Þá er 29. afmælisdagurinn liðinn og mér líður bara nokkuð vel, enda enn á þrítugsaldri! Hehehe... Dagurinn í gær var mjög góður, við brunuðum til höfuðstaðarins til að sækja hana Andreu litlu systur (sem reyndar er ekkert svo lítil lengur, þó hún sé enn minni en ég! nananananana!), við tókum ferðina reyndar með trukki og byrjuðum í IKEA, áður en systirin lenti. Þar hömstruðum við sitt lítið af hverju, þá aðallega römmum, svona til að setja kindurnar barnanna upp á vegg og gera eldhúsið og svefnherbergið svolítið hlýlegra. Þegar Andrea hafði bæst í hópinn skelltum við okkur í dulargervi túrista og kíktum á litlu hafmeyjuna, sem olli verulegum vonbrigðum hjá prinsessunni á bænum (þeirri yngri þ.e.a.s., þær eru jú tvær núna ;) ), þetta var stytta! Skvísan átti jú von á því að þarna svamlaði rauðhærð snót í grænum fötum og með flottan sporð! Faðirinn útskýrði fyrir henni að ef Ariel (sem er Disneyfígúran fyrir litlu hafmeyjuna, fyrir þá sem ekki vita) færi upp úr sjónum yrði hún að styttu. Styttan var þess vegna einu sinni lifandi lítil hafmeyja og deginum var bjargað hjá ungu dömunni. Eftir sjokkið hjá hafmeyjunni, smá twixát og hlaup um græna bala, ansi litla reyndar, héldum við í Kristjaníu. Þar var heldur betur áhugavert um að litast og við virtumst skerast úr, við sem vanalega teljum okkur obboð venjuleg, erum það greinilega ekki á Kristjanískan mælikvarða. Ég verð að viðurkenna að mér þótti staðurinn heldur subbulegur og leið ekkert alltof vel með gemlingana mína þarna. En áhugavert var þetta og hrein skylda að kíkja þangað ef maður á leið um Kaupmannahöfn. Frá fríríkinu lá leiðin í Slot Christiansborg, sem er ansi flott. Við kíktum á safn sem er þar í kjallaranum. Þar er hægt að skoða rústir gamalla borga sem áður hafa staðið á sama stað, allt frá tímum Absolons borgar, sem reist var þarna á 12. öld. Þetta var mjög skemmtilegt að skoða. Bríeti Huld þótti þetta líka mjög spennandi, móðurinni til mikillar gleði.
Þar sem við vorum stödd í Kaupmannahöfn ákváðum við að kíkja á Jagtvej 69 þar sem Ungdomshuset stóð þar til fyrir stuttu. Eftir ökutúrinn héldum við á Strikið í spátsitúr og lukum ferðinni á því að fá okkur þessar dýrindis pítsur á veitingastaðnum Mama Rosa. Ummm... svo bauð Andrea upp á ís á eftir. Það var því glöð og kát fjölskylda sem ók heim á leið eftir góðan dag í gamla höfuðstað Frónsins.
Þegar heim var komið reif Andrea upp úr töskunni sinni með góðri hjálp litlu systkinanna á Bláberjavegi! Það var ýmislegt forvitnilegt sem gægðist upp úr töskunni! Við þökkum öll fyrir allar gjafirnar! Takk fyrir okkur.
Ég þakka líka sjálf fyrir allar fallegu gjafirnar og hamingjuóskirnar sem ég fékk í tilefni gærdagsins! Það er eiginlega ótrúlegt að ég skuli enn vera að fá svona margar gjafir! Takk fyrir mig!
Eigið góða dymbilviku!
mánudagur, apríl 02, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Vá hvað þið hafið náð að gera mikið á einum degi í KÖben!
Hafið það gott um páskana og góða ferð og góða skemmtun í Berlín....
Vi ses
knus Tinna
Til hamingju með afmælið, greinilega við hvern maður hefur samband við ef maður skyldi nú einhvern tímann skella sér til Köben!! brjálað stuð bara
kv. Lilja
Til lykke með afmælið :) Þú ferð bara alveg að ná mér múhahaha (ég nefninlega hætti að telja eftir að talan 30 mætti ;)
Bestu kveðjur til ykkar allra
Ágústa og seniorarnir
Til hamingju með afmælið Addý mín, sé að þú hefur fengið góðan afmælisdag, alveg eins og það á að vera.
Skrifa ummæli