segja annað en að þjóðhátíð Vestmannaeyja skjóti mörgum öðrum skemmtunum ref fyrir rass. Notalegheitin í brekkunni á kvöldvökunum og í brekkusöngnum, ylurinn frá brennunni á Fjósakletti, blysin sem tákna fjölda þjóðhátíðanna sem haldnar hafa verið, flugeldasýningin, gítarspil og söngur í hvítu tjöldunum, spjall við kunningja og ættingja sem maður hittir örsjaldan, lundaát, kjötsúpuát, pissusteinninn minn, bekkjarbílar, þjóðhátíðarlög, dans á stóra pallinum eða litla pallinum, stemningin er ólýsanleg. Minningarnar um þjóðhátíðina ylja mér um hjartarætur. Þjóðhátíðin var svo fastur liður í uppeldinu mínu að ég kynntist ekki orðinu verslunarmannahelgi fyrr en ég var komin langt að táningsaldri. Ég fékk líka bara tvenn spariföt á ári; jólaföt og þjóðhátíðarföt. Þjóðhátíðarfötin voru vanalega heimagerð, enda mamma iðin við að prjóna á okkur peysur sem skarta mátti á stærstu hátíð ársins, að undanskildum jólum. Hún tók sig kannski til, kerlingin, tveimur vikum fyrir þjóðhátíð og var búin að fata alla fjölskylduna upp klukkan kortér í setningu. Mikið væri gaman að fá að upplifa þessa æðislegu stemningu aftur.
Eigið góða helgi.

5 ummæli:

Arnar Thor sagði...

Ég fór í fyrsta og eina skiptið á þjóðhátíð árið 1989 og fór svo í 3 vikur á Ibiza fljótlega á eftir. Sjaldan hefur lifrin þurft að hafa fyrir tilverurétti sínum eins og þá.

Gleðilega hátíð og tja ekki laust við að manni langi í grillaðan lunda með rifs og blámyglusósu.

kv.
Arnar Thor

Heiðagella sagði...

Já hvernig var þetta með þessa lundaveislu heima hjá Hr og frú Bláber, sem BY THE WAY, mér var EKKI boðið í... hmm maður fer að spyrja sig hver er nr 1. og hver ekki, ha... ha.... ha.....

Njótið heimsóknanna vel venner, og ég hugsa að ég komi á morgun að tjekka á matseðlinum ;o)
knuz Heiðagella

Nafnlaus sagði...

Ooooh...lundi...nammi namm..
ekki laust við að mann langi á þjóðara ;) en við tókum hátíðina í fyrra með trompi...lifum á því í nokkur ár! hehehe
Kveðja að norðan
Tinnsla

Nafnlaus sagði...

Það var sko gott að fá Lunda nammi namm ..... Borðuðum sko mikið vel af honum hehehehe....

Við hlustuðum á brekkusönginn í beinni hérna með Iris coffe og svona í hönd, svakafjör ;)

Kveðja frá Seden Syd

Nafnlaus sagði...

Hef aldrei farið á þjóhátíð - bara einu sinni farið til eyja og borða Lundann alltaf úrbeinaðan, grillaðan með brjáluðu salati og rauðvíni.
-Milla