laugardagur, desember 30, 2006

Gleðilegt nýtt ár!

Nú fer árinu 2006 senn að ljúka. Þetta er búið að vera ansi viðburðarríkt og skemmtilegt ár, alveg eins og þau 27 sem á undan þessu liðu. Börnin og eiginmaðurinn standa sig í stykkinu sem góðir lífsförunautar og gott betur en það. Við höfum haft það alveg þrælgott hérna í Danaveldinu, skemmt okkur saman, fengið góða gesti, skoðað okkur um og keypt okkur nýjan bíl og sætt raðhús. Síðustu mánuðir hafa farið í dútl í húsinu, skúrgerð og baðherbergisuppbyggingu auk smá lesturs.
Þó við höfum það gott hérna úti er ekki þar með sagt að við söknum ykkar sem heima eruð ekki neitt. Við hugsum til ykkar á hverjum degi og það kemur fyrir að vildum glöð getað brölt okkur upp í bílinn og skotist í heimsókn, hvort sem er til ættingja eða vina. Okkur þykir óendanlega vænt um ykkur öll, þó svo við séum ekkert sérlega dugleg við að tjá ykkur það.
Það er títt að um áramót líti maður yfir farinn veg og geri árið sem kveður á vissan hátt upp með sjálfum sér. Fólk lofar oft betrun og bót á nýju ári, oft í formi líkamsræktarátaka, reykingarbindinda eða edrúmennsku. Að þessu sinni vil ég stinga upp á því að við snúum okkur heldur að öðrum merkari hlutum, þó svo að líkamleg heilsa sé svo sannarlega mikilvæg er ekki minna nauðsynlegt að hafa sálina í lagi. Ég sting því upp á að við verðum öll betri hvort við annað, lítum í eigin barm og reynum að kynnast sjálfum okkur og horfast í augu við galla okkar og kosti. Það er engin skömm að því að vita hvað maður gerir vel og hvað það er sem betur mætti fara. Ég veit til að mynda að ég get á stundum verið alger hvirvilbylur og oft segi ég hluti áður en ég hugsa, það boðar aldrei gott.
Næsta ár ætla ég að nota til að verða betri manneskja en ég hef hingað til verið. Ég tileinka mér því Gullnu regluna: "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Þetta þarf ekki að vera flóknara!
Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið áramótanna, kæru vinir og ættingjar, nær og fjær!
Gleðilegt nýtt ár!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Addý mín og Co.
Tek undir þessi orð þín, eins og talað út úr mínu hjarta, maður er allt of óduglegur við að tjá sig um hvað maður elskar fólkið sitt mikið, en ég keypti mér nú reyndar kort í ræktina í gær, nú á að fara að taka á því ;-)
Óska ykkur gleðilegs árs, vona að nýja árið verði ykkur ánægjulegt.
Elska ykkur öll, STÓÓÓRRRT KNÚS Sigfríð frænkubeib

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Addý og ég hef lengi haft augastað á þessu boðorði sem mikilvægu atriði til betri heims. Kannski væri ráð að skrifa það á blað og hengja það upp á áberandi stað heima hjá sér til að minna mann á hvað það gæti í raun verið einfalt að bæta sjálfan sig í mannlegum samskiptum. Elska ykkur líka, gleðilegt nýtt ár og hafið það gott um áramótin. Takk fyrir ákaflega skemmtileg bloggskrif á mjög svo góðri íslensku.

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár elsku Addý mín, Helgi, Bríet Huld og Elí Berg!

Fínn áramótapistill og einmitt rétti andinn. Er hjartanlega sammála þessu og ætla að fara að þínu fordæmi og reyna að hafa þetta í huga. Nammibindindið kemur hvort sem er nærri sjálfkrafa eftir allt ofátið um jólin! Innri heilsa skiptir miklu máli, ef hún er í lagi þá verður hitt í lagi líka.

Bestu kveðjur frá fróni, söknum ykkar helling!

Lísa og co.