þriðjudagur, október 07, 2008

Enn af kreppustandi

Þessar ljóðlínur fékk ég sendar í tölvupósti frá frænku minni. Sökum "ástandsins" finnst mér það við hæfi að birta þær hér, enda varla um annað hugsað þessa dagana en slæmt gengi krónunnar og yfirvofandi kreppu á Íslandinu góða. Ef sá sem línurnar orti rekur inn nefið á síðunni minni og er óhress með birtingu þessa annars ágæta kveðskapar, má hann láta mig vita hið snarasta svo ég geti fjarlægt ljóðið.

Þjóðnýting

Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.

Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.

En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.


Með kveðju,
Addý.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nýr texti við lagið söknuð með Villa Vill


Mér finnst ég varla heill né hálfur maður
Og heldur blankur, því er verr
Ef væri aur hjá mér, væri ég glaður
Betur settur en ég er

Eitt sinn verða allir menn að borga
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt verð ég að segja,
að lánið fellur allt of fljótt.

Við gátum spreðað, gengið um,
gleymt okkur í búðunum.
Engin svör eru við stjórnarráð
Gengið saman hönd í hönd,
Saman flogið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja lán.

Horfið er nú hlutabréf og lánsfé
Í veski mínu hefur eymdin völd
Í dag ræður bara sultarólin
Nú einn ég sit um skuldavönd

Eitt sinn verða allir menn að borga
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt verð ég að segja,
að lánið fellur allt of fljótt.

Ég horfi yfir bankann minn
Hugsi hvort hann hleypi mér inn
Ég alltaf gat treyst á þig
Í að fjármagna mig
Ég reyndar skulda allstaðar
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.

Nýji texti við ísland er land þítt

Ísland var land mitt, ég aldrei því gleymi,
Ísland í gjaldþroti sekkur í sæ,
íslensku krónun´í banka ei geymi
við íslenska hagkerfið segi ég bæ,
Ísland í erfiðum tímum nú stendur
Íslenska stjórnin hún failar margfallt
Íslenski seðillinn er löngu brenndur
Ísland er landið sem tók af mér allt

Þetta fékk ég sent í E-maili....
Langaði að deila þessu með þér fyrst þú ert á þessum nótunum!!! ;)

Addý Guðjóns sagði...

Hehe... já ég fékk þessar línur líka sendar í pósti í dag. Þær passa vel við tíðarandann.
Vonandi fara ráðamenn að skeina sér svo þjóðin geti haldið áfram lifað á peningum í tölvutæku formi.
Að öllu gríni slepptu þá vona ég að allt fari á hinn besta veg.
Kveðjur,
ritstjóri.