laugardagur, febrúar 14, 2009

Þar kom að því!

Jahá... það er orðið ansi langt síðan síðast. Enda þurfti að ryksuga í kollinum til að finna lykilorðið að síðunni. Ekki öðru við að búast þar sem óreiðan í hausnum mínum er ein sú mesta sem sögur fara af. Það fer þó vonandi batnandi þegar yngsta drengnum hugnast að sofa á næturnar. Þó er það að einhverju leyti undir foreldrunum komið, þar sem venja þarf kauða af næturdrykkju. Það er bara svona afskaplega mikið Eyjablóð í peyjanum, hann vill alltaf vera að! Gæti mögulega verið að missa af einhverju! Og hvað er partý án aðal partýljónsins? Þó það fari nú lítið fyrir partýhugleiðingum hjá múttunni er hún vaknar með stírur í augum, ja eða hreinlega bara lokuð augun, til að stinga spenanum upp í drenginn.

Jæja. Það var nú trúlega ekki þetta sem bloggáskorendur vildu lesa. Það er líklegra að þeir vildu fá að vita hvernig mér líst á nýju stjórnina. Svarið er VEL! Asskoti vel, meira að segja. Loksins eru merki um einhverjar aðgerðir til að bæta ástand landans að verða sýnileg. Stjórn LÍN rokin, þökk sé menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Þetta bætir vonandi stöðu mína sem námsmaður í útlandinu á fáránlegu gengi. Það að Ögmundur Jónasson skyldi fella niður komugjöld á spítalana er líka frábært, enda hefur fársjúkt fólk um margt annað en seðlaveskið að hugsa þegar það leggst inn á spítala. Einnig líst mér vel á það að stjórnin skyldi ákveða að setja tvo ráðherra sem eru sérfræðingar innan þeirra greina sem þeir eiga að stjórna ráðuneyti fyrir. Það er ekki alveg sama einkahyggjuframapotsgleðin hjá þessari stjórn og var hjá þeim fyrri. Áherslan er á það að koma fyrir algert strand þjóðarskútunnar og koma henni á réttan kjöl. Sem vonandi tekst innan ekki alltof langs tíma.

Annað hitamál er þrásetja eins ákveðins Seðlabankastjóra. Sá ætti nú að hlusta á raddir fólksins og setjast í helgan stein. Honum tekst víst ágætlega upp við skriftir, svo hann ætti kannski heldur að einbeita sér að slíkum starfa, jafnvel í ró og næði í útlandinu, þar sem hann truflar ekki þjóðina og þjóðin ekki hann. Ótrúlegt að fólk skuli geta setið sem fastast í sinni vinnu þó svo að yfirmennirnir vilji það burt. Þetta líkist kannski einna helst æviráðningu kennara hérna í den þegar þeir kennarar sem voru orðnir heldur þreyttir í starfi voru sendir í frí eitt og eitt skólaár, en stjórnin mátti ekki reka þá. Að mínu mati á enginn að vera svo öruggur með starf sitt að hann geti setið í því ef hann stendur sig ekki. Það á að vera hægt að víkja öllum frá starfi, ef fólk stendur sig ekki. Ágreningur milli yfirmanna og undirmanna hefur oft orðið til þess að fólki sé vikið frá, það á líka við í tilfelli Seðlabankastjóra. Sú óvirðing sem Seðlabankastjóri sýnir forsætisráðherra með hegðun sinni er eitthvað sem hann hefði aldrei liðið í sinni ráðherratíð. Því ætti hann að sjá sóma sinn í því að draga sig til hlés á meðan hann hefur traust einhverra örfárra aðilja, því það er nokkuð víst að traustið til hans og virðing hefur minnkað gífurlega. Ja, allavega meðal þeirra sem ég þekki. Þetta líkist einna helst krakka sem harðneitar að fara úr rólunni þegar leikskólakennarinn kallar á krakkana inn í mat. Nema það að á endanum hlýðir krakkinn og kemur inn.

Í þessari færslu verð ég líka að koma fram dálæti mínu á frú menntamálaráðherra. Ég þekki hana reyndar ekkert persónulega, en hún hefur oft verið svona að dandalast í kringum mig, ja, eða ég í kringum hana. Ég man fyrst eftir henni á þessu eina ári sem ég var í MS, þar sem hún bauð sig fram til formanns nemendaráðs. Í íslenksunni í HÍ var hún einnig áberandi. Það sem einkennir hana er mikill drífandaháttur og atorkusemi, sem er nauðsynlegt að fylgi ráðherrum. Það sem mér finnst einnig stór og mikill kostur við hana er að hún er menntuð í húmanísku fagi, sem kannski gerir það að verkum að áherslan á slík fög aukist, þó svo að ekki eigi að draga eitt fag fram fyrir annað. En það er t.a.m. fyrir löngu orðið nauðsynlegt að koma af stað námi í mínu fagi við Háskóla Íslands, þar sem þörf á talmeinafræðingum er mikil í þjóðfélaginu. Ég veit fyrir víst að það er gott fólk sem hefur í gegnum tíðina unnið að því að koma slíku námi á við háskólann, hitt er annað að það hefur tekið óratíma að fá öll þau ráð og þær nefndir sem þurfa að samþykkja slíkt nám til að samþykkja það. Fjármagn virðist nefnilega alltaf skorta þegar kemur að húmanísku námi. Vonandi batnar þetta með nýrri ríkisstjórn og áherslan verði fyrst og fremst lögð á hið mannlega, börnin okkar og eldri borgarana, þá sjúku og þá sem minna mega sín.

Eigið góða helgi öll sömul.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr Addy!

Radhúsagranninn,
Harpa

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með endurfengna blogggetu, þrátt fyrir rykfallið grautartoppstykki sökum spenatotts :o)

og gleðilegan Valentínusardag... vona að sameiginlegi eiginmaðurinn hafi gefið þér vænan vönd úr garðinum :o)
knuz frá Himinhæðum :o)

Nafnlaus sagði...

heyr heyr....gott að sjá að þú ert að koma aftur til í bloggheiminum!!
knuzzer fra O.N.
Tinnzla

Nafnlaus sagði...

Vó, vissi ekki að Helgi væri sameign ... Himnahæðir verða nú að útskýra þetta eitthvað nánar?

Hins vegar, til hamingju með bloggið. Þetta var erfið fæðing og ég er búin að bíða og bíða. En ég hafði samt bara athyggli á meðan brjóstagjafar umræðan fór fram, sorry - veit að þú varst að reyna að brjótast út úr mjólkurþokunni...

-Milla :)

Nafnlaus sagði...

sko hann er sameign að því leiti, Addý fóðrar hann og gerir alla þessa praktísku hluti með honum.. og ég lána hann til að laga fyrir mig og dytta að smáhlutum :o)svínvirkar svona sameign.....

En hva.. fer ekki að koma ný þruma.....
Kv. Himinhæðir