Ohhh... hvað það er gott að vera komin heim! Við skutumst til Svíþjóðar á fimmtudaginn í síðustu viku og komum heim seint á mánudagskvöldið. Notaleg ferð þar sem gist var í tjaldi. Við keyrðum frá Óðinsvéum í gegnum Kaupmannahöfn og stöldruðum aðeins við í Malmö til að skoða fornan heimabæ húsbóndans. Þaðan héldum við áleiðis að Kalmar þar sem átti að tjalda en stoppuðum á tjaldsvæði sem kallast Skippevik rétt fyrir utan Kalmar þar sem myrkrið var óðum að skella á. Skippevik er fallegur staður en því miður með þeim ólesti að þar eru ansi mörg mugg! Að sjálfsögðu komumst við ekki hjá því að fá eins og hundrað stykki inn í tjaldið til okkar, enda voru kvikindin í þúsundatali þarna í kringum okkur á meðan við tjölduðum. Þetta varð til þess að við vorum öll sundurbitin fjölskyldan, Elí Berg varð minnst fyrir barðinu á flugunum. Bríet Huld varð hins vegar illa útleikin eftir meðferð flugnanna á andlitinu á henni og fór svo illa að annað augað lokaðist alveg og hitt að hálfu. Hún fékk því að kíkja til læknis á næsta áfangastað okkar í Vimmerby, heimabæ Astridar Lindgren, þar fékk hún ofnæmislyf og stórlagaðist eftir fyrsta skammt og er aftur orðin eins og hún á að vera. Í Vimmerby tjölduðum við við vatn sem heitir Nossenbaden, þar var kósý og notó, eiginlega engin fluga og allir kátir og glaðir. Við kíktum í veröld Astridar Lindgren, fórum í útsýnisrúnt í traktorslest og röltum svo um miðbæinn. Á leiðinni til Jönköping komum við við í Kattholti þar sem blætt var í trébyssur með áletruðu nafni handa börnunum og bærinn skoðaður ásamt smíðaksemmunni frægu. Kaffibolli var tekinn í Jönköping og brunað af stað aftur. Í Gautaborg höfðum við ætlað okkur að gista, en sökum veðurs ákváðum við að athuga heldur með ferjuna yfir og fengum far yfir næstum með það sama. Við skelltum okkur svo á íþróttagistingu í Jerup, rétt fyrir utan Frederikshavn til að komast hjá því að tjalda í myrkri, enda lentum við í Danmörku kl. 22. Mánudagurinn var þrusugóður veðurfarslega séð og við brunuðum á Skagen til að skoða. Kíktum aðeins í bæinn þar og út á Grenen sem er yrsti oddi Danmerkur. Þar dóluðum við okkur á ströndinni og börnin urðu holdvot og foreldrarnir líka. Hvílík dásemd. Það er hreint ótrúlegt hve það er flott að sjá hvernig öldugangurinn er þar sem Kattegat og Skagerrak mætast og að finna fyrir straumnum þegar maður nálgast mótin. Eftir góðan túr á Skagen stöldruðum við aðeins við í Álaborg og gripum einn kaffi og gáfum gemlingunum ís. Á göngugötunni í Álaborg hittum við, þó ótrúlegt megi virðast, frænku hans Helga, hana Þórdísi Ómarsdóttur Lóusonar ásamt fjölskyldu. Þau eru á ferðalagi um Danmörku og voru fyrir tilviljun þarna í borginni. Það voru fagnaðarfundir! Eftir hittinginn, kaffið og smá pisserí var förinni heitið til Silkeborgar þar sem áætlað var matarstopp. Eftir að hafa troðið í sig skutumst við á Himmelbjerget og kíktum á útsýnið þar, sem var ansi fallegt þrátt fyrir að það væri farið að dimma. Það var svo ansi þreytt og lúin fjölskylda sem mætti á Bláberjaveginn rúmlega ellefu á mánudag.
Næst á dagskrá: Ísland!
Þar til næst...
Ps. sökum áskoranna skelli ég hér með inn mynd af skónum hans Helga ;)
Fleiri myndir er svo hægt að skoða á síðunni hjá gemlingunum mínum, sjá link til hliðar.
miðvikudagur, ágúst 01, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
The most kúlest skór sem ég hef séð. Á leið til Íslands..umh...ætlar þú þá að halda saumaklúbb? Kannski sniðugra að hafa hann í Danmörku..
Jiminn eini, ég fékk vægt sjokk þegar ég sá hana elsku Bríet Huld, jiminn, greyjið krúttan.
Það hefur greinilega verið alveg svakalega gaman hjá ykkur í þessari ferð, hefði verið gaman að fara með ;)
Hehehehehe..... Þegar ég sá myndina af skónum, sko áður enn ég las við hlið myndarinnar, þá hélt ég að þetta væri hann Elí Berg ;)
Enn skórnir eru hvort sem er ÆÐI ;) sama hver á þá.
Hlakka alveg ofboðslega mikið til að hitta ykkur og knúsa ykkur
KV. Halla Rós
Góða ferð til Íslands esskurnar mínar, ég á eftir að sakna ykkar hérna í sólinni og blíðunni, aldrei að vita að ég stelist á pallinn ykkar í sólbað, múhahahahaha
Kys og knús.
heiðagella
Skrifa ummæli