mánudagur, desember 28, 2009

Jólin, jólin alls staðar!

Sælt veri fólkið!

Það kom að því að hér yrði eitthvað ritað. Hve innihaldsríkt það er má svo liggja milli hluta. Reyndar fær fólk þær fréttir af manni sem það fær á fésinu, en það er kannski allt í lagi að smella inn svona eins og einni og einni færslu á bloggið. Enda er það nú kannski öllu persónulegra en blessað fésið, sem þó stendur fyrir sínu sem upplýsingagátt fyrir okkur sem búum í útlöndunum.

Jólin gengu í garð með tilheyrandi gleði og fögnuði hjá öllu heimilisfólkinu. Það varð þó skammvinn sæla sem smjó um húsið klukkan 18 á aðfangadag þar sem allir, að undanskildum Elí Bergi og kettinum, byrjuðu að kasta upp og skila óþarflega þunnu út í gegnum óæðri endann er leið á kvöldið og nóttina. Heilsan fór fyrst batnandi er langt var liðið á jóladagskvöld. Því var lítið úr hangiketsáti þann dýrðardaginn. En þrjóska húsmóðurinnar braust fram kartöflusuðu og uppstúfsgerð (eða jafningsgerð), kerlan þrusaði svo hangiketinu, sparistellinu, rauðkálinu og uppstúfnum á borðið og skipaði heimilisfólki að setjast að snæðingi. Það leið ekki á löngu þar til börn og fullorðnir voru farnir að skipta litum í andlitum og frúin gerði sér grein fyrir því að jóladagsmaturinn myndi samanstanda af þurru Cheeriosi og ristuðu brauði. Þannig fór um sjóferð þá.

Annar dagur jóla var þó öllu skárri. Heilsan var farin að gera vart við sig og börnin fóru út að leika ásamt foreldrum sem þurftu virkilega á fersku lofti að halda. Að lokinni brunferð, var haldið á jólaball Íslendingafélgasins hér í bæ, dansað í kringum jólatréð, borðaðar gómsætar kökur og spjallað við góða vini. Gleðinni lauk þó ekki þar því kjarnafjölskyldan hélt svo áleiðis á Faaborgvej, þar sem blásið var til dýrindis kvöldverðarveislu hjá eðaltilvonandihjónunum Michael og Hanne og þeirra skvísum. Eftir 165. geispa húsbandsins var ákveðið að halda heim á leið. Þegar heim var komið tók sá yngsti upp á því að kasta upp enn og aftur. Því ákvað móðirin að hafa samband við barnaspítalann þar sem drengurinn hefur opna innlögn sökum rannsókna sem á honum eru gerðar nú um mundir, ekki vildi læknirinn meina annað en að snáðinn væri enn að jafna sig á veikindum jólanna, svo ekkert var í málum gert. Enda hefur kauði enn ekki kastað upp aftur. Við vonum svo að það verði ekki í bráð.

Gærdagurinn fór svo í "huggu" með Tinnu í skólanum þar sem farið var í gegnum gerð research proposal. Að því loknu, örfáum konfektmolum, mandarínum og kaffibollum síðar, hélt stórfjölskyldan í rauða hornhúsið (ótrúlegt hvað hún Heiða þarf alltaf að vera bendluð við slík hús!). Þar dúndruðum við í okkur þessari dýrindis stríðsköku, með fullt af rjóma og ávöxtum. Dýrðinni var skolað niður með góðu kaffi að gestgjafanna sið.

Nú er eiginmaðurinn hins vegar í vinnu, krakkarnir annað hvort sofandi eða glápandi. Ég á að vera skrifandi og er það svosem, þó kannski ekki rétta textann, en... Þetta er ágætis upphitun ;)
Það verður svo gaman að sjá hvort einhver kvitti fyrir innlitið, bara til að gera mig glaða. Því ég geri ekki ráð fyrir því að nokkur villist hér inn lengur.

Með jólakveðju,
Addý.

6 ummæli:

Arnar Thor sagði...

Takk fyrir innlit í gær. Þið skilduð eftir helst til of mikið af kræsingunum. Vænti þess að þið standið ykkur betur næst :)

Nafnlaus sagði...

Sælar frænka mín,

Gaman að lesa bloggið þitt.
Nauðsynlegt að kvitta svo þú haldir áfram! Við erum líka heima mæðgurnar meðan karlinn púlar !!
Knús í kotið þitt..
KV
Solla

Nafnlaus sagði...

takk fyrir ritið. Vonandi eru allir að verða hressari og þið takið áramótin bara út með trompi ;)

Knús á ykkur

Inga Birna

Nafnlaus sagði...

Sæl Addý mín og takk fyrir bloggið. Alltaf gaman að lesa blogg svona inn á milli Fésbókarfærslna. Vonandi eruð þið öll búin að jafna ykkur á pestinni og takið njótið þess að halda gleðileg áramót
kv. Ragna

Nafnlaus sagði...

Sæl Addý mín.Gott að sjá að það eru allir að hressast,nemakanski sæa stutti en við vonum að það fari að koma skíring á því.Var sjálf vöknuð 4.30 eitthvað ómátt í maganum....En mikið var gaman að lesa bloggið þitt kv mamma.Milljón kossa á ykkur.

Nafnlaus sagði...

Skil hér eftir mig smá jóla- og nýárskveðju. Kíki annað slagið á fréttir af ykkur hér (er ekki á fésinu!). Gaman að heyra af ykkur, gangi ykkur allt í haginn á nýju ári.
Kveðja,
Þorgerður Elín og Sævar
(vorum á Stationsvej:))